Leita í fréttum mbl.is

Góð áminning

Það er gott að minna á það að það eru ekki einvörðungu örfáir "auðmenn" að tapa peningum með yfirtökum á Landsbanka Íslands og Glitni, þó fjárhæðirnar sem þeir tapa séu mestar. Þúsundir einstaklinga, almenningur í landinu, svaraði kalli stjórnvalda, um að sýna tiltrú á hlutabréfamarkaðinn, og fjárfesti í hlutabréfum. Almenningur hefur tapað stórum fjárhæðum á hruni bankanna. Margir í þessum hópi voru búnir að tapa miklu þegar FL Group fór. Rétt er að minna á að hluthafarnir í FL Group fengu bréf í Glitni þegar FL Group var tekið af markaði. Almenningur er líklega að tapa hlutfallslega miklu hærri fjárhæðum en "auðmennirnir".

Það er ástæða til að minna á það að í gegnum tíðina hefur ýmislegt verið gert til að hvetja almenning til að spara með fjárfestingu í hlutabréfum. Almenningur hefur svarað því kalli vel og með því átt þátt í að hér byggðist upp virkur verðbréfamarkaður. Jafnframt hygg ég að almenningur hafi treyst því að eftirlitið með þessum markaði og almenningshlutafélögum væri traust og öflugt.

Það sem gerst hefur síðustu daga hefur vakið fjölmargar spurningar. Eftirfarandi fréttir eru á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins, annars vegar 6. febrúar 2008 og hins vegar 14. ágúst 2008, báðar undir fyrirsögninni: Íslensku bankarnir standast álagspróf FME.

Í fréttinni 6. febrúar 2008 segir m.a. (en fréttin í heild er hér):

Fjórir stærstu viðskiptabankarnir (innskot DP - hér er vísað til Glitnis, Kaupþings, Landsbanka Íslands og Straums) standast allir álagspróf Fjármálaeftirlitsins sem eftirlitið framkvæmir með reglubundnum hætti. Álagsprófið gerir ráð fyrir að fjármálafyrirtæki standist samtímis áföll í formi tiltekinnar lækkunar á hlutabréfum, markaðsskuldabréfum, vaxtafrystum/virðisrýrðum útlánum og fullnustueignum og áhrifa af lækkun á gengi íslensku krónunnar án þess að eiginfjárhlutfallið fari niður fyrir lögboðið lágmark. 

 

Vakin er athygli á að álagsprófið miðast við stöðuna á viðkomandi tímapunkti. Eiginfjárhlutföll bankanna í árslok 2007 endurspegla þegar áhrif af óróa á fjármálamörkuðum á seinni hluta ársins, þ.e. áður en áhrifin af álagsprófinu eru reiknuð. Til viðbótar hinu formlega álagsprófi framkvæmir Fjármálaeftirlitið ýmis álagspróf eftir því sem ástæða þykir til.

   
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME, segir niðurstöðu álagsprófsins sýna að að eiginfjárstaða íslensku bankanna sé sterk.
"Niðurstöður álagsprófsins sýna að eiginfjárstaða íslensku bankanna er sterk og þeir geta staðið af sér veruleg áföll.  Sterk eiginfjárstaða er sérlega mikilvæg í ljósi þess óróa sem verið hefur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum".

Í fréttinni 14. ágúst 2008 segir m.a. (fréttina í heild má lesa hér):

Fjórir stærstu viðskiptabankarnir (innskot DP: hér er vísað til Glitnis, Kaupþings, Landsbanka Íslands og Straums) standast allir álagspróf Fjármálaeftirlitsins sem eftirlitið framkvæmir með reglubundnum hætti. Álagsprófið gerir ráð fyrir að fjármálafyrirtæki standist samtímis áföll í formi tiltekinnar lækkunar á hlutabréfum, markaðsskuldabréfum, vaxtafrystum/virðisrýrðum útlánum og fullnustueignum og áhrifa af lækkun á gengi íslensku krónunnar án þess að eiginfjárhlutfallið fari niður fyrir lögboðið lágmark.

Vakin er athygli á að álagsprófið miðast við stöðuna á viðkomandi tímapunkti. Eiginfjárhlutföll bankanna í lok annars ársfjórðungs 2008 endurspegla þegar áhrif af óróa á fjármálamörkuðum á seinni hluta ársins 2007 og fyrri hluta þessa árs, þ.e. áður en áhrifin af álagsprófinu eru reiknuð. Til viðbótar hinu formlega álagsprófi framkvæmir Fjármálaeftirlitið ýmis álagspróf eftir því sem ástæða þykir til.
  
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME: "Niðurstöður álagsprófsins sýna að eiginfjárstaða bankanna er sterk og getur þolað töluverð áföll.  Stjórnendur og hluthafar bankanna þurfa að leggja áherslu á að viðhalda sterkri eiginfjárstöðu og jafnvel efla hana, en eiginfjárþörfina þarf reglulega að endurmeta með hliðsjón af mismunandi áhættuþáttum í rekstri og stefnu hvers fyrirtækis."

Örfáum vikum eftir að seinna álagspróf ársins hefur verið gert hafa skilanefndir í krafti neyðarlaga tekið við rekstri tveggja af þessum fjórum bönkum og blikur eru á lofti varðandi framtíð þess þriðja. Var aldrei neitt að marka þessi álagspróf eða eru þau svona ófullkomin að þau gerðu ekki ráð fyrir jafnmargþættum vanda og upp kom? Og ef svo er, þýðir það ekki í raun að það var aldrei neitt að marka þau og þau gáfu því öllum, líka hinum almenna fjárfesti, algerlega falskt öryggi? Þessum spurningu og fleirum af sama toga sýnist þurfa að svara þegar tóm gefst til.


mbl.is Harmleikur allrar þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþægilegt

Er í útlöndum þessa stundina eins og bloggfærslur hafa borið með sér. Fréttir af þessu tagi eru óþægilegar. Við sem erum í þessari stöðu vitum ekki á hvaða gengi, það litla sem maður er að kaupa með korti, verður fært. Raunar er maður ekki að nota kortið nema rétt til að borga mat. Það er ekki verið að eyða í neitt annað í þessari stöðu.


mbl.is Evran dýr hjá kortafyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðlaus

Lífið er gráglettið. Hver hefði trúað því að Rússar yrðu okkar "síðasta von"? Hvar eru okkar vestrænu bandamenn? Af hverju eigum við ekkert skjól hjá þeim?
mbl.is Þurfum að leita nýrra vina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskudeildin í Manitoba-háskóla

Í gær, mánudag, var frídagur í annars þéttri dagskrá okkur hér á Íslendingaslóðum. Við tókum okkur til, nokkur í hópnum, og þáðum boð dr. Birnu Bjarnadóttur yfirmanns íslenskudeildarinnar (Acting Head and Chair, Icelandic Studies) í Manitoba-háskóla um að heimsækja deildina. Það var fróðleg og skemmtileg heimsókn og dreifði aðeins huganum, sem er er auðvitað heima, við það sem þar er að gerast.

Við skoðuðum m.a. Elisabeth Dafoe bókasafn skólans, en þar er mikið safn íslenskra bóka, í aðgreindum húsakynnum sem voru endurgerð í tengslum við hátíðahöldin árið 2000. Í safninu eru kringum 27 þús. bindi og er það raunar næst stærsta íslenska bókasafnið í N-Ameríku og hið stærsta í Kanada. Í húsakynnum íslenska safnsins er einnig ágæt listsýningaaðstaða og þar er nú sýning á teiknimyndum Vestur-Íslendingsins Charlie Thorson (Karl Gústav Stefánsson), en hann vann lengi hjá Disney kvikmyndaverinu og skóp margar þekktar teiknimyndahetjur, m.a. Mjallhvíti og dvergana sjö og "Bugs-Bunny". Fyrirmynd Mjallhvítar mun hafa verið íslensk kona.

Íslenskudeildin í háskólanum, sem Birna veitir forstöðu, býður nám í íslensku og íslenskum bókmenntum, bæði í grunnámi og framhaldsnámi. Á annað hundrað nemendur stunda nám við deildina. Deildin var sett á laggirnar 1951 og mun vera eina íslenskudeildin við háskóla utan Íslands (sjá nánar hér).

Eftirmiðdeginum var svo einfaldlega varið á hótelinu - í tölvunni - að fylgjast með atburðum dagsins heima. 

Á morgun er heimsókn í áfrýjunardómstól hér - en þar er einn dómaranna Vestur-Íslendingur. Meira um það seinna.


Með Ísland í hjarta

Sérlega áhugaverð skoðunarferð um Winnipeg er að baki. Við nutum frábærrar leiðsagnar Davíðs Gíslasonar bónda og Neil Bardal útfararstjóra. Milli þess sem þeir sögðu okkur frá merkum stöðum hér í Winnipeg kvað Davíð rímur og Neil spilaði íslensk ættjarðarlög.

Við byrjuðum í þinghúsi Manitoba, sem er sérlega glæsileg bygging. Við vorum greinilega taldir hættulausir gestir því við þurftum enga öryggisgæslu að fara í gegnum.

Í garðinum fyrir utan, milli þingsins og áfrýjunardómstólsins, sem við munum heimsækja á þriðjudag, er stytta af Jóni Sigurðssyni forseta. Það er sú hin sama og stendur á Austurvelli og var hún afhjúpuð hér 1921. Það var merkilegt að heyra Neil Bardal lýsa því hve stóran sess Jón Sigurðsson á í hugum Vestur-Íslendinga. Árlega er athöfn í garðinum við styttu Jóns til að minnast tengslanna við Ísland. Ávörp eru haldin, m.a. í minningu Jóns. Neil sagði Vestur-Íslendinga vera einlæga Kanadamenn en þeir bæru ætíð Ísland í hjarta.

Það var einnig skemmtilegt að heyra lýsingu Neil á því hvað ömmur væru mikilvægar í hugum Vestur-Íslendinga. Þær hafa lengi gert kröfur til barnabarna sinna, ekki síst drengjanna, um að þau stæðu sig og þær helstar að eitthvað yrði úr þeim. Að verða lögfræðingur var litið sérstökum velvildaraugum hjá ömmum, svo ekki væri talað um að verða síðan dómari. Sjálfur fetaði Neil í fótspor föður og afa og tók við fjölskyldurekstrinum sem er útfararstofa. Hann fullyrti að það hefði ekki glatt ömmu hans. Hann taldi að amma hans hafi ekki orðið ánægð með hann fyrr en hann varð kjörræðismaður Íslands hér um slóðir. Og það lifði hún ekki.

Við ókum um hverfi þar sem Íslendingar voru með starfsemi. Við heimsóttum kirkjugarð þar sem margir Íslendingar hvíla. Í lokin fórum við í húsakynni Lögbergs-Heimskringlu sem nú er gefið út tvisvar í mánuði. Nýr ritstjóri, Caelum Vatnsdal, hefur nýlega tekið við blaðinu og er bjartsýnn á framtíð þess. Útgáfa blaðsins nýtur öflugs stuðnings að heiman og tekist hefur að tvöfalda áskrifendafjöldann á nokkrum árum. Þar áskotnaðist mér ritið Harðfiskur og skyr sem er útgáfa á leiðurum Lillian Vilborg sem var í nokkur ár ritstjóri Lögbergs-Heimskringlu. Ég hlakka til að lesa það.

Það kom greinilega fram í þessari skoðunarferð að hátíðarhöldin árið 2000 hleyptu nýju lífi í allt starf Vestur-Íslendinga og efldi og styrkti mjög tengslin við Ísland. Og það er greinilegt að þessi tengsl eru Vestur-Íslendingum mjög mikilvæg.

Framundan er heimsókn til íslenska ræðismannsins hér, Atla Ásmundssonar, og í kvöld verður hátíðarkvöldverður. Sumar kvennanna í hópnum munu skrýðast íslenskum búning. Meira um það seinna.


"Komið aftur"

Í gær, laugardag, fórum við um Íslendingabyggðir við Winnipeg-vatn og nutum traustrar leiðsagnar Davíðs Gíslasonar bónda á Svaðastöðum við Árborg.

Á leiðinni til Gimli skoðuðum við nokkur minnismerki, m.a. um Vilhjálm Stefánsson, landkönnuð, sem fæddist hér, Guttorm Guttormsson skáld og dagblaðið Framfara, sem gefið var út í örfá ár af Íslendingum.Kanadaferð-2

Kanadaferð-3Í Gimli tók íslenskumælandi bæjarstjóri á móti okkur, Tammy Axelsson. Hún var kosin í starfið fyrir tveimur árum. Í Gimli er fróðlegt safn um lífsbaráttu Íslendinga hér um slóðir, sem við skoðuðum. Landar okkar fóru vestur til að leita betra lífs en greinilegt er að lífsbaráttan var hörð, ekki síður en heima á Fróni, a.m.k. framan af. Í kaffihúsinu Amma rakst ég á þessa skemmtilegu auglýsingu um rúllupylsu og vínartertu og í búð þar við hliðina voru smekkir og ýmis önnur barnaföt með áletruninni: Elskan. Made in Canada with Icelandic Parts.

Síðan lá leið okkar út í Heklu-eyju. Þar og raunar á þessu svæði öllu eru íslensk bæjarnöfn á hverju strái. Hnausar, Hlíðarendi, Draumaland, Grund, Reynivellir. Kanadaferð-5Þjóðræknifélagið mun hafa staðið fyrir að setja upp þessi bláu skilti með bæjarnöfnum og ártölum við bændabýli Íslendinga.

Á Heklueyju skoðuðum við kirkjuna og kirkjugarðinn. Flestir sem þar hvíla eru af íslenskum uppruna. Við skoðuðum einnig skólann og heimili Íslendinga ásamt minjasafni, bæði um vélakost sem notaður var og um fiskveiðar.

Í skólanum var íslenskukennsla á töflunni. Myndirnar tvær hér fyrir neðan eru úr skólanum.

Kanadaferð-8Kanadaferð-9

Heklueyja var áður aðeins aðgengileg með ferju en nú hefur vegur verið lagður á landfyllingu milli lands og eyju. Þegar við yfirgáfum eyjuna blasti við okkur skilti með áletruninni: Komið aftur. 

Á leiðinni tilbaka til Winnipeg heimsóttum við svo Einar Vigfússon tréskurðarmeistara og konu hans, Rósalind. Þar fengum við að skoða vinnustofu hans og listilega gerða fugla, sem hann sker út og málar í náttúrulegum litum. Hann hefur verið margverðlaunaður fyrir verk sín.

Veðrið lék við okkur, 17 stiga hiti og glampandi sól. Þetta var í einu orði sagt magnaður og ógleymanlegur dagur.


Hvernig má þetta vera?

Þessar tölur eru athyglisverðar ekki síst varðandi hópinn 16-18 ára. Sá hópur er ófjárráða og getur að meginstefnu til því ekki skuldsett sig nema með samþykki forráðamanna. Fróðlegt hefði verið að sjá nákvæmari sundurliðun - fyrir hópinn 16-18 og svo 18-20. Skuldir 16-18 ára eru í raun skuldir forráðamanna, hafi þeir samþykkt þær. Ef ekkert samþykki er fyrir skuldinni þá er meginreglan sú að kröfuhafinn situr uppi með skuldina, greiði hinn ófjárráða ekki.
mbl.is Íslensk ungmenni eru mörg mjög skuldsett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til skoðunar

og umhugsunar.


Palin-Biden kappræðan

Ég sá mest af kappræðum Palin og Biden í sjónvarpinu í gærkvöldi og gat ekki betur séð en að Palin stæði sig alveg þokkalega og miklu betur en búið var að gera ráð fyrir. Mat stjórnmálaskýrenda er að þau hafi bæði staðið sig vel, en áratugareynsla Biden hafi augljóslega komið skýrt fram í öllu sem hann sagði (sjá hér). Hrakspár, um að Palin myndi ekkert geta, rættust amk. ekki. Það verður fróðlegt að sjá hvort kappræðurnar breyti einhverju í skoðanakönnunum.
mbl.is Fleirum þótti Biden standa sig betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Montréal

Fyrr á árinu þegar staða mála var nú talsvert bjartari en hún er nú, boðaði Lögmannafélag Íslands til ferðar fyrir félagsmenn á Íslendingaslóðir í Kanada. Mig hefur lengi dreymt um að fara slíka ferð þannig að ég bara bókaði mig. Í maí var svo að hrökkva eða stökkva, borga ferðina eða taka áhættu með kostnaðinn. Ég hélt mig við ákvörðunina og greiddi upp ferðina, enda óraði engan á þeim tíma fyrir því sem í ljós hefur komið.

Á mánudag var svo komið að þessu. Það var auðvitað með hálfum huga sem farið var af stað, eins og mál höfðu þróast.

BlómkálEn til Montréal erum við komin, liðlega 20 manna hópur lögmanna og maka. Í dag, þriðjudag, vorum við á eigin vegum að skoða borgina. Þetta er falleg borg, hafnarborg, þótt hún liggi ekki að sjó. Borgin er evrópsk og franska meira töluð en enska, þótt flestir geti talað ensku þegar á reynir. Enda er hún stærsta frönskumælandi borgin utan Evrópu. Vegna frjáls falls krónunnar er allt dýrt. Það eina jákvæða við það er að maður tímir ekkert að kaupa. Sem betur fer kostar það ekkert að rölta og skoða sig um og það gerðum við í allan dag. M.a. var skoðaður Jean-Talon markaðurinn í litlu Ítalíu. Þar rakst ég á þetta skemmtilega blómkál sem ég gat ekki stillt mig um að smella mynd af. Myndin sýnir það ekki nægilega vel, að blómkálið vinstra megin er gult, en ekki hvítt eins og venjulega - greinilega sést að blómkálið hægra megin er fjólublátt. Erfðabreytt blómkál? Engin svör fengust við því.


mbl.is Krónan veiktist um 5,3%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurmannlegt

Ég sá viðtalið við Gunnlaug í Kastljósinu á fimmtudag (hér). Það hlýtur að vera nánast ofurmannlegur agi sem beita þarf sig til að ná árangri af þessu tagi. Og sérlega ánægjulegt að nú skyldi þetta takast því í fyrra voru ytri aðstæður honum andsnúnar svo hann hætti. Innilegar hamingjuóskir til Gunnlaugs.
mbl.is Lauk ofurmaraþoninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvorugur góður?

Ég byrjaði að horfa á þessar kappræður. Og gafst svo upp. Mér fannst þeir báðir frekar stirðir og leiðinlegir - töluðu ekki hvor við annan, eins og stjórnandinn var þó að reyna að fá þá til að gera. Skoðanakannanir vestra benda til að það sé mat áhorfenda að Obama hafi haft betur - en sá fyrirvari er þó gerður að fleiri demókratar en repúblikanar horfðu á kappræðurnar (sjá hér). Mat áhorfenda er þó það að báðir frambjóðendurnir hafi gefið þá tilfinningu að þeir myndu ráða við forsetaembættið. En því er ekki að neita að aldursmunurinn var býsna áberandi á þeim - McCain virkaði ósköp gamall og lúinn. Obama virkaði talsvert sprækari.
mbl.is Efnahagsmálin efst á baugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband