Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Áhyggjur ráðamanna

Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með umræðunni frá því að dómur Hæstaréttar féll varðandi gengistryggð lán í íslenskum krónum. Hver á fætur öðrum hafa ráðamenn komið fram og lýst yfir áhyggjum sínum af hag lánveitenda, þ.e. bankanna. Kallað hefur verið eftir sátt um það hvernig bregðast skuli við.

Fyrir röskum tveimur árum féll hér gengið langt umfram það sem nokkur hafði reiknað með með þeim afleiðingum að verðbólgan óð af stað. Þetta hafði ófyrirséðar afleiðingar fyrir þúsundir heimila. Fyrir liggur að stór hluti þessara heimila þoldi ekki þetta áfall, sem helst má líkja við náttúruhamfarir. Úrræðum var lofað. Þau sem fram hafa komið gagnast ekki fjöldanum. Þúsundir fjölskyldna sáu því framá að enda með að missa húsnæði sitt. Af því virtust fáir ráðamenn hafa miklar áhyggjur. Aldrei var talað um að leysa þyrfti vandamál fjölskyldna vegna þessara efnahagslegu náttúruhamfara með sátt, sem t.d. fæli í sér að bankarnir tækju á sig einhvern hluta skellsins. Nei, skellurinn mátti allur lenda á fjölskyldunum í landinu og skipti þá engu þó fjölmargar yrðu húsnæðislausar og jafnvel gjaldþrota.

Með dómi sínum tók Hæstiréttur ómakið af ríkisstjórninni og fann skjaldborg til að slá um þau heimili sem voru með skuldir sínar í gengistryggðum lánum í íslenskum krónum. Hagur þeirra heimila hefur vænkast mjög. Þar standa eftir óverðtryggðra lána með afar hagstæðum vöxtum.

Eftir sitja heimilin sem á sínum tíma vildu ekki taka þá áhættu að taka  gengislán, sem allir vissu að voru afar áhættusöm. Þeirra vandi hefur ekkert breyst við dóm Hæstaréttar. Höfuðstóll margra fjölskyldna í íbúðarhúsnæði er löngu brunninn upp vegna óðaverðbólgunnar sem fylgdi gengishruninu og aðstæðna á húsnæðismarkaði sem hrundi. Framreiknaður höfuðstóll verðtryggðu lánanna er í mörgum tilvikum orðinn hærri en líklegt söluverðmæti íbúða.

Það væri tilbreyting að heyra ráðamenn tala um áhyggjur sínar af þeim fjölmörgu heimilum sem enn standa frammi fyrir óleystum vanda, heimilismissi og jafnvel gjaldþroti, fremur en að heyra þá fabúlera um áhyggjur sínur af fjármálakerfinu sem sjálft virðist ekki hafa áhyggjur af sínum hag, þrátt fyrir dóminn.


mbl.is Of þungt högg á kerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kom að því að menn kveiktu ...

Eftir tæp tvö ár virðast stjórnvöld loksins hafa skilið það sem allur almenningur veit og hefur vitað lengi: Að efnahagur heimilanna varð fyrir verulegum skakkaföllum vegna bankahruns, gengislækkunar og mikillar verðbólgu.

Af hverju veit almenningur þetta sem stjórnvöld hafa verið svo sein að skilja? Einfaldlega af því að fyrir þessu hafa fjölskyldurnar í landinu fundið, á eigin skinni, á degi hverjum frá því að gengislækkunin byrjaði kringum páska 2008 og síðan vegna alls þess sem á eftir kom og endaði með bankahruninu. Allar fjölskyldur í landinu sem skulda íbúðalán fá í mánuði hverjum greiðsluseðla inn um lúguna sem sýna svart á hvítu hvað lánið hefur hækkað frá síðasta mánuði. Stöðugar hækkanir verðtryggðra lána eru m.a. vegna hækkunar ríkisstjórnarinnar á áfengi, tóbaki, virðisaukaskatti. Allt hækkar þetta lánin sem hvíla á eignum landsmanna, sem vegna ástands á fasteignamarkaði hafa lækkað um a.m.k. 30% að raunvirði og eiga eftir að lækka enn, skv. spám. Afleiðing þessa er sú að upprunalegt eigið fé fjölskyldna í fasteignum þeirra er löngu fuðrað upp, óbætt, og eftir stendur veðsett fasteign þar sem verðmæti veðsins er orðið minna en andvirði veðlánsins sem á því hvílir. 

Kannski er það þakkarvert að augu stjórnvalda skuli hafa opnast fyrir þessum alþekktu staðreyndum. En af hverju tók það allan þennan tíma?

Þá blasir við að spyrja: Hvenær og hvernig ætla stjórnvöld að bregðast við þessum veruleika? Almenningur bíður enn þeirra aðgerða sem vinstri stjórnin lofaði þegar hún tók við stjórnartaumum 1. febrúar 2009. Þá var lofað skjaldborg um heimilin. Það mótar hvergi fyrir þeirri skjaldborg og er hugtakið raunar ekkert orðið nema háðsyrði um algert úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar þegar kemur að stuðningi við heimilin í landinu. 


mbl.is Staða heimilanna afar slæm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband