Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Vikan búin

Þær fljúga einhvern veginn framhjá vikurnar. Er það ekki alltaf svoleiðis þegar nóg er að gera?

Ég endurflutti mál í Hæstarétti á þriðjudag. Hæstiréttur var snöggur að dæma aftur, því nýr dómur kom í gær. Niðurstaðan var, eins og ég svosem átti von á, sú sama og í fyrri dómi, en málskostnaður var felldur niður. Í fyrra skiptið var umbj. minn dæmdur til að greiða talsverðan málskostnað (sjá http://www.haestirettur.is/domar?nr=4396). Krafan um endurupptöku skilaði þó því. Þetta er hins vegar athyglisvert mál því leiðbeiningar lyfjaframleiðanda sem voru skýrar um það að læknir þyrfti að hafa reynslu á þessu sviði voru taldar engu máli skipta af því að meðdómendur, kollegar þess læknis sem stefnt var, töldu að það væri ekki merkilegra að setja upp þennan getnaðarvarnarstaf en að setja upp æðalegg. Athyglisvert. Læknarnir vita sem sé betur en lyfjaframleiðandinn sjálfur hvaða reynslu þarf á þessu sviði. Gott að vita það.

Flutti síðan mál í héraðsdómi á miðvikudag sem verður spennandi að sjá hvernig fer. Umbj. mínum var synjað um að fara í glasafrjóvgunarmeðferð á grundvelli aldurs eingöngu. Hún var orðin 44 ára. Þar með taldist hún of gömul samkvæmt reglugerð um tæknifrjóvgun sem geymir fortakslaus aldursmörk, þótt lögin um tæknifrjóvgun segi eingöngu að líta skuli til aldurs parsins. Umbj. minn telur reglugerðina ólögmæta þar sem hún eigi ekki lagastoð og aldursmarkaskilyrði brot á jafnræðisreglu því það er ekki það sama fyrir karla og konur. Karlar mega fara í glasafrjóvgunarmeðferð fram að 50 ára aldri.

Til viðbótar daglegum önnum hefur bæst að halda áfram tiltekt í kjölfar flutninga lögmannsstofunnar og fasteignasölunnar. Við fórum sem betur fer ekki langt, eingöngu milli hæða að Hverfisgötu 4. Nú erum við lögmennirnir saman á 1. hæð og fasteignasalan á jarðhæðina. Mjög ánægð með þetta.  En flutningar eru ekki skemmtilegir. Mér telst til að þetta sé í a.m.k. fjórða sinn sem ég flyt skrifstofuna mína frá árinu 1999. Það eina góða við flutninga er þó það að maður neyðist til að taka til í ýmsum ,,bunkum" sem búið er að safna í dóti sem ,,á að skoða seinna". Mest af því hefur farið í ruslið og mátti auðvitað fara þangað strax.


Hver ákveður gangainnlagnir?

Ég hef aldrei skilið þessar gangainnlagnir. Í þau skipti sem ég hef orðið vör við þær þá virðast iðulega vera tómar sjúkrastofur annars staðar á viðkomandi gangi - en þær hefur ekki mátt nota, m.a. vegna manneklu.

Ef læknar neita að leggja sjúklinga "inn á gang" hvað gerist þá? Og af hverju hafa læknar ekki gert það fyrir löngu? Fyrir liðlega 10 árum síðan var ég ásamt fleirum að semja frumvarp til laga um réttindi sjúklinga. Þá voru gangainnlagnir algengar og mikið til umræðu m.a. vegna friðhelgi einkalífs sjúklinga. Frumvarpið varð að lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Sjúklingalögin gengu í gildi 1. júlí 1997. Þau eiga því 10 ára afmæli eftir þrjár vikur eða þar um bil.

Vegna gangainnlagna var m.a. sett eftirfarandi ákvæði í 17. gr. sjúklingalaganna:

     Heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem starfs síns vegna hafa samskipti við sjúkling skulu koma fram við hann af virðingu.
     Að meðferð sjúklings skulu ekki koma aðrir en þeir sem nauðsynlega þurfa. Heilbrigðisstarfsmaður skal gæta þess að framkvæma nauðsynlega meðferð með þeim hætti að utanaðkomandi aðilar sjái ekki til og að upplýsingar um meðferð einstaklinga séu ekki aðgengilegar öðrum en viðkomandi heilbrigðisstarfsmönnum.

Það er því ljóst að lögin um réttindi sjúklinga gerðu ráð fyrir að gangainnlagnir legðust af. Þær lifa greinilega enn góðu lífi ef marka má ályktun læknaráðs LSH. En ef mannekla er ástæða gangainnlagna kemur þá meira húsnæði að einhverju gagni?


mbl.is Læknaráð segir gangainnlangir ekki boðlegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísafold

Einu áhrifin sem aðgerðir Kaupáss virðast hafa haft eru þau að upplag blaðsins virðist hafa selst upp á þeim stöðum þar sem það var til sölu. Aðgerðir sem þær sem Kaupás greip til eru auðvitað ekki til neins annars fallnar en að auka söluna á blaðinu.

Umfjöllun blaðsins um starfsemi strippstaðarins í Kópavogi er eingöngu merkileg fyrir þá sök að þar eru nafngreindir tveir einstaklingar og sagðir tíðir gestir á staðnum. Annar kannast við að hafa komið þangað einu sinni, hinn neitar að hafa stigið þar inn fæti.

Verra er að í greininni segir og er að hluta haft beint eftir fv. starfsmanni á staðnum, íslenskum:

Valdamiklir íslenskir menn voru á meðal kúnna staðarins. Þeir kusu þó frekar að eiga stund með erlendu stelpunum. .,,Þeir vildu ekki íslenskar stelpur sem gætu þekkt þá. Þingmenn og aðrir valdamiklir menn fengu skrifstofu Geira lánaða. Þar gátu þeir verið í einrúmi. Ég varð því lítið vör við þá."

Hér er fullyrt að ótilgreindur fjöldi valdamikilla Íslendinga og alþingmanna hafi keypt sér kynlífsþjónustu á þessum stað. Það er hart fyrir þennan hóp manna að sitja undir jafn ógeðfelldum ásökunum. Þá er hreinlegra að nafngreina þá einstaklinga sem eiga að hafa vanið komur sínar á þennan stað, eins og gert er með þá tvo, sem áður er vikið að, og gefa þeim kost á að tjá sig um málið.

Hitt er annað að starfsemi svona staða ætti að banna og það strax. Hún er niðurlægjandi fyrir alla sem að henni koma og smánarblettur á okkar samfélagi.

 


mbl.is Ástæða til að hafa áhyggjur af tilraunum ráðamanna til að koma í veg fyrir umfjöllun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný lög í Danmörku um forsjá barna

Nýlega voru samþykkt í Danmörku ný lög um forsjá barna. Lögin ganga í gildi 1. október 2007. Nýmæli laganna eru einkum tvö:

  1. Sameiginleg forsjá verður meginregla. Hér feta Danir í fótspor m.a. Íslendinga. Þessa breytingu gerðum við á barnalögum vorið 2006.
  2. Dómstólar mega dæma sameiginlega forsjá, jafnvel þótt foreldrarnir sjálfir vilja slíta henni. Hér ganga Danir skrefi lengra en við höfum enn gert.

Svokölluð forsjárnefnd, sem ég veitti forystu, lagði til bæði í áfangaskýrslu sinni 1999 og lokaskýrslu sinni í mars 2005 að sameiginleg forsjá yrði meginregla hér á landi. Það náðist með breytingu á barnalögum vorið 2006. Í lokaskýrslu sinni gekk forsjárnefnd skrefi lengra og lagði til að að dómstólar gætu dæmt sameiginlega forsjá. Sú breyting hefur ekki enn náð fram að ganga.

Vonandi verður þess ekki langt að bíða að frekari breytingar verði gerð á barnalögum þannig að dómstólar megi dæma sameiginlega forsjá. Ég er sannfærð um að slík lagabreyting muni fækka forsjárdeilum foreldra til mikilla muna.


Fyrstu verkin

Ég tel að meðal fyrstu verka hvers ráðherra í launamálum kynjanna eigi að vera það að kalla eftir upplýsingum um laun kvenna og karla í ráðuneyti sínu og hjá undirstofnunum. Komi í ljós óútskýrður launamunur milli karla og kvenna þá verði hann leiðréttur tafarlaust. Það gæti nefnilega verið að það væri víðar en hjá sýslumanninum á Húsavík sem óútskýrður launamunur er í gangi. Vísa ég hér til nýlegrar niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála (http://www.rettarheimild.is/Felagsmala/KaerunefndJafnrettismala/2007/04/16/nr/2450).

Ég er ekkert viss um að það þurfi svona flókið ferli eins og endurmat á kjörum til að ná þessu fram - þó sú aðferð sé örugglega góðra gjalda verð. En hún er tímafrek og á meðan við bíðum er hætt við að ekkert gerist.

Síðan er mér lífsins ómögulegt að skilja af hverju hlutfall kvenna í nefndum og ráðum hjá ríkinu heldur áfram að vera eins og það er, þ.e. að í flestum ráðuneytum (að undanskildu heilbrigðis- og menntamálaráðuneyti) er hlutfallið talsvert körlunum í vil. Ég hefði talið að ef menn raunverulega vilja jafna þessi hlutföll þá geti ráðherrar, þegar um er að ræða skipun í nefnd eða ráð þar sem utanaðkomandi aðilar tilnefna, óskað eftir því að tilnefningaraðilar tilnefni alltaf karl og konu í hvert eitt sæti sem á að skipa í og áskilja sér rétt til að velja hvort konan eða karlinn verður skipaður frá viðkomandi. Með þeim hætti hefur ráðherrann það í hendi sér að tryggja að kynjahlutföllin í nefndinni eða ráðinu verði jöfn og þarf ekki að una því að kynjasamsetning nefndarinnar sé í raun í höndum tilnefningaraðilanna en ekki hans sjálfs.


mbl.is Löngu tímabært að fram fari endurmat á kjörum kvenna hjá hinu opinbera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband