Leita í fréttum mbl.is

Hvað hefði einkarekið fyrirtæki gert?

Spaugstofan hefur um árabil verið vinsælasta sjónvarsefnið sem RÚV hefur boðið okkur skylduáskrifendum sínum upp á. Auðvitað er Spaugstofan mistæk en eftir hrun hefur hún oft verið með mjög beitta þætti.

Ætla má, vegna vinsælda Spaugstofunnar, að auglýsingatekjur sem af miklu áhorfi leiða, séu umtalsverðar. Það hljómar því ekki sem viðskiptaleg ákvörðun að slá Spaugstofuna af.

Það er umhugsunarefni hvort einkarekin sjónvarpsstöð hefði hætt að sýna vinsælasta sjónvarpsþáttinn sinn vegna fyrirmæla um hagræðingu í rekstri. Ákvörðunin sýnist dæmigerð ákvörðun opinbers fyrirtækis sem slær af það sem vitað er að verður óvinsælast og veldur mestri óánægju og bera fyrir sig hagræðingarkröfu.

Nema að sjónvarpsstjórinn sé gegnum tíðina búinn að fá slíkar kvartanir frá valdhöfum hvers tíma vegna þáttarins að honum þyki kjörið tækifærið að hætta við þáttinn, losna þar með við kvartanirnar og jafnvel þóknast valdhöfunum.  


mbl.is Munt þú sakna Spaugstofunnar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrítið ...

Það er skrítið að Seðlabanki Íslands afhendir lögfræðilega niðurstöðu um mikilvægt mál með skilyrðum sem þessum. Enn skrítnara er ef lögfræðingur ráðuneytisins hefur tekið við álitinu með þessum skilyrðum. Embættismenn starfa í umboði ráðherra. Þeim er því beinlínis óheimilt að taka við upplýsingum með því skilyrði að þær eigi ekki að bera áfram til ráðherra. Það er erfitt að trúa því að framgangsmátinn hafi verið með þessum hætti. Því ef svo er þá eru embættismenn hættir að vita í umboði hvers þeir starfa. Undirrita þeir þó daglega bréf sín F.h.r. eða fyrir hönd ráðherra. Allt hljómar þetta ótrúverðugt og ber keim tilbúinna eftiráskýringa.
mbl.is Mátti ekki dreifa minnisblaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spunar, mannaráðningar og orðnotkun

Allt ber þetta mál keim af því að búið hafi verið að ákveða fyrirfram að sá sem ráðinn var fengi starfið. Gott hjá Ástu Sigrúnu að krefjast rökstuðnings. Ég þekki til hennar starfa sem forstöðumanns Ráðgjafastofu heimilanna af góðu einu og hefði fyrirfram talið sjálfsagt að hún yrði ráðinn í starf umboðsmanns skuldara. A.m.k. ef faglega hefði verið staðið að ráðningunni.

Fyrr í vikunni lak út tölvupóstur frá aðstoðarmanni menntamálaráðherra, sem einnig er varaformaður VG. Þar var orðnotkun sem maður undrast, roðnar yfir og sem er ekki boðleg frá nokkrum manni. Ekki sýnist orðnotkunin hafa valdið neinum titringi neins staðar og allir bara yppa öxlum yfir þessu, eins og öllu öðru. Fjármálaráðherra talaði sérkennilega um aðstoðarmenn, aðspurður um málið í Kastljósi í vikunni. En það afsakar ekki orðbragð af þessu tagi.

Athyglisvert var að lesa skýringu aðstoðarmannsins á því af hverju tölvupósturinn fór á rangan stað. Hann kenndi barni sínu um og afsakaði sig með því að vera í fæðingarorlofi. Nú eru lög um fæðingarorlof alveg skýr. Þú mátt ekki bæði vera í vinnunni og í fæðingarorlofi. En kannski gilda aðrar reglur um aðstoðarmenn ráðherra? Þeir þurfa að spinna, hvort sem þeir eru í fæðingarorlofi eða ekki. Enda nóg sem ríkisstjórnin þarf að láta spinna um.


mbl.is Ætlar að krefjast rökstuðnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhyggja ráðamanna

Í nafni umhyggju "fyrir almenningi" er lagt til að vikið verði til hliðar skýrum samningsákvæðum um vexti. Ekki hafa samningsákvæðin um vextina sjálfa þó verið dæmd ólögmæt.

Viðbrögð ráðamanna og stjórnvalda eftir dóm Hæstaréttar 16. júní sl. hafa sýnt almenningi einungis eitt: Að umhyggja þeirra er ekki fyrir fólkinu í landinu heldur fjármálastofnunum. Þessi viðbrögð eiga ekki að koma almenningi á óvart, því frá bankahruni hefur það verið augljóst að ráðamenn og stjórnvöld telja að á almenning í landinu sé allt á leggjandi. Almenningur skal axla alla ábyrgð af því sem hér gerðist. Fjármálastofnanirnar sjálfar og þær sem spruttu úr þeim föllnu, skulu enga ábyrgð axla.

Við sitjum uppi með ríkisstjórn sem sýnir það á degi hverjum að hún veldur ekki hlutverki sínu. Sú fullyrðing að hún ætlaði sér að verða "norrænn velferðarstjórn í besta skilningi þess orðs" er orðinn vandræðalegur brandari.

Vandi almennings í landinu er hins vegar sá að stjórnarandstaðan er afspyrnuléleg líka. Fátt bendir til að hún yrði einhverju skárri, kæmist hún í stólana.

Það er stundum haft á orði að kjósendur fái þá ríkisstjórn sem þeir eiga skilið. Það er erfitt að trúa því að íslenskir kjósendur eigi skilið þau ósköp sem þeir sitja uppi með, handónýta ríkisstjórn og handónýta stjórnarandstöðu.


mbl.is Vextir á myntkörfu gætu nær þrefaldast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhyggjur ráðamanna

Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með umræðunni frá því að dómur Hæstaréttar féll varðandi gengistryggð lán í íslenskum krónum. Hver á fætur öðrum hafa ráðamenn komið fram og lýst yfir áhyggjum sínum af hag lánveitenda, þ.e. bankanna. Kallað hefur verið eftir sátt um það hvernig bregðast skuli við.

Fyrir röskum tveimur árum féll hér gengið langt umfram það sem nokkur hafði reiknað með með þeim afleiðingum að verðbólgan óð af stað. Þetta hafði ófyrirséðar afleiðingar fyrir þúsundir heimila. Fyrir liggur að stór hluti þessara heimila þoldi ekki þetta áfall, sem helst má líkja við náttúruhamfarir. Úrræðum var lofað. Þau sem fram hafa komið gagnast ekki fjöldanum. Þúsundir fjölskyldna sáu því framá að enda með að missa húsnæði sitt. Af því virtust fáir ráðamenn hafa miklar áhyggjur. Aldrei var talað um að leysa þyrfti vandamál fjölskyldna vegna þessara efnahagslegu náttúruhamfara með sátt, sem t.d. fæli í sér að bankarnir tækju á sig einhvern hluta skellsins. Nei, skellurinn mátti allur lenda á fjölskyldunum í landinu og skipti þá engu þó fjölmargar yrðu húsnæðislausar og jafnvel gjaldþrota.

Með dómi sínum tók Hæstiréttur ómakið af ríkisstjórninni og fann skjaldborg til að slá um þau heimili sem voru með skuldir sínar í gengistryggðum lánum í íslenskum krónum. Hagur þeirra heimila hefur vænkast mjög. Þar standa eftir óverðtryggðra lána með afar hagstæðum vöxtum.

Eftir sitja heimilin sem á sínum tíma vildu ekki taka þá áhættu að taka  gengislán, sem allir vissu að voru afar áhættusöm. Þeirra vandi hefur ekkert breyst við dóm Hæstaréttar. Höfuðstóll margra fjölskyldna í íbúðarhúsnæði er löngu brunninn upp vegna óðaverðbólgunnar sem fylgdi gengishruninu og aðstæðna á húsnæðismarkaði sem hrundi. Framreiknaður höfuðstóll verðtryggðu lánanna er í mörgum tilvikum orðinn hærri en líklegt söluverðmæti íbúða.

Það væri tilbreyting að heyra ráðamenn tala um áhyggjur sínar af þeim fjölmörgu heimilum sem enn standa frammi fyrir óleystum vanda, heimilismissi og jafnvel gjaldþroti, fremur en að heyra þá fabúlera um áhyggjur sínur af fjármálakerfinu sem sjálft virðist ekki hafa áhyggjur af sínum hag, þrátt fyrir dóminn.


mbl.is Of þungt högg á kerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kom að því að menn kveiktu ...

Eftir tæp tvö ár virðast stjórnvöld loksins hafa skilið það sem allur almenningur veit og hefur vitað lengi: Að efnahagur heimilanna varð fyrir verulegum skakkaföllum vegna bankahruns, gengislækkunar og mikillar verðbólgu.

Af hverju veit almenningur þetta sem stjórnvöld hafa verið svo sein að skilja? Einfaldlega af því að fyrir þessu hafa fjölskyldurnar í landinu fundið, á eigin skinni, á degi hverjum frá því að gengislækkunin byrjaði kringum páska 2008 og síðan vegna alls þess sem á eftir kom og endaði með bankahruninu. Allar fjölskyldur í landinu sem skulda íbúðalán fá í mánuði hverjum greiðsluseðla inn um lúguna sem sýna svart á hvítu hvað lánið hefur hækkað frá síðasta mánuði. Stöðugar hækkanir verðtryggðra lána eru m.a. vegna hækkunar ríkisstjórnarinnar á áfengi, tóbaki, virðisaukaskatti. Allt hækkar þetta lánin sem hvíla á eignum landsmanna, sem vegna ástands á fasteignamarkaði hafa lækkað um a.m.k. 30% að raunvirði og eiga eftir að lækka enn, skv. spám. Afleiðing þessa er sú að upprunalegt eigið fé fjölskyldna í fasteignum þeirra er löngu fuðrað upp, óbætt, og eftir stendur veðsett fasteign þar sem verðmæti veðsins er orðið minna en andvirði veðlánsins sem á því hvílir. 

Kannski er það þakkarvert að augu stjórnvalda skuli hafa opnast fyrir þessum alþekktu staðreyndum. En af hverju tók það allan þennan tíma?

Þá blasir við að spyrja: Hvenær og hvernig ætla stjórnvöld að bregðast við þessum veruleika? Almenningur bíður enn þeirra aðgerða sem vinstri stjórnin lofaði þegar hún tók við stjórnartaumum 1. febrúar 2009. Þá var lofað skjaldborg um heimilin. Það mótar hvergi fyrir þeirri skjaldborg og er hugtakið raunar ekkert orðið nema háðsyrði um algert úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar þegar kemur að stuðningi við heimilin í landinu. 


mbl.is Staða heimilanna afar slæm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grín og leikur að tölum

Er Besti flokkurinn grín eða ekki grín? Það kemur í ljós á næstu dögum. Ég sé hins vegar ekki betur en að frambjóðendur hans séu skynsamir einstaklingar með reynslu úr atvinnulífinu. Eru þeir ekki góð viðbót við atvinnustjórnmálamennina sem fyrir sitja?

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur að mörgu leyti staðið sig vel síðustu tæpu tvö árin. Hún hefur innleitt ný vinnubrögð sem margir kunna að meta. Hún hefur tryggt að þokkalegur friður hefur verið um borgarmálin. Það eru borgarbúar þakklátir fyrir eftir skrípaleikinn sem þeim var boðið upp á fyrri hluta kjörtímabilsins þegar þrír ef ekki fjórir borgarstjórar voru á launum um hríð.

Viðbrögð borgarstjórans við kosningaúrslitunum ollu því örugglega fleirum en mér vonbrigðum. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vann engan sigur í borgarstjórnarkosningunum í gær, ekki einu sinni varnarsigur. Staðreyndin er að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík fékk 20.006 atkvæði. Það er 7.817 atkvæðum færra en flokkurinn fékk í borgarstjórnarkosningunum 2006. Vissulega eru það 4.287 fleiri atkvæði en flokkurinn fékk samtals í báðum Reykjavíkurkjördæmunum í alþingiskosningunum 2009. En er það boðlegt að bera saman borgarstjórnarkosningar og alþingiskosningar í Reykjavík í ljósi áratugasérstöðu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík? Það er einnig fyrir neðan virðingu stjórnmálamanns að segjast hafa unnið skoðanakannanir.

Viðbrögð annarra oddvita fjórflokksins í Reykjavík voru litlu skárri. Oddviti Samfylkingarinnar virtist ekki vita hvaðan á sig stóð veðrið. Oddviti Vinstri grænna taldi það ósanngjarnt að að maður nr. 2 skyldi ekki ná inn. Hann hefði unnið að svo mörgum góðum málum fyrir Reykjavík. Sjálf taldi hún þó mjög mikilvægt í forvali Vinstri grænna að fella hann úr fyrsta sætinu. Oddviti Framsóknarflokksins var næst því að halda haus og tókst að slá á létta strengi. Hann fékk plús fyrir það.

Oddvitar fjórflokksins á landsvísu virtust litlu skárri þegar við þá var talað. Afneitunin algjör. Ekki var að heyra að nokkur hefði tapað. Það eru nákvæmlega viðbrögð af þessu tagi sem kjósendur vilja ekki láta bjóða sér. 

 


mbl.is Besti flokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiljanlegt

Reykvíkingar hafa haft fjóra borgarstjóra á því kjörtímabili sem er að líða, fjóra meirihluta. Allt virðist þó hafa gengið eðlilega fyrir sig í borginni. Grunnskólarnir, leikskólarnir, öll þjónustan sem Reykjavík rekur, hefur þrátt fyrir þetta haldið áfram. Það virðist engu skipta hvaða skipstjóri er í brúnni í Reykjavík. Enda er öflugt og gott embættismannakerfi í Reykjavík. Þetta sjá reykvískir kjósendur og draga sínar ályktanir. Reykvíkingar treysta ekki lengur fjórflokknum. Reykvíkingar virðast tilbúnir til að gefa nýjum og óþekktum flokki tækifæri. Enda bendir reynslan til að þessi nýi flokkur geti varla staðið sig verr í Reykjavík en fjórflokkurinn hefur gert síðustu fjögur árin.

Vissulega spila landsmálin inn í. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru rúnir trausti og virðist sem illa ætli að ganga fyrir þá að endurheimta það traust. Samfylkingin og Vinstri grænir hafa valdið landsmönnum miklum vonbrigðum. En sá fáránleiki sem borgarfulltrúar leyfðu að gerast í borgarmálunum síðustu fjögur árin er stærsta skýringin á þeirri stöðu sem upp er komin í Reykjavík. Það þýðir ekkert fyrir borgarfulltrúa fjórflokksins að kenna einhverjum öðrum um þetta. Þeim tókst þetta allt saman sjálfum. 


mbl.is Mikið forskot Besta flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður að meiri

Það eiga allir leiðréttingu orða sinna og gjörða. Heilbrigðisráðherra er maður að meiri að átta sig á því á hvaða villibraut hún var í þessu máli og gangast við því með þeim hætti sem nú liggur fyrir. Á tímabili leit út fyrir að ráðherra ætlaði að grafa sig enn dýpra í vitleysuna. Nú hefur ráðherra séð að sér, skrifað forstjóranum bréf og tilkynnir að ekki sé tilefni til áminningar. Það þarf kjark til að gangast við því að hafa verið á villugötum. Með bréfi sínu hefur heilbrigðisráðherra sýnt þann kjark. Til viðbótar hefur hún vonandi einnig beðið hann afsökunar.
mbl.is Ekki tilefni til áminningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurmannlegar kröfur?

Forystumenn stjórnmálaflokkanna eru framúrskarandi hæfir einstaklingar, eins og við öll vitum. En er hægt að ætlast til að þeir segi eitthvað af viti um 2000 bls. skýrslu 4,5 klst. eftir að skýrslan verður gerð opinber? Þeim er ætlað að lesa tæpar 500 bls. á klukkutíma. Hefði ekki verið nær að gefa þeim a.m.k. sólarhring áður en þeir færu að tjá sig?
mbl.is Kynning skýrslunnar undirbúin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sýna í verki ...

Ég tek ofan fyrir Vilhjálmi Bjarnasyni að afþakka í Útsvari í kvöld gjafabréfið frá flugfélagi í eigu eins af útrásarvíkingunum. Með því sýndi hann í verki afstöðu sína til eins eiganda þessa fyrirtækis, forsögu hans og meintrar aðildar hans í hruninu. Kannski við ættum fleiri að fylgja fordæmi Vilhjálms, taka höndum saman og sýna í verki afstöðu okkar til útrásarvíkinganna með því að hunsa eins og við mögulega getum fyrirtæki þeirra?


mbl.is Afþakkaði gjafabréf í Útsvari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíðandi

Það kemur ekki á óvart að Bretar og Hollendingar haldi okkur í gíslingu hjá AGS í sína þágu vegna Icesave. Það eru hins vegar vonbrigði að meintar vinaþjóðir, Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin slái sér í hóp þeirra sem með alls óviðeigandi hætti vilja kúga okkur í þágu Breta og Hollendinga. Þetta eru ólíðandi vinnubrögð og ólíðandi að AGS skuli láta það viðgangast svo mánuðum og misserum skiptir að komið sé fram með þessum hætti við eitt aðildarríki. Er ekki orðið tímabært að segja upp samstarfinu við AGS? Getum við treyst aðila sem dregur með þessum hætti taum sumra aðildarríkja á kostnað annarra?
mbl.is Íslandslán ekki á dagskrá AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband