Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Viðtal á Sjónvarpsstöðinni INN

Í gærkvöldi var viðtal við mig á sjónvarpsstöðinni INN í viðtalsröðinni Í prófkjöri. Hægt er að horfa á þáttinn hér.

Útvarp Saga

Ég verð í viðtali við Sigurð G. Tómasson á Útvarpi Sögu kl. 10. Hægt er að hlusta í tölvunni með því að smella hér.

Lengi getur vont versnað

Það eru slæmar fréttir að bæði Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir hafi haft mikla fjármuni til ávöxtunar hjá Straumi. Óvíst er um afdrif þeirra fjármuna nú og hugsanlega eru þeir að hluta eða öllu leyti glataðir. Fer það eftir hvað tekst að gera úr eignum Straums.

Á sama tíma segja stjórnvöld að takmarkað sé hægt að gera fyrir íbúðaeigendur til að forða þeim frá gjaldþroti. Það fari svo illa með Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóð. Báðir tapi svo miklu við slíkar aðgerðir. Tapa þessir aðilar eitthvað minna við það að einstaklingarnir verði gjaldþrota?

Er ekki betra að grípa til aðgerða sem gera einstaklngunum kleift að borga eitthvað af lánum sínum en ekkert?
mbl.is Íbúðalánasjóður átti milljarða hjá Straumi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfugmæli

Það hljóma eins og hver önnur öfugmæli þegar þingmenn VG kvarta yfir meintu málþófi stjórnarandstöðunnar, þ.e. þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Meistarar málþófsins eru nefnilega þingmenn VG - en það var að vísu meðan þeir voru í stjórnarandstöðu.

Ég sá ekki umræðuna í kvöld. En sé eitthvað hæft í því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi verið í málþófi þá vil ég bara segja þetta:  Það er fyrir neðan virðingu þingmanna Sjálfstæðisflokksins að stunda málþóf. Við eigum að sýna þjóðinni hvernig málefnaleg stjórnarandstaða hagar sér. VG sýndu enga slíka takta meðan þeir voru í stjórnarandstöðu.


mbl.is Saka sjálfstæðismenn um málþóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Henni fylgja góðar óskir

Þetta eru sannarlega óvænt tíðindi eftir blaðamannafund Ingibjargar Sólrúnar og Jóhönnu fyrir réttri viku síðan. Ég hygg að Ingibjörg Sólrún hafi tekið skynsamlega ákvörðun. Hún hefur horfst í augu við að ekkert er mikilvægara en heilsan og að henni er ekki fórnandi fyrir áframhaldandi pólitískan slag.

Víst er að ákveðið tómarúm verður hjá Samfylkingunni og fróðlegt verður að fylgjast með hverjir koma nú fram og gefa kost á sér til formennsku í þeim flokki.

Ingibjörgu Sólrúnu fylgja bestu óskir um skjótan og góðan bata.


mbl.is Ingibjörg Sólrún hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífsnauðsynlegt fyrir hvern?

Lífsnauðsyn fyrir íslenskt samfélag að Sjálfstæðisflokkurinn fái hvíld segir borgarfulltrúinn. Gott hefði nú verið að borgarfulltrúinn hefði rökstutt þetta nánar. Mörg stór loforð féllu af hálfu vinstri stjórnarinnar sem nú situr við völd, þegar hún tók til starfa 1. febrúar sl. En efndirnar hafa látið bíða eftir sér. VG þóttist hafa allar lausnirnar. Bið hefur orðið á þeim. Skyldi staðreyndin ekki vera sú að VG komst að því þegar í stólana var komið að viðfangsefnið var stærra og viðameira en þá hafði órað fyrir? Og að lausnirnar væru ekki eins einfaldar og þeir héldu, þegar á hólminn var komið?

Það er öllum stjórnmálaflokkum hollt að vera um stund í stjórnarandstöðu. Á það get ég fallist. Það er öllum stjórnmálaflokkum líka nauðsynlegt að komast annað slagið í ríkisstjórn. Það veitir þeim ábyrgðartilfinningu. Það eina jákvæða sem ég sé við vinstri stjórnina nú er það að VG eftir 19 ára eyðimerkurgöngu utan ríkisstjórnar er allt í einu orðnir talsvert ábyrgari en þeir voru. Allt í einu þarf að skoða málin. Ekki þurfti að gera það áður. VG virðist hafa áttað sig á því, við það að komast loksins í ríkisstjórn, að málin eru ekki alltaf svo einföld þegar í stólana er komið.

Þó fyrir liggi að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert mistök í aðdraganda hrunsins og eftir það þá er ég ekki viss um að neinn annar stjórnmálaflokkur hefði staðið sig betur. Viðfangsefnið var ofurmannlegt og risavaxið. Sjálfstæðisflokkurinn klúðraði mörgu. Sumt af því klúðri var ónauðsynlegt eins og t.d. að klikka á grundvallaratriðum eins og því að veita nægilegar upplýsingar. Hvernig getur það klúðrast að skýra fólkinu í landinu frá því hvað er að gerast? Ég verð að segja alveg eins og er að það einfaldlega skil ég ekki.

Sjálfstæðisflokkurinn endurmetur nú stöðuna. Flokkurinn er í mikilvægri naflaskoðun. Verið er að velja á framboðslista flokksins um allt land um næstu og þarnæstu helgi. Endurnýjun er í gangi. Útúr þessu öllu mun öflugri og sterkari flokkur koma, flokkur sem á fullt erindi í næstu ríkisstjórn. Það held ég að sé býsna nauðsynlegt fyrir íslenskt samfélag.


mbl.is Vinstristjórn lífsnauðsyn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vatikanið

Það virðist að sá sem skrifar þessa frétt hafi ekki mikið þvegið þvotta ef hann heldur þetta. Það þarf nefnilega að sortera í vélina. Það er t.d. slæmt að setja eitthvað rautt með hvítu. Útúr því kemur bleikt. Svo þarf að taka úr vélinni, henda í þurrkarann eða þá hengja upp. Og þegar allt er þurrt þarf að ganga frá þvottinum. Ekkert gerist þetta sjálfkrafa. En vissulega vinnur þvottavélin hluta verksins. Það gerir uppþvottavélin líka.  Wink
mbl.is Þvottavélin frelsaði konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við þurfum ekki að finna upp hjólið

Það er svo mikilvægt að ekki bara að hlusta á ráð erlendra sérfræðinga heldur fara eftir þeim. Margt að því sem hér hefur gerst hefur gerst annars staðar. Menn hafa gripið þar til aðgerða sem að gagni hafa komið. Það þarf tæpast neinar sérstakar sértækar lausnir hér. Við getum lært af reynslu annarra. Það eigum við að gera og það þurfum við að gera. Hætta að tala um það - fara að gera það og vinna samkvæmt því. Um þessar mundir eru fimm mánuðir frá hruninu og einhvern veginn finnst mér við ennþá vera alltof mikið á byrjunarreit í mörgum að þessum rannsóknarmálum.

Þó skal haldið til haga að allar upplýsingar sem fram hafa komið um vinnu rannsóknarnefndar Alþingis lofa góðu og vekja von og trú um það að útúr þeirri vinnu komi alvöru niðurstaða en ekki hvítþvottur.


mbl.is Joly: Leita þarf til erlendra sérfræðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokahnykkurinn

Ég veit ekki hvaða orð er best að nota yfir það að standa í prófkjöri. Sjálf hef ég haft tilhneigingu til að kalla þetta prófkjörsbaráttu. Við, sem í framboði erum, erum að berjast um hylli flokksbundinna kjósenda flokks okkar í prófkjörinu sjálfu, vonandi með sem drengilegustum hætti.

Lokahnykkurinn er framundan. Mér finnst gæta talsverðar þreytu hjá kjósendum. Það er greinilega mikið hringt blint í þá og á því eru þeir pirraðir. Auglýsingar eru greinilega minni en í síðasta prófkjöri, en samt nokkrar. Þær kosta og óvíst hverju þær skila. 

Ég hef áður sagt á þessum vettvangi að ég tel óforsvaranlegt að setja mikla fjármuni í þessa prófkjörsbaráttu. Það er greinilega mjög misjafnt hvað frambjóðendur, sem sækjast eftir sambærilegum árangri, eru að eyða miklu í þessu prófkjöri. Niðurstaðan í prófkjörinu verður því að einhverju leyti ákveðinn prófsteinn á það hvort samhengi sé milli fjárútláta og árangurs. Það eru líka verðmætar upplýsingar fyrir þá sem síðar hyggjast á prófkjör.

Það ánægjulegasta við þátttöku í prófkjöri eru samskiptin við flokksbundna sjálfstæðismenn. Þeir láta okkur frambjóðendur umbúðalaust heyra skoðanir sínar á stöðu mála og hvað þeim finnst um frammistöðu Sjálfstæðisflokksins síðustu mánuði og vikur. Í gærmorgun bauð ég til fundar stjórnum sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Þar voru góð og hreinskiptin skoðanaskipti. Þetta tækifæri til að ræða við flokksmenn í Reykjavík er ómetanlegt.

Fyrir alla sem ætla í pólitík og vilja vera í pólitík er lífsnauðsynlegt að hlusta á þessar raddir og taka mark á þeim. Ekki einvörðungu rétt fyrir kosningar heldur allt kjörtímabilið.


mbl.is Fréttaskýring: Slagurinn í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðilega ósanngjarnt

Ég árétta það sem ég bloggaði um þetta mál í gær. Þessar frádráttarreglur eru ósanngjarnar og bitna harðast á þeim sem fyrir mestu tjóni verða. Skoðun á umræðunni á Alþingi fyrir 10 árum síðan þegar þessi breyting var gerð sýnir að mikið var um þetta rætt ekki síst í ljósi þess að með þeim breytingum sem þá voru gerðar voru margfeldisstuðlar hækkaðir frá því sem var. Þeir höfðu verið hærri m.a. vegna þess að bætur almannatrygginga og lífeyrissjóða drógust ekki frá skaðabótagreiðslum.

Ég segi enn og aftur - vonandi næst um þetta mál sú þverpólitíska samstaða sem vísað er til í fréttinni þannig að lögin verði leiðrétt á yfirstandandi þingi.


mbl.is Börnin fá smánarbætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband