Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Sprengidagur

Það er greinilegt að það verður mjótt á mununum milli Clinton og Obama í forkosningunum. Slagurinn um kjörmennina er svo jafn að nú er því haldið fram af stjórnmálaskýrendum að úrslitin muni ekki ráðast 5. febrúar nk. (sem er sprengidagur á okkar tímatali), sem kallaður er Super-Tuesday í Bandaríkjunum. Þá verða forkosningar í á þriðja tug fylkja. Oftast hefur verið skýrt eftir þann dag hver yrði sigurvegarinn hjá hvorum flokki. En allt bendir til að svo verði ekki nú. Það verður spennandi að halda áfram að fylgjast með þessari baráttu milli Clinton og Obama.  
mbl.is Obama sigraði í Suður-Karólínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er vandlifað

Af tilviljun var ég að lesa bloggsíðu varaformanns Framsóknarflokksins. Þar bloggar varaformaðurinn um samkomu Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA) fyrir réttri viku síðan. Nú vill svo til að ég var einnig á þessari samkomu, sem var hin besta. Bloggið má lesa hér. Varaformaðurinn segir í blogginu að ræðu fundarstjórans hafi lokið með háðsglósum í garð framsóknarmanna og leggur síðan útaf orðum fundarstjórans í garð framsóknarmanna.  

Eftir lesturinn fór ég að rifja upp ræðu fundarstjórans, sem mér fannst prýðileg og fráleitt að þar féllu orð sem hefðu átt að misbjóða neinum, hvorki framsóknarmönnum né öðrum. 

Fundarstjórinn, sem var formaður Sjálfstæðisflokksins, alþingismaður í Suðurlandskjördæmi og ráðherra og nú ritstjóri Fréttablaðsins, lauk máli sínu með því að segja skopsögu af sjálfum sér á ferðum um Suðurlandskjördæmi meðan hann var þar þingmaður. Hann sagði frá heimsókn sinni til fullorðins bónda, sem allir vissu að kysi Framsóknarflokkinn og hefði gert um áratuga skeið. Enda tók hinn aldni bóndi á móti þingmanninum með þeim orðum að hann hefði getað sparað sér heimsóknina. Hann kysi Framsóknarflokkinn og hefði gert frá því á miðjum fjórða áratugnum. Fyrir þann tíma hefði hann kosið Sjálfstæðisflokkinn. Eftir að sá flokkur hefði staðið að aðför að einum besta manni Framsóknarflokksins hefði hann söðlað um, ákveðið að kjósa Framsóknarflokkinn og gert það æ síðan. Fundarstjórinn sagði að sér hefði vafist tunga um tönn að svara bóndanum og áður en hann náði að svara hefði bóndinn bætt við: En það get ég sagt þér, engri ákvörðun hef ég séð jafnmikið eftir.

Salurinn auðvitað hló - enda sagan góð og mér fannst hún góð og græskulaus. Ekki hvarflaði að mér eitt augnablik að hægt væri að taka þessa skopsögu fundarstjórans af sjálfum sér og heimsókn til kjósanda sem háðsglósur í garð framsóknarmanna. 


Ómakleg ummæli

Í vikunni var 2. umræða um frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra til laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Í umræðu féllu ómakleg ummæli af hálfu eins þingmanna VG í garð Félags um foreldrajafnrétti (hér og hér). Félagið berst fyrir sem jöfnustum rétti feðra og mæðra vegna barna. Sú staðreynd að félagið hét áður Félag ábyrgra feðra getur varla skipt máli, frekar en Félag einstæðra foreldra hét áður Félag einstæðra mæðra. Allt endurspeglar þetta hinn breytta veruleika þegar kemur að börnum, barnauppeldi og hlutverkaskiptingu kynjanna.

Margir telja, og er ég í þeim hópi, að jafnrétti á öðrum sviðum náist ekki fyrr en meiri jöfnuður verði með foreldrum, þegar kemur að ábyrgð á börnum og barnauppeldi. Að líkja Félagi um foreldrajafnrétti við fótboltafélag sýnir vanþekkingu á þeirri mikilvægu baráttu sem félagið stendur í. Það er nákvæmlega af því að jafnrétti er sameiginlegt verkefni karla og kvenna að það er mikilvægt að félags- og trygginganefnd skuli hafa lagt til að félag um foreldrajafnrétti skuli eiga fulltrúa í Jafnréttisráði. Með því er leitast við að enn breiðari hópur félaga á þessu sviði komi að jafnréttisumræðunni.


Faglegir ferlar

Við megum ekki ganga út frá því að niðurstaða dómnefnda sé einhver heilagur sannleikur. Dómnefnd eru aldrei annað en summa einstaklinganna sem í þeim eru. Einstaklingar eru misjafnir.  Af því leiðir að dómnefnarálit eru misjöfn. Það er langt frá því sjálfgefið að tvær dómnefndir komist að sömu niðurstöðu um sama hóp umsækjanda. Ekki alls fyrir löngu var umsækjanda um starf hjá Háskóla Íslands dæmdar miskabætur vegna ummæla sem féllu í dómnefndaráliti. Dóminn má lesa hér.  Hvað segir þetta um hina "faglegu ferla"?


mbl.is Ef til vill tilefni til að styrkja faglega ferla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi komin á sigurbraut

Ég hef ekki leynt því að ég myndi eindregið styðja Hillary Clinton, væri ég kjósandi í Bandaríkjunum. Ég vona innilega að hún haldi áfram á þessari sigurbraut og nái útnefningu fyrir demókrata. Sigurinn er athyglisverður ekki síst í ljósi skoðanakannana sem bentu til allt annars. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.
mbl.is Clinton vann í New Hampshire
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð ráðstöfun

Í því írafári sem nú virðist vera um ýmsar mannaráðningar hjá ríkinu sýnist mér að þessi eigi að vera nokkuð óumdeild. Ég er viss um að Margrét mun láta ferska og góða vinda blása um Litla-Hraun. Ég óska henni velfarnaðar - þann tíma sem hún sinnir þessu starfi.
mbl.is Margrét Frímannsdóttir forstöðumaður Litla-Hrauns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér finnst það gott

mál að forseti Íslands ætlar að bjóða sig fram til endurkjörs. Þó kaus ég hann ekki 1996 og hefði aldrei gert. Mér finnst hann hafa staðið sig ágætlega í embætti - þótt ekki sé ég alltaf sammála honum. Mér finnst líka að að þjóðin hreinlega megi ekki við því að vera með allt of mikið af fyrrverandi forsetum. Ég lýsi því ánægju minni með ákvörðunina, fyrst og fremst af praktískum ástæðum. Wink

Þá finnst mér slæmt að heyra að einstaklingur sem ítrekað hefur boðið sig fram og verið hafnað með afgerandi hætti jafnoft af þjóðinni skuli ætla eina ferðina enn að reyna fyrir sér í forsetaframboði. Ég tek heilshugar undir orð Þórunnar Guðmundsdóttur hrl. í viðtal á Stöð 2 föstudaginn 4. janúar sl. Viðtalið er hér. Þórunn fjallar um málið af reynslu því hún er fyrrverandi formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík norður.

Það er ótrúlegt að ekki skuli fyrir löngu búið að breyta fjölda meðmælenda sem þarf til að geta boðið sig fram til embættis forseta Íslands. Fjöldinn, lágmark 1500, hámark 3000, hefur verið óbreyttur í tæp 65 ár. Þá er umhugsunarefni af hverju fjöldi meðmælenda er festur í stjórnarskránni sjálfri. Eðlilegra væri að það væri ákveðið með almennum lögum. Stjórnarskráin á að gefa fyrirmæli um viðmiðun, t.d. útfrá fólksfjölda, þannig að fjöldi meðmælenda endurskoðist fyrir hverjar forsetakosningar. Þá er það auðvitað grafalvarlegt mál að fólk geti af misgáningi skrifað undir stuðning við forsetaframbjóðanda, haldandi að það sé að styðja frið. Vonandi verður a.m.k. farið eftir þeirri ábendingu Þórunnar að hannað verði sérstakt eyðublað fyrir komandi forsetakosningar, sem stuðningsyfirlýsingar verða að vera á.


mbl.is Býður sig fram til endurkjörs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður Bubbi

Ég get nú ekki sagt að ég hafi nokkurn tímann verið í hópi Bubba aðdáenda. Eitt og eitt lag frá honum hefur mér fundist gott. ABBA og Carpenters hafa alltaf verið svona meira mín tegund af tónlist. En góð vinkona bauð mér með sér á Bubba í Laugardalshöllinni í kvöld. Bubbi var góður og Stórsveit Reykjavíkur er ótrúlega flott. Og gestasöngvararnir tveir, Raggi Bjarna, sem aðeins verður betri með aldrinum og Garðar Thor gáfu tónleikunum flottan svip. Toppurinn var þegar þessir þrír sungu saman. Frábært kvöld.

Gleymast börnin í annríki dagsins?

Eins og lesendur þessarar bloggsíðu minnar hafa séð þá eru mér málefni barna sérstaklega hugleikin. Ég hef lengið verið þeirrar skoðunar að við séum of oft að gleyma börnunum í annríki dagsins. Við erum líka að leggja of mikið á börnin okkar. Það eru of mörg börn sem alast upp við það að foreldrarnir (í þeim tilvikum sem þau búa ekki lengur saman) eru sífellt að kynna börnin fyrir nýjum og nýjum "vini" eða "vinkonu" og ætlast jafnvel til að börnin kalli þessa "vini" og "vinkonur" "pabba" og "mömmu". Mér er sagt að hér á landi séu dálítið sérstök viðhorf í þessu efni. Erlendis gæti foreldrar í þessar stöðu þess að halda samskiptum sínum við aðila af hinu kyninu frá börnum sínum þangað til ljóst er að alvara sé í nýju sambandi.

Þess vegna tek ég svo heilshugar undir hugleiðingar Biskups Íslands í áramótapredikun hans. Ábendingar hans eru þarfar, tímabærar og hárréttar. Þær eru raunar af sama meiði og ábendingar herra Sigurbjörns Einarssonar biskups í ávarpi sem hann hélt við móttöku verðlauna Jónasar Hallgrímssonar. Um það bloggaði ég hér og hér. Við erum ekki að gefa börnunum þann tíma sem þau þurfa og eiga skilið af okkur.

Ég er ekki að krefjast þess að konur hætti að vinna úti. Alls ekki. Í orðum mínum felst hins vegar krafa um að við viðurkennum, horfumst í augu við, að það þarf að sinna börnum, það þarf að gefa þeim tíma, það þarf að ala þau upp. Á öllu þessu bera heimilin, foreldrarnir, frumábyrgð, feður ekki síður en mæður, sem og aðrir sem foreldrarnir fá til að styðja sig í því hlutverki.   

Ég hef haldið því fram að tími feðra sé ónýtt auðlind þegar kemur að umönnun barna. Sem betur fer hefur mjög margt breyst í þessum efnum á síðustu árum, en ekki nóg. Þeim fer fjölgandi feðrunum sem vilja vera og eru mjög virkir þátttakendur í umönnun og uppeldi barna sinna. Sumir til jafns við mæðurnar og er það vel. Þannig á það að vera. Foreldraábyrgð á að vera jöfn og sú ábyrgð er ekkert meira viðfangsefni kvenna fremur en karla.

En það er of oft sem feður fá ekki að sinna börnum sínum í þeim mæli sem þeir kjósa. Og enn og aftur, ég er að tala um þau tilvik þar sem allt er í lagi með báða foreldra. Ég er ekki að tala um tilvikin þar sem eitthvað er að, sem gerir annað hvort foreldrið illa hæft til að sinna börnum. Svo eru auðvitað líka til foreldrar, oftar feður, sem nenna ekki að sinna börnum sínum, vilja ekki einu sinni umgangast þau. Um þau tilvik er ég heldur ekki að tala hér.

Frumvarpið til laga um breytingu á barnalögum, sem ég lagði fram á Alþingi síðasta haust, og sem vonandi fær brautargengi nú á nýju ári, hefur að markmiði að jafna foreldraábyrgð. Því er ætlað að tryggja, eftir því sem hægt er í löggjöf, að foreldrar, þótt þau sjálf hætti að búa saman, haldi áfram að vera bæði virkir þátttakendur í uppeldi og umönnun barnanna. Ég trúi því einlæglega að jöfn foreldraábyrgð sé stærsta framfaramálið í jafnréttisbaráttunni nú um stundir.


mbl.is Alvarlegt ef börn rofna úr tengslum við þjóðararfinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hvað boðar nýárs blessuð sól?"

Árið 2008 er runnið upp. Hreint og tært, óskrifað blað. Hvað það ber í skauti sér vitum við ekki. En það kemur í ljós. Það eitt er öruggt. Gamlárskvöld var vindasamt, nýja árið hreinlega fauk til okkar. Skaupið - aðalumræðuefnið á þessum tíma. Mér fannst það hvorki né. Besta atriðið var saknaðarsöngur Steingríms J. til Ingibjargar Sólrúnar. 

Nýársdagsmorgun var ekki eins fallegur í morgun og fyrir ári. Þá gekk ég niður í Dómkirkju í yndislegu veðri. Í morgun var ekki spennandi veður til að fá sér göngutúr, þótt leiðin hafi styst aðeins við flutninginn.

Ég óska öllum, nær og fjær, gleðliegs árs og góðrar heilsu.


Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband