Leita í fréttum mbl.is

Athyglisverð yfirlýsing

Þessi yfirlýsing fv. formanns Samfylkingarinnar er athyglisverð. Þýðir yfirlýsingin að fv. formaður vissi ekki af þessum styrkjum. Er þó sagt að hjá Samfylkingunni, Framsóknarflokki og Framsóknarflokki hafi það tíðkast að formenn flokkanna sjálfir verið í því að óska eftir styrkjum frá fyrirtækjum.

Fréttir af miklum skuldum allra stjórnmálaflokkanna kalla á það að flokkarnir birti lista yfir þá aðila sem þeir skulda þessa fjármuni. Fjárstyrkir til stjórnmálaflokka segja ekki nema hálfa söguna. Það er kallað eftir að spil séu lögð á borðið um allt er snertir fjármál stjórnmálaflokkanna.  Nöfn þeirra sem eiga milljónakröfur á stjórnmálaflokkana eru hluti þess sem þarf að upplýsa.


mbl.is Ingibjörg: Styrkir til flokksins óeðlilegir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilega páska

Páskarnir eru aðalhátíð okkar kristinna manna. Við fögnum upprisunni, kjarna kristinnar trúar. Páskasálmurinn ,,Dauðinn dó, en lífið lifir, lífs og friðar sólin skær" hljómaði fallega í morgun í páskamessunni í Dómkirkjunni. Þar var einnig frumfluttur látlaus en innihaldsríkur páskasálmur eftir sænska skáldkonu, Ylvu Eggerhorn, sem dr. Sigurbjörn Einarsson biskup þýddi skömmu fyrir andlát sitt. Þessi sálmur á örugglega eftir að festa sig í sessi meðal páskasálma okkar.

Biskup sagði m.a. í predikun sinni (sem lesa má í heild hér):

Okkur hefur verið kennt að efast í nafni þekkingar, skynsemi og vísinda okkar tíma um flest það sem lýtur að vitnisburði guðspjalla og kristni. Bara að við hefðum verið efagjarnari andspænis ýmsum þeim kreddum sem haldið var að okkur í efnahags og fjármálum undanfarinna ára! Nei, þar var gagnrýnislaus trúgirnin og sefjunin knúin áfram af afli og glysi auglýsinganna.

Mikill sannleikur í þessum orðum.


mbl.is Nýr páskasálmur frumfluttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt

Árangur laganemanna úr HR í þessari alþjóðlegu málflutningskeppni er glæsilegur, ekki síst í ljósi þess að lagadeildin í HR er varla búin að slíta barnsskónum. Ég er stolt af nemendum lagadeildarinnar sem náðu þessum framúrskarandi árangri. Fyrir þá er árangurinn ánægjuleg uppskera þrotlausrar vinnu, vinnu sem þau munu búa að um langa framtíð í störfum sínum sem lögfræðingar.

Kannski eru lagadeildir í landinu nú orðnar of margar - lögfræði er kennd við HÍ, HR, Bifröst og HA. En það var án efa gæfuspor fyrir laganám í landinu þegar lagakennsla hófst í öðrum háskólum. Með því fékk elsta lagadeild landsins, lagadeild HÍ, sem fagnaði 100 ára afmæli sl. haust, öfluga samkeppni, sem hefur skilað betra laganámi alls staðar. Afraksturinn verður betur menntaðir lögfræðingar. Þeirra er alltaf þörf.


mbl.is Góður árangur í málflutningskeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samþykki?

Af hverju þarf að leita samþykkis fyrir því að birta þessar upplýsingar? Þó að lagaumhverfið hafi verið annað á þessum tíma? Skammast þessir lögaðilar sín fyrir að hafa styrkt Framsóknarflokkinn og vilja ekki gangast við því? Hvað ætlar Framsóknarflokkurinn að gera ef einhver neitar að samþykkja nafnbirtingu?

Bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking eru búin að birta lista yfir lögaðila sem styrktu þá árið 2006. Af fréttum frá VG má ráða að þar á bæ hefur aldrei verið neinn aðgangur að lögaðilum til að biðja um styrki. Framsóknarflokkurinn einn dregur lappirnar. Þetta hlýtur að verða spennandi listi þegar hann verður loksins birtur.

Allur þessi vandræðagangur sýnir hversu tímabært það var að setja löggjöf um fjármál stjórnmálaflokka þegar það loksins tókst árið 2006.


mbl.is Framsókn leitar samþykkis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falleg lög

Til að lyfta upp andanum - og dreifa huganum - hlustaði ég á nokkra Passíusálma seinnipartinn í dag í Hallgrímskirkju. Lög Jóns Ásgeirssonar, sem nú var verið að frumflytja, eru falleg og einhvern veginn passa þau svo undurvel við sálmana, a.m.k. þau sem ég heyrði.

Í mörg ár fór ég alltaf að hlusta á þennan lestur - en svo lagðist það af, þangað til nú. Þetta var góð friðarstund í Hallgrímskirkju og ég læt örugglega ekki líða svona langt á milli aftur.


mbl.is Passíusálmar lesnir í kirkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að endurheimta traust

Eftir þann álitshnekki sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur beðið vegna móttöku ofurstyrkja korteri áður en löggjöf um fjármál stjórnmálaflokka tók gildi þarf flokkurinn að gera allt sem hægt er til að endurheimta traust kjósenda. 

Það verður erfitt en það á að vera hægt. En þá þarf að standa þannig að málum að kjósendur trúi því að flokkurinn hafi lagt öll spilin á borðið og ekkert dregið undan.

Enn er of mikill vandræðagangur á málinu af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Þeim vandræðagangi þarf að linna. Það þarf að upplýsa alla atburðarásina vegna þessara ofurstyrkja. Í því felst að upplýsa þarf:

  • Hverjir ákváðu að óska ætti eftir þessum styrkjum.
  • Hverjir vissu um þá ákvörðun.
  • Hverjir óskuðu eftir styrkjunum í nafni Sjálfstæðisflokksins.
  • Við hvaða einstaklinga var talað hjá þeim fyrirtækjunum sem styrkina veittu.
  • Hverjir vissu um móttöku flokksins á þessum styrkjum.

Þegar þessi atburðarás liggur skýr fyrir mun unnt að meta hvort einhverjir þurfa að axla ábyrgð vegna málsins.


mbl.is Ekki kjörnir fulltrúar flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur þetta orðið mikið verra?

Mér varð illa við þegar ég las þessa frétt á visir.is í gærkvöldi. Hún var m.a. ástæða þess að ég lauk bloggi mínu þá með þeim orðum sem ég gerði. Ég hnaut sérstaklega um eina setningu í viðtalinu, setninguna þar sem fram kemur þingmaðurinn man ekki hvort hann hafi heyrt af styrknum deginum áður eða einhverjum dögum fyrr. Það er ótrúlverðug setning frá manni sem ekkert vissi um málið. 

Mér er óskiljanlegt, ef málum er háttað eins og fréttin bendir til, af hverju fv. formaður tók einn á sig alla sök. Halda menn að sannleikurinn, hversu ógeðfelldur sem hann er, rati ekki fram í dagsljósið á endanum?

Þessi frétt bendir til að í gær hafi einhverjum þáttum þessa máls verið sópað undir teppið, væntanlega í trausti þess að hrúgan sæist ekki. Það var barnaskapur að halda að það myndi takast. 

Forysta Sjálfstæðisflokksins verður án frekari málalenginga að leggja öll spilin á borðið vegna þessa máls. Jafnvel þó það kosti að fleiri þurfi að axla ábyrgð á málinu. Jafnvel þó það kosti að einhverjir þurfi að taka pokann sinn og hverfa af vettvangi.


mbl.is Guðlaugur Þór hafði forgöngu um styrkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarlegt áfall

Frétt um 30 m.kr. fjárstyrk til Sjálfstæðisflokksins frá einum lögaðila er slæm frétt fyrir flokkinn, skelfileg frétt.  Enn verra er að í dag kom fram að á sama tíma tók flokkurinn við 25 m.kr. fjárstyrk frá öðrum lögaðila. Jafnframt hefur komið fram að meginreglan var sú að taka ekki við hærri fjárstyrk en 3 m.kr. frá hverjum lögaðila. Af óskýrðum ástæðum vék flokkurinn öllum meginreglum sínum til hliðar vegna þessara tveggja fjárstyrkja, í aðdraganda lagasetningar um fjármál stjórnmálaflokkanna.

Nýkjörinn formaður hefur tilkynnt að styrkirnir verði endurgreiddir. Það er hárrétt ákvörðun og eina ákvörðunin sem hægt var að taka. Nýkjörinn formaður hefur sömuleiðis upplýst að flokkurinn muni gefa upplýsingar um alla móttekna styrki, yfir 1 m.kr., á árinu 2006. Það er líka hárrétt ákvörðun. Skiptir engu þótt þeir aðilar sem þar eiga hlut af máli hafi gefið styrkina í trausti nafnleyndar. Hún verður að víkja við kringumstæður sem þessar. Það hljóta gefendurnir að skilja.

Þetta mál er alvarlegt áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það er ekkert hægt að segja það öðru vísi. Flokkurinn stóð höllum fæti ef marka má skoðanakannanir. Þessar fréttir bæta síst þá stöðu.  Frambjóðendur flokksins hafa verk að vinna á þeim rösku tveimur vikum sem eru fram að kosningum. Þeir þurfa að ganga hreint til verks eigi að takast að endurvinna það traust sem glatast hefur vegna þessara frétta. Vonandi er allt komið upp á borðið núna.


mbl.is Skilað til lögaðila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hænuskrefin

Það væri synd að segja að peningastefnunefndin taki stórstígar ákvarðanir í vaxtalækkunum. Það var 1% fyrir skömmu. Nú er það 1,5% og næsta ákvörðun boðuð 8. maí í staðinn fyrir í júní. Hvað þarf til að þetta gerist hraðar?
mbl.is Stýrivextir lækkaðir í 15,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málþóf?

Síðustu daga hefur frumvarp til stjórnskipunarlaga verið til umræðu á Alþingi. Umfjöllun okkar um frumvarpið er af þingmönnum minnihlutastjórnarinnar og stuðningsmanna hennar kölluð málþóf. Því mótmælum við algerlega enda liggur fyrir að þótt hávært sé talað um að þjóðin styðji margt sem þar er þá benda umsagnir til annars. Fjölmargir lögfræðingar hafa einnig varað alvarlega við umróti á stjórnskipan landsins á óvissutímum eins og þeim sem við nú lifum á.

Með stjórnlagafrumvarpinu er í fyrsta sinn í hálfa öld reynt að knýja fram stjórnlagabreytingu áns þverpólitískrar samstöðu á þingi. Það eitt og sér er alvarlegt. Sambærilegt var reynt 2007. Ég hef bloggað ýmis ummæli VG og Samfylkingarmanna frá þeim tíma. Allt saman hárrétt ummæli enda bar ríkisstjórnin þá gæfu til að hlusta á andmælin og hætta við. 

Því miður virðist ríkisstjórninni sem nú situr fyrirmunað að hlusta. Stjórnlagabreytingin skal í gegn, hvað sem tautar og raular.

Vegna fullyrðinga um málþóf er rétt að halda til haga eftirfarandi tölfræði:

Núverandi stjórnarmeirihluti talaði um frumvarp um Ríkisútvarpið:
131. löggjafarþing: 6 klukkustundir og 53 mínútur
132. löggjafarþing: 43 klukkustundir og 8 mínútur
133. löggjafarþing: 69 klukkustundir og 55 mínútur

Alls eru þetta 119 klukkustundir og 46 mínútur.

Núverandi stjórnarmeirihluti talaði um fjölmiðlafrumvarpið:
130. löggjafarþing (mál nr. 974): 82 klukkustundir og 14 mínútur
130. löggjafarþing (mál nr. 1011) : 10 klukkustundir og 45 mínútur

Alls eru þetta 92 klukkustundir og 59 mínútur.

Núverandi stjórnarmeirihluti talaði um EES-samninginn:
116. löggjafarþing: 100 klst. og 37mín.

Núverandi stjórnarmeirihluti talaði um vatnalögin:
132. löggjafarþing: 51 klukkustundir og 41 mínútur.

Enn sem komið er vantar þónokkuð upp á að ræður okkar í tengslum við stjórnarskrármálið nái upp í þann ræðutíma sem fór í þessi mál.

Hvernig sem breytingu að stjórnarskránni ber að þá hlýtur það að vera skylda þingmanna að breytingarnar fái vandaða umfjöllun. Þegar reynt er að knýja fram breytingar á stjórnarskránni með þeim hætti sem stjórnarsinnar reyna er enn mikilvægara að standa vaktina. 


Slæmt er, ef satt er ...

Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins hlýtur að tjá sig nánar um þetta, jafnvel þótt lög um fjárreiður stjórnmálaflokkana hafi ekki verið gengin í gildi á þessum tíma.

Nýlega birtust upplýsingar um styrki félaga til stjórnmálaflokkanna árið 2007 á grundvelli nýrrar löggjafar. Samanburður milli stjórnmálaflokka leiðir í ljós að flest stórfyrirtæki styrkja samtímis flesta ef ekki alla stjórnmálaflokkana. Nánari skoðun ársreikninga flokkanna 2007 sýnir að Framsóknarflokkurinn, íslandshreyfingin, Samfylkingin og VG fengu 300.000 kr. styrk frá FL Group árið 2007. Sjálfstæðisflokkurinn og Frjálslyndir fengu ekki fjárstyrk frá FL Group 2007. Þetta kemur fram í frétt sem ég bloggaði við hér.

Tímasetning þessara "upplýsinga" er engin tilviljun. "Upplýsingunum" er komið á framfæri til að koma hámarkshöggi á Sjálfstæðisflokkinn enda sýna blogg við fréttina að bloggarar eru, að vonum og með réttu, undrandi og hneykslaðir. Það er ég líka.


mbl.is 30 milljóna styrkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert annað grín

Af hverju gefa hluthafar Exista þessu félagi BBR ehf. ekki bara hluti sína? 2 aurar fyrir hlutinn, sem margir hafa keypt á útboðsgenginu sem var liðlega 20, sumir á ennþá hærra verði, er eins og hver annar brandari. Það getur ekki svarað kostnaði að millifæra þessa aura til þeirra hluthafa sem verið er að leysa út.

Upphaflega ætlaði BBR ehf. að borga 4,62 kr. á hlutinn. En FME féllst á umsókn þeirra um að lækka greiðsluna niður í 2 aura. Samkvæmt heimasíðu Kauphallarinnar fóru þó síðustu viðskipti fram á 4 aurum, tvöfalt hærra verði en FME telur eðlilegt að hluthafar verði leystir út á.

Á heimasíðu Exista hf., sem hluthafar eiga að fá heila 2 aura fyrir hvern hlut, segir þetta um starfssvið og eignir Exista: 

Exista starfar á sviði trygginga, eignaleigu og fjárfestinga. Exista á að fullu tvö tryggingafélög, VÍS og Lífís, og eignaleigufyrirtækið Lýsingu. Exista á einnig 100% hlut í Skiptum, móðurfélagi Símans. Félagið á einnig hluti í nokkrum öðrum fyrirtækjum, meðal annars um helmingshlut í Öryggismiðstöðinni.

Má af þessu ráða að VÍS, Lífís, Lýsing og Skipti, móðurfélag Símans, séu nánast verðlaus félög? Ef þessar eignir eru verðlausar af hverju er aðaleigendum Exista hf. svona mikið í mun að eignast sjálfir félagið? Ég er alveg viss um að flestir þeir hluthafar sem eiga þess kost að fá 2 aura fyrir hlutinn væru alveg til í að gefa félaginu tækifæri og sjá hvort það rofi eitthvað til hjá því í framtíðinni. Hverju er að tapa hvort sem er fyrir þá? Er ekki allt að vinna fyrir hluthafana? En það er greinilegt að aðaleigendurnir vilja komast yfir félagið á hrakvirði og njóta sjálfir ávaxtanna, ef einhverjir verða.


mbl.is Exista selt á 0,02 krónur hluturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (31.8.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 392708

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband