Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Kosningaeftirlit

Ég hygg að mörgum hafi brugðið í brún fyrir stuttu þegar í ljós kom að ÖSE hefði ákveðið að senda hingað kosningaeftirlitsmenn. Nú eru þessir ágætu eftirlitsmenn komnir og teknir til starfa. Og það dugir ekki færri en 10. Það verður fróðlegt að sjá skýrslu þessara eftirlitsmanna. Einhvern veginn hélt maður að aðstæður hér á landi væru ekki með þeim hætti að þær kölluðu á sérstakt kosningaeftirlit.
mbl.is Kosningaeftirlitsmenn ÖSE hafa tekið til starfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðdáunarverð hreinskilni

Oddviti VG í Reykjavík norður, Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG sýndi aðdáunarverða hreinskilni í sjónvarpsþættinum í gærkvöldi. Hún skýrði kjósendum skorinort frá því hverjar væru efnahagstillögur VG. Þær eru einfaldar. Þær eru auðskildar. Þær eru: Lækka laun og hækka skatta. 


mbl.is Kjaraskerðing þegar hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðfestir gjafakjörin

Þessar bókhaldskúnstir VBS fjárfestingabanka staðfesta að með samkomulagi ríkissjóðs og VBS og Saga Capital sem naut sömu vildarkjara á láni, var í raun verið að gefa þessum tveimur fjárfestingabönkum og hluthöfum þeirra milljarða króna. Hluthafarnir þurftu ekki einu sinni að sæta því að ríkið yfirtæki einhvern eignarhluta í bönkunum. Hlutafé þeirra er óskert. Gjöfin er skilyrðislaus.

VBS er nú búið að bókfæra gjöfina á 9,4 milljarða króna.

Af hverju getur almenningur í landinu, heimilin í landinu, ekki fengið slíkar gjafir úr ríkissjóði? Og hvar eiga önnur fyrirtæki, sem áhuga hafa á sambærilegri fyrirgreiðslu, að sækja um? Eða er jafnræðiseglan, sem er stjórnarskrárvarin, bara grín í augum ríkisstjórnarinnar?


mbl.is Lán ríkis fært sem tekjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins

tókst, kl. liðlega 2 í nótt að fá stjórnarsinna til að fallast á að fresta 2. umræðu og setja stjórnarskrárbreytingarnar aftur í sérnefndina. Þessi frétt var eitt af því sem bent var á í umræðum um fundarstjórn forseta eftir að fyrir lá að 2. umræðu átti að halda áfram. Hér kemur fram að formaður þingflokks Framsóknarflokksins lýsir því yfir að 4. gr. frumvarpsins til stjórnskipunarlaga sé ekki lengur inni. Samt er á þingskjali breytingartillaga við sömu 4. gr. frumvarpsins og ekkert frumvarp fram komið frá ríkisstjórninni og stuðningsmönnum þeirra um að 4. gr. falli niður. Í framhaldi 2. umræðu, sem hófst rétt fyrir miðnætti, var því verið að ræða frumvarpið eins og 4. gr. væri ennþá inni. Þetta eru auðvitað fáheyrð vinnubrögð. En sem betur fer lauk þessu með frestun umræðunnar svo sérnefndin fái ráðrúm til að fara yfir frumvarpið á nýjan leik.
mbl.is Stjórnlagaþingið út af borðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á þá að skila þeim?

Ummæli fv. formanns Samfylkingarinnar vekja upp þá spurningu hvort Samfylkingin hljóti ekki að skila þessum styrkjum. Ef betra hefði verið að taka ekki við þeim - þá hlýtur að vera eðlilegt að skila þeim. Eða hvað?

Hverjir eiga þessar kröfur á stjórnmálaflokkana?

Þetta eru háar fjárhæðir sem stjórnmálaflokkarnir skulduðu í árslok 2007. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa birt styrkveitingar og sundurgreint eftir styrkveitendum. Það skiptir líka miklu að vita hverjum stjórnmálaflokkarnir skulda þessar fjárhæðir. Fjölmiðlar hljóta að kalla eftir slíkri sundurliðun og sjá til þess að hún birtist sem allra fyrst.
mbl.is Skulduðu hálfan milljarð í lok 2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð yfirlýsing

Þessi yfirlýsing fv. formanns Samfylkingarinnar er athyglisverð. Þýðir yfirlýsingin að fv. formaður vissi ekki af þessum styrkjum. Er þó sagt að hjá Samfylkingunni, Framsóknarflokki og Framsóknarflokki hafi það tíðkast að formenn flokkanna sjálfir verið í því að óska eftir styrkjum frá fyrirtækjum.

Fréttir af miklum skuldum allra stjórnmálaflokkanna kalla á það að flokkarnir birti lista yfir þá aðila sem þeir skulda þessa fjármuni. Fjárstyrkir til stjórnmálaflokka segja ekki nema hálfa söguna. Það er kallað eftir að spil séu lögð á borðið um allt er snertir fjármál stjórnmálaflokkanna.  Nöfn þeirra sem eiga milljónakröfur á stjórnmálaflokkana eru hluti þess sem þarf að upplýsa.


mbl.is Ingibjörg: Styrkir til flokksins óeðlilegir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilega páska

Páskarnir eru aðalhátíð okkar kristinna manna. Við fögnum upprisunni, kjarna kristinnar trúar. Páskasálmurinn ,,Dauðinn dó, en lífið lifir, lífs og friðar sólin skær" hljómaði fallega í morgun í páskamessunni í Dómkirkjunni. Þar var einnig frumfluttur látlaus en innihaldsríkur páskasálmur eftir sænska skáldkonu, Ylvu Eggerhorn, sem dr. Sigurbjörn Einarsson biskup þýddi skömmu fyrir andlát sitt. Þessi sálmur á örugglega eftir að festa sig í sessi meðal páskasálma okkar.

Biskup sagði m.a. í predikun sinni (sem lesa má í heild hér):

Okkur hefur verið kennt að efast í nafni þekkingar, skynsemi og vísinda okkar tíma um flest það sem lýtur að vitnisburði guðspjalla og kristni. Bara að við hefðum verið efagjarnari andspænis ýmsum þeim kreddum sem haldið var að okkur í efnahags og fjármálum undanfarinna ára! Nei, þar var gagnrýnislaus trúgirnin og sefjunin knúin áfram af afli og glysi auglýsinganna.

Mikill sannleikur í þessum orðum.


mbl.is Nýr páskasálmur frumfluttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt

Árangur laganemanna úr HR í þessari alþjóðlegu málflutningskeppni er glæsilegur, ekki síst í ljósi þess að lagadeildin í HR er varla búin að slíta barnsskónum. Ég er stolt af nemendum lagadeildarinnar sem náðu þessum framúrskarandi árangri. Fyrir þá er árangurinn ánægjuleg uppskera þrotlausrar vinnu, vinnu sem þau munu búa að um langa framtíð í störfum sínum sem lögfræðingar.

Kannski eru lagadeildir í landinu nú orðnar of margar - lögfræði er kennd við HÍ, HR, Bifröst og HA. En það var án efa gæfuspor fyrir laganám í landinu þegar lagakennsla hófst í öðrum háskólum. Með því fékk elsta lagadeild landsins, lagadeild HÍ, sem fagnaði 100 ára afmæli sl. haust, öfluga samkeppni, sem hefur skilað betra laganámi alls staðar. Afraksturinn verður betur menntaðir lögfræðingar. Þeirra er alltaf þörf.


mbl.is Góður árangur í málflutningskeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samþykki?

Af hverju þarf að leita samþykkis fyrir því að birta þessar upplýsingar? Þó að lagaumhverfið hafi verið annað á þessum tíma? Skammast þessir lögaðilar sín fyrir að hafa styrkt Framsóknarflokkinn og vilja ekki gangast við því? Hvað ætlar Framsóknarflokkurinn að gera ef einhver neitar að samþykkja nafnbirtingu?

Bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking eru búin að birta lista yfir lögaðila sem styrktu þá árið 2006. Af fréttum frá VG má ráða að þar á bæ hefur aldrei verið neinn aðgangur að lögaðilum til að biðja um styrki. Framsóknarflokkurinn einn dregur lappirnar. Þetta hlýtur að verða spennandi listi þegar hann verður loksins birtur.

Allur þessi vandræðagangur sýnir hversu tímabært það var að setja löggjöf um fjármál stjórnmálaflokka þegar það loksins tókst árið 2006.


mbl.is Framsókn leitar samþykkis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 391712

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband