Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Stuðningur við frumvarp

Félag um foreldrajafnrétti hefur margsinnis látið koma fram í ræðu og riti að það styður eindregið frumvarp til breytinga á barnalögum (hér) sem ég flutti á Alþingi sl. vetur (sjá umsögn félagsins til allsherjarnefndar Alþingis). Staða frumvarpsins er sú að það virðist fast í allsherjarnefnd Alþingis. Þetta eru algeng örlög þingmannafrumvarpa, því miður. Ekki er öll nótt úti enn því á haustþingi í september nk. er tækifæri til að dusta rykið af frumvarpinu og samþykkja það. Það kemur í ljós.

En mér þykir vænt um þennan stuðning og þann viðbótarstuðning sem fram kemur í aðgerðum Félags ábyrgra foreldra á Akureyri, sem skýrt var frá í fréttum Stöðvar 2 í kvöld (hér).

En ég heiti því að ef allsherjarnefnd afgreiðir frumvarpið ekki úr nefnd í september þannig að það dagar uppi þá mun ég endurflytja frumvarpið um leið og ég fæ tækifæri til á nýju þingi. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu þurfa að ná fram að ganga til að bæta hag foreldra og barna hér á landi.


Er

núverandi meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokksins og F-listans að verða of dýru verði keypt fyrir Sjálfstæðisflokkinn? Skoðanakönnunin sem birtist í kvöldfréttum bendir til þess. Vinstri flokkarnir í Reykjavík eru með kringum 70% stuðning borgarbúa. Hver hefði trúað því að slíkar niðurstöður gætu komið úr skoðanakönnun í Reykjavík? Auðvitað er skoðanakönnun ekki það sama og kosningar. En það styttist í borgarstjórnarkosningar. Ekki held ég að stuðningur við þessi verk borgarstjórans og F-listans auki hróður borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Hann á verk að vinna ef hann ætlar að endurheimta traust sjálfstæðismanna og annarra sem hingað til hafa treyst Sjálfstæðisflokknum best til að stjórna Reykjavíkurborg. Ég held að þetta sé ekki alveg aðferðin til að endurheimta það traust.


mbl.is Skipt um fulltrúa í skipulagsráði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dregur dilk á eftir sér

Þessi verðlaunatillaga vekur ýmsar spurningar og hún hefur haft ýmsar afleiðingar. Brottvísun borgarstjóra á fulltrúa borgarstjórnarflokks hans í skipulagsráði er sú afleiðing sem ég hef mest verið hugsi yfir síðustu daga. Ég held að þessi brottvísun standist ekki sveitarstjórnarlög nr. 45/1998.

Rök mín fyrir þessari fullyrðingu eru þau að upphaflega var í 4. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga rúmt ákvæði sem heimilaði sveitarstjórn að skipta um fulltrúa í nefndum hvenær sem var á kjörtímabili nefndar, svo sem þegar nefndarmenn nytu ekki lengur trausts meiri hluta þeirra sem sæti eiga í sveitarstjórn. Á grundvelli þessa eldra ákvæðis er ljóst að brottvísun borgarstjóra á fulltrúa borgarstjórnarflokks síns úr skipulagsráði hefði verið heimil.

En ákvæðinu var breytt með 3. gr. laga nr. 69/204 og flutt í 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga sem er svohljóðandi:

Sveitarstjórn getur hvenær sem er á kjörtímabili ákveðið að skipta um fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum sem hún kýs eða skipar ef ekki er um það ágreiningur innan sveitarstjórnar eða málefnalegar ástæður mæla með slíkri breytingu, svo sem ef nefndarmaður, án lögmætra forfalla, mætir ekki á fundi nefndar eða brýtur gegn þagnarskyldu. Enn fremur getur sveitarstjórnarmaður krafist þess að nefnd verði endurskipuð, svo sem ef breytingar verða á meirihlutasamstarfi á kjörtímabilinu. Sveitarstjórn er þó heimilt að hafna slíkri beiðni ef hún er bersýnilega tilefnislaus. Við framangreindar breytingar á skipan fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarfélags skal kjósa alla fulltrúa að nýju og fer þá um kjör skv. 2. mgr. 40. gr. nema enginn ágreiningur sé innan sveitarstjórnar um breytingarnar.

Í skýringum með þessu ákvæði segir m.a. (allt frumvarpið sem varð að lögum nr. 69/2004 ásamt skýringum er hér) að það feli í sér þrengingufrá þeirri heimild fyrir sveitarstjórn, sem hefði verið í 4. mgr. 40. gr. laganna, að skipta um fulltrúa í nefndum.  Sveitarstjórnum verði áfram heimilt að skipta um fulltrúa í nefndum ef ekki er ágreiningur um það innan sveitarstjórnar. Einnig verði slík heimild sveitarstjórnar fyrir hendi þar sem málefnalegar ástæður eru fyrir hendi, svo sem ef nefndarmaður hefur brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögunum, um að mæta á fundi eða gæta trúnaðar um það sem hann verður áskynja um í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls,sbr. 27. og 32. gr. laganna. Ætla verður að sveitarstjórn grípi ekki til þessa úrræðis nema nauðsyn beri til og að undangenginni áminningu, þar sem það á við, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samþykki meiri hluta sveitarstjórnar nægi þegar umræddar ástæður eru fyrir hendi. Slík ákvörðun erkæranleg til félagsmálaráðuneytisins, sbr. 103. gr. laganna.

Ég sé því ekki betur en að sveitarstjórnarlög heimili ekki lengur að skipta út fulltrúa í nefnd eingöngu að þeirri ástæðu að hann njóti ekki lengur trausts þess meirihluta sem er hverju sinni. Skilyrðin eru almennari og hlutlægari. 

Til að unnt sé að veita kosnum nefndarmanni lausn þá þarf öðru af tveimur skilyrðum að vera fullnægt:
  • að um brottvikningu hans sé ekki ágreiningur innan sveitarstjórnar eða
  • fyrir brottvikningunni séu málefnalegar ástæður, svo sem ef nefndarmaður, án lögmætra forfalla, mætir ekki á fundi nefndar eða brýtur gegn þagnarskyldu. ´ 
Borgarstjóri hefur sagt að brottvikningin byggist á því að fulltrúi njóti ekki lengur trausts hans. En lögin leyfa ekki lengur brottvikningu byggða á þeirri ástæðu því sú ástæða hefur verið felld úr lögunum. Borgarstjóri hefur ekki nefnt neina málefnalega ástæða, sem lögin tilgreina, fyrir brottvikningunni og verður því ekki séð að brottvikningin sé byggð á neinni málefnalegri ástæðu sem lögin leyfa.  

Þá er komið að hinu skilyrðinu - að ekki sé um brottvikninguna ágreiningur innan sveitarstjórnarinnar. Ég hef ekki heyrt neinn annan borgarfulltrúa en borgarstjóra segjast vilja reka þennan kosna fulltrúa úr skipulagsráði, gegn vilja þessa kosna fulltrúa. En til þess að að brottvikningin verði samþykkt þurfa aðrir borgarfulltrúar að samþykkja hana. Hjá því verður ekki komist, miðað við lögin.

Nú sýnist mér að það muni reyna á borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa minnihlutans. Til að brottvikningin nái í gegn verða þeir að greiða brottvísuninni atkvæði, samþykkja hana, eða a.m.k. meiri hluti borgarfulltrúa. Fulltrúar minnihlutans geta greitt atkvæði gegn brottvikningunni. Þá reynir á borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Ætla þeir að styðja gjörninginn með því að samþykkja þessa brottvikningu og þar með bera ábyrgð á vinnubrögðum af þessu tagi? 

Svo er auðvitað ein leið í viðbót, að allir borgarfulltrúar, allir borgarfulltrúar, aðrir en borgarstjóri, sitji hjá, með þeim rökum að hver borgarstjórnarflokkur eigi rétt á því að ráða hvernig hann kýs fulltrúa í nefndir og rekur fulltrúa úr nefndum, þannig að þessi makalausa brottvikning verði samþykkt með einu greiddu atkvæði - atkvæði borgarstjórans.

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þessu vindur fram. En ég vil benda á að borgarstjórn er í sumarfríi og borgarráðsfundur hefur ekki verið haldinn til að staðfesta þennan gjörning borgarstjórans. Og málið er í raun í höndum annarra borgarfulltrúa en borgarstjórans. 


mbl.is Hús Listaháskóla fer yfir leyfileg mörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 391644

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband