Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Áramótakveðja

Ég sendi öllum, nær og fjær, mínar bestu áramótakveðjur. Megi árið 2010 verða okkur öllum gleðilegt, gjöfult og gæfuríkt.

Biðleikur forsetans

Forsetinn hefur leikið biðleik í Icesave málinu. Forsetinn segist þurfa að skoða málið áður en hann taki ákvörðun um hvort hann staðfesti lögin eður ei. Forsetinn segist þurfa að horfa til áskorana tugþúsunda Íslendinga og ummæla einstakra þingmanna við atkvæðagreiðsluna í gærkvöldi. Þá segist forsetinn hafa lofað talsmönnum Indefense að ræða við þá áður en hann taki ákvörðun. Fundur forsetans með þeim mun hafa verið ákveðinn 2. janúar nk. Mál munu því ekki skýrast fyrr en fyrstu daga nýs árs.

Það var hinn 2. júní 2004 sem forseti Íslands tilkynnti að hann myndi ekki staðfesta fjölmiðlafrumvarpið svokallaða. Frétt mbl.is um málið er hér. Í yfirlýsingu sem forsetinn birti að þessu tilefni segir m.a.:

8. Að undanförnu hafa verið harðar deilur um þann lagagrundvöll fjölmiðlanna sem mótaður er í frumvarpi sem Alþingi hefur nú afgreitt. Þá hefur og ítrekað verið fullyrt að þetta lagafrumvarp muni hvorki standast stjórnarskrá né alþjóðlega samninga. Réttmæti þeirra fullyrðinga munu dómstólar meta. Mikilvægt er hinsvegar að lagasetning um fjölmiðla styðjist við víðtæka umræðu í samfélaginu og almenn sátt sé um vinnubrögð og niðurstöðu.

9. Því miður hefur skort samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa.

10. Það verður best gert með því að þjóðin fái í hendur þann rétt sem henni er veittur í stjórnarskrá lýðveldisins og meti lagafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

11. Ég hef því ákveðið í samræmi við 26. grein stjórnarskrárinnar að staðfesta ekki lagafrumvarp um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum og vísa því á þann hátt í dóm þjóðarinnar. Samkvæmt stjórnarskránni skal sú þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram „svo fljótt sem kostur er."

12. Í ákvörðun minni felst hvorki gagnrýni á Alþingi né á ríkisstjórn og ekki heldur efnisleg afstaða til laganna sjálfra. Eingöngu sú niðurstaða að farsælast sé fyrir okkur Íslendinga að þjóðin fái tækifæri til að kveða upp sinn dóm. Við búum að stjórnskipan, þar sem forseti Íslands og aðrir kjörnir fulltrúar sækja vald sitt og umboð til hennar. Þjóðin hefur samkvæmt stjórnarskránni síðasta orðið.

Að breyttu breytanda eiga öll þessi atriði jafnt við um Icesave-frumvarpið og fjölmiðlafrumvarpið. Ef forseti Íslands ætlar að vera sjálfum sér samkvæmur og því fordæmis sem hann skapaði 2004 á hann einvörðungu einn leik í stöðunni. Sá er að beita synjunarvaldi sínu skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar.

 


mbl.is Forseti tekur sér frest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forseti Íslands á næsta leik

Ríkisstjórnin fullyrti að ef lausn fengist ekki í í Icesave málinu yrðum við einangruð í samfélagi þjóðanna. Margt bendir til að lausn Icesave málsins hafi verið það verð sem við urðum að borga til að mál okkar fengju framgang hjá AGS. Meira að segja Norðurlandaþjóðirnar virðast hafa gert lausn málsins að skilyrði fyrir þeim lánveitingum sem þeir höfðu heitið okkur. Ýmislegt bendir því til að  pólitískt séð hafi engin önnur leið verið fær en að semja um lausn málsins. 

Það var gert. Margir telja að í þeim samningum hafi ekki tekist að lenda hagstæðustu niðurstöðunni fyrir Ísland. Það er óþægileg staða í málinu, sem þjóðin situr uppi með. Meirihluti Alþingis hefur samþykkt frumvarp sem byggir á þessari samningsniðurstöðu. Með því hefur ríkisstjórnin staðið við þær kröfur sem hún segir að hið alþjóðlega samfélag hafi gert.

Er málinu þar með lokið? Nei. Því fer fjarri. Forseti Íslands á næsta leik. Hlýtur sá leikur ekki að verða sá að neita að staðfesta frumvarpið með vísan til 26. gr. stjórnarskrárinnar? Það gerði hann 2004 í fjölmiðlamálinu. Höfðu þá færri Íslendingar en nú skorað á hann að beita synjunarvaldinu.

Það liggur fyrir að nú, líkt og 2004, er almenningur í landinu mjög ósáttur við frumvarp sem Alþingi hefur samþykkt. Ætli forseti Íslands að vera sjálfum sér samkvæmur hlýtur hann að beita 26. gr. stjórnarskrárinnar gagnvart Icesave frumvarpinu. Með því tryggir hann að þjóðin hefur síðasta orðið um afdrif Icesave málsins í núverandi búningi. 


mbl.is Alþingi samþykkti Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig má það vera?

Hvernig má það vera að enn sé haldið leyndum gögnum sem tengjast Icesave-málinu? Hvernig má það vera að ríkisstjórn, sem hélt af stað í sinn leiðangur með opna stjórnsýslu og gegnsæi að leiðarljósi, skuli bjóða okkur upp á að leynd sé viðhaldið? Hverra hagsmuna er verið að gæta með því að viðhalda þessari leynd? Leyndin virðist ekki mikilvægari en svo að breska lögmannsstofan, sem verið hefur ráðgjafi stjórnvalda um margra mánaða skeið, segist hafa hvatt stjórnvöld til að aflétta leyndinni, en við því hafi ekki orðið.

Þessar upplýsingar kalla á sérstakar skýringar af hálfu stjórnvalda. Það er ólíðandi að enn skuli eitthvað falið sem tengist Icesave-málum. Allt stefnir í að íslenskur almenningur sitji uppi með skuldabagga áratugi fram í tímann vegna Icesave. Er ekki lágmark að íslenskur almenningur fái söguna alla í þessu máli?


mbl.is De Reya svarar Steingrími
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðileg jól

JólamyndSendi öllum, nær og fjær, hugheilar óskir um gleðilega jólahátíð.

Loksins

Fjöldi ósjúkratryggðra hefur verið alvarlegt vandamál í Bandaríkjunum. Allar umbætur í þá átt að fækka í þeim hópi eru mikilvægar. Margir forsetar hafa einsett sér að gera breytingu á þessu ástandi, en ekki haft árangur sem erfiði. Clinton ætlaði sér m.a. stóra hluti í þessu sambandi. Það er því mikivægur pólitískur sigur fyrir Obama að hafa náð þessu máli í gegn.
mbl.is Heilbrigðisfrumvarp Obama samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattpínd þjóð

Ríkisstjórnin lofaði skjaldborg um heimilin og fjölskyldurnar. Sú skjaldborg var aldrei reist. Fjölskyldurnar í landinu hafa fyrir löngu gefist upp á biðinni eftir henni. 

Jólaandi ríkisstjórnarinnar birtist þjóðinni í óbilandi trú á að auknir skattar leysi allan vanda. Þær verða sífellt ófrýnilegar jólagjafirnar sem ríkisstjórnin ætlar að gefa þjóðinni. Fyrir nýjum skattaálögum standa fjölskyldurnar í landinu berskjaldaðar og varnarlausar.

Það gæti varla orðið verra fyrir þjóðina að fara í jólaköttinn ...


mbl.is Heimsins hæsti skattur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfgefið val

Það leiðir nánast af sjálfu sér að sá kvenstjórnmálamaður sem er fyrstur til að leiða ríkisstjórn hér á landi hlýtur að vera valin kona ársins á því ári. 

Forsætisráðherra er vel að þessari útnefningu kominn. Forsætisráðherra hefur hins vegar fengið að kenna á því, eins og fjölmargir forverar hennar í starfi, að vinsældirnar dvína hratt þegar taka þarf á erfiðum málum og leysa snúin viðfangsefni. Það er kalt, vindasamt og sjálfsagt einmannalegt líka, á toppnum. Flóknari verkefni hafa sennilega aldrei frá lýðveldisstofnun verið á borðum nokkurrar ríkisstjórnar. Það er merkileg tilviljun að áður óþekktar áskoranir fyrir þjóðina verða hlutskipti fyrstu konunnar sem hér verður forsætisráðherra.


mbl.is Jóhanna valin kona ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing Alþingis

Svo virtist fyrir helgi sem samkomulag hefði náðst milli stjórnar og stjórnarandstöðu um lok 2. umræðu Icesave. Ekki var betur séð en að stjórnin hefði fallist á kröfur stjórnarandstöðunnar um ítarlega skoðun nokkurra atriða milli 2. og 3. umræðu.

Nú virðist hins vegar sem Framsóknarflokkurinn sé með þetta samkomulag í einhvers konar gíslingu af því að áður en 2. umræðu er lokið eru þeir ekki að fá "réttu svörin" varðandi vinnulagið í fjárlaganefnd milli 2. og 3. umræðu. Þar með virðist Framsóknarflokkurinn ætla að ganga á bak við það samkomulag sem gert var.

Það er ekki til þess fallið að auka virðingu Alþingis að standa að samkomulagi um málsmeðferð og efna síðan til ágreinings um túlkun þess sama samkomulags.


mbl.is Átök innan Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband