Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Ný reynsla

Eftir síðustu Alþingiskosningar fékk ég kjörbréf sem 1. varaþingmaður í Reykjavíkurkjördæmi suður. Ekkert hefur á þetta reynt fyrr en nú fyrir skömmu því 22. október sl. tók ég formlega sæti á Alþingi í fjarveru Ástu Möller. Vaninn er sá að varaþingmaður er kallaður inn til þingmannsstarfa í hálfan mánuð. Það hittist hins vegar svo á að öll síðasta vika og raunar mánudagurinn í þessari viku líka voru svokallaðir kjördæmadagar. Þingmannsstörf mín þennan tíma fólust því í því að fara í heimsóknir í grunnskóla borgarinnar. Það voru gagnlegar og fróðlegar heimsóknir.

Fyrsti dagurinn á Alþingi var í gær. Hann hófst með fundi í fjárlaganefnd. Fjárlaganefnd fær þessa dagana í heimsókn fulltrúa ráðuneyta og félagasamtaka vegna vinnu við fjárlög 2008 (og raunar fjáraukalög 2007 líka). Fjárlaganefnd er ekki öfundsverð af því hlutverki að þurfa að leggja til hverjir fái og hverjir ekki fjármuni af fjárlögum. Öll þau verkefni sem kynnt voru í gær voru sérlega spennandi og mikilvæg.

Í hádeginu var þingflokksfundur. Þar kynnti ég frumvarp til breytinga á barnalögum sem ég hyggst leggja fram. Ef allt gengur að óskum verður frumvarpinu dreift í dag. Og ef heppnin er með mér þá verður það á dagskrá á morgun eða föstudag og ég mun þá mæla fyrir því. Ef ekki, þá bíður framsagan þangað til ég sest inn næst, hvenær sem það verður. Ég mun blogga síðar nánar um þetta frumvarp mitt og þær breytingar sem ég vil reyna að ná fram á barnalögum.

Þingfundur hófst kl. 13:30 og í upphafi hans voru fimm varaþingmenn (fjórar konur og einn karlmaður) kynntir til sögunnar. Síðan undirrituðum við drengskaparheit að stjórnarskránni. Í 2. gr. þingskaparlaga segir:

Sérhver nýr þingmaður skal vinna svofellt drengskaparheit að stjórnarskránni undireins og búið er að viðurkenna að kosning hans sé gild, sbr. 47. gr. stjórnarskrárinnar: Ég undirskrifaður/uð, sem kosin(n) er þingmaður til Alþingis Íslendinga, heiti því, að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá landsins.

Það var áhrifamikil stund að undirrita drengskaparheitið.

Á dagskrá voru þingmannamál, þ.e. frumvörp og þingsályktunartillögur frá þingmönnum (andstætt við stjórnarmál, sem eru þingmál frá ráðherrum). Þingfundur stóð til kl. 18:00. Þetta var því ágætlega langur vinnudagur því fundur fjárlaganefndar hófst kl. 8:30.

Svo lengi lærir sem lifir segir máltækið - það má með sanni segja að þessi fyrsti dagur minn á Alþingi hafi verið lærdómsdagur, svo margt nýtt upplifði ég.


Stjórnarskrárbrot?

Í 8. gr. læknalaga nr. 53/1988 er svohljóðandi ákvæði:

Lækni er heimilt að skorast undan störfum sem stangast á við trúarleg eða siðferðisleg viðhorf hans séu störfin ekki framkvæmd í lækningaskyni.

Í skýringum með ákvæðinu segir (frumvarpið í heild er hér):

Mikilvægt er að velta fyrir sér spurningunni um það, hvort og í hvaða tilvikum lækni sé heimilt að skorast undan að framkvæma aðgerð. Fara ber hér mjög varlega í skýringar. Almennt er viðurkennt, þótt ekki styðjist það við ótvíræðan lagabókstaf, að læknar geti aldrei skorast undan að framkvæma aðgerð sé um að ræða aðgerð í lækningaskyni. Það er hins vegar viðurkennt að læknar geti skorast undan að framkvæma aðgerð af trúarlegum eða siðferðislegum ástæðum, sé markmið aðgerðarinnar ekki lækning í þröngri skýringu þess orðs, t.d. ófrjósemisaðgerð eða fóstureyðing af félagslegum ástæðum.

Ég minnist þess ekki að hafa séð því haldið fram að þetta ákvæði læknalaga væri brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þvert á móti staðfestir það að skoðanir lækna á ófrjósemisaðgerðum og fóstureyðingum séu mismunandi. Það staðfestir að ekki sé með lögum hægt að neyða lækni til að framkvæma aðgerð sem er andstæð truarlegum eða siðferðislegum skoðunum þeirra.

Með samþykkt kirkjuþings í gær náðist ótrúlega stór áfangi í réttindabaráttu samkynhneigðra. Með samþykkt kirkjuþings er íslenska þjóðkirkjan fyrsta lútherska þjóðkirkjan sem samþykkir formlega að prestar hennar geti sem vígslumenn formlega staðfest samvist og blessað, geri Alþingi nauðsynlegar lagabreytingar til þess. Um samþykktina má sjá nánar hér. Ég hef enga trú á öðru en að Alþingi vindi sér í það núna hið bráðasta að breyta lögum um staðfesta samvist þannig að borgaraleg vígsla og kirkjuleg verði jafngild, með sama hætti og borgaraleg vígsla og kirkjuleg er jafngild gagnvart hjónabandinu.

Ég lýsi furðu minni yfir fréttinni í 24 stundir og spyr jafnframt: Vilja samkynhneigð pör láta prest, sem þau vita að líta samkynhneigð hornauga, vígja sig? Verður þetta eitthvað vandamál? Af hverju eru þessu læti?


mbl.is Stóri sannleikur eða stjórnarskrárbrot?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frekari afrek Göngum saman hópsins

Ég hef áður bloggað um konurnar 22 í Göngum saman hópnum sem fóru til New York og gengu eitt og hálft maraþon á tveimur dögum nú fyrir skemmstu. (Þær voru víst 27 íslensku konurnar í göngunni því fimm konur sem allar starfa hjá Icelandair gengu líka. Kem þessum viðbótarupplýsingum hér með á framfæri. Bloggsíða þeirra er hér.)

Göngum saman hópurinn þurfti að greiða umtalsverða upphæð til að taka þátt í göngunni í New York, 1800 dollara á mann, eða samtals liðlega 2,4 m. kr.

Þær ákváðu að gera betur og safna viðbótarfé til að styrkja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini hér á landi. Þetta stóðu þær við. Í gær, 22. október, sem mun vera alþjóðlegur dagur um brjóstakrabbamein, afhentu þær Jórunni Eyfjörð og ungum vísindamönnum sem vinna undir hennar stjórn þriggja milljón króna styrk til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini. Fjárins var aflað hjá einstaklingum og félögum. Styrkurinn var veittur í minningu einnar úr hópnum, sem lést áður en að göngunni kom. Er það áþreifanleg áminning um það að því miður tekst ekki enn að lækna allar konur sem greinast með brjóstakrabbamein.

Samtals hefur Göngum saman hópurinn þannig safnað kringum 5,5 m.kr. til rannsókna á brjóstakrabbameini. Það er einstaklega vel af verki staðið.


Áfengi og matvöruverslanir

Í gær var á Alþingi mælt fyrir frumvarpi sem gerir ráð fyrir að selja megi létt vín og bjór í matvöruverslunum. Liðlega fjórðungur þingmanna er öruggur í stuðningi sínum við málið því flutningsmenn eru samtals 17. Flutningsmenn eru því vongóðir um að nú náist þetta markmið loksins, en margbúið er að reyna að breyta þessum lagaákvæðum.

Röksemdir með þessari breytingu virðast helst tvær: Það sé óhæfa að þurfa að kaupa áfengi í búð sem rekin er af ríkinu og það sé svo þægilegt að geta gripið rauðvínið, hvítvínið eða bjórinn með sér um leið og mjólkin og brauðið, að ógleymdri steikinni, er keypt.

Þetta finnast mér slæm rök. Rannsóknir sýna að sala áfengis í matvörubúðum hefur í för með sér aukna neyslu af því að aðgengi verður auðveldara. Á þetta ekki síst við um unglinga og yngra fólk. Ég tel að vandi okkar Íslendinga af áfengisnotkun og áfengismisnotkun sé nægilegur þótt við tökum ekki ákvarðanir sem nánast öruggt er að auki á þann vanda.

Ef menn eru á móti því að ríkið selji áfengi þá er best að breyta því, afnema einokun ríkisins og opna fyrir það að einkaaðilar geti átt og rekið vínbúðir. Það þarf ekki í leiðinni að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum. Þetta eru tveir aðskildir hlutir sem engin ástæða er til að blanda saman. Ég tel að við eigum að halda okkur við það að selja áfengi í aðgreindum verslunum þannig að þeir sem vilja kaupa áfengi þurfi að fara í sérstaka vínbúð til þess. 

Ég tek heils hugar undir leiðara Morgunblaðsins í dag um þetta mál. Þetta frumvarp er engin ástæða til að samþykkja. Áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara. Hér er áfengisvandi sem ekki á að auka við með breytingum af þessu tagi.


Enn um OR og REI

Ég var í útlöndum þegar fréttir bárust frá Íslandi um það að borgarstjórnarmeirihlutinn væri fallinn. Ekki hafði það hvarflað að mér að málefni OR og REI, þótt alvarleg séu, myndu velta meirihlutanum. Enda séð fyrr í vikunni viðtöl við menn úr báðum flokkunum þar sem fullyrt var að meirihlutinn væri tryggur og traustur.

Eftir að ég kom heim hef ég verið að horfa á ýmislegt sem sýnt hefur verið í sjónvarpi eftir að meirihlutinn féll. Mest hissa var ég á að horfa á Kastljósið sl. fimmtudag þar sem fjórmenningarnir, forystumenn nýja meirihlutans, gátu ekki svarað því hvað myndi gerast í málefnum OR og REI annað en það að forystumaður VG í Reykjavíkurborg á að stýra vinnuhópi sem á að skoða málið.

Á föstudag var síðan í fréttunum á RÚV sýnt frá fundi Framsóknarflokksins í Reykjavík þar sem forystumaður þess flokks í borginni, lýsti því að Framsóknarflokkurinn hefði fyrr mátt standa í lappirnar í samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn. Einhvern veginn minnir mig að þessi sami maður hafi verið aðstoðarmaður fv. formanns Framsóknarflokksins, bæði meðan hann var utanríkisráðherra og forsætisráðherra. Með þessum orðum hlýtur aðstoðarmaðurinn fv. að vera að segja að ráðherrann sem hann aðstoðaði hafi aldrei hlustað á neitt sem hann ráðlagði honum. Hann hlýtur að hafa ráðlagt ráðherranum sínum að standa í lappirnar gegn Sjálfstæðisflokknum en hinn ekki viljað það. Eða eru þetta svona eftiráskýringar eins og svo margt sem virðist núna sagt í öllu þessu máli? Menn virðast á handahlaupum við að endurskrifa söguna og lýsa henni með einhverjum öðrum hætti en málin í raun gerðust.

Athyglisvert var hvernig fyrsti varamaður Framsóknarflokksins í borgarstjórn kynnti Alfreð Þorsteinsson sem fundarstjóra á þessum fundi. Hann sagði að AÞ hefði haft svo mikinn tíma eftir að heilbrigðisráðherra rak hann sem formann byggingarnefndar nýja Landspítalans að hann hafi getað: ,,Einbeitt sér að því að fella þennan meirihluta." Og AÞ tók við fundarstjórn með því að segja að það væri nokkuð til í þessu. Sem sé. AÞ hafði einbeittan vilja til að fella meirihlutann sem Framsóknarflokkurinn var partur af. Og vann ötullega að því - og náði þeim árangri sem raun ber vitni.

Einkaréttarsamningurinn milli OR og hins nýja REI, sem kynntur var í Morgunblaðinu í gær (laugardag) er með ólíkindum. Það liggur fyrir að hann lá fyrir á stjórnarfundi OR og á eigendafundinum þar sem öll þessi mál voru til afgreiðslu. Að vísu á ensku. Getur verið að þeir sem á fundinum voru og ákvarðanir tóku hafi ekki lesið samninginn? Eða lásu þeir hann en skildu hann ekki? Hvað meira lá fyrir á fundinum sem þeir lásu ekki, skildu ekki eða hvorutveggja, áður en ákvarðanir voru teknar?

Forystumaður Framsóknarflokksins hjá Reykjavíkurborg fullyrti á fundinum með samflokksmönnum sínum sl. föstudag að óefnisleg verðmæti OR hefðu aldrei fengist metinn á 10 milljarða ef óháður aðili hefði verið fenginn til að meta hlutinn. Þá hefði hluturinn verið metinn á 2-3 milljarða. Matið á hlut OR inn í samrunnann virðist þannig ofmetinn um umtalsverða fjármuni, eða allt að fimmfalt. Er leyfilegt að standa svona að mati á félögum sem eru að fara í samruna?

Ég held að allir séu hættir að botna nokkurn hlut í vinnubrögðunum í þessu máli. Og óskiljanlegast af öllu er það að nú vill forystumaður VG í Reykjavík "róa málið" meðan hún dundar sér við að stýra vinnuhópnum sem á að skoða það frá öllum endum og köntum. Og fullkomin óvissa ríkir um það hvernig þessu máli mun lykta. En þeir aðilar sem eiga gamla REI og Geysir Green og verða eigendur að nýja REI halda væntanlega á meðan að vinna eins og ekkert hafi í skorist.


Nýr vinkill

Frumkvæði Umba vegna REI málsins er athyglisvert. Spurningarnar sem hann setur fram (sjá hér) benda til þess að hann sjái að margvíslegir annmarkar kunni að vera á því hvernig staðið  var að málum. Spurningarnar eru hvassar og beinskeyttar og snúa m.a. að því af hverju einn nafngreindur einstaklingur fékk að kaupa hlutafé í gamla REI og hvaða hluti fékk hann að kaupa.  

Þá liggur fyrir að Héraðsdómur Reykjavíkur hefur samþykkt flýtimeðferð á dómsmáli því sem borgarfulltrúi VG hefur ákveðið að höfða vegna lögmætis eigendafundarins.

Þótt ýmislegt hafi skýrst í þessu máli á síðustu dögum, þá er ljóst að fjölmörgum spurningum er ennþá ósvarað.


mbl.is Umboðsmaður Alþingis óskar upplýsinga um REI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hetjur

Konurnar 22 sem fóru til New York fyrir helgi til að taka þátt í Avon göngunni, hafa náð takmarki sínu. Þær komu saman í mark í dag, sunnudag, og höfðu þar með allar sem ein lagt að baki 63 km eða eitt og hálft maraþon (sjá hér).

Fyrir nokkrum dögum bloggaði ég um þennan kraftmikla hóp kvenna, sem sumar þekkja af eigin raun baráttuna við brjóstakrabbamein. Þær ákváðu að leggja sitt af mörkum í þágu aukinna rannsókna á brjóstakrabbameini og orsökum þess með þátttöku í þessari göngu.  Þjálfarinn þeirra, Guðný Aradóttir, hefur á röskum mánuði klifið Kilimanjaro og nú gengið með hópnum eitt og hálft maraþon. Í millitíðinni hélt hún upp á 55 ára afmælið sitt. Ég á vart orð til að lýsa aðdáun minni á þessum frábæra hópi kvenna.

Ég óska hópnum innilega til hamingju. Þetta er ólýsanlega flottur árangur hjá þeim. Jafnframt treysti ég því að þær hafi frumkvæði að íslenskri Avon göngu sem allra fyrst, helst að ári. 


Spilin á borðið

Umfjöllun um sameiningu Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy í nýtt fyrirtæki, Reykjavík Energy Invest vekur óþægilega tilfinningu um að ekki sé allt á borðinu. Af hverju fengu tveir nafngreindir einstaklingar að kaupa í upphaflega Reykjavík Energy Invest og annar tryggði sér stjórnarformennsku í kjölfarið? Og keypti hann upphaflega á genginu 1 eða á hvaða gengi fékk hann að kaupa? Þetta gerðist í byrjun síðasta mánaðar (sjá hér).

Ef ég er að skilja rétt frétt Morgunblaðsins í dag þá fá sumir að kaupa í nýja félaginu á genginu 1,28 á meðan aðrir mega kaupa í því á genginu 2,77. Ef þetta er rétt þá er augljóst að þeir sem fá að kaupa á 1,28 eru að fá gefins talsverða peninga miðað við gengið sem hinir eru að kaupa á. Og þá auðvitað gef ég mér að fyrirtækið muni ganga vel og gengið á því hækka.

Ég hélt að tími ákvarðana af þessu tagi væri liðinn. Ég skil vel að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins sé ekki alveg sáttur. Ég tek undir með leiðarahöfundi Morgunblaðsins í dag. Það verður að leggja öll spilin á borðið í þessu máli.


mbl.is Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins á fund Geirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varasamur samanburður

Til að forðast allan misskilning þá vil ég byrja þetta blogg á því að segja að ég tel að þyngja megi dóma vegna kynferðisbrota og fullyrði að hægt og sígandi eru dómstólar að gera það, þótt mörgum finnist sú þróun gerast of hægt.

Ég leyfi mér þó að vara við því að bera saman þyngd dóma í fíkniefnamálum annars vegar og kynferðisbrotamálum hins vegar. Það er í raun eins og að bera saman epli og appelsínur. Fíkniefnabrot teljast brot gegn XVIII. kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um brot sem hafa í för með sér almannahættu. Einkenni þeirra brota er að fórnarlambahópurinn getur orðið mjög stór. Kynferðisbrot falla undir XXII. kafla almennra hegningarlaga.

Nær væri að bera saman þyngd dóma í kynferðisbrotamálum annars vegar og brotum skv. XXIII. kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um manndráp og líkamsmeiðingar. Með slíkum samanburði væri verið að bera saman refsingar við sambærilegri brotum. Ég hvet blaðamanninn til að taka saman slíkan samanburð. 


mbl.is Hæstiréttur nýtir ekki refsivaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setjum upp bleika slaufu

Þetta er skemmtilegt framtak hjá Hreyfli og til fyrirmyndar og eftirbreytni fyrir fleiri fyrirtæki.

Næsta fimmtudaginn fara 22 konur til New York til að ganga í Avon göngunni - styrktargöngu fyrir rannsóknir og meðferð á brjóstakrabbameini. Konunar munu á laugardag og sunnudag ganga samtals 63 km (eitt og hálft maraþon) um Manhattan. Í síðustu viku var frábær umfjöllun um hópinn, sem kallar sig ,,Göngum saman" í Kastljósi, sjá hér. Heimasíða hópsins er hér. 

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið hjá konum hér á landi. Eins og ,,Göngum saman" hópurinn bendir á þá eigum við flest ættingja, vinkonur eða þekkum til kvenna sem greinst hafa með brjóstakrabbamein, enda sýnir tölfræðin að tíunda hver kona fær brjóstakrabbamein. Sem betur fer eru lífslíkurnar mun betri nú en áður og því fyrr sem brjóstakrabbamein greinist, því meiri líkur eru á fullum bata. Þess vegna skiptir svo miklu máli að konur fari reglulega í skoðun. Mér fannst sláandi að heyra í viðtali við Guðrúnu Agnarsdóttur forstjóra Krabbameinsfélagsins í Kastljósinu í kvöld að einungis liðlega 60% kvenna á höfuðborgarsvæðinu sinna kalli um krabbameinsskoðun. Það finnast mér slæmar fréttir.

Fyrr í kvöld var Viðeyjarstofa böðuð bleiku ljósi og mun skarta þeim lit þennan mánuðinn til að minna á að október er sérstakur átakssmánuður vegna brjóstakrabbameins. Á heimasíðu Krabbameinsfélagsins er fjallað um þetta átak. Þar er líka þessi umhugsunarverða frásögn. Mátti til með að deila henni með ykkur. Vonandi verður hún einhverjum, sem ekki hefur sinnt kalli um krabbameinsskoðun hvatning til að drífa sig. Meira um brjóstakrabbamein má líka lesa hér.

Afraksturinn af sölu bleiku slaufunnar þetta árið verður notaður til að kaupa nýtt ómtæki fyrir Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Ómtækið verður notað til nánari greiningar eftir brjóstamyndatökur og við frumrannsókn á brjóstum hjá ungum konum með einkenni.

Félag kvenna í atvinnurekstri (FKA), hvatti félagskonur sínar til að sýna stuðning í verki og kaupa bleikar slaufur. Ég tók þeirri áskorun og keypti bleikar slaufur handa mínum samstarfsmönnum (gleymdi að vísu að dreifa þeim í dag, geri það á morgun). Ég hvet sem flesta að gera slíkt hið sama. Sýnum stuðning okkar í verki, eins og leigubílarnir.


mbl.is Leigubílar skipta út gula litnum fyrir bleikan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband