Leita í fréttum mbl.is

Þjóðstjórn

Því fyrr sem þessi ríkisstjórn fellur, því betra. Þá verður kannski loksins möguleiki á því að mynda þjóðstjórn, sem hefði átt að gera strax sl. haust.

Staðan er orðin sú að Samfylkingin treystir á stuðning stjórnarandstöðunnar í tveimur málum sem hún telur veigamikil, Icesave málinu og EB málinu. Á samstarfsflokkinn getur Samfylkingin ekki treyst. Það liggur fyrir.

Því verður ekki trúað að stjórnarandstöðunni detti í hug að styðja Icesave málið. Það eru allt of margar vísbendingar á lofti um það að Icesave samningurinn sé okkur svo óhagstæður að hann sé ekki hægt að samþykkja.


mbl.is Icesave gæti fellt stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efasemdir

Þótt Alþingi hafi gert breytingar á frumvarpi um Eignaumsýslufélag ríkisins þá breytir það ekki þeim efasemdum sem maður hefur á því að félag af þessu tagi sé skynsamlegt. Bara nafnið nægir til að sannfæra mann um það að hér sé verið að koma á óþörfum ríkisafskiptum. Bankasýsla ríkisins, Eignaumsýslufélag ríkisins. Hvað verður það næst hjá ríkisstjórninni?
mbl.is Eignaumsýslufélag tekur hamskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og tilgangurinn er?

Það er með ólíkindum að ríkisstjórninni telji það við hæfi nú að stofna nýja opinbera stofnun. Einhvern veginn hélt maður að skilaboð dagsins væru niðurskurður og samdráttur starfsemi á vegum hins opinbera. Fram kemur að kostnaðurinn við þessa stofnun sé 70-80 milljónir á ári. Hvar á að skera niður til viðbótar fyrir þeim kostnaði? Þessari ríkisstjórn er einfaldlega ekki sjálfrátt.


mbl.is Stofna Bankasýslu ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvæg skilaboð Obama

Það er ekki nóg að hvetja feður. Það þarf líka að hvetja mæður til að viðurkenna enn betur mikilvægi feðra og hleypa feðrum í enn ríkari mæli að uppeldi barna. Enn eru alltof margir feður í þeirri stöðu að fá ekki nema takmarkað tækifæri til að koma að uppeldi barna sinna. Þá er ég að tala um þá feður sem vilja og geta. Ég er ekki að tala um þá feður sem hvorki nenna né geta. Ég hef margsinnis sagt að vannýttasta auðlind samfélagsins þegar kemur að uppeldi og umönnun barna er tími feðra.

Staðreyndin er sú að að uppeldi barna þurfa báðir foreldrar að koma með virkum hætti, hvort sem foreldrar búa saman eða ekki. Eru ekki einhver skilaboð í því að til að til verði barn þurfa bæði kynin að koma að máli? Þýðir það ekki líka að bæði kynin þurfa og eiga að koma að uppeldi þessara sömu barna? Og svo ekki verði snúið út úr orðum mínum, eins og svo rík tilhneiging er til að gera þegar þessi mál ber á góma, þá er ég ekki að tala um vanhæfa foreldra, feður eða mæður. Ég er að tala um þau tilvik þegar báðir foreldrar eru hæfir og góðir foreldrar sem vilja sinna foreldrahlutverki sínu af samviskusemi og alúð.

Sem betur fer er skilningur samfélagsins á mikilvægi feðra þegar kemur að uppeldi og umönnun barna smátt og smátt að aukast. Sífellt fleiri foreldrar gera sér grein fyrir mikilvægi beggja þegar kemur að uppeldi barnanna. Viðhorf þjóðfélagsins er að þessu leyti að taka breytingum, í rétta átt. Það skiptir miklu að forystumenn eins og Obama veki máls á réttarstöðu feðra og aðkomu þeirra að uppeldi barna sinna. Það hjálpar þróuninni.


mbl.is Obama hvetur feður til að standa sig í stykkinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýir vendir sópa best ...

Það er greinilegt að með nýjum stjórnendum hafa vinnubrögð FME breyst. Er það vel. Eftirlitsstofnanir eiga að grípa inn í ef svo virðist sem sveigt hafi verið framhjá lögum og reglum. Það er hlutverk þeirra. Jafnframt eiga eftirlitsstofnanir í þeim kringumstæðum að vísa málum til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra ef tilefni þykir til. Þetta eru réttu vinnubrögðin hjá eftirlitsstofnun eins og FME. Það væri óskandi að þessi vinnubrögð hefðu byrjað miklu, miklu fyrr. Þá kannski værum við ekki í þeirri stöðu sem við erum nú.
mbl.is Stjórn LSK kærð til lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að misskilja hlutverk sitt

Það er með ólíkindum að lesa yfirlýsingu stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar. Þar lýsa þeir furðu yfir vinnubrögðum FME á sama tíma og stjórnin segir:

,,... Í efnahagsumrótinu á umliðnum vetri tók stjórn LSK yfirvegaða og upplýsta ákvörðun um, að besta leiðin til að verja hagsmuni sjóðfélaga væri að ávaxta laust fé sjóðsins til skamms tíma hjá Kópavogsbæ, þótt það væri ekki í fullu samræmi við heimildir, enda ber Kópavogsbær fulla ábyrgð á öllum skuldbindingum sjóðsins umfram eignir.

Skilur stjórnin ekki að henni er ætlað að fjárfesta eignir sjóðsins í samræmi við lög og reglur? Og ef Kópavogsbær þurfti á þessum fjármunum að halda hvernig hélt stjórnin að hann gæti borið ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins umfram eignir? Er það ekki einhver vísbending um greiðslustöðu Kópavogsbæjar.

Hvernig getur stjórn tekið "yfirvegaða og upplýsta ákvörðun" um að brjóta lög og reglur og halda að eftirlitsstofnanir setji kíkinn á blinda augað? Vissulega gerðist margt af slíku tagi 2007 en eftir hrunið er það krafa almennings í landinu að eftirlitsstofnanir standi sig. Það er FME að gera með þeirri ákvörðun sem það tók í dag.


mbl.is Ávöxtuðu fé sjóðsins hjá Kópavogsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákvörðunarfælni

Ákvörðunarfælni háir ríkisstjórninni. Gatið á fjárlögunum verður ekki stoppað nema með miklum niðurskurði ríkisútgjalda. Það verður ekki eingöngu stoppað upp í þetta gat með skattahækkunum og auknum álögum eins og ríkisstjórnin virðist halda. Því fyrr sem ríkisstjórnin hefur þor til að takast af alvöru við þetta verkefni, því betra.  Það þarf að fara ítarlega í gegnum allan ríkisrekstur og ákveða hvað má missa sín og hvað ekki. Öðru vísi gengur þetta ekki. Það væri óskandi að ríkisstjórnin væri jafn einbeitt í þessu verkefni sínu eins og því að láta allt Icesave málið yfir okkur ganga.
mbl.is Vildu meiri niðurskurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örþrifaráð

Sú aðgerð að rífa húsið er óskynsamleg en hún er skiljanleg. Hér er um örþrifaráð að ræða, örþrifaráð sem virðist a.m.k. að einhverju leyti vera viðbrögð við því sem fv. eigandi upplifði sem algjört skilningsleysi bankans sem átti veð í húsinu. 

Hér birtist kjarni hluta þess vanda sem við er að etja. Fjölskyldur og fyrirtæki skilja ekki af hverju öll byrðin vegna hrunsins á að lenda á þeim og engum öðrum. Fjölskyldur og fyrirtæki þáðu lán sem bankarnir voru viljugir að veita, helst gengislán sem bankarnir mæltu hvað háværast með og bentu m.a. á hvað vaxtakjörin væru miklu hagstæðari á þeim en íslensku vísitölulánunum. 

Á sama tíma fengu forsvarsmenn bankanna og útrásarvíkingar að leika lausum hala, eftirlitslausir því eftirlitsstofnanirnar ríkisins brugðust því hlutverki sínu að að fylgjast með að þeir hegðuðu sér lögum samkvæmt.

Ríkisstjórnin neitar að viðurkenna að það þarf að aftengja vísitöluna til að fjölskyldur og fyrirtæki geti lifað þetta af. Ríkisstjórnin neitar að viðurkenna að það þarf að "núllstilla" skuldir heimila og fyrirtækja og færa þær til þess tíma sem þær voru áður en gengið fór á fleygiferð í byrjun árs 2008. Ríkisstjórnin heldur að greiðsluþol fjölskyldna og fyrirtækja sé endalaust. Það sýna úrræðin sem hún er að grípa til núna, endalausar hækkanir sem munu hækka enn skuldir og þar með greiðslubyrði skuldugra heimila og fyrirtækja. Örþrifaráð fv. húseigandans á Álftanesi sýnir aðra mynd og sennilega raunsannari en þá sem ríkisstjórnin er að reyna að mála. 


mbl.is Biður nágranna afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og neysluvísitalan hækkar

með enn alvarlegri afleiðingum fyrir skuldara. Ríkisstjórnin telur greinilega að þol skuldara sé endalaust og að aftur og aftur megi grípa til aðgerða sem þyngja greiðslubyrði þeirra sem skulda vísitölutryggð lán. Það er alvarlegur misskilningur hjá ríkisstjórninni enda virðist hún engan skilning hafa á raunverulegri stöðu fjölskyldna og fyrirtækja í landinu.
mbl.is Skattur á kex og gos í 24,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En getur fjármálaráðherra

sýnt fram á og sannað að samningurinn stofni Íslandi ekki í hættu? Og hver á að bera sönnunarbyrði í þessu máli? Er það ekki ríkisstjórnin?

Svo er með ólíkindum hvað ríkisstjórnin virðist fljót að gleyma. Félagsmálaráðherra viðurkennir að upplýsingagjöfin hefði mátt vera betri í Icesave málinu. Eitt helsta ádeiluefni VG á fyrri ríkisstjórn var að upplýsingagjöfin til almennings væri í molum. Þegar VG komast sjálfir í ríkisstjórn endurtaka þeir aftur og aftur, með stuðningi Samfylkingarinnar, sömu mistökin og þeir gagnrýndu aðra svo harðlega fyrir að gera. Hvernig má þetta vera? Hvað er svona flókið við það að upplýsa almenning?


mbl.is Enginn sýnt fram á að samningurinn stofni Íslandi í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru einhver samskipti?

Það er líklega rétt að opinberlega hafi hollenski seðlabankinn lítið getað gert vegna vaxtar Icesave-reikninganna í Hollandi. Slík opinber yfirlýsing af hálfu bankans hefði valdið áhlaupi á Landsbankann. En hafði hollenski seðlabankinn einhver samskipti við rétta aðila hér á landi til að lýsa yfir áhyggjum sínum vegna þróunar mála? Kom hollenski seðlabankinn áhyggjum sínum á framfæri við Seðlabanka Íslands, FME eða stjórnendur Landsbankans?

Um það atriði vantar upplýsingar. Hafi hollenski seðlabankinn skýrt þessum aðilum frá áhyggjum sínum í formlegum eða óformlegum samskiptum er ljóst að ábyrgð Seðlabanka Íslands, FME og stjórnenda Landsbankans á þróuninni og núverandi stöðu mála er enn meiri.


mbl.is Gátu ekki stöðvað Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband