Leita í fréttum mbl.is

Þetta sagði Samfylkingin 2007

Til að halda til haga hvað minnihlutinn á Alþingi sagði vorið 2007, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ætlaði að knýja fram stjórnarskrárbreytingu án samvinnu við minnihlutann á þingi, þá er rétt að birta einnig það sem formaður Samfylkingarinnar sagði um vinnubrögðin. Í öðru bloggi hef ég birt það sem þingmenn VG sögðu um þessi makalausu vinnubrögð.

 

Fv. formaður Samfylkingarinnar sagði m.a. (Ræða hennar í heild er hér).

... Í öðru lagi hljótum við að gagnrýna mjög harkalega hér í umræðum í dag hvernig þessi tillaga formanna stjórnarflokkanna er fram komin, hvernig hana bar að, þ.e. það var engin viðleitni af þeirra hálfu til að ná samstöðu þvert á stjórnmálaflokkana á þingi og að auki kemur tillagan inn í þingið á lokadögum þess þegar mjög lítið ráðrúm er til þess að fjalla um hana. ...


Þetta sögðu Vinstri grænir 2007

Þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ætlaði að knýja fram breytingu á stjórnarskránni vorið 2007, með sama hætti og minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar er að gera núna, sögðu þingmenn VG þetta.

Formaðurinn, núverandi fjármálaráðherra sagði m.a. (Ræða hans í heild er hér):

... Það er einsdæmi í sögu lýðveldisins að menn hyggist standa að stjórnarskrárbreytingum með þessum hætti, að formenn tveggja tiltekinna flokka taki sig saman og komi með svona snöggsoðið mál inn á þing á lokadögum og ætli því afgreiðslu. ... (Leturbreyting DP.)

Þingflokksformaðurinn nú, Jón Bjarnason sagði m.a. (Ræða hans í heild er hér):

Þetta frumvarp hér til stjórnarskipunarlaga sem hefur verið rætt í dag og hæstv. forsætisráðherra hefur mælt fyrir er, eins og fram hefur komið í ræðum, sérstakt fyrir það að einungis tveir flokkar leggja það fram, stjórnarflokkarnir. Það er flutt af forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Hér hefur komið fram að með þessum vinnubrögðum er á vissan hátt brotin hefð eða a.m.k. góðar vinnureglur og siðvenjur sem hafa ríkt um stjórnarskrárbreytingar almennt, þ.e. að þær séu unnar og undirbúnar í samkomulagi þingflokka á Alþingi hverju sinni og að þar sé ekki flanað að breytingum eða lagðar fram óunnar eða lítt unnar tillögur eins og hér er verið að gera. Það hefur verið hyllst til að ná víðtæku samkomulagi um grundvallarbreytingar, um breytingar á stjórnarskránni, og þá frekar verið gætt íhaldssemi í þeim efnum til að fara þar ekki fram með ósætti.

Sú sátt er rofin með þessu frumvarpi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og verða það að teljast afar óábyrg vinnubrögð, ekki síst af því að hér hefur starfað stjórnarskrárnefnd sem allir þingflokkar hafa átt aðild að og skilaði einmitt áliti nú á dögunum. Það verður því að teljast furðulegt að ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, skuli undir lok kjörtímabilsins fara fram hjá stjórnarskrárnefnd með einhliða tillögur eins og hér er um að ræða.

Það hefur ekki gefist vel að mínu mati, herra forseti, þegar stjórnarskránni hefur verið breytt í ósætti eða ekki verið fullt samkomulag um breytingarnar. (Leturbreytingar DP.)

Svo mörg voru orð VG vorið 2007. Er furða þó spurt sé: Hvað hefur breyst hjá VG frá því að þingmenn þeirra létu þessa hörðu gagnrýni falla vorið 2007?


Með góðu eða illu

Í umræðunni um stjórnlagabreytingarnar, sem minnihlutastjórnin hefur lagt fram í fullkomnu ósamkomulagi við stærsta þingflokkinn á Alþingi, hefur komið fram að hæstvirtur forsætisráðherra virðist ekki  hafa kynnt sér allar þær umsagnir sem borist hafa. Eru það þó umsagnir frá hluta þjóðarinnar, sem hæstvirtur forsætisráðherra skýlir sér á bak við þegar hún segir nauðsynlegt að knýja breytingarnar fram. Umsagnirnar, sem eru kringum þrjátíu talsins, vara flestar við því að anað sé í stjórnlagabreytingar með þeim hætti sem minnihlutastjórnin ætlar að gera.

En hæstvirtur forsætisráðherra hlustar ekki. Breytinguna skal keyra í gegn.

Sambærileg staða kom upp vorið 2007. Þá ákvað ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að leggja fram stjórnlagabreytingu í trássi og án samráðs við þá þingflokka sem þá voru í minnihluta, þ.e. Vinstri græna og Samfylkinguna. Í 1. umræðu kvörtuðu þingmenn VG og Samfylkingarinnar sáran yfir vinnubrögðunum og höfðu uppi stór orð um þau. Þeir töldu þau ólýðræðisleg.

Öll þessi ummæli rifjaði ég upp í morgun í ræðu minni á Alþingi og kallaði eftir skýringum VG og Samfylkingarinnar á því hvað hefði breyst. Það kom mér þó ekki á óvart að engin svör bárust. Það hefur nefnilega ekkert breyst. Athugasemdir minnihlutans þá voru fullkomlega réttmætar líkt og athugasemdir okkar sjálfstæðismanna nú eru.

En 2007 hlustaði ríkisstjórnin á minnihlutann og hætti við að knýja fram stjórnlagabreytinguna. Ríkisstjórnin nú hlustar ekki. Minnihlutastjórnin, í boði Framsóknarflokksins, ætlar að knýja þessa breytingu í gegn. Í fyrsta sinn í hálfa öld. Það er umhugsunarverð vinnubrögð.


mbl.is Enn fjölmargir á mælendaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ámátlegt yfirklór

Þessi tilkynning frá FME er ámátlegt yfirklór. Sagan sýnir að stundum þarf kjarkaða blaðamenn til að afhjúpa athæfi, jafnvel þótt þeir viti að þeir séu komnir á grá svæði varðandi trúnað og þagnarskyldu. Hvernig var með Watergate málið í Bandaríkjunum? Þar var opinber starfsmaður sem braut trúnað. Af hverju? Honum ofbauð það sem í gangi var. Sama virðist vera með þær upplýsingar sem með einhverjum hætti var komið til umræddra blaðamanna. Einstaklingar sem vissu af því sem í gangi var ofbauð og þeir komu upplýsingunum áleiðis. Til að um málin yrði fjallað í fjölmiðlum.

Ég treysti því að viðskiptaráðherra, sem virðist ekki sáttur við aðgerðir FME, grípi inn í þannig að blaðamenn geti haldið áfram að afhjúpa það sem öðrum virðist kappsmál að fela.


mbl.is FME telur umræðu ómálefnalega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pirringur þingmanna minnihlutastjórnarinnar

Ræða háttvirts þingmanns Katrínar Júlíusdóttur endurspeglar þann pirring sem er í þingmönnum minnihlutastjórnarinnar. Hún var pirruð yfir því að þurfa að vera á staðnum. Pirruð yfir því að geta ekki farið heim eins og allir hinir þingmenn minnihlutastjórnarinnar. Ástæðan fyrir því að þingmaðurinn þurfti að vera á staðnum er sú að hún er formaður iðnaðarnefndar og málin sem til umræðu voru heyra undir þá þingnefnd.

Málið er ekkert flókið. Það er margbúið að bjóða minnihlutastjórninni að sest verði niður og samið um framgang mála þannig að þing geti farið heim og menn einbeitt sér að kosningabaráttunni. Minnihlutastjórnin vill ekki semja. Hún ætlar að gera það sem er nánast fordæmalaust eftir að lýðveldi var stofnað: Að knýja fram breytingu á stjórnarskránni án þess að þverpólitísk samstaða sé um breytinguna. Flestir umsagnaraðilar vara þó við þeim breytingum sem þar eru lagðar til og átelja þann asa sem er á málinu. Stjórnarskránni skal breyta, hvað sem tautar og raular.


mbl.is „Hættið þessu helvítis væli"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynsla

Það er merkileg reynsla að sitja á Alþingi og verða vitni af þeim yfirgangi sem minnihlutaríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, með stuðningi Framsóknarflokksins, beitir í stjórnarskrármálinu.

Stjórnarskrárbreytingar eru grafalvarlegt mál. Að stjórnarskrárbreytingum á ekki að flana. Því síður á stjórnlagaþing að vera skiptimynt í pólitískum samningum milli minnihlutastjórnar og stjórnmálaflokks sem lofaði að verja minnihlutastjórnina vantrausti. Allt er þetta þó að gerast á Alþingi þessar klukkustundir. Liggur þó fyrir að umsagnaraðilar sem eru kringum þrjátíu talsins telja flestir að skoða þurfi málið betur.

Það er þversagnarkennt að milli kl. 13:30 og 14 stóð Framsóknarflokkurinn að utandagskrárumræðu um atvinnuuppbyggingu og stöðu ríkissjóðs. Fyrirfram hefði því mátt ætla að sá flokkur myndi vilja strax á eftir umræðu um álver í Helguvík. Fyrir liggur að með því álveri skapast þúsundir starfa. Hlýtur það að vera eftirsóknarvert þegar tölur sýna að kringum 18 þús. einstaklingar eru nú á atvinnuleysisskrá og framundan er að 13 þús. nemendur verði atvinnulausir í sumar. En, nei. Framsóknarflokkurinn vill frekar fara í stjórnarskrárumræður sem augljóst er að verður löng og ítarleg.


mbl.is Umræða um stjórnarskipunarlög hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt gengur þetta eftir

Umsóknir um stöðu seðlabankastjóra eru komnar fram. Það heyrðist í aðdraganda lagabreytinganna að minnihlutastjórnin sem nú situr væri búin að ákveða hver skyldi fá starfið. Það kemur því ekki á óvart að sjá þann einstakling meðal þeirra átta sem taldir eru uppgylla skilyrði nýju laganna hvað varðar lágmarksmenntun.

Í fréttinni segir að nú muni sérstök matsnefnd meta hæfi einstaklinganna átta um starf seðlabankastjóra.

Af hverju er verið að setja þetta leikrit á svið? Af hverju sá sem fyrir löngu er búið að ákveða að fái starfið bara skipaður strax?

Ég veit ekki hvort er verra, hrein og klár pólitísk skipun seðlabankastjóra eða falin pólitísk skipun sem reynt er að sveipa einhverjum faglegum hjúp. 


mbl.is Fimmtán sóttu um stöðu seðlabankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FME bregst aldrei röngum málstað

Hefur FME ekkert þarfara að gera en að hóta blaðamönnum sem af mikilli elju og dugnaði reyna að upplýsa almenning, þjóðina, um allt það sem aflaga fór hjá bönkunum fyrir hrunið og sem FME horfði framhjá?


mbl.is Brutu þau bankaleynd?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldi

fyrirgreiðsla sambærileg þeirri sem ríkissjóður hefur veitt tveimur fjárfestingabönkum hafa getað bjargað þessu gamalgróna fyrirtæki? Það væri fróðlegt að vita það. Talsmaður fyrirtækisins kvartar yfir óviðráðanlegu vaxtastigi á skuldbindingum félagsins. Ætla má því að 2% verðtryggðir vextir hefðu getað skipt sköpum fyrir framhaldið og jafnvel forðað gjaldþrotinu. Þarna eru 22 störf sem glatast.
mbl.is Ævistarfið farið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju?

Ef þetta var eins og hinn finnski sérfræðingur lýsir þá vaknar spurning um það af hverju FME um miðjan ágúst 2008 sagði alla viðskiptabankana fjóra standast álagspróf FME. 

Skýrsla Finnans bendir til að stjórnvöld hafi vitað miklu meir en maður gerði sér grein fyrir. Og gerðu samt ekkert, eða a.m.k. lítið. Í Fréttablaðinu í dag er skýrt frá því hvernig lánveitingar bankanna til fyrirtækja í eigu bankaráðsmanna, þ.e. eigenda, stórjukust á árinu 2008. Það bendir til að eigendur hafi vitað hvert stefndi og notfærðu sér óspart.

Það er eins gott að búið er að ráða Evu Jolie hér til verka og að verið er að fjölga starfsmönnum hjá sérstökum saksóknara.


mbl.is Gagnrýnir áhættu bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aprílgabb?

Einhvern veginn virðist þetta gegnsætt aprílgabb. En kannski ekki? Wink
mbl.is Selja húsbúnað úr gömlu bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðarmenn o.fl.

Það var ánægjulegt að eiga þátt í samþykki frumvarps um ábyrgðarmenn, þó á síðustu stigum þess væri, en ég tók sæti á Alþingi í dag (mánudag)  í veikindaleyfi Geirs H. Haarde.

Ég hafði fullan ásetning til að spyrja fjármálaráðherra út í vildarkjörin til tveggja fjárfestingabanka í óundirbúnum fyrirspurnartíma, eins og fram kom hjá mér í Silfri Egils í gær, þar sem málið bar einnig á góma. Í ljós kom, þegar ég tilkynnti fyrirspurnina til þingsins að Pétur Blöndal varð fyrri til með slíka óundirbúna fyrirspurn. Ég breytti þá yfir í fyrirspurn um hvort ekki væri, í ljósi nýjustu upplýsinga um vaxtakjörin til þessara tveggja aðila, í undirbúningi breytingar á vaxtakjörum til einstaklinga og fyrirtækja sem lenda í vandræðum með að greiða álagningu tekjuskatts.

Óundirbúnar fyrirspurnir eru þannig að þingmenn tilkynna hvaða ráðherra þeir vilja spyrja og um hvað. Síðan hefur forseti það í hendi sér hvaða fyrirspurnum hann hleypir að og hverjum hann sleppir. Hvaða samráð hann hefur við viðkomandi ráðherra veit ég ekki. En, sjálfsagt af tómri tilviljun, fékk hvorki fyrirspurn Péturs Blöndal né mín náð fyrir augum forseta. Frekari skýringar fengjust því ekki frá fjármálaráðherra á vildarkjörunum. 

En ég vil gjarnan upplýsa um það sem ég komst að við undirbúning minnar fyrirspurnar. Í ljós kom að einstaklingar eða fyrirtæki sem lenda í vanskilum vegna skattagreiðslna en vilja reyna að greiða þær engu að síður, geta samið við innheimtumenn undir sérstökum kringumstæðum.  Ef búið er að gera árangurslaust fjárnám hjá skuldaranum getur hann til sex mánaða í senn gert greiðsluáætlun um greiðslu allra gjaldfallinna gjalda. Skilyrði er að skuldarinn greiði á mánuði meira en sem nemur áföllnum vöxtum, þ.e. í mánuði hverjum verður hann að greiða eitthvað niður af höfuðstól skuldarinnar. Vextir eru nú 25% en hjá tollstjóra var mér sagt að gert væri ráð fyrir að þeir myndu lækka niður í 15% frá og með 1. apríl.

Í 3. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt getur innheimtumaður sem telur tök á að tryggja greiðslu kröfu, sem ella myndi tapast, með samningi um greiðslu (lánveitingu) skal hann gefa fjármálaráðherra skýrslu um málavöxtu. Fjármálaráðherra er heimilt að samþykkja slíkan samning, að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar.

Hjá Ríkisendurskoðun fékk ég þær upplýsingar að þeir samningar sem miðað sé við í slíkum tilvikum séu allt að 10 ára veðlán, verðtryggð með neysluvísitölu. Vextir á láninu hafa verið síðustu mánuðina 5,9%.

Ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórn sem kennir sig við jöfnuð og réttlæti muni nú vinda sér í það að breyta þessum kjörum til þeirra sem vilja borga skattaskuldir sínar, en hafa lent í vandræðum með þær, þannig að vextirnir lækki niður í 2%. Tryggingar hljóta einnig að verða endurskoðaðar.


mbl.is Ábyrgðarmennirnir burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband