Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Bindisskylda og ávörp

Ekki fæ ég séð að mikil ástæða sé til að gera verður útaf afnámi bindisskyldu. En ég velti því fyrir mér um leið hvort Borgarahreyfingin hafi sóst eftir því að komast á Alþingi til að afnema bindisskyldu og hefðbundin ávörp úr ræðustól Alþingis.

Um klæðaburð alþingismanna gilda reglur. Þær eru þó að ýmsu leyti strangari fyrir karlmenn, jakkaföt og bindi ef ég man rétt. Konurnar hafa verulega meira svigrúm. Með afnámi bindisskyldunnar er heldur slakað á kröfum gagnvart körlum, sem verður að teljast eðlilegt og sjálfsagt í ljósi þessu hvað frjálsræði kvenna í klæðaburði er talsvert meira. Mikilvægt er að muna að Þó skyldan hafi verið afnumin er nákvæmlega ekkert sem bannar alþingismönnum að halda áfram að setja upp bindi þegar þeir ganga til skyldustarfa sinna á þingi.

Hvað ávörpin varðar þá felst í þeim að sýna þeim sem ávarpaður er virðingu. Þetta gerum við lögmenn í dómsal. Við ávörpum dómara og við ávörpum lögmann gagnaðila, með sambærilegum ávarpsorðum og gert er í þingsal.

Í venjum af þessu tagi felst ákveðin festa. Festa er eitthvað sem þörf er á á umrótartímum eins og þeim sem við nú göngum í gegnum. Mér finnst því engin ástæða til að afnema ávörpin í þingsal.


mbl.is Þingmenn læra góða siði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir kosningar

Af hverju gat ríkisstjórnin ekki sagt kjósendum fyrir kosningar að þetta væri það sem hún hygðist gera nákvæmlega í skattahækkunum? Skattbyrði er eitt. Tekjur ríkissjóðs er annað. Einhvern veginn finnst mér eins og forsætisráðherra sé hér að leika sér af orðum í staðinn fyrir að segja beint út að skattbyrðin muni hækka á öllum.
mbl.is Kynna skattahækkun eftir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta fimm skipst jafnt milli kynja?

Ég bloggaði fyrr í dag um óánægju VG kvenna yfir því að karlar á þeirra vegum skuli vera þrír í ríkisstjórninni en konur tvær. Með fimm ráðherra var ekki hægt að hafa öðruvísi en ójafnt af öðru kyni. Nú eru konurnar færri. Kannski skiptist það á hinn veginn næst og karlarnir verða færri. Eiga karlarnir þá að verða jafn fúlir og konurnar virðast núna? Miðað við töluna fimm getur þetta ekki jafnara orðið.
mbl.is Karl stendur upp fyrir konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir biðja um uppboð?

Af fréttinni má ráða að Tollstjórinn og Reykjavíkurborg séu meðal þeirra sem oftast báðu um þau uppboð sem til umfjöllunar eru.

Tollstjórinn er að innheimta opinber gjöld. Hefur fjármálaráðuneytið engin fyrirmæli gefið um það að lina á innheimtu opinberra gjalda? Á að selja heimilin ofan af þeim sem skulda skatta? Gott væri að fá svör frá fjármálaráðherra um það hvaða reglur gilda hjá undirstofnunum hans og hvort það sé virkilega svo að þeim hafi ekkert verið breytt eftir hrunið.

Vonandi drífa fjölmiðlar í að skoða þetta sem og það hvort Reykjavíkurborg gangi svo hart fram í innheimtu fasteignagjalda að hún selji heimilin ofan af fólki fremur en að gefa kost á samningum eða tímabundinni frystingu.


mbl.is Sex eignir á framhaldsuppboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynjahlutföllin

Ég hef furðað mig á því þegar verið er að biðja afsökunar á því að kynjahlutföllin í ríkisstjórninni skuli ekki vera jöfn. Þau eru þannig að af 12 ráðherrum eru sjö karlar og fimm konur. Tveir ráðherrar eru faglega valdir - ein kona og einn karl. Algerlega jöfn kynjahlutföll þar.

Hvor stjórnarflokkanna, VG og Samfylkingin hefur fimm ráðherra. Hjá báðum flokkum endaði valið þannig að ráðherrarnir urðu þrír karlar og tvær konur. Það er eins jöfn skipting og hægt er hjá hvorum flokki. Hún hefði auðvitað getað legið svo að vera þrjár konur og tveir karlar. En hún varð ekki þannig. Við því er ekkert að segja. Og engin ástæða til að skammast yfir því eða biðja á því afsökunar. Enda án efa góðar málefnalegar ástæður fyrir því hjá báðum flokksformönnunum að valið endaði með þeim hætti sem það gerði.

Í ríkisstjórn eru nú fimm konur, líkt og var í minnihlutastjórninni. Ekki minnist ég þess að áður hafi fleiri konur verið í ríkisstjórn. Fjölda kvenna í ríkisstjórninni ber því að fagna og ástæðulaust að gera það með hangandi hendi. 


mbl.is Tilmæli til forystunnar um jöfn kynjahlutföll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sammála umhverfisráðherra

Ég styð umhverfisráðherra heilshugar í því ætlunarverki sínu að afhjúpa þá leynd sem hvílir yfir orkuverði til stóriðju. Ég hef aldrei skilið þörfina á þessari leynd. Er hún fyrir kaupandann eða seljandann? Eða fyrir báða, kaupandann af því að hann veit að hann er að fá gjafaverð og seljandann af því að hann veit að verðið þolir ekki skoðun?

Það eru breyttir tímar - það er krafa um allt upp á borðum. Raforkuverðið til stóriðju líka.


mbl.is Verður að virða umsaminn trúnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð foreldra

Seint mun ég mæla bót reglum um endurgreiðslu kostnaðar foreldra vegna tannlækninga barna. Lögum samkvæmt á hún að vera 75% en þar sem viðmiðunin er ævagömul og löngu úrelt gjaldskrá er hún orðin miklu mun minni, sennilega kringum 50% ef hún nær því. Þannig að það er dýrt að fara með börn til tannlæknis. Um það er ekki deilt.

En þær frásagnir sem við erum nú að fá af tannheilsu barna snúa ekki einvörðungu að þessari hlið málsins, þ.e. hversu vel eða illa hið opinbera tekur þátt í kostnaði vegna tannlækninga. Þær snúa einnig og raunar fyrst og fremst að foreldrum og hvað þeir gera til að hafa tannheilsu barna sinna sem besta. Tennur skemmast ekki af sjálfu sér. Þær skemmast vegna þess að ekki er um þær hirt. Þær skemmast vegna þess að börnum er leyft að borða of mikið af sætindum og drekka of mikið gos og alls kyns safa sem hafa slæm áhrif á tennurnar. Tannburstinn er ekki notaður. Á því ber enginn ábyrgð aðrir en foreldrar. 

Ábyrgðin á tannheilsu barna byrjar hjá foreldrum, líkt og öll önnur umönnun barna. Ef til eru foreldrar sem vanrækja svo tannheilsu barna sinna að þau láta tennur barna sinna skemmast fyrir hirðuleysi og gera síðan ekkert í því annað en að gefa börnunum verkjalyf við tannverkjum þá er það barnaverndarmál, eins og prófessorinn bendir réttilega á, og á að meðhöndlast sem slíkt.

Fyrst þurfum við að gera okkur grein fyrir þessum grunnstaðreyndum, svo skulum við ræða um greiðslu fyrir tannlækningar. Og horfast í augu við að það voru mistök að leggja af skólatannlækningar fyrir allmörgum árum síðan. Lækkun greiðslu ríkisins fyrir tannlækningar á sér lengri sögu, eins og ég bloggaði um í kosningabaráttunni 2007.


mbl.is Sofna ekki án verkjalyfja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig?

Ekki var hægt að skilja mál fjármálaráðherra á blaðamannafundinum í gær svo að VG ætlaði að lyfta svo mikið sem litla fingri til að tryggja brautargengi á Alþingi þingsályktunartillögu um aðildarviðræður. Þvert á móti var ekki hægt að skilja orð hans á annan veg en þann að þingmenn VG myndu ekki láta nægja að sitja hjá heldur myndu greiða atkvæði gegn tillögunni.

Enda var áberandi misræmi í svörum fjármálaráðherra og forsætisráðherra þegar kom að því að skýra frá því hvaða afleiðingar það hefði fyrir stjórnarsamstarfið yrði tillagan felld. Fjármálaráðherra svaraði skýrt að það hefði engin áhrif. Forsætisráðherra veigraði sér við að svara, í tvígang. Svaraði því einu að hún teldi meirihluta fyrir málinu á Alþingi og meðal þjóðarinnar.

Stjórnarflokkarnir geta ekki tryggt að þessi þingsályktunartillaga nái fram að ganga. Flóknara er það ekki. Framgangur forgangsmáls Samfylkingarinnar er á valdi stjórnarandstöðunnar. Það er sérkennileg byrjun á stjórnarsamstarfi þar sem tjaldað er til heils kjörtímabils.


mbl.is ESB-tillagan nái fram að ganga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar óskir til góðra verka

VG og Samfylkingunni hefur nú tekist að mynda nýja ríkisstjórn eftir kosningarnar. Stjórnarsáttmáli hefur verið birtur og 100 daga verkáætlun. Vonandi verður þessi 100 daga verkáætlun til þess að verkkvíðinn, sem virðist hafa hrjáð ríkisstjórnina til þessa, renni af henni og hún fari loksins að láta hendur standa fram úr ermum. Ekki veitir af. Í fljótu bragði sýnist verkáætlunin þó heldur rýr: Skipa nefndir, leggja lagafrumvörp fram. Einhvern veginn ekki margt sem hönd er á festandi.

Það eru auðvitað ákveðinn söguleg tímamót að til valda komist meirihlutastjórn stjórnmálaflokka sem skilgreindir eru til vinstri í hinu pólitíska litrófi. En þetta er það sem meirihluti kjósenda vildi. Vonandi stendur hin nýja stjórn undir væntingum þeirra kjósenda sem kusu þá stjórnmálaflokka sem að henni standa.

Góðar óskir fylgja nýrri ríkisstjórn, til allra góðra verka, ekki síst nýjum ráðherrum sem nú setjast í embætti.


mbl.is Ný ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsætisráðherra veigrar sér við að svara

Á blaðamannafundinum í dag voru formenn stjórnarflokkanna spurðir að því hvort stjórnarsamstarfið myndi slitna ef Alþingi samþykkir ekki þingályktunartillögu Samfylkingarinnar um að ganga til aðildarviðræðna við EB. Forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar svaraði ekki spurningunni heldur sagðist telja öruggt að það væri meirihluti fyrir tillögunni á Alþingi. Auk þess færi fjölgandi þeim landsmönnum sem vildu vita hvað okkur býðst ef við göngum í EB. Sama gerðist nú í kvöldfréttum sjónvarps RÚV þegar forsætisráðherra var spurður hins sama.

Fjármálaráðherra og formaður VG svaraði sömu spurningu skýrt og skorinort: Af hálfu VG væri niðurstaðan, hver sem hún yrði, ekki stjórnarslitaástæða. Hann sagði einnig skýrt að VG væri ekki búin að skuldbinda sig til að sitja hjá við afgreiðslu þingsályktunartillögunnar. Þar myndi hver og einn þingmaður VG greiða atkvæði í samræmi við samvisku sína.

Afdrif þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar um aðildarviðræður eru algerlega í þoku. Fyrir liggur að VG og Sjálfstæðisflokkurinn hafa þá yfirlýstu stefnu að vera á móti aðild að EB. Báðir flokkar hafa einnig yfirlýsta stefnu um að þjóðin eigi að greiða atkvæði um það hvort gengið verði til viðræðna. Líklegt er að allir þingmenn VG greiði atkvæði gegn þingsályktunartillögunni. Hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins geri það líka er óljósara. Það fer væntanlega m.a. eftir því hversu bundnir þeir telja sig af samþykkt landsfundar. 

Samfylkingin reiðir sig þannig á Framsóknarflokkinn og Borgarahreyfinguna við afgreiðslu þessa mikilvæga máls. Það er kannski skýringin á því að nokkuð óvænt er í stjórnarsáttmálanum lofað stjórnlagaþingi, sem þessir flokkar hafa lagt allnokkra áherslu á.


mbl.is Ákvörðun um ESB í höndum þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 392475

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband