Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Dóp er dauði

Ég hygg að minningargrein föður Susie Rutar í miðopnu Morgunblaðsins í gær hafi hreyft við mörgum. Fjölmargt sem þar kemur fram er alvarlegt umhugsunarefni og sumt kallar jafnvel á skýringar. Hvernig má það t.d. vera að eiturlyfjasalar geti í friði og ró stundað starfsemi sína á Landspítalanum? Við hljótum að eiga rétt á skýringum yfirstjórnar sjúkrahússins á því.    

Fyrir nokkrum árum var hert á refsingum vegna smygls á fíkniefnum. Í kjölfarið gerðist það að burðardýr með 67 þús. fíkniefnatöflur var dæmt í 12 ára fangelsi, eða hámarksrefsingu. Þá risu margir upp og mótmæltu. Töluðu um ,,saklaus" burðardýr. Á þeim tíma var ég í forsvari fyrir forvarnarverkefninu Ísland án eiturlyfja. Mér ofbauð umræðan og skrifaði stutta grein í Morgunblaðið  þar sem ég sagði m.a. (sjá http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=649538):

Fíkniefnabrot beinast að 13-16 ára unglingum. Rannsóknir sýna að því yngri sem unglingar eru þegar þeir byrja að fikta við vímuefni þeim mun meiri líkur eru á að þeir ánetjist þeim. Þá staðreynd notfæra fíkniefnasalar sér. Þeir sitja fyrir unglingum þar sem þeir koma saman, beita þá fortölum og fullvissa þá um að fíkniefni séu skaðlaus. Þeir notfæra sér óharðnaðan vilja unglinga og áhuga þeirra á að prófa eitthvað nýtt. Stundum notfæra þeir sér að unglingar eru undir áhrifum áfengis og móttækilegri en ella fyrir fortölum af þessu tagi.

Fíkniefnasalar eru sölumenn dauðans í orðsins fyllstu merkingu. Öllum eru ljós þau örlög sem beðið geta unglinga sem ekki hafa kjark, kraft og þor til að segja nei við fíkniefnum. Alltof margar fjölskyldur hafa horft á eftir ungmennum þessa leið. Sumum tekst að snúa af braut, aðrir hafa gengið veginn til enda og goldið líf sitt fyrir.

Starf að vímuvörnum er í eðli sínu endalaust. Þótt mikið hafi verið gert á þessu sviði á liðnum árum þá tel ég að enn þurfi að herða róðurinn. Faðir Susie Rutar bendir á að við höfum hér miklu öflugri varnir gegn hryðjuverkum en gegn eiturlyfjastóriðnaðinum. Hann hvatti til stofnunar sjóðs með framlögum landsmanna, til að standa fyrir átaki gegn eiturlyfjasölunni.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að búið sé að stofna slíkan sjóð í minningu Susie Rutar. Ég skora á landsmenn alla að gefa myndarlegt framlag í sjóðinn.

Foreldrum Susie Rutar og fjölskyldu sendi ég hugheilar samúðarkveðjur um leið og ég þakka þeim fyrir hugrekki þeirra að stíga fram með þeim hætti sem þau hafa gert til að vekja athygli á þeirri skelfilegu vá sem eiturlyfjaneyslan er.


Það má takmarka tjáningarfrelsið

Þetta er athyglisverður dómur og virðist mér sem niðurstaða Hæstaréttar Bandaríkjanna sé á svipuðum nótum og dómar Hæstaréttar Íslands þar sem reynt hefur á hvort lög sem banna áfengisauglýsingar séu brot á tjáningarfrelsinu.

Sem vekur upp spurningar um það, af hverju ákæruvaldið hefur aldrei (svo ég muni) látið reyna á ábyrgð ritstjóra blaðanna, sem birta áfengisauglýsingarnar í staðinn fyrir að eltast við framleiðendurnar. Ef blöðin sem birta þessar auglýsingar myndu virða lögin sýnist mér sem áfengisauglýsingar myndu hverfa. Fyrr ekki.

Blöðum dettur ekki í hug að birta tóbaksauglýsingar (og sennilega eru innflytjendurnir ekki heldur að reyna að auglýsa þær). Af hverju dettur þeim eitthvað frekar i hug að birta áfengisauglýsingar?

Við getum haft ýmsar skoðanir á skynsemi þess að banna áfengisauglýsingar en það er lágmark að meðan áfengisauglýsingar eru bannaðar með lögum að allir, blaðaútgefendur líka, virði það bann.


mbl.is Umdeildu máli um málfrelsi og kannabisboðskap lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru konur konum verstar eftir allt saman?

Niðurstöður rannsóknar sem gerð var í Háskólanum í Reykjavík á óútskýrðum launamuni karla og kvenna eru okkur konum alvarlegt umhugsunarefni, ekki síst á þessum degi, 19. júní.

Rannsóknin sýnir að stór hluti launamunar kynjanna sé innbyggður í hugarfar okkar og væntingar. Í frétt af fundinum, þar sem niðurstöðurnar voru kynntar kemur þetta m.a. fram um helstu niðurstöður rannsóknarinnar (sjá http://ru.is/?PageID=65&NewsID=1622):

Konur bjóða körlum hærri laun en konum, en karlar bjóða kynbræðrum sínum ennþá hærri laun.

Konur reikna með að konur sætti sig við lægri laun en karlar.

Bæði konur og karlar gera ráð fyrir að konur sætti sig við mun lægri laun en karlar og er munurinn frá 13 til 19 prósent.

Konur ráðleggja kynsystrum sínum að biðja um mun lægri laun en þær myndu ráðleggja körlum og er munurinn meiri en 10%. Karlmenn ráðlegga körlum einnig að biðja um hærri laun en þeir ráðleggja konum, en munurinn á ráðleggingum þeirra er minni.

Konur búast við að konum verði boðin 13 til 15 prósentum lægri laun en karlar. Karlar búast við að munurinn sé minni.

Konur ráðleggja kynsystrum sínum að sætta sig við 11 til 12 prósentum lægri laun en þær ráðleggja körlum að sætta sig við. Þetta er mun meiri munur en þegar karlar ráðleggja fólki.

Ég bara skil þetta ekki og á raunar bágt með að trúa þessu. Ég held að næst þurfi að rannsaka af af hverju konur gefa kynsystrum sínum svona ráð. 


17. júní

Mér finnst 17. júní sérstakur dagur. Samt hafa hátíðahöld dagsins aldrei höfðað til mín og oftar en ekki hef ég engan þátt tekið í því sem í boði hefur verið.

Lengi þótti mér að athöfnin á Austurvelli væri eingöngu fyrir þá sem þangað eru sérstaklega boðnir. Fyrir réttum 10 árum stóð þannig á að Zontavinkona frá Nýja Sjálandi var gestkomandi hjá mér á þessum tíma. Mér fannst einhvern veginn svo tilvalið að sýna henni hvernig við höldum upp á 17. júní með því að fara niður á Austurvöll. Og þá áttaði ég mig á því að fullt af fólki finnst það ómissandi þáttur í hátíðarhöldum dagsins að fara niður á Austurvöll.

Skrúðgöngurnar 17. júní hafa heldur aldrei höfðað til mín. Ég minnist þess t.d. ekki að hafa nokkurn tíma farið með einkabarnið í skrúðgöngu, hvorki á sumardaginn fyrsta né 17. júní. Ég afsaka mig með því að hann sýndi aldrei sérstakan áhuga á skrúðgöngum.  

Ég man hins vegar eftir því þegar ég fékk fyrst að fara að kvöldi til í bæinn á 17. júní. Það hefur sennilega verið 1969. Ég dvaldi þá hjá ömmu, vegna utanlandsferðar foreldranna. Hún taldi óhætt að leyfa mér að fara í bæinn enda ætlaði ég með stelpu sem búið var að ferma. Þar með var hún orðin fullorðin í augum ömmu og treystandi til að fara með barnið í bæinn, en ég var tæplega 13 ára. Þannig var nú litið á hlutina þá.

Um bæjarferðina er lítið að segja annað en það að hún stóð ekki undir væntingum. Mér hreinlega leiddist og sýndi því engan áhuga næstu árin að endurtaka leikinn. Síðan man ég eftir a.m.k. einu ári þar sem bærinn var bara nánast dauður því þá þótti svo sniðugt að setja hátíðahöldin út í hverfin. Þetta hefur sennilega verið kringum 1976. Sem betur fer hættu menn fljótt þeirri vitleysu.

Sjálfsagt spilar veðráttan heilmikið inn í það hvað maður gerir á 17. júní. Í minningunni hefur veðrið þennan dag oft verið þannig að útivera hefur verið lítið spennandi kostur. 

En það var blíðviðri í dag, þótt það væri aðeins kalt í morgun. Ég náði seinni helmingi athafnarinnar á Austurvelli og fór í messuna í Dómkirkjunni. Við vinkonurnar hittumst á Jómfrúnni í hádeginu og röltum svo í gegnum bæinn. Það var passlegur skammtur fyrir mig af hátíðarhöldum. 


mbl.is Hátíðardagskrá fór vel fram í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvennahlaupið

Kvennahlaup ÍSÍ var haldið í 18. sinn í dag. Ég verð að gangast við því að aldrei fyrr en nú hef ég tekið þátt í þessu hlaupi. Tel ég mig þó kvenréttindakonu og femínista. En einhvern veginn hef ég alltaf fundið einhverja afsökun fyrir því að fara ekki.

En í dag tók ég áskorun Guðnýjar þjálfara míns um að taka þátt í 10 km stafgöngu í hlaupinu. Ég var undir það búin að láta 5 km hringinn duga - en allt gekk þetta svona bærilega að ég tók lengri hringinn. Og 10 km markinu náði ég eftir 1 klst. og 45 mín. Bara ágætur tími fannst mér. Ég var búin að reikna með að vera 2 klst. að þessu.

Í fyrsta sinn á ævinni hef ég fengið medalíu fyrir þátttöku í íþróttum. Betra seint en aldrei. Joyful


mbl.is Konur hlaupa víða í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríman

Fyrir algjöra heppni áskotnuðust mér boðsmiðar á Grímuna - svo ég auðvitað fór. Ég skemmti mér prýðilega og ég ímynda mér að fyrir alla þá sem starfa við leiklist sé Gríman ómetanleg ,,uppskeruhátíð". Eins og alltaf eru nokkrir kallaðir en fáir útvaldir. En útnefningin ein og sér hlýtur að fela í sér mikla og ánægjulega viðurkenningu.

Svo skemmtilega vill til að ég hef sótt leikhús í vetur af meiri krafti en oftast áður því sl. haust ákvað ég að kaupa mér áskriftarkort bæði í Þjóðleikhúsinu og hjá LR. Fyrir vikið hef ég séð þorra þeirra sýninga sem tilnefningar hlutu.

Besta sýning vetrarins fannst mér vera Hjónabandsglæpir, eins og ég hef bloggað um áður. Ófagra veröld var líka mjög góð, á sinn geðveika hátt. Dag vonar náði ég ekki að sjá, frekar en Mr. Skallagrímsson, sem Benedikt Erlingsson fékk tvenn verðlaun fyrir. Vonandi gefst færi á því seinna.

Herdís Þorvaldsdóttir og Róbert Arnfinnsson fengu verðskuldaðar viðurkenningar fyrir ævistarf. Ég þekki hvorugt þeirra persónulega en samt finnst mér eins og þau séu góðir kunningjar. Þau hafa fylgt manni frá blautu barnsbeini því mín kynslóð og margar aðrar hafa alist upp við að sjá leiksýningar þar sem þau léku stórar rullur. Herdís flutti yndislega ræðu og minnti í henni á annað hugðarefni sitt, umhverfismálin og sauðfjárbeit sérstaklega. Mér fannst það flott hjá henni.

Gríman leiðir hugann að aðstöðu leiklistarinnar. Í kosningabaráttunni fór ég á vinnustaðafund í Þjóðleikhúsinu. Þar var athygli okkar frambjóðenda vakin á því að þar þarf að gera margt. Sumt af því er komið á rekspöl, en miklu meira þarf til að koma. Síðan bendir Óperan, dansarar og sjálfstæðu leikhóparnir á aðstöðuleysi. Vonandi verður á kjörtímabilinu hægt að standa að einhverju leyti undir þeim væntingum sem allir þessir aðilar hafa.

Við erum svo gæfusöm þjóð að við höfum lengi átt listamenn á heimsmælikvarða. Það fjölgar stöðugt í þeim hópi.  Ég er ekki alveg viss um við séum alltaf að fatta það nægilega vel og sýna í verki hversu stolt við erum af þessari staðreynd. 

Ég óska öllum sem hlutu tilnefningar til Grímunnar innilega til hamingju. Um leið vil ég þakka fyrir góðan leihúsvetur. Ég hlakka til næsta leikárs. Ég endurnýja örugglega áskriftarkortin.


mbl.is Benedikt Erlingsson var sigurvegari Grímunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málefni foreldra með sameiginlega forsjá

Fréttir herma að sumarþingi eigi að ljúka á morgun. Ég var að kíkja á þingmálin og stöðu þeirra. Meðal þeirra mála sem á að ljúka er þingsályktunartillaga um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Á heimasíðu Alþingis má sjá að síðari umræða var í dag og að þingnefnd leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt (sjá http://www.althingi.is/altext/134/s/0016.html).

Meðal þess sem gera á skv. tillögunni er að skipa nefnd er fjalli um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og réttarstöðu barna þeirra. Vonandi mun þessi nefnd vinna fljótt og vel og nefndarálitinu síðan hrundið í framkvæmd í stað þess að verða skúffufóður í ráðuneyti, eins og svo oft verða örlög góðra nefndarálita.

Ennfremur vona ég að verksvið þessarar nefndar verði rýmkað og að henni verði einnig falið að skoða ýmislegt varðandi réttarstöðu foreldra, sem ekki búa saman en sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna. Eins og staðan er í dag telst eingöngu foreldrið sem er með lögheimili barnsins vera einstæða foreldrið. Hitt foreldrið er - ja ég veit eiginlega ekki hvaða hugtak á að nota yfir það. Því hvergi er tekið tillit til þessa foreldris. Það er hvorki forsjárlaust né einstætt en samt með sameiginlega forsjá yfir barninu.

Á fyrsta feðradeginum í nóvember 2006 lofaði félagsmálaráðherra því að tekið yrði til skoðunar að gera foreldrum í þessari stöðu kleift að bæði hefðu lögheimili barna sinna. Í því felst að bæði njóta réttarstöðu sem einstætt foreldri og þar með myndu þau skipta milli sín þeim stuðningi sem hið opinbera veitir einstæðum foreldrum. Þetta er mikilvægt hagsmunamál.

Fleira þarf að skoða í þessu sambandi, s.s. greiðslu meðlags þegar foreldrar með sameiginlega forsjá ákveða að börnin búi til skiptis hjá þeim, jafnt á báðum stöðum. Í slíkum tilvikum er vafasamt að greiðsla meðlags eigi rétt á sér því báðir sinna framfærsluskyldum sínum með jafnri búsetu. En það þarf að tryggja að báðir foreldrar taki jafnan þátt í þeim útgjöldum sem barni fylgja, s.s. dagvistunarkostnaði, skólaskjólskostnaði, fatakostnaði, tómastundakostnaði o.s.frv.

Mikilvægast er þó að drífa í því að breyta barnalögum þannig að dómstólum verði gert kleift að dæma sameiginlega forsjá eins og frændur okkar Danir hafa nú lögfest og gengur í gildi hjá þeim 1. október nk. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að umrædd nefnd geri tillögu um það.

Ef öllu þessu tekst að koma í höfn á næstu misserum þá hafa náðst mikilvægir áfangar fyrir börn og foreldra með sameiginlega forsjá.


Umferðin

Það eru óskemmtilegar fréttirnar af ofsaakstri vélhjólamanna frá Selfossi til Reykjavíkur sl. nótt. Það er óskiljanlegt hvernig nokkrum dettur í hug að aka svona og stofna lífi og limum, eigin og annarra í stórkostlega hættu.

Ég fór austur fyrir fjall í gær, sem er svosem ekki í frásögur færandi. Umferðin var stöðug í báðar áttir, bíll við bíl. Framúrakstur var nokkur og stundum glæfralegur. Ótrúlegast var þó þegar einn fyrir framan mig tók sig til og tók framúr þeim fyrir framan sig hægra megin. Eru engin takmörk fyrir því hvað fólki dettur í hug í umferðinni? Það getur ekki gerst of snemma að Suðurlandsvegurinn a.m.k. austur á Selfoss verði gerður tvíbreiður.

Og svo er kapítuli út af fyrir sig akstur á umferðarljósum. Mörgum sinnum á dag verður maður vitni að því að ökumenn aka yfir á rauðu ljósi og hiksta ekki við það. Ég held að það þurfi fleiri myndavélar til að stoppa þennan ósóma. Mér er sagt að oftast sé engin myndavél í þeim fáu sem þó eru til staðar. Skyldi það vera rétt?


Sögulegur dagur

Ég er að koma úr útskriftarathöfn Háskólans í Reykjavík. Þar útskrifuðust m.a. 43 nemendur með meistaragráðu í lögfræði. Fjórir þeirra höfðu einvörðungu tekið meistaranámið og voru brautryðjendur að því leyti. Hinir luku ,,fullnaðarpróf í lögfræði" eins og það heitir nú, gamla cand. jur. prófið sem ég tók fyrir mjög mörgum árum. 

Þetta var söguleg stund.

Það fer ekki hjá því að á þessum tímamótum rifjist upp miklar ritdeilur sem risu um það hvort lögfræðingar útskrifaðir úr lagadeild HR ættu að fá sömu réttindi og lögfræðingar útskrifaðir úr lagadeild HÍ. Sú barátta stóð fyrst og fremst um það hvort breyta ætti lögum um lögmenn og fella niður skilyrði þeirra að lögmenn yrðu að hafa lagapróf frá Háskóla Íslands. Forystumenn lagadeildar Háskóla Íslands höfðu miklar áhyggjur af því að laganámið í HR væri ekki jafn merkilegt og laganámið í HÍ. Sem betur fer tókst þeim ekki að bregða fæti fyrir þær nauðsynlegu lagabreytingar sem gera þurfi. En mér er minnisstætt hvernig Framsóknarflokkurinn stöðvaði það vorið 2003 að breytingar á lögmannalögunum næðu fram að ganga og töfðu með því um tæpt ár þessa sjálfsögðu og eðlilegu lagabreytingu. Ég hugsa að lögfræðingarnir sem útskrifuðust í dag frá HR muni þetta mjög vel líka.

Ég fullyrði að reynslan hafi sýnt að með stofnun lagadeildar Háskólans í Reykjavík hafi lagadeild Háskóla Íslands fengið nauðsynlegt aðhald og verðuga samkeppni. Hvorutveggja hefur skilað sér í bættu og fjölbreyttara laganámi, laganemum og síðan atvinnulífinu til heilla.

Ég er svo heppin að hafa fengið tækifæri til að kenna þessum nýútskrifuðu lögfræðingum fjölskyldu- og erfðarétt og sumum þeirra heilbrigðisrétt líka. Ég get því af reynslu sagt að þetta eru frábærlega duglegir einstaklingar, sannkallaðir frumkvöðlar og brautryðjendur. Það þurfti kjark og þor til að taka ákvörðun um að innrita sig í splunkunýja lagadeild. Þau hafa svo sannarlega staðið undir þeim væntingum sem til þeirra voru gerðar og þau ruddu brautina fyrir þeim sem á eftir hafa komið. Um leið og ég óska öllum þeim sem útskrifuðust frá lagadeild HR í dag hjartanlega til hamingju sendi ég þeim góðar óskir um gæfu og gengi í hverju því sem þau taka sér fyrir hendur á komandi árum.


Launabil: seðlabankastjórar og forseti Íslands

Auðvitað þurfa bankastjórar Seðlabankans að hafa mannsæmandi laun. Það hljótum við öll að skilja. Þeir sinna annasömu og ábyrgðarmiklu starfi. Þeir þurfa að taka erfiðar og afdrifaríkar ákvarðanir eins og það hvort hækka eigi vextina eða lækka. Enda eru þeir þrír. Mig minnir að það sé bara einn seðlabankastjóri í Bandaríkjunum.

Rök formanns bankaráðsins fyrir launahækkuninni er hins vegar áhugaverð. Meginástæða launahækkunarinnar virðist sú að bankaráðinu finnst að það þurfi áfram að vera áþekkt bil í launum milli bankastjóra og millistjórnenda í bankanum. Á sama tíma svarar formaðurinn því til að það sé ekki bankaráðið sem ákveði laun millistjórnendanna heldur bankastjórnin.

Þetta er auðvitað ákaflega þægilegt fyrir bankastjórnina. Hún veit að bankaráðið vill hafa eitthvað óskilgreint launabil milli bankastjórnarinnar og millistjórnendanna. Bankastjórnin getur því að vild hækkað laun millistjórnendanna og í kjölfarið hækkar bankaráðið laun bankastjórnarinnar. Það er ekki erfitt að fá launahækkanir þegar maður er í þessari aðstöðu.

Síðan er fullyrt að bankastjórnin hafi þurft að hækka laun millistjórnenda duglega af því að almenni markaðurinn (bankarnir sem eru í einkaeigu) séu að sækjast eftir þessum millistjórnendum. Engin dæmi eru þó nefnd. 

Þetta eru ný viðhorf í opinberum rekstri, að hið opinbera sé tilbúið að toppa einkageirann varðandi laun. Hingað til hefur verið litið svo á að opinberi geirinn hafi ákveðin mörk í launagreiðslum sem ekki er farið upp fyrir. Vilji einhver í opinbera geiranum þau laun sem einkageirinn er tilbúinn að borga þá einfaldlega fer sá hinn sami í starf í einkageiranum, enda bjóðist honum það. Enda er enginn þegar upp er staðið ómissandi, sama hversu góður hann er. Maður kemur í manns stað og stundum er sá sem í staðinn kemur betri en sá sem fór.

Af hverju þarf að vera áþekkt bil milli bankastjóra og millistjórnenda í Seðlabanka Íslands? Er launabil eitthvað lögmál? Ekki treysti ég fólki sem hugsar svona fyrir því að afnema t.d. launabil milli karla og kvenna. Með sömu rökum má halda því fram að af því að það sé launabil milli kynjanna þá hljóti karlarnir að þurfa að viðhalda því. Af þessum rökum má ráða að ef það er kynbundinn launamunur í Seðlabankanum þó hljóti bankaráðið að vilja viðhalda honum. Launabil er lögmál í huga meirihluta bankaráðsins.

Einhver launabilsröksemd stenst ekki. Af hverju segir formaður bankaráðsins ekki bara það sem blasir við? Bankastjórnin vildi fá hærri laun og bankaráðið hækkaði launin. Rökin eru eftiráskýringar.

Það er ein áhugaverð afleiðing þessarar ákvörðunar bankaráðsins. Hún er sú að forseti Íslands er ekki lengur tekjuhæsti einstaklingurinn í opinbera kerfinu heldur formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands.

Nú verður fróðlegt að sjá hvað kjararáði, sem ákveður laun forseta Íslands og fleiri embættismanna, finnst eðlilegt um þetta. Hingað til hefur kjararáð greinilega talið forseti Íslands eigi að vera hæst launaði opinberi embættismaðurinn.

Í 8. gr. laga um kjararáð nr. 47/2006 segir:

     Við úrlausn mála skal kjararáð gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Við ákvörðun launakjara skv. 4. gr. skal kjararáð sérstaklega gæta samræmis milli þeirra og þeirra kjara hjá ríkinu sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga annars vegar og ákvarðana kjararáðs skv. 3. gr. hins vegar.
     Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.

Það verður athyglisvert að fylgjast með því hvað kjararáð gerir nú með laun þeirra sem það ákvarðar. Það hlýtur að þurfa að horfa til þessarar hækkunar launa bankastjórnar Seðlabanka Íslands við þá ákvörðun.


mbl.is Mánaðarlaun í 1,4 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband