Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Gleðileg jól

Gleðileg jól góðir lesendur, nær og fjær.  

Ég hef alltaf vitað að jólin koma, hvort sem maður er "búin að öllu" eða ekki. Það upplifði ég vel þessi jól. Vegna flutninga hefur jólaundirbúningur hjá mér verið í algjöru lágmarki. Ég náði ekki einu sinni að senda jólakort og vona að allir sem hingað til hafa fengið frá mér jólakort afsaki mér það. En það tókst að flytja, hálfu ári seinna en upphaflega var áformað. Jólamaturinn var borinn fram heldur seinna en venjulega en rjúpan bragðaðist eins vel og alltaf.

Miðnæturmessan finnst mér ætíð hápunktur aðfangadagskvöldsins. Að þessu sinni fór ég í Dómkirkjuna. Þar var troðfullt eins og mun vera í flestum kirkjum bæjarins og raunar landsins, á þessum tíma. Biskup Íslands fjallaði um jólaguðspjallið út frá nýju sjónarhorni, a.m.k. fannst mér það. Hann beindi sjónum að Jósef og hlutverki hans. Biskup benti réttilega á að Jósef er hálfgerð skuggapersóna í jólaguðspjallinu - en auðvitað hefur hann haft mjög veigamiklu hlutverki að gegna. Hann var jú einn í fjárhúsinu með Maríu og þar með þurft að veita þá aðstoð sem fæðandi kona þarf á að halda.

Predikun biskups vakti mig til umhugsunar um feður almennt og þeirra hlutskipti, ekki síst um jól og áramót. Ég veit um alltof marga feður sem ekki fá að hitta börnin sín yfir jólahátíðina af engri ástæðu annarri en þeirri að barnsmæðurnar þurfa að halda áfram að refsa þeim fyrir meintar misgjörðir. Og gera það með beittasta vopninu sem til er, börnunum.

Rétt er að taka fram að ég þekki líka dæmi um mæður sem eru í sömu stöðu. Þau dæmi eru þó færri, einfaldlega af því að það er sjaldgæfara að börn hafi fasta búsetu hjá feðrum. En þessi dæmi hafa sýnt mér að karlar og konur virðast haga sér eins þegar að þessum málum kemur og bæði kynin skirrast ekki við að beita börnum sem vopni í áframhaldandi stríði við hitt foreldrið. Og enn og aftur vil ég taka fram að hér er ég að tala um tilefnislausar umgengnistálmanir. Ég er ekki að tala um tilvik þar sem full ástæða er til að stöðva umgengni, eins og stundum þarf því miður að gera. 

Ég vildi óska þess að einhver leið væri til til að opna augu foreldra, sem láta svona, fyrir því hvað þau eru að gera börnunum sínum illt með háttsemi af þessu tagi.


Brot á jafnræðisreglu?

Erfitt getur reynst að hrinda skilyrðum af þessu tagi í framkvæmd. Við setningu laga um tæknifrjóvgun var litið svo á að meðferðin væri við ófrjósemi. Það þýddi að sýna þurfti fram á ófrjósemi parsins sem undir aðgerðina gekkst. Þegar þannig er horft á meðferðina er auðveldara að setja frekari skilyrði, eins og t.d. skilyrði er snýr að þyngd.

En nú er farið að líta á aðgang að þessari meðferð sem ákveðin réttindi. Fyrsta skrefið í þá átt var stigið í fyrra þegar opnað var fyrir aðgang samkynhneigðra kvenpara að glasafrjóvgun. Með slíkri áherslubreytingu hlýtur að verða erfiðara að setja skilyrði af því tagi sem fréttin fjallar um vegna jafnræðisreglu. Rétt er að minna á að kröfur af svipuðu tagi voru gerðar vegna ættleiðingar. Kona, sem synjað hafði verið um leyfi til að ættleiða barn frá Kína, m.a. vegna holdafars, höfðaði mál til að fá þeirri synjun hnekkt. Hún vann málið fyrir héraðsdómi. Málinu var ekki áfrýjað.


mbl.is Feitar fá ekki tæknifrjóvgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvíðajól

Framundan eru jólin. Yndislegur tími fyrir okkur flest og tilhlökkunarefni. Það er því hræðilegt til þess að vita að stór hópur barna kviðir jólunum, af mismunandi ástæðum þó.

Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur ritaði athyglisverða grein í Morgunblaðið fyrir skömmu og sagði frá þeim hópi barna sem búa við að foreldrar, annað eða bæði, kunna ekki nægilega vel með áfengi að fara. Fyrir þessi börn eru jólin kvíðajól vegna óvissunnar um það í hvaða ástandi foreldrið verður. 

Síðan segist skólafólk verða vart við meiri kvíða hjá  hópi barna þegar desember nálgast. Af hverju? Jú, þá fara sum börn, sem eiga foreldra sem ekki búa saman, að kvíða deilunum milli foreldranna um það hvar þau eigi að vera á aðfangadag, jóladag, gamlársdag og nýársdag. Ég hef hitt foreldra sem segjast ekki geta hugsað sér að vera án barnanna sinna á aðfangadag - og virðast ekkert átta sig á því að í þeirri kröfu felst að hitt foreldrið á skilyrðislaust að vera án barnanna þennan helgasta dag ársins. Sem betur fer er fullt af foreldrum sem hugsar fyrst og fremst um hag barnanna sinna um jólin og nær góðu samkomulagi sem tryggir að börnin njóta sem best beggja fjölskyldna. En þeir eru allt of margir foreldrarnir sem láta jólaumgengni verða enn eitt bitbeinið milli sín

með þeim afleiðingum að það bitnar á börnunum, eins og allar deilur af þessu tagi.

Ekkert vín í matvörubúðir

Eru þessar tölur ekki skýr staðfesting á því að ef samþykkt verður að selja vín í matvöruverslunum munum við örugglega ná þeim löndum þar sem neysla áfengis er mest? Enda telja höfundar skýrslunnar að háir áfengisskattar og takmarkanir á sölu og dreifingu áfengis valdi því að við ásamt Svíum og Norðmönnum drekkum minna af áfengi en aðrar þjóðir sem skoðaðar voru í rannsókninni. Það er hins vegar ekki gott mál að aukningin á neyslu áfengins skuli hafa verið mest hjá okkur á þessu tímabili. Ekki síst í ljósi þess að í tveimur þriðju aðildarríkjanna dró úr áfengisneyslu. Gott hefði verið að vita hvort þessar þjóðir voru lægri en við í neyslu eða hærri.


mbl.is Áfengisdrykkja jókst mest á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott mál

Afnám skerðingar tryggingarbóta vegna tekna maka eru löngu tímabærar og sérstakt jafnréttismál. Fullorðnar konur munu sérstaklega njóta góðs af þessum breytingu því þær hafa margar þurft að þola skerðingu bóta úr almannatryggingum vegna lífeyrissjóðstekna eiginmanns. Þá skiptir miklu sú ákvörðun að afnema skerðingu lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignarsparnaðar. Þessi skerðing er ein ástæða þessara endalausu bakreikninga sem aldraðir og öryrkjar hafa verið að fá og enginn hefur skilið. En til viðbótar á að grípa til sérstakra aðgerða til að draga úr þessum of- og vangreiðslum tryggingabóta. Þessar aðgerðir eru því sérstakt fagnaðarefni.


mbl.is Tekjur maka skerði ekki bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blátt og bleikt eða?

Heilbrigðisráðherra hefur fengið fyrirspurn um það af hverju nýfæddir drengir eru klæddir í blátt og nýfæddar stúlkur í bleikt á opinberum fæðingarstofnunum (fyrirspurnin er hér).

Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður skrifar mjög góða grein um þessa fyrirspurn í Morgunblaðinu 2. desember sl. og segir í raun þar allt sem segja þarf um þessa fyrirspurn.

Mér til skemmtunar gúgglaði ég til að athuga hvers ég yrði vísari um þessa venju um val á fatalit fyrir nýbura. Það er ljóst að það er ekkert séríslenskt við þetta og fyrirbrigðið á sér langa forsögu. Það sem merkilegra er - fullyrt er að fram að síðari heimstyrjöld hafi þetta akkúrat verið öfugt, drengir í bleiku og stúlkur í bláu, hvort sem það er nú rétt eða ekki.

Hér kemur fram að skýringarinnar sé að leita til miðalda þegar því var trúað að blár væri verndandi litur. Drengi þurfti að vernda og þess vegna voru þeir klæddir bláu. Stúlkur máttu missa sín og þess vegna þurfti ekkert að vernda þær.

Aðra skýringu er að finna hér, ekki síður athyglisverða. Hér er vikið að þessari sömu rannsókn sem bendir til að á þessu séu líffræðilegar skýringar.

Mér finnst umræða af þessu tagi eiga heima í sömu skúffu og umræðan um að afnema ráðherraheitið og finna kynlaust nafn á það embætti. Mér finnst við ekki komin nægilega langt í jafnréttisbaráttunni til að eyða tímanum í þessar vangaveltur. Það eru mörg þarfari og brýnni mál á sviði jafnréttismála sem taka þarf á.


Athyglisverðar niðurstöður

Það athyglisverðasta við þessa könnun er að frá síðustu könnun fyrir tveimur árum hefur þeim fækkað um níu prósentustig þeim sem styðja sölu létts víns í matvörubúðum.  Mér finnst það vísbending um að margvísleg fræðsla um skaðsemi áfengis er að skila sér betur.

Aðrar niðurstöður er í samræmi við það sem áður hefur komið fram:

  • Karlar styðja fremur en konur sölu á léttu víni í matvörubúðum.
  • Því yngri sem þú ert þeim mun líklegri ertu til að styðja sölu á léttu víni í matvörubúðum.
  • Mjög fáir styðja sölu sterks víns í matvörubúðum.

En hvar á að selja sterka vínið ef tillögur þeirra sem vilja létta vínið í matvörubúðirnar ná fram að ganga? Það virðist stundum gleymast í þessari umræðu hvernig sölutölurnar yfir áfengi eru.

Tölulegar staðreyndir eru þær að á árinu 2006 seldust 18,4 m.lítra af áfengi hér á landi. Af þessum lítrum voru 14,4 m.lítrar af bjór, 3,3 m.lítra af léttu víni og 708 þús. lítrar af sterku víni (heimild sjá hér). Sterka vínið er þannig u.þ.b. 4% af heildarmagni þess áfengis sem selst á ári hverju. Auðvitað mun salan á léttu og sterku áfengi haldast í hendur. Sala á léttu víni og sterku verður ekkert skilin að og þessar sölutölur sýna það sennilega betur en nokkuð annað.

Mér er það ekki fast á hendi að ríkið haldi einokun sinni á sölu áfengis. En mér finnst það algert grundvallaratriði að áfram verði gerð sú krafa að áfengi, létt sem sterkt, verði selt í sérstökum vínbúðum.


mbl.is Þjóðin klofin í afstöðu til sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband