Leita í fréttum mbl.is

Stjórnarsinni?

Skrítið að þingmaðurinn skyldi ekki bara sitja hjá. Ég er hjartanlega sammála honum í því að það sé andstætt hagsmunum þjóðarinnar, ef þing yrði rofið nú og boðað til alþingiskosninga. En því viðhorfi gat hann komið á framfæri með því að láta duga að sitja hjá. Með því að greiða atkvæði gegn vantrausttillögunni er þingmaðurinn að verja ríkisstjórnina falli og því í raun orðinn stjórnarsinni. Skyldi hann vera á leið í Samfylkinguna?
mbl.is Kristinn andvígur vantrausti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt umboð?

Þetta endalausa tal stjórnarandstöðunnar um nauðsyn nýs umboðs er sérkennilegt og á skjön við allar meginreglur. Það er kosið til Alþingis á fjögurra ára fresti. Í kjölfar kosninga mynda einhverjir þingflokkar þeirra stjórnmálaflokka sem náð hafa kjöri til Alþingis meirihlutastjórn. Það felst í kosningum að kjósendur gefa alþingismönnum umboð til að stjórna landinu næstu fjögur árin. Meðan meirihluti alþingismanna treystir sér til að styðja sitjandi ríkisstjórn þarf ekkert umboð að endurnýja.


mbl.is Ákvarðanafælinn foringi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samt fjölgar þeim sem vilja taka upp evru

Niðurstöður þessarar skoðanakönnunar eru sérkennilegar að því leyti að á sama tíma og þeim fækkar sem sækja vilja um aðild að EB þá fækkarþeim minna sem vilja kasta krónunni og taka upp evru. Ég hef skilið það svo að evruna getum við ekki tekið upp nema ganga í EB. Spurning er því hvað svarendur í skoðanakönnuninni vilja í raun.
mbl.is Minnkandi áhugi á ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vilja stuðningsmenn Samfylkingar?

Niðurstöður þessarar skoðanakönnunar koma ekki á óvart. Almenningur er reiður, ráðvilltur, telur sig illa svikinn og illa leikinn vegna þess sem yfir þjóðina hefur dunið. Almenningur leitar eðlilega sökudólga. Og sökudólgurinn sem liggur beinast við að láta óánægjuna bitna á er annars vegar ríkisstjórnin og hins vegar Sjálfstæðisflokkurinn vegna langrar stjórnarsetu. Framsóknarflokkurinn er greinilega líka að gjalda ríkisstjórnarsetu 1995-2007 - fylgi hans eykst lítið. Innanflokksátök þar hjálpa heldur ekki.

Mér finnst áhugavert að sjá að ekki nema helmingur stuðningsmanna Samfylkingarinnar styður ríkisstjórnina á sama tíma og tæplega 90% þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn styðja líka ríkisstjórnina. Stuðningsmenn Samfylkingarinnar virðast þannig vilja annað ríkisstjórnarmynstur en núverandi ríkisstjórn. Spurningin er þá, hvað vilja stuðningsmenn Samfylkingar? Þótt Samfylkingin hafi bætt við sig fylgi á kostnað m.a. Sjálfstæðisflokksins er ljóst að einir ná þeir ekki að mynda meirihlutaríkisstjórn. Kostirnir eru þá að mynda ríkisstjórn með VG, Framsókn og Frjálslyndum. 

Eitt helsta baráttumál Samfylkingarinnar er aðild að EB og hefur forysta flokksins lengi státað sig af því að vera eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem tekið hefur svo einarða afstöðu með EB aðild. Halda stuðningsmenn Samfylkingarinnar að það baráttumáli náist fram í ríkisstjórnarsamstarfi með  VG? VG hefur einn stjórnmálaflokka endurnýjað yfirlýsingu sína um að þeir séu algerlega mótfallnir aðild að EB. Aðrir flokkar, a.m.k. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru að endurmeta afstöðu sína til aðildar.

Sjálf á ég ekki von á öðru en að landsfundur Sjálfstæðisflokksins í lok janúar nk. gefi forystu flokksins óskorað umboð til að sækja um aðild að EB. Að þeirri niðurstöðu fenginni er ljóst að helsta og mikilvægasta baráttumál Samfylkingarinnar nær ekki framgangi nema í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Hvað eru stuðningsmenn Samfylkingarinnar þá að hugsa þegar þeir segjast vera á móti ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks? Endurspeglar þessi afstaða stuðningsmanna Samfylkingarinnar e.t.v. að stuðningur þeirra við aðild að EB er ekki eins afdráttarlaus og haldið hefur verið fram hingað til? Vilja þeir fremur ríkisstjórnarsamstarf með VG sem augljóslega myndi aldrei sækja um aðild að EB?

Hinn almenni kjósandi bíður átekta. Hann áttar sig á að það þarf að vinna ákveðin verk áður en nokkuð verður ákveðið með kosningar. Það væri algert ábyrgðarleysi af ríkisstjórninni að hlaupast frá núna, hversu hátt sem eftir því er kallað. Stjórnmálamenn eru kosnir til að standa í lappirnar þegar á móti blæs, ekki til að hlaupast undan ábyrgð og gera slæmt ástand ennþá verra. Og þegar boðað verður til kosninga, hvenær sem það verður, bendir allt til þess að afstaða flokkanna til EB aðildar muni vega þyngst þegar í kjörklefann kemur.

Formaður VG má ekki til þess hugsa að aðrir flokkar nái að breyta afstöðu sinni til EB aðildar og þar með einangra hans flokk í andstöðunni við EB aðild. Hann veit sem er að ef næstu alþingiskosningar snúast um EB aðild mun flokkur hans litla uppskeru fá enda mikill stuðningur meðal landsmanna við að sækja um EB-aðild. Í kosningum sem snúast um EB aðild munu kjósendur kjósa þá flokka sem styðja aðild að EB - til að tryggja að helsta verk næstu ríkisstjórnar verði að sækja um aðild. Það mun vart gerast í ríkisstjórn sem VG er aðili að. Þetta veit formaður VG enda gamall refur í pólitík.  Þess vegna vill formaður VG kosningar núna. Með kröfu sinni um kosningar lætur formaður VG stundarhagsmuni eigin flokks ráða meiru en þjóðarhag. Flóknara er þetta ekki.


mbl.is 31,6% stuðningur við stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæð skref

Þetta bréf forsætisráðherra til kjararáðs er til sérstakrar fyrirmyndar og sjálfsagt að opinberir starfsmenn þurfi tímabundið að taka á sig launalækkun eins og margir aðrir í þjóðfélaginu. Þá er það sérstakt fagnaðarefni að loksins skuli búið að ákveða að afnema eftirlaunalögin frá 2003. Þótt fyrr hefði verið og gera breytingar á réttindavinnslu ýmissa embættismanna til samræmingar öðrum opinberum starfsmönnum.
mbl.is Óska eftir launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamlegt?

Tillögur Viðskiptaráðs eru um margt athygli verðar og sumar þarfar og nauðsynlegar eins og t.d. að draga úr ábyrgð stjórnenda fyrirtækja í aðdraganda gjaldþrota. Ég velti fyrir mér tillögu um alhliða niðurfærslu skulda hjá fyrirtækjum. Ef ræða á alhliða niðurfærslu skulda - þarf þá ekki að taka skuldir einstaklinga líka? Og í þessari umræðu kemur alltaf upp spurningin: Hvað með þá sem gættu hófs og eru ekki skuldum vafnir. Hvað á að gera fyrir þá svo fyllsta jafnræðis sé gætt?
mbl.is Vilja alhliða niðurfærslu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svigrúm vegna álagningar

Það er greinilegt að lágvöruverðsverslanirnar hafa minna svigrúm til að lækka álagningu þannig að verðhækkanir, t.d. vegna mikilla gengisbreytinga fara beint út í verðlagið hjá þeim, af fullum þunga, á meðan aðrir stórmarkaðir geta eitthvað dregið úr hækkunum með því að lækka álagningu á móti. Athyglisverðust er niðurstaðan hjá Nóatúni, sem auglýst hefur stíft síðustu daga um að 4000 vöruflokkar hafi verið lækkaðir í verði. Er auglýsingaherferðin blekking eða var verðlagseftirlit ASÍ á ferð áður en Nóatún lækkaði? Gott væri að fá skýringu á því.
mbl.is Verðmunur milli verslana minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi

Af þessu má ráða að Hillary hafi áhuga á embætti utanríkisráðherra, Bill styðji hana heilshugar og vilji ekki þvælast fyrir henni á leið hennar í það embætti. Og ef af verður er ekki annað hægt að segja en að Obama sýni Hillary Clinton mikla virðingu og traust.
mbl.is Bill gerir sitt til að tryggja Hillary embættið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðstjórn?

Halda menn í alvöru að þjóðstjórn leysi einhvern vanda? Þar fyrir utan leyfi ég mér að halda að stjórnarandstöðuflokkarnir séu mjög tregir til að ganga til þjóðstjórnar - þeir vilja kosningar, sérstaklega VG því VG heldur að þeir fái svo mikið uppúr kjörkössunum. Ég er sannfærð um það að ef til kastanna kæmi þá myndu stjórnarandstöðuflokkarnir allir neita þátttöku í þjóðstjórn - enda er það miklu einfaldara og ábyrgðarminna að vera alltaf á móti.
mbl.is Taka höndum saman um þinghúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfgefið

Það hlýtur að vera sjálfgefið að skoða þurfi launalækkun hjá opinberum starfsmönnum með sama hætti og fyrirtæki eru nú að lækka laun hjá sínum starfsmönnum. Með sama hætti hljóta opinberir aðilar að þurfa að endurmeta þörf á fjölda opinberra starfsmanna, en eins og allir vita hefur fjöldi þeirra aukist allmikið síðustu árin. Það verður ekki við það unað að ríkið og sveitarfélög verði einu atvinnurekendurnir í landinu sem ekkert skoði hvort bregðast megi við hagræðingarkröfum með fækkun starfsfólks og/eða lækkun launa starfsfólks. Þetta er það sem atvinnurekendur á hinum almenna markaði eru þegar búnir að gera og eiga eftir að gera. Þá hlýtur það einnig að vera sjálfgefið að ríki og sveitarfélög ræði við eigendur húsnæðis sem þeir leigja með það fyrir augum að fá a.m.k. tímabundna lækkun á leigu. Þetta er það sem atvinnurekendur á almennum markaði eru líka að gera.
mbl.is Laun embættismannanna lækkuð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það sjálfgefið?

Það kemur á óvart að það þyki sjálfgefið að af þessu fé þurfi að greiða tekjuskatt. Ríkissjóður getur ekki haft það í neinum sínum tekjuáætlunum að fá tekjuskatt af þessu fé því það átti ekki að koma til útgreiðslu í formi lífeyris fyrr en eftir langan tíma og yfir langan tíma. Miðað við þær upplýsingar sem fram koma í fréttinni myndi ríkissjóður óvænt fá á einu bretti milljarða í skattgreiðslur verði ákveðið að leyfa útlausn á viðbótarlífeyrissparnaðinum.

Eigendur þessa viðbótarlífeyrissparnaðar er almenningur í landinu sem orðið hefur fyrir miklum skakkaföllum síðustu mánuði og vikur vegna bankahruns og vegna mikillar verðbólgu. Eiginfjárbruni fasteignaeigenda hefur verið mikill og er nú svo komið að sumir fasteignaeigendur, sem áttu dágóðan höfuðstól í fasteignum sínum, þegar þær voru keyptar, eiga nú jafnvel minna en ekki neitt. Almenningur situr uppi með þetta tjón bótalaust og höfuðstóllinn sem settur var í fasteignakaupinn mun líklega aldrei koma aftur - eða þá a.m.k. ekki fyrr en eftir mjög langan tíma ef verðbólga verður nánast engin og fasteignaverð hækkar umtalsvert á ný. 

Mér finnst einfaldlega að nú eigi ríkið að sýna að það hafi einhvern skilning á kjörum almennings í landinu og þeim skakkaföllum sem almenningur hefur orðið fyrir. Það sýnir ríkið best með því að ákveða að af þessum viðbótarlífeyrissparnaði verði annað hvort enginn tekjuskattur greiddur eða eingöngu fjármagnstekjuskattur, kjósi almenningur að leysa hann út, enda millifærist viðbótarlífeyrissparnaðurinn beint frá lífeyrissjóði og t.d. inn á niðurgreiðslu höfuðstóls fasteignalána eða annarra skulda eiganda viðbótarlífeyrissparnaðarins.


mbl.is Skattur af sparnaði strax í vasa ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðug rannsóknarefni?

Breytist afstaða kvenna gagnvart körlum með aldrinum? Breytist afstaða karla til annarra karla með aldrinum? Breytist afstaða karla til kvenna með aldrinum? Niðurstaða þessarar rannsóknar er út af fyrir sig áhugaverð - ekki síst í ljósi skýringa sem gefnar eru á því af hverju konur mildast gagnvart kynsystrum sínum með aldrinum. Áhugaverðast hefði mér fundist að vita hvort afstaða karla til kvenna tengist aldri karlanna annars vegar og aldri kvennanna hins vegar og hvort afstaða karla til kvenna breytist með aldri beggja. 


mbl.is Konur mildast með aldrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband