Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Skammarleg framkoma

Hvað vilja þessir róttæku stúdentar? Að við tökum hér við öllum flóttamönnum og virðum ekki alþjóðlegar reglur sem við höfum undirgengist? Við erum þátttakendur í alþjóðlegu regluverki sem segir nákvæmlega hvað gera skuli varðandi flóttamenn. Að leyfa sér að segja dómsmálaráðherra morðingja fyrir að fylgja því regluverki er forkastanlegt og ólíðandi. Maður skammast sín fyrir framkomu þessa fólks og undrast að ráðherra skyldi þurfa að hverfa af vettvangi fremur en þeir sem mótmæltu. 
mbl.is Gerðu hróp að ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf skilaboð?

Það hvarfar ekki annað að mér en að VG séu löngu búnir að skilja skýr skilaboð forsætisráðherra um það að ef þeir gera ekki eins og henni finnst þá sé þessu stjórnarsamstarfi lokið. Slík skilaboð sendi hún út í byrjun síðustu viku með þeim afleiðingum að heilbrigðisráðherra úr ranni VG sagði af sér ráðherradómi. En illa finnst mér forsætisráðherra koma í bakið á fjármálaráðherra með birtingum af þessu tagi. Hingað til virðast forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa unnið vel saman. Svo vel að fjármálaráðherra virðist hafa tekið talsvert álag af forsætisráðherra þannig að á stundum hefur virst meira mæða á honum en forsætisráðherranum. Með þessari framkomu verður ekki betur séð en að forsætisráðherra sé að gefa fjármálaráðherra langt nef. Það kemur á óvart. Vandséð er hverjir vilja vinna með Samfylkingunni ef þetta eru vinnubrögðin sem formaður hennar telur bjóðandi samstarfsflokki.


mbl.is Er að senda VG skilaboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju?

Eru þessir þingmenn Framsóknarflokksins á einhverjum betliskóm í Noregi? Eru þessir menn ekki þingmenn? Væri þeim ekki nær að sinna starfskyldum sínum niður við Austurvöll heldur en að vera á þessu flandri? Í hvers umboði eru þeir í þessum verkefnum og hver borgar ferðakostnaðinn?
mbl.is Jóhanna beitti sér gegn láninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríð?

Eru þetta réttu tímarnir til að vera með yfirlýsingar af þessu tagi? Vill verkalýðshreyfingin fjölga þeim sem atvinnulausir eru? Heldur verkalýðshreyfingin virkilega að eitthvað svigrúm sé nú til launahækkana? Hvar er jarðtenging verkalýðshreyfingarinnar eiginlega?
mbl.is Ef þið viljið stríð þá fáið þið stríð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverð grein

Þetta er athyglisverð grein sem Sigrún Davíðsdóttir skrifar í Daily Telegraph. Enn áhugaverðari eru spurningarnar sem hún varpar þar fram og sem enn er ósvarað, ári eftir hrun. Vonandi fást einhver svör, við enn ósvöruðum spurningum, í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það styttist í útgáfu þeirrar skýrslu. Vísbendingar eru á lofti um að lesning hennar verði engin skemmtilesning.

Það eru margar hliðar á hruninu. Ein hlið þess er hvernig Evrópusambandsþjóðirnar tóku höndum saman gegn okkur vegna áhyggna af ótryggu regluverki vegna bankainnistæðna. Afleiðingar þess samblásturs erum við enn að glíma við í Icesave málinu. Ekki er að sjá neinn enda á þeim vanda. Það er athyglisvert að sjá í grein Sigrúnar að evrópskir bankamenn séu þeirra skoðunar að Ísland hafi orðið með ósanngjörnum hætti fyrir barðinu á þessu regluverki. Það dugir okkur þó ekki að evrópskir bankamenn hafi þessa skoðun. Það sem þarf eru aðgerðir okkur til liðsinnis. Enn bólar ekkert á slíkum aðgerðum. Þvert á móti. Bretar og Hollendingar halda áfram að beita AGS í sína þágu og gegn okkur. Meðan það er látið viðgangast skiptir okkur engu samúðin sem fjármálaráðherra fann í Istanbúl né að einhverjum evrópskum bankamönnum finnist við hafa orðið fyrir ósanngirni. Tilfinningar leysa engan vanda. Það þarf aðgerðir.


mbl.is Mörgum spurningum ósvarað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samúð er ekki nóg

Það er ekki nóg að sjónarmið okkar mæti samúð hjá forsvarsmönnum AGS. Það er heldur ekki nóg að þeim finnist vandræðalegt hvað okkar mál hafa dregist. Þeim finnst það greinilega ekki nægilega vandræðalegt til að málið sé sett á dagskrá. Við þurfum aðgerðir af hálfu AGS. Ekki samúð og ummæli um að eitthvað sé vandræðalegt. Af fréttinni verður ekki ráðið að nokkru hafi verið lofað um aðgerðir.

 


mbl.is Gagnlegur fundur með AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eggið og hænan

Það er örugglega rétt að það er óhyggilegt að afþakka frekari aðstoð frá AGS. En eins og staðan er núna þá virkar þetta þannig að það sé AGS sem er að setja slíka ofurkosti fyrir frekari aðstoð að að þeim getum við ekki gengið . Erum við að afþakka frekari aðstoð með því að neita að láta AGS handrukka í þágu Breta og Hollendinga? AGS verður að útskýra fyrir okkur hvar þeir standa og hvort þeir ætli sér í raun að aðstoða okkur. Endalausar tafir á láninu, sem er hluti af þeirra aðstoð,  benda til að það séu þeir sem eru að snúa bakinu við okkur en ekki öfugt. 
mbl.is Óhyggilegt að afþakka aðstoð AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðlaus ...

Það er ekki oft sem maður verður orðlaus en eiginlega er maður það eftir lestur frásagnar af ræðu fráfarandi formanns Ungra jafnaðarmanna. Má af þessum orðum ráða að eina úrræðið sem hún telur nauðsynlegt vegna kreppunnar sé að opna glugga og lofta út?

Og það er billegt að halda því fram að Icesave sé "lausaleikskrógi" eins og hún virðist hafa orðað það svo smekklega, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hollenski hluti Icesave er skilgetið hjónabandsbarn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Samfylkingin þarf ekki að ganga því í föðurstað. Samfylkingin er foreldri þessa hluta Icesave. Hollenska Icesave fór af stað á vakt Samfylkingarinnar þegar samfylkingarmaður var viðskiptaráðherra og samfylkingarmaður var í formennsku stjórnar FME. Icesave bitinn sem þjóðin þarf að kyngja væri tæpum 2 milljörðum evra minni ef þessir aðilar, ásamt Seðlabankanum, hefðu verið vakandi á sinni vakt og stoppað Icesave reikningana í Hollandi.


mbl.is Kreppan eins og prump í eilífðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hárrétt ...

Það er ágætt að íslenskir ráðamenn tala tæpitungulaust við breska ríkisútvarpið. Framkoma Breta og Hollendinga með dyggum stuðningi AGS er ekki líðandi. Síðan hvenær er AGS handrukkari fyrir tvö aðildarlönd gegn þriðja aðildarlandinu? Þurfum við virkilega að láta bjóða okkur þetta?
mbl.is Segir Breta og Hollendinga fjárkúga Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væri ...

það ekki eftir öðru að bankarnir (og má ekki bæta SPRON inn í þennan hóp?) hafi vísvitandi blekkt okkur gagnvart verðmæti þeirra og stöðu? Einhvern veginn hefur þetta legið í loftinu. Til viðbótar virðast þeir hafa með markvissum hætti haldið uppi gengi hlutabréfa í sjálfum sér. Ef háttsemi af þessu tagi reynist ekki brot á lögum þá er eitthvað að löggjöfinni hjá okkur.
mbl.is Fegruðu bankar stöðuna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 392370

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband