Leita í fréttum mbl.is

Af hverju gera ekki fleiri kaupmála?

Fjármál hjóna eru mér hugleikin í dag. Eftir hádegi var ég í málflutningi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ágreiningsefnið var, eins og svo oft, á helmingaskiptareglan að gilda við hjónaskilnað aðila eða ekki? Hjónin voru gift í á fjórða ár og höfðu búið saman í liðlega ár áður en þau gengu í hjúskap. Öðrum aðilanum finnst að hann hafi verið miklu betur settur en hinn við stofnun hjúskaparins og vill ekki sætta sig við helmingaskipti nú þegar skilnaður er staðreynd. Kaupmála kom aldrei til tals að gera þegar til hjúskaparins var stofnað.

Hjúskaparlögin eru skýr, helmingaskiptareglan er meginregla við hjónaskilnað. Í henni felst að séu einhverjar eignir til skipta við hjónaskilnað, þá fær hvort hjóna helming af skírri eign hins í sinn hlut. Á mannamáli þýðir þetta svona nokkurn veginn það að hjónin skipta eignum á milli sín til helminga.

Þröngar undantekningar eru veittar frá helmingaskiptareglunni. Svokölluð skáskiptaregla kemur þá til álita. En hún er undantekningarregla og dómstólar hafa einkum beitt henni þegar hjúskapur hefur staðið í stuttan tíma, ár eða tvö. Í skáskiptareglunni felst að það hjóna sem telst hafa komið með meiri eignir inn í búið fær að ganga úr hjúskapnum með hluta eða allar eignirnar, án þess að þær skiptist til helminga.

Hjá deilum af þessu tagi mætti komast ef skynsemi réði för strax við stofnun hjúskapar þar sem teljandi munur er á eignarstöðu aðila. Í þeim tilvikum á fólk auðvitað að gera með sér kaupmála og ákveða hvernig fjárskiptunum verði háttað, komi til skilnaðar. Í þeim flóknu fjölskyldumynstrum sem eru orðin svo algeng nú, verða kaupmálar, að mínu mati, æ mikilvægari (og erfðaskrár raunar líka ef bæði eiga börn af fyrra hjónabandi og vilja tryggja hinu langlífara setu í óskiptu búi).

En það er eins og allir séu svo feimnir við kaupmála. Í stað þess að líta á hann sem þá skynsamlegu tryggingu sem hann er, þá er tilhneiging til að telja að í gerð kaupmála felist vantrú á það að hjónabandið verði langlíft og farsælt. Þessari afstöðu þarf að breyta. Tryggingafélögin auglýsa: Þú tryggir ekki eftirá. Það sama gildir um fjárskipti við hjónaskilnað. Ef hjón, annað eða bæði, vilja tryggja frávik frá helmingaskiptareglu, komi til hjónaskilnaðar, þá gera þau kaupmála áður en til hjónabandsins er stofnað. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband