Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Og hverjum skulda stjórnmálaflokkarnir?

Nýjar upplýsingar um fjárstyrki til Samfylkingarfélaga vekja athygli því tengdir aðilar hafa styrkt flokkinn um umtalsverðar fjárhæðir.

Enn vantar að Samfylkingin og aðrir stjórnmálaflokkar upplýsi hverjum þeir skulda. Fyrir kosningar kom fram að Samfylkingin skuldaði í árslok 2007 127 mk.kr. Framsóknarflokkurinn skuldaði 154 m.kr.,  VG 91 m.kr. og Sjálfstæðisflokkurinn 76 m.kr. 

Mikið var þá talað um nauðsyn þess að upplýsa hverjir ættu þessar kröfur á flokkana. Um það hefur síðan ekkert verið upplýst. Hvernig væri að flokkarnir tækju nú höndum saman og skýrðu frá því?


mbl.is Ekki tilefni til endurgreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjaldborgin?

Loforð ríkisstjórnarinnar um að slá skjaldborg um hag heimila er löngu farið að hljóma eins og verstu öfugmæli. Fátt ef nokkuð af því sem gert hefur verið er stuðningur af því tagi. Þvert á móti hefur vandi fjölskyldna verið aukinn og hann á enn eftir að aukast. Ég hef bloggað áður um - og ítreka enn nú - af hverju voru þessir liðir ekki teknir útúr vísitölunni áður en efnt var til þessara hækkana? Við höfum flest skilning á því að stoppa þarf í gatið stóra hjá ríkissjóði. En við höfum minni, ef nokkurn skilning á því að það þurfi að gera það með þeim hætti að allir sem skulda verðtryggð lán verða næstu áratugina að súpa seiðið af þeim saumaskap.
mbl.is Ný gjöld hækka tíu milljóna króna lán um 50 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjaldborgin, hvar er hún?

Ég bloggaði fyrr í dag um að kannski hefði átt að taka þessa liði útúr neysluvísitölunni. Eftir að lesa um það hvað þessi hækkun kostar fjölskyldur og fyrirtæki í hækkun lána verður að spyrja: Af hverju var ekki samhliða ákveðið að taka þessa liði úr neysluvísitölunni? Eiga fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu það skilið frá ríkisstjórninni að svona sé komið fram við þau -ofan á allt annað sem yfir þau er látið dynja? Skjaldborgin? Það er ekki furða þó enginn tali um hana lengur. Enda virðist hún aldrei hafa verið annað en lélegur brandari af hálfu ríkisstjórnarinnar.
mbl.is Ríkið fær 2,7 milljarða - lánin hækka um 8 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var á það bætandi?

Með hækkun á neysluvísitölu munu allar vísitölutryggðar skuldir heimilanna í landinu hækka. Var þó varla á það bætandi. Þær hafa hækkað verulega síðustu 18 mánuði fyrst vegna gengisþróunar og síðan enn frekar eftir hrunið. Hugsanlega mun þurfa að grípa til frekari hækkana á bensíni, olíu, áfengi og tóbaki vegna slæmrar skuldastöðu ríkissjóðs. Verðtryggðar skuldir fjölskyldna og fyrirtækja hafa hækkað svo mjög á liðnum misserum að allir eru undan þeim að kikna. Væri ráð að taka þessa liði úr neysluvísitölunni?
mbl.is Álögur á eldsneyti og áfengi hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kastljós sýknað en ...

Það er vissulega rétt að Kastljós var sýknað af miskabótakröfu. En í forsendum dóms Hæstaréttar eru gerðar svo alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð Kastljóss í málinu að stjórnendur Kastljóss og RÚV hljóta að vera hugsi.

Í forsendum sínum staðfestir Hæstiréttur meira og minna allar þær athugasemdir sem áfrýjendur gerðu í sínum málatilbúnaði við fréttaflutninginn, hversu misvísandi hann var og á stundum beinlínis rangur. 

Þannig segir í dómi Hæstaréttar um umfjöllun Helga Seljan um málið í Kastljósi 26. apríl 2008:

... Umfjöllun um hvernig menn fá íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt reglum laga nr. 100/1952 um það efni, eins og þeim var þá skipað, og hvaða munur var á þeim þremur meginleiðum sem til greina komu til þess að menn fengju íslenskan ríkisborgararétt var ófullnægjandi. Ekki var gerð grein fyrir þeim skýra mun sem var á veitingu dómsmálaráðherra á ríkisborgararétti með stjórnvaldsákvörðun á grundvelli lögbundinna skilyrða, sbr. 5. gr. a í lögunum og á því hvernig Alþingi veitir íslenskan ríkisborgararétt með lögum, sem eðli málsins samkvæmt er ekki reist á því að fullnægt sé lögbundnum skilyrðum, en háð umsögn lögreglustjóra og Útlendingastofnunar, sbr. 6. gr. laganna. Þá var í greinargerð stefnda Helga Seljan fjöldi rangra og misvísandi fullyrðinga, auk ónákvæmni. Rangt var farið með grundvöll dvalarleyfis áfrýjandans Luciu, fjölda þeirra sem sóttu um íslenskan ríkisborgararétt til Alþingis á vorþingi 2007 og fjölda þeirra sem fengu ríkisborgararétt. Þá voru rangar fullyrðingar um mismunandi aðstæður umsækjenda um ríkisborgararétt sem afgreiddur var samtímis umsókn áfrýjandans og um afstöðu Útlendingastofnunar til umsóknar hennar. Sumar fullyrðingarnar lutu að atriðum sem skiptu verulegu máli fyrir almenning til þess að geta lagt mat á málefnið í heild sinni og tekið afstöðu til þess, hvort valdi hefði verið misbeitt. (Leturbreytingar DP.)

Um kynningu Þórhalls Gunnarssonar 27. apríl 2008 segir Hæstiréttur:

... Í kynningu stefnda Þórhalls komu fram ýmsar rangfærslur, svo sem að Útlendingastofnun hefði hafnað umsókn áfrýjandans Luciu um íslenskan ríkisborgararétt og um dvalartíma hennar í landinu. Villandi upplýsingar komu að auki fram í kynningunni, svo sem að allsherjarnefnd Alþingis hefði ákveðið að veita henni íslenskan ríkisborgararétt. (Leturbreytingar DP.)

Um kynningu Þórhalls Gunnarssonar og umfjöllun Sigmars Guðmundssonar 30. apríl 2008 segir Hæstiréttur:

... Þar flutti stefndi Þórhallur kynningu í upphafi, þar sem enn var farið rangt með ýmsar staðreyndir, til dæmis um lengd dvalartíma áfrýjandans Luciu í landinu, þótt leitast hefði verið við að leiðrétta það af hálfu þáverandi umhverfisráðherra og annarra. Meginefni umfjöllunarinnar þetta sinn var greinargerð stefnda Sigmars um skilyrði fyrir veitingu íslensks ríkisborgararéttar og um umsókn áfrýjandans Luciu og efni hennar. Greinargerð þessi um skilyrði fyrir veitingu íslensks ríkisborgararéttar var bæði röng og ónákvæm í ýmsum atriðum og veitti ekki skýra mynd af því hvernig reglum um efnið var skipað. Enn var farið rangt með dvalartíma áfrýjandans Luciu í landinu og umfjöllunin um skilyrði þess hve dvalartími þyrfti að vera langur til að fallist væri á umsókn var villandi. (Leturbreytingar DP.)

Um kynningu Þórhalls Gunnarssonar og viðtal Jóhönnu Vilhjálmsdóttur í Kastljósi 2. maí 2008 segir Hæstiréttur:

... Í kynningu stefnda Þórhalls var enn farið rangt með nokkrar staðreyndir, svo sem um dvalartíma áfrýjandans Luciu í landinu, lengd afgreiðslutíma umsóknar hennar og fjallað með villandi hætti um lengd afgreiðslutíma umsókna, annars vegar hjá dómsmálaráðuneyti þegar sótt er um ríkisborgararétt á grundvelli 5. gr. laga nr. 100/1952 og hins vegar þegar sótt er um til Alþingis samkvæmt 6. gr. laganna. Meginefni þáttarins var viðtal stefndu Jóhönnu við Bjarna Benediktsson, þáverandi formann allsherjarnefndar Alþingis. Spurningar þessarar stefndu í þættinum voru um sumt reistar á röngum staðhæfingum, svo sem um atriði sem misfarið var með í kynningu og gerð hefur verið grein fyrir. (Leturbreytingar DP.)

Bætur voru aldrei meginatriðið í málatilbúnaði áfrýjenda heldur það að staðfest yrði að Kastljós hefði ekki virt þær reglur sem fara ber eftir í opinberri umfjöllun. Hæstiréttur dregur rökstuðning sinn saman með eftirfarandi hætti:

Umfjöllun stefndu um málið í Kastljósi og viðleitni þeirra til að sýna fram á að meðferð og afgreiðsla umsóknar áfrýjandans Luciu í stjórnsýslunni og hjá allsherjarnefnd Alþingis hefði verið óeðlileg, bar ofurliði vilja þeirra til að fara rétt með staðreyndir og til að leiðrétta rangfærslur og gera viðhlítandi grein fyrir lagagrundvelli málsins. (Leturbreytingar DP.)

Sem lögmaður áfrýjenda tel ég að með röksemdum sínum hafi Hæstiréttur staðfest með áberandi hætti slæleg vinnubrögð Kastljóss, þótt ekki væri fallist á að fyrir hendi væru skilyrði bótaréttar.


mbl.is Kastljós sýknað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er viðskiptaráðherra ekki í ríkisstjórninni?

Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins eru að ræða fastgengisstefnu sem lausn við vanda fjölskyldna og fyrirtækja. Það skýtur því skökku við að viðskiptaráðherra skuli stíga fram og segja lausnina ekki nothæfa núna, kannski seinna. Veit viðskiptaráðherra ekki af viðræðum stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins. Er ekkert að marka það sem verið er að ræða í þessum viðræðum? Hversu langt fram í framtíðina telur viðskiptaráðherra að hægt sé að skjóta öllum aðgerðum?
mbl.is Fastgengisstefna ekki raunhæf nú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misnotkun

Öll misnotkun á stuðningskerfum er slæm. Hún grefur undan þeim sem raunverulega þurfa á stuðningi kerfanna að halda. Þess vegna er það gott að Vinnumálastofnun er með virkum hætti að hafa eftirlit með því hvort einstaklingar sem þiggja atvinnuleysisbætur séu samt að vinna.

Í fréttinni kemur fram að viðkomandi einstaklingar hafi umsvifalaust verið sviptir bótum, sem er svo sjálfsagt að vart þarf að tiltaka það sem viðbrögð. Skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar getur sá sem aflar sér eða reynir að afla sér atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum með svikum misst rétt sinn til atvinnuleysisbóta í allt að tvö ár og sætt sektum. Maður verður að treysta því að Vinnumálastofnun sjái til þess að brugðist sé af fullri hörku við allri misnotkun þannig að réttindamissi varði og sektum. Öðru vísi spornum við ekki við misnotkun af þessu tagi.


mbl.is „Atvinnulausir“ í fullri vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerir Samfylkingin?

Það verður spennandi að sjá hvað Samfylkingin gerir í EB-málum. Fyrir liggur að ekki er þingmeirihluti fyrir þeirri tillögu sem utanríkisráðherra hefur lagt fram. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur virðast vera að taka höndum saman um þingsályktunartillögu sem hefur að markmiði að hefja aðildarviðræður og láta svo þjóðaratkvæði ráða niðurstöðu um inngöngu. Samfylkingin hefur sett aðildarviðræður sem algjört forgangsmál. Mun Samfylkingin þá styðja þingsályktunartillögu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks? Öðru vísi er henni ómögulegt að ná þessu aðalmáli sínu fram.
mbl.is Utanríkismálanefnd í lykilhlutverki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjúpur valdsins

Ég veit ekki hvort "umskiptingar" sé alveg rétta orðið til að nota yfir þingmenn VG. En ég get sagt að það var merkilegt að upplifa það í apríl sl., þegar ég sat inni sem varamaður síðustu þrjár vikurnar fyrir þinglok, að sjá breytinguna sem orðið hafði á þingmönnum VG frá haustinu 2007 og vorinu 2008 þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Breytingin var algjör og ég held að hún hafi ekki farið framhjá neinum. Breytingin var svo áþreifanleg. Hjúpur valdsins hafði hvolfst yfir þingmenn VG. Þeir gengu um þinghúsið af allt öðru og meira öryggi en áður. Í ræðustól höfðu þeir ekki lengur allt á hornum sér. Þvert á móti. Og ræðukóngar þeirra frá fyrri tíð töluðu hátt um málefnastnautt málþóf stjórnarandstöðunnar. Þetta var merkilegt að upplifa.


mbl.is Umskiptingar á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sofandi ríkisstjórn

Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar verður æ háværara. Nóg voru þær þó hástemmdar yfirlýsingarnar 1. febrúar sl. Nú áttu hlutirnir að fara að gerast. En annað er komið á daginn. Hægagangurinn hefur, ef eitthvað, aukist. Af fréttinni má ráða að stjórnvöld veigra sér við að taka stjórn á verkum þar sem margir koma að, með þeim afleiðingum að ekkert gerist. Aðkeyptir erlendir ráðgjafar eins og Mats Josefsson eru greinilega orðnir svo óánægðir með gang mála að þeir hóta afsögn. Þarf frekari vitnanna við? Á meðan gerist ekkert, vandi fjölskyldna og fyrirtækja eykst. En ríkisstjórninni virðist alveg sama.


mbl.is Tafir á uppskiptingu milli nýju og gömlu valda titringi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband