Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Ábyrgðarmenn o.fl.

Það var ánægjulegt að eiga þátt í samþykki frumvarps um ábyrgðarmenn, þó á síðustu stigum þess væri, en ég tók sæti á Alþingi í dag (mánudag)  í veikindaleyfi Geirs H. Haarde.

Ég hafði fullan ásetning til að spyrja fjármálaráðherra út í vildarkjörin til tveggja fjárfestingabanka í óundirbúnum fyrirspurnartíma, eins og fram kom hjá mér í Silfri Egils í gær, þar sem málið bar einnig á góma. Í ljós kom, þegar ég tilkynnti fyrirspurnina til þingsins að Pétur Blöndal varð fyrri til með slíka óundirbúna fyrirspurn. Ég breytti þá yfir í fyrirspurn um hvort ekki væri, í ljósi nýjustu upplýsinga um vaxtakjörin til þessara tveggja aðila, í undirbúningi breytingar á vaxtakjörum til einstaklinga og fyrirtækja sem lenda í vandræðum með að greiða álagningu tekjuskatts.

Óundirbúnar fyrirspurnir eru þannig að þingmenn tilkynna hvaða ráðherra þeir vilja spyrja og um hvað. Síðan hefur forseti það í hendi sér hvaða fyrirspurnum hann hleypir að og hverjum hann sleppir. Hvaða samráð hann hefur við viðkomandi ráðherra veit ég ekki. En, sjálfsagt af tómri tilviljun, fékk hvorki fyrirspurn Péturs Blöndal né mín náð fyrir augum forseta. Frekari skýringar fengjust því ekki frá fjármálaráðherra á vildarkjörunum. 

En ég vil gjarnan upplýsa um það sem ég komst að við undirbúning minnar fyrirspurnar. Í ljós kom að einstaklingar eða fyrirtæki sem lenda í vanskilum vegna skattagreiðslna en vilja reyna að greiða þær engu að síður, geta samið við innheimtumenn undir sérstökum kringumstæðum.  Ef búið er að gera árangurslaust fjárnám hjá skuldaranum getur hann til sex mánaða í senn gert greiðsluáætlun um greiðslu allra gjaldfallinna gjalda. Skilyrði er að skuldarinn greiði á mánuði meira en sem nemur áföllnum vöxtum, þ.e. í mánuði hverjum verður hann að greiða eitthvað niður af höfuðstól skuldarinnar. Vextir eru nú 25% en hjá tollstjóra var mér sagt að gert væri ráð fyrir að þeir myndu lækka niður í 15% frá og með 1. apríl.

Í 3. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt getur innheimtumaður sem telur tök á að tryggja greiðslu kröfu, sem ella myndi tapast, með samningi um greiðslu (lánveitingu) skal hann gefa fjármálaráðherra skýrslu um málavöxtu. Fjármálaráðherra er heimilt að samþykkja slíkan samning, að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar.

Hjá Ríkisendurskoðun fékk ég þær upplýsingar að þeir samningar sem miðað sé við í slíkum tilvikum séu allt að 10 ára veðlán, verðtryggð með neysluvísitölu. Vextir á láninu hafa verið síðustu mánuðina 5,9%.

Ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórn sem kennir sig við jöfnuð og réttlæti muni nú vinda sér í það að breyta þessum kjörum til þeirra sem vilja borga skattaskuldir sínar, en hafa lent í vandræðum með þær, þannig að vextirnir lækki niður í 2%. Tryggingar hljóta einnig að verða endurskoðaðar.


mbl.is Ábyrgðarmennirnir burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smámunir

Það er sama hvernig þessar tölur eru skoðaðar. Þessar fjárhæðir eru smámunir í samanburði við milljarðana sem fjármálaráðherra er þegar búinn að gefa hluthöfum tveggja fjárfestingabanka með láni á gjafakjörum.

Það vefst ekki fyrir fjármálaráðherra og ríkisstjórn sem kennir sig við jöfnuð og réttlæti að gefa peningamönnum og -fyrirtækjum sem eiga tvo fjárfestingabanka milljarða á silfurfati. Á sama tíma ræður þessi sama ríkisstjórn jöfnuðar og réttlætis ekki við að slá þeirri skjaldborg sem hún lofaði um heimilin og fjölskyldurnar í landinu. 


mbl.is Ójöfn dreifing skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningabandalag?

Það er gott fyrir kjósendur að hafa skýra kosti í næstu kosningum. VG og Samfylkingin stefna ljóst og leynt að því að halda áfram núverandi stjórnarsamstarfi. Heiðarlegast væri ef þessir stjórnmálaflokkar hreinlega mynduðu kosningabandalag með stefnuskrá svo kjósendur, sem þessa flokka kjósa í kosningunum, viti nákvæmlega hvað þeir eru að kjósa yfir sig. 

Sömuleiðis þarf að liggja algerlega ljóst fyrir hver á að vera forsætisráðherra í þeirri ríkisstjórn. Bjarni Harðarson fv. alþingismaður fullyrti í Silfri Egils að fyrir löngu væri búið að handsala milli VG og Samfylkingarinnar samkomulag um að Jóhanna Sigurðardóttir yrði eingöngu forsætisráðherra fram á árið 2010. Þá tæki Steingrímur J. Sigfússon við. Ef þetta er raunin þá þurfa kjósendur að vita það fyrir kosningar.


mbl.is Stefnt að samstarfi við VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræða sem dæmir sig sjálf

Ég er ekki á landsfundi - en í kvöld horfði ég á helstu ræður sem fluttar voru í dag. Ræða Þorgerðar Katrínar var góð, heiðarleg og hreinskilin. Algerlega í anda þess hvernig Þorgerður Katrín hefur talað eftir hrunið. Mér finnst hún hafa vaxið sem stjórnmálamaður á síðustu mánuðum og vona að hún verði endurkjörinn varaformaður.

Ég horfði á Bjarna Benediktsson. Hann var góður. Ég gerði heiðarlega tilraun til að horfa á Kristján Þór Júlíusson. Mér til mikilla vonbrigða er sú upptaka biluð. Hún stoppar alltaf eftir örfáar mínútur og byrjar á byrjuninni aftur. Tilviljun? Vonandi. Ég get því ekki sjálf borið saman ræður formannsframbjóðendanna. Ég hef heyrt í nokkrum landsfundarfulltrúum. Þeir skipast eftir hvorn þeir styðja. Stuðningsmenn Bjarna segja hann hafa verið betri. Stuðningsmenn Kristján Þór segja hann hafa verið miklu betri. Þess vegna er ég vonsvikin yfir því að akkúrat upptakan með ræðu Kristjáns Þórs skuli ekki fúnkera á www.xd.is.

Ég horfði á fv. formann flytja sína ræðu. Þar er að mínu mati mjög ómaklega vegið að því öfluga og þróttmikla starfi sem endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins hefur skilað undir traustri forystu Vilhjálms Egilssonar. Grasrótin í flokknum fékk í þessu starfi tækifæri til að láta sín sjónarmið heyrast. Fundir í endurreisnarnefnd og undirhópum hennar voru fjölmennir enda er grasrótin í flokknum leið, reið, vonsvikin. Það heyrði ég aftur og aftur í samtölum við hinn almenna sjálfstæðismann fyrir prófkjörið. Þessi afstaða til grasrótarinnar á ekki að koma á óvart úr þessari átt. Ég man ekki betur en að sami einstaklingur hafi sagt í setningarræðu á landsfundi, fyrir mjög mörgum árum, eitthvað í þá veru að ef of mikið væri hlustað á grasrótina fengi maður orma í eyrun.

Um ræðu fv. formanns að öðru leyti vil ég sem minnst segja annað en það að hún dæmir sig sjálf. Ég skildi betur, eftir að að hafa horft sjálf á ræðuna, af hverju einn góður einstaklingur, sem ég treysti vel, sagðist hafa yfirgefið landsfundinn eftir ræðuna, svo illa hafi honum liðið. 


mbl.is Vilhjálmur: Ómakleg ummæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í samhengi við gjafalán til fjárfestingabanka

Já, setjum þessar fjárhæðir endilega í samhengi við annað, t.d. gjafalán ríkissjóðs til tveggja fjárfestingabanka sem Morgunblaðið hefur fjallað um í vikunni.

Ríkissjóður lánaði nýverið tveimur fjárfestingabönkum, að því er virðist án mikillar umhugsunar, 42 milljarða til sjö ára á 2% verðtryggðum vöxtum. Kunnugir telja að eðlilegir verðtryggðir vextir á lánunum til bankanna hefðu verið a.m.k. 10%. Gróft metið má því telja að ríkissjóður sé að gefa hluthöfum bankanna a.m.k. tæpa 3,5 milljarða á ári.  

Á sjö ára lánstíma gefur ríkissjóður hluthöfunum sennilega hátt í 25 milljarða króna. Sú fjárhæð sýnist tæplega 10% af því sem sagt er í fréttinni að það muni kosta að fella flatt niður 20% húsnæðisskulda u.þ.b. 70.000 heimila í landinu. Ríkissjóður gerði enga kröfu til hlutafjár í bönkunum sem nutu þessarar fyrirgreiðslu. Því halda hluthafarnir öllu, óskertu.

Í verkefnaskrá ríkisstjórnar VG og Samfylkingarinnar, sem stendur að þessum örlætisgerningum í þágu hluthafa fjárfestingabankanna tveggja, segir m.a.

...Stjórnin byggir því á mjög aðhaldssamri og ábyrgri stefnu í efnahags-og ríkisfjármálum, en mun jafnframt hafa í heiðri félagsleg gildi, hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsi, jöfnuð og réttlæti. ... (leturbreyting DP)


mbl.is Niðurfelling skulda óhagkvæm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósa, bara til að kjósa?

Það sýnir mannauð í stjórnmálaflokki ef margir gefa kost á sér, í alvöru, til forystu. Eins og staðan er núna hefur enginn gefið kost á sér í varaformannsstarfið í Sjálfstæðisflokknum nema sitjandi varaformaður. Er það ekki vísbending um að ákveðin sátt sé um að sitjandi varaformaður verði áfram í því starfi?


mbl.is Vill varaformannskjör á landsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófullnægjandi skýringar

Skýringar fjármálaráðherra eru alls ófullnægjandi. Góð kjör séu forsenda þess að skuldin fengist endurgreidd? Eiga þau rök ekki við gagnvart öllum? Því betri kjör sem skuldarar fá þeim mun meiri líkur eru á að skuldir fáist endurgreiddar. Þetta eru ekki rök sem halda.

Ekki sýnist sem gjafþegarnir hafi skilið meintar hömlur á starfsemi þeirra með sama hætti. Blekið virðist vart hafa verið þornað á gjafapappírunum þegar annar bankanna gerði sig líklegan til að bjóða í eignir í þrotabúi SPRON.

Svo er spurningin: Á hvaða kjörum fékk ríkissjóður fjármunina sem endurlánaðir eru með þessum gjafakjörum til tveggja fjárfestingabanka?


mbl.is Steingrímur: Góð vaxtakjör nauðsynleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonbrigði

Það eru vonbrigði að tillagan skuli ganga út á þessa tvöföldu atkvæðagreiðslu. Skynsamlegra væri að fundurinn gefi opnari heimild fyrir því að hefja viðræður með leiðbeiningum um þau samningsmarkmið sem setja á. Það gefur svo auga leið að þjóðin þarf að greiða atkvæði um niðurstöðuna eftir að farið hefur verið í viðræður.


mbl.is Leggja til tvöfalda atkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægjulegar niðurstöður

Árið 1996 byrjaði ríkisstjórnin markvissar aðgerðir í forvarnarmálum. Nýjar áherslur voru lagðar þar sem samvinna við heimilin var ákveðin þungamiðja auk samvinnu allra sem að þessum málum koma. Samhliða var mikill metnaður lagður í að árangur forvarnarstarfs yrði reglulega mældur með könnunum, bæði erlendum samvinnurannsóknum eins og hér er skýrt frá og með innlendum könnunum.

Árangurinn hefur smátt og smátt verið að koma í ljós. Hann staðfestist enn frekar með þessum niðurstöðum. Enda er "íslenska módelið" í forvarnarmálum orðin fyrirmynd og grunnur samstarfs Evrópulanda í forvarnarmálum. Rannsóknarstofnunin Rannsóknir og greining hélt nýlega upp á 10 ára afmæli sitt, en hún hefur verið leiðandi afl í rannsóknarvinnu á þessu sviði. Þar kom fram að "íslenska módelið" er einnig til skoðunar í Bandaríkjunum og Asíu.

Ég kom að vinnu í þessum málum á árunum 1996 - 2002, en þá var í gangi átaksverkefið Ísland án eiturlyfja. Við sem að þessum málum komu höfðum bjargfasta trú á því að þetta módel sem lagt var upp með væri lykillinn að árangursríku forvarnarstarfi meðal barna og unglinga. Niðurstöður rannsókna, síðast þessarar, virðast staðfesta þetta. 

Nú skiptir öllu að þetta góða forvarnarstarf haldi áfram af fullum krafti. Forvarnarstarfi lýkur aldrei. Sama hvað góðar tölur koma úr rannsóknum.


mbl.is Reykingar og drykkja íslenskra unglinga með því minnsta sem gerist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjafir af almannafé

Ríkissjóður hefur samið um gjafakjör við tvo fjárfestingabanka. Boðar það að önnur fyrirtæki í landinu og heimilin bjóðist sambærileg fyrirgreiðsla þegar þessir aðilar semja við ríkisviðskiptabankana um skuldir sínar?

Skoðun á heimasíðum Kaupþings, Landsbankans og Íslandsbanka sýnir að lægstu vextir á verðtryggðum skuldabréfum hjá þessum bönkum eru 7,8%. 

Spurning vaknar um það af hverju hluthafar í þessum fyrirtækjum þurfa ekki að gefa eftir hluta hlutafjár síns til ríkissjóðs vegna þessa örlætisgernings í þeirra þágu. Mér skilst að miðað við áhættu sem fylgir lánveitingum til þessara fyrirtækja og áhættuálag ríkissjóðs um þessar mundir sé ekki fráleitt að gera ráð fyrir að eðlilegt væri að krefja þau um a.m.k. 10% vexti af verðtryggðum lánum. Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að gefa þessum tveimur fyrirtækjum liðlega 3 milljarða á ári í afslátt af vaxtagreiðslum vegna þessara lána og styrkja eigið fé þeirra sem því nemur á lánstímanum.

Fjármálaráðherra verður að skýra af hverju tvö fjármálafyrirtæki, sem ekki eru mikilvæg í kerfislegu tilliti, fá ríflegan fjárstyrk af þessu tagi, af almannafé, á sama tíma og dræmt hefur verið tekið í allar tillögur um ívilnandi aðgerðir í þágu fyrirtækja og heimila.


mbl.is Vextir lána til VBS og Saga tvö prósent
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband