Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Málastapp

DV gerir mér þann heiður að skreyta forsíðuna með mynd af mér í tilefni af því að ég á í málarekstri við verktaka sem ég og sonur minn fengum til starfa fyrir okkur á síðasta ári.

Mörg slík mál eiga sér stað milli seljanda og neytanda.  Rót málsins felst í að verktakinn og undirverktakar á hans vegum kröfðu okkur um efniskostnað sem reyndist vera milljónum krónum hærri en efniskostnaðurinn sem þeir sjálfir greiddu. Til viðbótar tafðist verkið verulega með ærnum  viðbótarkostnaði auk þess sem upphafleg verðáætlun verktakans fór langt fram úr áætlun án þess að hann varaði okkur við á neinu stigi.  

Það er auðvitað ótrúleg tilviljun að vera á sama tíma í málaferlum við tvo gagnaðila, sem báðir heita Saga. Wink


Zontakonur senda Stígamót á staðinn

Helgina 8. og 9. mars sl. seldum við Zontakonur í stórmörkuðum gylltar rósarnælur til styrktar Stígamótum og systursamtökum þeirra á Ísafirði og Akureyri. Kringum 10 þús. nælur seldust og söfnuðust liðlega 9 m.kr. Í dag voru Stígamótum afhentar 7 m.kr. af söfnunarfénu . Til systursamtakanna á Akureyri runnu 1 m.kr. og 500 þús. kr. til Ísafjarðar. Afgangurinn mun renna til styrktarsjóðs alþjóðasamtaka Zonta.

Það var sérstaklega ánægjulegt að vera viðstödd afhendinguna, sem fram fór í húsakynnum Stígamóta að viðstöddum Zontakonum og starfsmönnum Stígamóta. Með þessu fjárframlagi munu Stígamót geta aðstoðað fórnarlömb kynferðisofbeldis á landsbyggðinni, en hingað til hefur slík þjónusta Stígamóta aðallega verið fyrir höfuðborgarsvæðið. 

Zonta er alþjóðleg samtök kvenna sem berjast fyrir bættum hag kvenna um allan heim, m.a. með því að berjast gegn ofbeldi á konum (sjá nánar hér). Hér á landi starfa sjö Zontaklúbbar og stóðu allir klúbbarnir að sölu gylltu nælunnar með þessum glæsilega árangri.


Ógnvekjandi

Það segir í fréttinni að múslimi hafi verið dæmdur til dauða og að maðurinn (væntanlega þessi sami múslimi, a.m.k. er ekki hægt að skilja fréttina öðru vísi) hafi einnig verið dæmdur í lífstíðarfangelsi. Ætli það þýði að hann eigi að vera í fangelsi þangað til dauðadómi verður framfylgt?

En fréttin er skelfileg og greinilegt að tjáningarfrelsi er ekki hátt skrifað þar sem þessi maður á heima.


mbl.is Dæmdur til dauða fyrir guðlast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annað kom í ljós

Það er sérkennilegt að lesa þessa frétt nú þegar fyrir liggur að það reyndist talsvert mál að svæfa ísbjörninn. Svo mjög að það varð að drepa hann. Þá kom í ljós að hann var kvenkyns, hungraður og sárfættur. Ekki karldýr, hraustlegt og vel mett eins og gengið var út frá.
mbl.is „Ætti ekki að vera neitt vandamál“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríman 2008

Það var vel við hæfi að Þuríður Pálsdóttir söngkona fengi heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands fyrir framúrskarandi ævistarf í þágu sönglistar á Íslandi. Umhugsunarefni eru orð hennar um þá erlendu tónlistarmenn sem hingað komu eftir síðustu heimstyrjöldina og lögðu með öðrum grunn að því blómlega tónlistarlífi sem hér er.

Mér þótti sérstaklega ánægjulegt að leiksýning ársins skyldi vera Hamskiptin. Það var besta leikritið sem ég sá í vetur. Áhrifamikil og vel leikin sýning. Brynhildur Guðjónsdóttir var stjarna kvöldsins með tvær Grímur. Glæsilegur árangur hjá henni. Gói og Jói voru óborganlegir og límdu dagskrána sérlega vel saman. Frábært kvöld og góð skemmtun. 


mbl.is Brynhildur leikkona og leikskáld ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hillary og bandarísku fjölmiðlarnir

Mér var bent á athyglisverða grein sem rekur hversu ótrúlega andsnúnir Hillary bandarísku fjölmiðlarnir hafa verið (hér). Í greininni kemur fram (og í henni eru raunar tenglar inn á fleiri greinar og brota úr sjónvarpsútsendingum) að ef svipuð ummæli og viðhöfð voru um Hillary hefðu verið viðhöfð um Obama þá hefði væntanlega allt orðið vitlaust því að í slíkum ummælunum hefði talist felast kynþáttahatur. Kvenfyrirlitning þykir hins vegar i lagi í bandarískum fjölmiðlum.  A.m.k. má ráða af umfjöllun að mönnum hafa þótt sniðug og skemmtileg niðrandi ummæli um Hillary þar sem fyrst og fremst var með niðrandi hætti vísað til kynferðis hennar.

Í umfjöllun fjölmiðla var iðulega vísað til Hillary sem "the bitch" sem seint verður talið lofsyrði um konur. M.a. mun McCain hafa verið spurður: "How do we beat the bitch?" og svaraði "Excellent question" án nokkurra athugasemda við orðfærið. Í umfjöllun um þessi ummæli er á það bent að varla hefði McCain athugasemdalaust svarað með sama hætti spurningunni: "How do we beat the black bastard?" (hér). Í sömu samantekt um kvenfjandsamleg ummæli um Hillary er sagt frá því að karlremba hafi á kosningafundi öskrað á hana: “Iron my shirt!” og fjölmiðlum þótti það frekar fyndið. Á það er bent að ef kynþáttahatari hefði hrópað: “Shine my shoes!” á Obama á kosningafundi þá hefðu fjölmiðlar örugglega varið fjölda klukkutíma og blaðsíðna í að greina hvað þjóðin ætti að skammast sín. Engum hefði fundist það fyndið.

Ég verð að segja eins og er. Ég er mjög hugsi eftir lestur þessara fréttaskýringa og eftir að hafa horft á myndbandið sem er í umfjölluninni. 


Dagprísar

Ég hef bloggað um það áður að mér er óskiljanlegt af hverju það eru dagprísar á eldsneytinu. Birgðirnar eru greinilega beintengdar við heimsmarkaðsverðið.

Og það þarf svo sannarlega að fylgjast með verðlaginu. Mogginn hefur verið með ágætar ábendingar, auratal, á baksíðunni um ótrúlegan verðmun á sömu vörunni. Sjálf er ég búin að reka mig á, með örfárra daga millibili, að merkt verð í hillu er allt annað en verðið á kassanum. Keypti gul epli í búð fyrir helgi og þá virtist sem kg-verðið væri á bilinu 189 - 229 kr. Þegar að kassanum kom reyndist kílóverðið vel yfir 300 kr. Sama gerðist í kvöld þegar ég keypti gul epli. Á hillunni stóð 269 kr. / kg en þegar að kassanum kom var verðið orðið 299 kr. Í báðum tilvikum gerði ég athugasemd og í báðum tilvikum var þetta leiðrétt. En ég velti fyrir mér hvað mikið er um rangmerkingar þannig að verð á hillu er lægra en á kassanum og hvað margt af þessu fer algerlega framhjá manni.


mbl.is Eldsneyti hækkar um 6-7 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var í Grímsnesinu

sl. sólarhring og fann vel skjálftann kringum kl. 22 í gærkvöldi og svo var raunar annar kringum 10 leytið í morgun, ekki eins snarpur. Maður veltir fyrir sér nákvæmninni í þessum spám Veðurstofunnar. Vonandi hafa þeir rangt fyrir sér með að líkur séu að aukast á öðrum stórum.
mbl.is Skjálftavirni að aukast á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Augljóst

Ég skil ekki af hverju þarf þriggja manna hóp í þessa leit. Hillary er svo augljós kostur í stöðunni.
mbl.is Obama leitar að varaforsetaefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver verður varaforsetaefni Obama?

Þá virðist niðurstaða komin í þetta kapphlaup Hillary og Obama. Minn kandidat ekki með þá niðurstöðu sem ég vonaði. Einhvern veginn hélt ég að Bandaríkin væru tilbúnari fyrir kvenforsetaefni en forsetaefni af afrískum uppruna. Annað virðist komið í ljós.

Það er hins vegar umhugsunarefni, ekki síst fyrir Obama og hans fylgismenn, að honum tókst ekki að vinna í neinu af stóru fylkjunum. Fram til þessa hefur engum frambjóðanda í forsetakosningum, sem ekki hefur unnið í einhverjum af stóru fylkjunum s.s. New York, Kaliforníu, Flórída og Texas, tekist að verða forseti Bandaríkjanna. Kannski væri klókast hjá Obama að fá Hillary til að vera varaforsetaefni hans. Ég held að saman yrðu þau fantasterk og líkleg til sigurs. Í morgunfréttunum kom í ljós að heildarfjöldi atkvæða sem þau hafa hlotið í þessum forkosningum er nánast hinn sami, kringum 18 milljónir atkvæða hvort. Af fréttum nú virðist sem Hillary sé tilbúin til að taka varaforsetastólinn.

Á síðustu dögum hef ég hitt nokkra Bandaríkjamenn og auðvitað hafa forsetakosningarnar í haust borið á góma. Ekkert þeirra má til þess hugsa að McCain vinni þótt öllum beri þeim saman um að hann yrði þó verulega skárri en Bush. Það virtist vera samhljóma álit þessara Bandaríkjamanna að stjórnartíð Bush hefði verið slæm og hefði valdið Bandaríkjunum engu nema skaða. 

En öll höfðu þau áhyggjur af reynsluleysi Obama, ekki síst í utanríkismálum, og þeirri staðreynd að þeir sem ekki styðja hann eru ragir við að segja frá því, m.a. af ótta við að fá á sig ásakanir um kynþáttafordóma. Andstæðingar Hillary hika á hinn bóginn ekki við að láta þá andstöðu í ljósi. Stuðning við Hillary er því auðveldara að meta með öryggi en stuðning við Obama.

Þetta heldur áfram að vera spennandi þótt að mínu mati sé það ekki rétti kandídatinn sem virðist verða í aðalsætinu hjá demókrötum.


mbl.is Óskaði Obama til hamingju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband