Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Staðgöngumæðrun

Ég varð talsvert hugsi þegar ég sá auglýsingu í Morgunblaðinu í dag, sunnudag, þar sem par óskar eftir staðgöngumóður.

Ég var í nefndinni sem samdi frumvarpið sem varð að lögum um tæknifrjóvgun (nr. 55/1996) og þekki því þá forsögu mjög vel. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu að eðlilegast væri að líta svo á að tæknifrjóvgun væri meðferð við ófrjósemi. Með þeirri aðkomu þurfti ekki að taka afstöðu til réttar samkynhneigðra para til tæknifrjóvgunar enda gerðu lögin ekki ráð fyrir því að samkynhneigðum pörum væri opinn aðgangur að þessari meðferð til að eignast saman börn.

Jafnframt var nefndin sammála um það að setja fortakslaust bann við staðgöngumæðrun, þ.e. því að kona gangi með barn fyrir aðra konu (án tillits til hvort egg staðgöngumóðurinnar eða konunnar sem átti að fá barnið væru notuð). Ástæða þess var einkum sú að á þeim tíma var staðgöngumæðrum almennt bönnuð, m.a. vegna ýmissa lagalegra flækja sem því tengdust.

Síðan er liðinn áratugur og margt hefur breyst. Á síðasta ári var ákveðið að bæta lagalega stöðu samkynhneigðra (lög nr. 65/2005 um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun)). Ein þeirra laga sem breytt var vegna þessa voru lögin um tæknifrjóvgun. Í kjölfar breytingarinnar geta samkynhneigðar konur í staðfestri samvist eða skráðri sambúð eignast barn með tæknisæðingu. Þær fá þá gjafasæði en önnur hvor leggur til eggið og gengur með barnið.

Ég tel að þessi rýmkun á lögum um tæknifrjóvgun til hagsbóta fyrir samkynhneigðar konur kalli á frekari endurskoðun á lögunum, m.a. á hinu fortakslausa banni við staðgöngumæðrun. Staðgöngumæðrun er nú leyfð í ýmsum nágrannalöndum og eðlilegt að í þessu efni fylgjum við þeim.

Til eru gagnkynhneigð pör sem eiga engin önnur úrræði en staðgöngumæðrun til að eignast barn þar sem þeirra eigin kynfrumur eru notaðar. Tæknin gerir barneign þeirra mögulega með aðstoð staðgöngumóður. Úr því að ekkert bannar þeim að leita eftir meðferðinni í útlöndum, t.d. í jafnnálægum löndum og Bretlandi, er þá ekki eðlilegra að rýmka löggjöfina hér?

Niðurfelling á fortakslausu banni við staðgöngumæðrun myndi ekki eingöngu gagnast gagnkynhneigðum pörum. Ef staðgöngumæðrun yrði leyfð gæti opnast möguleiki fyrir samkynhneigða karlmenn í staðfestri samvist eða sambúð að eignast börn þar sem þeirra eigin kynfrumur yrðu notaðar. Það má velta því fyrir sér hvort lögin í þeirri mynd sem þau nú eru, sem gera samkynhneigðum konum kleift að eignast barn með aðstoð tæknifrjóvgunar en samkynhneigðum körlum ekki, feli ekki í sér brot á jafnræðisreglu. Ég tel að það þurfi sem allra fyrst að endurskoða lögin um tæknifrjóvgun með ofangreind atriði í huga.


Góður Grettir

Það var ágætis tilbreyting frá kosningavinnunni að fara á Gretti hjá Leikfélagi Reykjavíkur nú í kvöld. Stykkið var sýnt fyrir réttum 30 árum síðan en hefur greinilega verið staðfært talsvert fyrir þessa uppfærslu. Sú staðfæring hefur að mestu tekist mjög vel. Ég kunni þó ekki að meta tilvísanir til slæmrar meðferðar á Breiðuvík. Mér finnst að hræðileg upplifun þeirra drengja sem þar voru vistaðir sé ekki til að gera grín að. Annars er þetta stórgóð sýning enda var henni frábærlega vel tekið. Leikararnir stóðu sig allir með stakri prýði. Fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna í lokin. Ég get eindregið mælt með þessari sýningu. Þar með er ég búin að sjá tvær mjög fínar sýningar í leikhúsum borgarinnar á örfáum dögum og get hiklaust mælt með báðum, Hjónabandsglæpum í Þjóðleikhúsinu og Gretti hjá LR.

Annars fór lunginn úr deginum í kosningavinnu. Var um eftirmiðdaginn á skrifstofunni á Langholtsveginum til að undirbúa hringingar. Síðla dags opnaði kosningaskrifstofan í Grafarvoginum. Þar var fjölmennt eins og verið hefur við opnanir allra kosningaskrifstofanna. Þar með hafa allar skrifstofur opnað formlega og byrjað að starfa af krafti. Þær eru samtals sex talsins. Í JL-húsinu, í Húsi verslunarinnar, í Landsbankahúsinu við Langholtsveg, í Mjóddinni, Hraunbæ 102 í Árbænum og í Grafarvoginum í verslunarmiðstöðinni við Hverafold. Þær eru opnar virka daga frá kl. 17 - 21 og frá kl. 13-17 um helgar.


Skoðanakannanir

Þær halda áfram að vera okkur hliðhollar, og það mjög, skoðanakannanirnar. Sú síðasta sem birtist í dag, fyrir Reykjavík suður, er sérlega uppörvandi og hvetur okkur áfram.

Enda var mikill hugur við opnun kosningaskrifstofunnar í JL-húsinu í dag. Þar var fjölmenni saman komið, eins og hefur raunar verið við opnun allra kosningaskrifstofanna hingað til. Það er greinilegt að sjálfstæðismenn ganga baráttuglaðir og bjartsýnir til kosninganna enda byr í seglin.

Starfið á kosningaskrifstofunum sýnir hvað grasrótin í Sjálfstæðisflokknum er feykilega öflug og sterk. Það er auðvitað ómetanlegt, ekki síst fyrir okkur frambjóðendur, því fyrir okkur er verið að vinna.

Ég leit líka við á kosningaskrifstofunni á Langholtsveginum. Þar er allt komið í fullan gang. Ég verð þar aftur á morgun auk þess sem síðasta kosningaskrifstofan verður opnuð í Grafarvoginum. Meira um það seinna.


Réttindi sjúklinga

Í sumar eru 10 ár frá því að lög um réttindi sjúklinga gengu í gildi. Um síðustu áramót voru sex ár frá því að lög um sjúklingatryggingu urðu að veruleika. Bæði lögin voru sett til að tryggja hag sjúklinga og styrkja rétt þeirra. Það veldur mér því alltaf jafnmiklum vonbrigðum þegar til mín leita sjúklingar sem orðið hafa fyrir skakkaföllum í meðferð sem hafa ekki hugmynd um rétt sinn í þessu sambandi. 

Ég þáði því með þökkum að taka að mér þriggja tíma kennslu hjá verðandi félagsráðgjöfum um réttindi sjúklinga. Félagsráðgjafar eru ein þeirra heilbrigðisstétta sem eiga að miðla upplýsingum af þessu tagi til sjúklinga. Að því var komið í morgun að standa við þetta loforð um kennsluna. Af þeim sökum gat ég stoppað mjög stutt á daglegum frambjóðendafundi í Valhöll.

En aftur að réttindum sjúklinga. Það verður að finna leiðir til þess að tryggja að sjúklingar viti af því hvaða rétt þeir eiga sem sjúklingar, t.d. varðandi samþykki fyrir meðferð, upplýsingar um meðferð o.fl. Það verður líka að kynna betur fyrir sjúklingum lögin um sjúklingatryggingu. Lögin tryggja sjúklingum tiltekin bótarétt án tillits til sakar þegar eitthvað fer úrskeiðis í heilbrigðisþjónustu. Það gefur hins vegar auga leið að sjúklingar láta ekki á þennan rétt sinn reyna ef þeir vita ekki af honum.

Ef eitthvað fer öðruvísi en að var stefnt við meðferð þá á það auðvitað að vera ófrávíkjanleg regla að heilbrigðisstarfsmenn sem sjúklinginn annast segi sjúklingi og aðstandendum hans af því að hann geti átt rétt til bóta skv. lögum um sjúklingatryggingu. Félagsráðgjafar gegna hér mikilvægu hlutverki en meira þarf til að koma. Það þarf að fræða alla heilbrigisstarfsmenn betur um þessa mikilvægu löggjöf og gera þeim grein fyrir því að þeir eigi að mila þessari þekkingu áfram til sjúklinganna.


Heimsókn á Hrafnistu

Í hádeginu fórum við þrír frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum á Hrafnistu í Reykjavík. Erindið var að spjalla við þá sem þar búa, kynna okkur og stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Þetta var góð heimsókn og ég átti gott spjall við fjölmarga. Ég hlustaði á ábendingar íbúanna um það sem þeir eru ánægðir með á Hrafnistu og hvað þeim finnst mega fara betur. Flestir sem ég talaði við bentu á nauðsyn þess að endurnýja húsakynnin og þá fyrst og fremst til þess að tryggja að hver og einn íbúi hefði sitt eigið baðherbergi. Nú er staðan sú á Hrafnistu að allmargir þurfa að deila baðherbergi með öðrum og finnst það miður.

Ábendingar um endurnýjun húsakynna eldri öldrunarstofnuna eru hárréttar og skv. upplýsingum fulltrúa Hrafnistu er stutt í að þessu verði breytt. Þetta verður gert með því að sameina tvö herbergi í eitt og sérbaðherbergi fylgir hverju rými. Vandinn við þetta er hins vegar sá að rýmum á stofnuninni fækkar talsvert við þessar nauðsynlegu breytingar.

Húsnæði Hrafnistu er barn síns tíma, byggt fyrir nærri því hálfri öld þegar allar kröfur til húsnæðis voru aðrar en nú. Vegna viðvarandi skorts á vistrými fyrir aldraða í Reykjavík hafa nauðsynlegar endurbætur á húsnæði eins og Hrafnistu dregist. Ástæðu hins viðvarandi skorts er að mestu leyti að rekja til þess að á 12 ára valdatíma R-listans í Reykjavík var nánast ekkert gert í húsnæðismálum aldraðra. Engar þjónustuíbúðir voru byggðar, ekkert hjúkrunarrými en undir lok síðsta kjörtímabils síns var þó loksins byrjað á hjúkrunardeild í Mörkinni.

Það hljóma því hjákátlega loforð vinstri flokkanna um að þeir ætli að leysa húsæðisvanda aldraðra í Reykjavík. Þeir höfðu 12 ár til að gera það og gerðu ekkert eins og Ásta Möller benti svo ágætlega á í grein sinni sem birtist í Fréttablaðinu í gær og hún víkur að þessu sama á astamoller.blog.is

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi var samþykkt metnaðarfull ályktun um málefni aldraðra þar sem fram kemur hvað flokkurinn vill gera í þessum málaflokki á næsta kjörtímabili. Sagan hefur sýnt að Sjálfstæðisflokkurinn er líklegastur flokka til að standa við það sem hann lofar í kosningum. Það sýndi hann í skattamálum á því kjörtímabili sem nú er að ljúka. Það mun hann sýna á næsta kjörtímabili. Þetta þurfa aldraðir og aðstandendur þeirra að hafa í huga í kosningunum 12. maí nk.

 


Fleiri kosningaskrifstofur opna

Það var ánægjulegt að fara í góða veðrinu í dag á opnanir tveggja kosningaskrifstofa Sjálfstæðisflokksins hér í borginni. Önnur er í Húsi verslunarinnar í Kringlunni, hin á Langholtsveginum þar sem útibú Landsbankans var eitt sinn. Þetta eru glæsilegar kosningaskrifstofur þar sem allt er komi á fulla ferð í kosningavinnu. Fjöldi fólks hefur lagt nótt við dag að gera skrifstofurnar tilbúnar. Starf hverfafélaganna í Reykjavík er ómetanlegt og verður seint fullþakkað.

Mikið fjölmenni var á báðum stöðum og sóknarhugur í öllum. Það er líka full ástæða til. Nýjustu skoðanakannanir sýna að Sjálfstæðisflokkurinn er í mikilli sókn, það er byr í seglin. Þannig ætlum við að halda áfram til 12. maí og slaka hvergi á. Þá munu góðar tölur koma upp úr kjörkössunum líka.

Milli heimsókna á kosningaskrifstofur brá ég mér í höfuðstöðvar KFUM og K þar sem Skógarmenn buðu í sumardagskaffi. Kaffisalan er ein af fjáröflunarleiðum vegna starfseminnar í Vatnaskógi. Þá starfsemi þekki ég vel, af góðu einu og styð af heilum hug. Fyrr í dag  bloggaði ég um mikilvægi heilbrigðs æskulýðsstarfs. Starfsemin í Vatnaskógi er svo sannarlega af þeim toga.

Sumardeginum fyrsta lauk í Þjóðleikhúsinu á sýningunni Hjónabandsglæpir eftir fransmanninn Eric-Emanuel Schmitt. Þetta er tvímælalaust besta sýningin sem ég hef séð í Þjóðleikhúsinu í vetur (missti af Sitji Guðs englar). Stórleikararnir Hilmir Snær Guðnason og Elva Ósk Ólafsdóttir fóru frábærlega vel með sín hlutverk. Leikritinu er lýst sem nærgöngulu og átakaþrungnu um ástina, minnið og gleymskuna. Það eru orð að sönnu. Ég mæli hiklaust með þessu leikriti.


Mikilvægi æskulýðs- og tómstundastarfs

Ég átti góða stund í skátamessunni í morgun. Ræða Margrétar Tómasdóttur skátahöfðingja rifjaði upp þá tíma þegar ég var virk í skátastarfi, fyrir ansi mörgum árum síðan. En það var skemmtilegt að vera í skátunum. Hæst ber í minningunni landsmótið á Hreðavatni 1970. Það varð hápunktur minn í skátastarfi.Skátamessa2 Það er hins vegar sagt: Eitt sinn skáti, ávallt skáti og ég held að það sé nokkuð til í því.

Í ræðu sinni vék skátahöfðingi að mikilvægi heilbrigðs æskulýðsstarfs. Það eru orð að sönnu og það verður aldrei nægileg áhersla lögð á það að æskulýðs- og tómstundastarf er forvarnarstarf. Allar rannsóknir staðfesta það. Börn og unglingar sem taka þátt í skipulögðu æskulýðsstarfi eins og skátunum, hjá KFUM og K og íþróttafélögunum, svo eitthvað sé nefnt, eru mun ólíklegri til að lenda á villigötum í lífinu á unglingsárunum. Þessar staðreyndir skipta máli og þess vegna er nauðsynlegt að styðja vel við bakið á þeim aðilum sem vinna að æskulýðsmálum.


Gleðilegt sumar!

Sumardagurinn fyrsti er einstakur dagur. Honum fylgir stemmning og bjartsýni, von um að sumarið sem heilsar verði okkur gott og farsælt. Mér sýnist að vetur og sumar hafi frosið saman víðast hvar á landinu. Segir þjóðtrúin ekki að það þýði betra sumar en ella?

Í endurminningunni var alltaf frost og jafnvel snjór á sumardaginn fyrsta. Ég var í skátunum og því fylgdi að ganga fylktu liði í skátamessu á sumardaginn fyrsta. Skátabúningur okkar stelpnanna var kjóll, frekar þunnur og það mátti ekki vera í buxum með honum og varla í nokkru þykku eða hlýju innanundir, og alls ekki rúllukragapeysu. Hún skemmdi "lookið" á búningnum. Mér var því alltaf kalt í skrúðgöngunni. Sem betur fer er búið að breyta þessu og stelpur jafnt sem strákar eru í buxum við skátaskyrtuna.

Ég ætla að endurvekja gamlan sið og fara í skátamessu í Hallgrímskirkju núna kl. 11. Síðan hvíla á mér ýmsar framboðsskyldur sem mér er ljúft að sinna.

Tölurnar úr nýjustu skoðanakönnuninni eru okkur sjálfstæðismönnum ómetanleg hvatning í kosningabaráttunni. En það þýðir ekki að slá slöku við þótt skoðanakannanirnar gefi til kynna að flokkurinn njóti góðs byrs. Það eru kosningarnar sem við ætlum að vinna, ekki skoðanakannanirnar. Þessar tölur og jafnvel betri ætlum við að fá uppúr kjörkössunum 12. maí.


Kosningabaráttan heldur áfram

Fundir kl. 8 í Valhöll eru frá því í gærmorgun orðnir hluti af daglegum skyldum. Þar er farið yfir það sem framundan er, verkefnum úthlutað og stilltir saman strengir. Þar er líka séð til þess að við fáum okkur hollan og góðan morgunmat. Lýsi er meira segja á boðstólnum fyrir þá sem það geta þambað. Ég var búin að sjá að það yrði mér sérstök ögrun að mæta stundvíslega kl. 8 mánudaga, miðvikudaga og föstudaga því þá daga á ég milli 6:30 og 7:30 stefnumót í Laugum við Guðnýju, þjálfarann minn. Á þetta reyndi í fyrsta sinn í morgun - og ég komst að því að þetta gengur allt saman upp með smá skipulagi og því að vakna örlítið fyrr.

Kosningaskrifstofan í Breiðholti opnaði í dag. Ég stoppaði stutt því áður mætti ég í móttöku hjá Malbikunarstöðinni Höfða í tilefni 10 ára afmælis fyrirtækisins. Fyrirtækið er í raun miklu eldra en um síðustu áramót voru 10 ár frá því að það var hlutafélagavætt.

Ég sat í níu ár í stjórn Malbikunarstöðvarinnar og er nýhætt þar störfum. Það var sérlega ánægjulegur og lærdómsríkur tími. Mér finnst það einstakt að hafa fengið tækifæri til að kynnast með þessum hætti allt öðrum vettvangi en maður sýslar á sjálfur frá degi til dags. Störfin í stjórninni gera það að verkum að ég ek um götur borgarinnar með allt öðru hugarfari en áður (og að sjálfsögðu ekki á nagladekkjum). Í dag var ekki eingöngu fagnað 10 ára afmæli fyrirtækisins heldur einnig því að á síðasta ári var ráðist í mikla fjárfestingu, kaup á nýrri malbikunarstöð. Nýja stöðin hefur nú verið sett upp. Hún tvöfaldar afkastagetuna við malbiksframleiðslu. Með því styrkist samkeppnishæfni fyrirtækisins nú þegar framundan virðast vera mikil malbikunarverkefni, s.s. tvöföldun á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi að hluta og hugsanlega breikkun Hvalfjarðarganga. 

Ég hefði kosið að vera lengur, bæði á kosningaskrifstofunni og hjá Höfða, en það var ekki hægt. Það þarf að taka myndir af frambjóðendum. Mér var gert að mæta í slíka myndatöku síðdegis í dag og hún tók auðvitað sinn tíma. Við ljósmyndarinn komum okkur saman um mynd til að nota. Við töldum hana góða. Hvort aðrir séu sammála því kemur í ljós þegar myndin fer að birtast. 


Af hverju gera ekki fleiri kaupmála?

Fjármál hjóna eru mér hugleikin í dag. Eftir hádegi var ég í málflutningi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ágreiningsefnið var, eins og svo oft, á helmingaskiptareglan að gilda við hjónaskilnað aðila eða ekki? Hjónin voru gift í á fjórða ár og höfðu búið saman í liðlega ár áður en þau gengu í hjúskap. Öðrum aðilanum finnst að hann hafi verið miklu betur settur en hinn við stofnun hjúskaparins og vill ekki sætta sig við helmingaskipti nú þegar skilnaður er staðreynd. Kaupmála kom aldrei til tals að gera þegar til hjúskaparins var stofnað.

Hjúskaparlögin eru skýr, helmingaskiptareglan er meginregla við hjónaskilnað. Í henni felst að séu einhverjar eignir til skipta við hjónaskilnað, þá fær hvort hjóna helming af skírri eign hins í sinn hlut. Á mannamáli þýðir þetta svona nokkurn veginn það að hjónin skipta eignum á milli sín til helminga.

Þröngar undantekningar eru veittar frá helmingaskiptareglunni. Svokölluð skáskiptaregla kemur þá til álita. En hún er undantekningarregla og dómstólar hafa einkum beitt henni þegar hjúskapur hefur staðið í stuttan tíma, ár eða tvö. Í skáskiptareglunni felst að það hjóna sem telst hafa komið með meiri eignir inn í búið fær að ganga úr hjúskapnum með hluta eða allar eignirnar, án þess að þær skiptist til helminga.

Hjá deilum af þessu tagi mætti komast ef skynsemi réði för strax við stofnun hjúskapar þar sem teljandi munur er á eignarstöðu aðila. Í þeim tilvikum á fólk auðvitað að gera með sér kaupmála og ákveða hvernig fjárskiptunum verði háttað, komi til skilnaðar. Í þeim flóknu fjölskyldumynstrum sem eru orðin svo algeng nú, verða kaupmálar, að mínu mati, æ mikilvægari (og erfðaskrár raunar líka ef bæði eiga börn af fyrra hjónabandi og vilja tryggja hinu langlífara setu í óskiptu búi).

En það er eins og allir séu svo feimnir við kaupmála. Í stað þess að líta á hann sem þá skynsamlegu tryggingu sem hann er, þá er tilhneiging til að telja að í gerð kaupmála felist vantrú á það að hjónabandið verði langlíft og farsælt. Þessari afstöðu þarf að breyta. Tryggingafélögin auglýsa: Þú tryggir ekki eftirá. Það sama gildir um fjárskipti við hjónaskilnað. Ef hjón, annað eða bæði, vilja tryggja frávik frá helmingaskiptareglu, komi til hjónaskilnaðar, þá gera þau kaupmála áður en til hjónabandsins er stofnað. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 392324

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband