Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Rétt val?

Ef þessar fregnir eru réttar þá hef ég miklar efasemdir um að þetta sé klókt val hjá Obama. Hann þurfti vissulega að stilla upp varaforsetaefni hlaðið reynslu, til að vega upp á móti hans eigin reynsluleysi, sem virðist vera honum fjötur um fót. Og það gat Obama án þess að finna McCain "look-a-like". Ef Obama hefði borið gæfu til að að velja Hillary sem varaforsetaefni eða einhvern annan reynslubolta, hefði hann gefið kjósendum kost á sigurstranglegu framboðspari sem bæri með sér ímynd breytinga, ferskleika og reynslu og þannig undirstrikað þá raunverulegu kosti sem bandarískir kjósendur eiga í forsetakosningunum í haust. Ef bandarískir kjósendur vilja í forseta sínum einungis aldursreynsluna þá kjósa þeir McCain beint - en ekki Obama með aldursreynsluna í varaforsetaefninu. 

Þetta val Obama virðist bera keim af því að hann velur varaforsetaefni sem skyggir örugglega ekki á hann sjálfan. Þetta val Obama sýnist því afhjúpa ákveðinn hégómleika og óöryggi, sem menn í hans stöðu mega ekki láta stjórna af.

Góður stjórnmálamaður velur með sér besta fólkið sem hann á völ á, fólk sem býr yfir kostum sem hann sjálfan vantar, eða þarf að styrkja. Þannig skapar góður stjórnmálamaður bestu mögulegu liðsheildin til þeirra verka sem hann vill vinna að í starfi sínu í þágu kjósenda. Um leið og stjórnmálamaður byggir val samstarfsmanna á einhverju öðru, eins og Obama virðist hafa gert, þá fær hann einfaldlega ekki sigurstranglegustu niðurstöðuna.


mbl.is Obama velur Joseph Biden
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silfrið í höfn og möguleiki á gulli

Getur maður verið stoltari af því að vera Íslendingur? Landsliðið okkar er engu líkt og þeir greinilega ætla sér að vinna - stórkostlegir strákar. Og það er sama hvernig fer á sunnudagmorgun - silfrið er öruggt. Strákarnir okkar ætla sér greinilega gullið og við stöndum bak við þá alla leið. 


mbl.is Íslendingar í úrslitaleikinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanlegt?

Auðvitað eru skoðanakannanir ekki kosningar - en þetta er nákvæmlega það sem ýmsir óttuðust. Nú er það reynslan, sem Hillary Clinton keyrði á í sinni kosningabaráttu, sem skapar McCain forskotið á Obama. Hugsanlega eiga stuðningsmenn Demókrataflokksins eftir að iðrast þess sárlega að velja Obama, til þess eins að láta hann tapa fyrir McCain.
mbl.is McCain kominn með forskot samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður fróðlegt

að fylgjast með hvenær olíufélögin hér lækka. Hætt er við að þeir finni enn eina réttlætinguna fyrir því að ekki skuli lækka þegar verðið lækkar. Neytendur eru löngu búnir að sjá í gegnum þennan hallærislega leik þeirra.
mbl.is Olíuverð niður fyrir 112 dali tunnan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bilun í póstþjóni

Það er ótrúlegt hvað maður er háður tölvum og hvað allt fer úr sambandi þegar þær bila. Hjá DP LÖGMÖNNUM og DP FASTEIGNUM hefur póstþjónninn legið niðri frá því á fimmtudag í síðustu viku (14. ágúst) - og viðgerðin er bara að taka hreint ótrúlegan tíma.

Vonandi stendur þetta til bóta - en þeir sem lesa þetta blogg vita af hverju við svörum engum tölvupóstum þessa dagana. Það er einfaldlega af því að við erum ekki að fá þá. Ef einhver á áríðandi erindi við okkur - þá vinsamlega hringið. Blush


Verk að vinna

Þessi skoðanakönnun endurspeglar mest þreytu borgarbúa á ástandinu í Reykjavík. Nýr meirihluti fær ekki forsögunnar vegna traust borgarbúa á silfurfati. Nýr meirihluti þarf með verkum sínum að sýna borgarbúum fram á að hann sé traustsins verður. Við skulum sjá hvort þessar tölur breytist ekki þegar hinn nýi meirihluti hefur tekið til starfa og fer að láta til sín taka.


mbl.is 26,2% segjast styðja nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höldum áfram

er áhugaverð yfirskrift hins nýja samstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjavík. Fæstir Reykvíkingar skilja af hverju þetta 10 mánaða hlé varð á því samstarfi sem sömu flokkar lögðu upp með eftir síðustu borgarstjórnarkosningar. Kannski skýrist það eitthvað í nýjum og endurbættum málaefnasamningi. Jafnframt er því treyst að völd framsóknarmanna í samstarfinu minnki frá því sem áður var, því þau voru í engu samræmi við styrk flokkanna og óeðlileg í alla staði.

Vonandi verður fram að næstu borgarstjórnarkosningum góður starfsfriður í Reykjavík. Nýr meirihluti hefur tæplega tvö ár til að sanna sig og endurvekja traust og tiltrú kjósenda. 

Það var ekki gott að þurfa að rjúfa samstarfið við F-listann - en í þeirri stöðu sem upp var komin var greinilega ekkert annað að gera. Og það var augljóslega skárri kostur en að halda áfram í samstarfi, sem virtist gæfulítið frá fyrsta degi.  

Nýr borgarstjóri þarf nú að leiða borgarstjórnarflokkinn úr því öngstræti sem hann var sjálfur búinn að koma sér í og endurvinna traust kjósenda Sjálfstæðisflokksins og kjósenda allra. Góðar óskir fylgja nýjum borgarstjóra í því vandasama, en mikilvæga, verki.


mbl.is Hanna Birna borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessar fréttir

koma ekki á óvart. Vonandi tekst að sigla stöðu mála í einhvern farsælan farveg, fyrst og fremst fyrir borgarbúa og stöðu borgarmála. Hvort styrkt samstarf með Framsóknarflokki eða nýtt samstarf með þeim flokki sé lausnin verður að koma í ljós - en nú reynir á að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fyrst og fremst oddvitinn sýni pólitíska snilli og klókindi.


mbl.is Samstarfið á „endastað"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira um öldrunarmál

Við byrjuðum gærdaginn á Stykkishólmi, á sjúkrahúsinu. Þar eru níu skilgreind hjúkrunarrými fyrir aldraða, sum í fjölbýli, því miður. Dvalar- og hjúkrunarheimilið á Stykkishólmi er barn síns tíma eins og margar öldrunarstofnanir sem við höfum heimsótt á ferð okkar. Upphaflega var húsnæðið byggt sem heimavist við skóla en var síðar breytt í dvalarheimili. Eftir því sem íbúarnir á heimilinu hafa elst, hefur hjúkrunarrýmum fjölgað. Hjúkrunarrýmisaðstaðan er þó bágborin, en allir eru þó í einbýlum, en herbergin eru mjög lítil. Snyrtingar eru fáar, þannig að margir íbúar eru um hverja og eina. Þetta er ekki í samræmi við kröfur nútímans, þar sem ætlast er til að sérsnyrting fylgi hverju herbergi. Á heimilinu eru 20 einstaklingar, 10 í dvalarrýmum og 10 í hjúkrunarrýmum.

Árið 1986 voru teknar í notkun íbúðir fyrir aldraðra á Ólafsvík og húsnæðið kallað Jaðar. Nú, tuttugu árum síðar, eru á stofnuninni 15 einstaklingar, 10 á hjúkrunarrýmum og 5 á dvalarrýmum. Aðstaðan er þokkaleg og meira í takt við nútímakröfur. Íbúðum hefur verið breytt í tvö aðskilin rými og deila tveir snyrtingu. Búið er að teikna viðbyggingu fyrir hjúkrunardeild með 12 hjúkrunarrýmum.

Á Grundarfirði er Fellaskjól, íbúðir fyrir aldraðra, teknar í notkun 1988. Stofnunin hefur leyfi fyrir 10 hjúkrunarrými og 7 dvalarrými en vegna plássleysis eru þar í notkun 8 hjúkrunarrými og 4 dvalarrými. Aðstaðan er allgóð. Allir í einbýli, með sérsnyrtingu, en hjón eru þó saman í í rými. Rými vantar þó fyrir ýmsa stoðþjónustu og er áhugi á að byggja við stofnunina, til að bæta við rými fyrir slíka þjónustu. Sveitarfélagið hefur einnig byggt samtals 15 íbúðir fyrir aldraða í námunda við Fellaskjól.

Alls staðar var sérlega vel tekið á móti okkur og ánægjulegt að sjá hve mikill metnaður er lagður í þjónustu við eldri borgara. 

Ferðin var fróðleg og gagnleg - en vekur margar ágengar spurningar, m.a. um áherslur í öldrunarþjónustu. Fyrir aldarfjórðungi eða svo var ég deildarstjóri öldrunarmála í heilbrigðisráðuneytinu og fór sem slík með sömu nefnd í skoðunarferð um Vesturland. Það kom mér mest á óvart hvað lítið hefur í raun breyst á þessum aldarfjórðungi, annað en að búið er að fjölga hjúkrunarrýmum til samræmis við að öldruðum fjölgar á svæðinu. Enn virðist megináherslan í málum aldraðra vera á stofnanir og stofnanavistun. Ég hefði kosið að sjá meiri áherslu á að bæta og efla heimilishjálp og heimahjúkrun. Öflug þjónusta af slíku tagi gerir einstaklingum kleift að vera á eigin heimili sem lengst. Með því er tíminn sem aldraður einstaklingur þarf hugsanlega að dvelja á öldrunarstofnun styttur umtalsvert. Enda bendir flest til þess að óskir aldraðra eru þær að búa heima hjá sér sem lengst, með stuðningi, eftir því sem þarf. Það er umhugsunarefni að meðaldvalartími aldraðra í Danmörku á hjúkrunarstofnun er 2 ár, í Reykjavík er hann 3 ár og úti á landi er hann 3,7 ár. Þessar tölur segja mér að aldraðir séu að fara of snemma inn í hjúkrunarrými.

Ríkið greiðir tæplega 6 m.kr. á ári fyrir dvöl aldraðs einstaklings í hjúkrunarrými af því tagi sem við skoðuðum. Ég held að þeim fjármunum megi verja með mun hagkvæmari hætti í heimaþjónustu og bregðast þannig við skýrum óskum aldraðra um áherslur á þessu sviði. 


Ánægjulegur áfangi

Framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma á landsvísu til ársins 2012 er sérstaklega ánægjulegur áfangi í frekari uppbyggingu þjónustu fyrir aldraða hér á landi. Bæði er fagnaðarefni að byggja á 400 ný hjúkrunarrými á þessu tímabili auk þess sem 380 rýmum er bætt við til að vega upp á móti fækkun hjúkrunarrýma, sem leiðir af því að breyta á fjölbýlisherbergjum í einbýli, í takt við breyttar kröfur til húsnæðis fyrir aldraða. Fjölbýli þóttu boðleg áður en nú vill fólk eðlilega ekki búa til langframa á öldrunarstofnun við slíkar aðstæður.

Það vill svo til að samstarfsnefnd um málefni aldraðra, en ég er varamaður í þeirri nefnd, er í dag og á morgun að kynna sér stöðu öldrunarmála á Vesturlandi. Við heimsóttum í dag sjúkrahúsið á Akranesi því þar eru nokkur hjúkrunarrými fyrir aldraða, flest í fjölbýlisherbergjum. Einnig skoðuðum við dvalarheimilið Höfða á Akranesi og Dvalarheimilið á Borgarnesi. Á báðum stöðum eru bæði dvalar- og hjúkrunarrými, mörg í fjölbýlisherbergjum. Aðstaðan er þó allmiklu betri á Akranesi en nýtt hjúkrunarheimili er í undirbúningi á Borgarnesi og mun gerbreyta aðstöðu þar. Síðan lá leiðin á Fellsenda, sem er 20 km frá Búðardal. Þar er glæsileg aðstaða í tveggja ára gömlu hjúkrunarheimili. Hjúkrunarheimilið er fyrir geðfatlaða. U.þ.b. helmingur dvalargesta er yngri en 67 ára. Aðstaðan er til fyrirmyndar, eingöngu einbýli. En óneitanlega er maður hugsi yfir ákvörðun um að byggja á þessum stað fremur en t.d. í Búðardal.  Margvísleg vandamál fylgja því að byggja hjúkrunarrými svo fjarri þéttbýli, ekki síst tengd mönnun. Silfurtún í Búðardal var upphaflega byggt sem íbúðir fyrir aldraða og teknar í notkun 1983. Nú, 25 árum seinna, hefur þessu húsnæði mikið til verið breytt í dvalar- og hjúkrunarrými, sem endurspeglar breytta þörf íbúanna fyrir þjónustu eftir því sem þeir eldast.

Þessar heimsóknir sýna berlega mikilvægi þess að breyta fjölbýlisherbergjum í einbýli og á það er mikil áhersla lögð í hinni nýju framkvæmdaáætlun. En áberandi var og ánægjulegt að sjá hve mikill metnaður er lagður í það á öllum þessum stöðum að tryggja íbúum stofnananna mikla og góða þjónustu og umönnun.


mbl.is 400 ný hjúkrunarrými
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 391610

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband