Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Skýrir kostir

Skoðanakannanir sýna að 65% kjósenda vilja að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í ríkisstjórn og 54% vilja að næsta ríkisstjórn verði mynduð undir forystu Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Það er ekki nema ein leið til þess að tryggja þetta. Hún er sú að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Sumir virðast halda að með því að kjósa einhvern annan flokk geti þeir haft áhrif á það hvaða flokkur verði samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins. Þannig virkar þetta ekki. Öflugur stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn er það eina sem tryggir að Sjálfstæðisflokkurinn haldi áfram stjórnarforystunni.

Skoðanakannanir gærdagsins sýna að Samfylkingin og VG gætu myndað vinstri stjórn með stuðningi Frjálslyndra eða Framsóknar. Skilaboð formanna Samfylkingar og VG eru skýr. Þeir vilja mynda stjórn saman. Ef af því yrði fáum við þriggja flokka vinstri stjórn. Reynslan af slíkum stjórnum er afleit.

Þetta eru óvenju skýrir kostir. Áframhaldandi góðæri og farsæl stjórn undir forystu Geirs H. Haarde formanns Sjálfstæðisflokksins eða óvissa um allt með þriggja flokka vinstri stjórn. 


Það styttist í kosningar

Vinnustaðaheimsóknum fjölgar. Álagið á frambjóðendur eykst. Stöðugur straumur fólks kemur á kosningaskrifstofurnar. Allir vilja leggja sitt af mörkum til að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn komi sem best út úr kosningunum.  

Skoðanakannanirnar halda áfram að streyma inn. Eitthvað próf er í gangi á vefnum til að hjálpa fólki til að ákveða hvað það eigi að kjósa. Treysti því að enginn taki mark á því. Tók það tvisvar og fékk ekki sömu niðurstöðuna þótt ég svaraði eins í bæði skiptin. Var stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins í annað skiptið en eitthvað allt annað í hitt. Skrýtið. En nú er bara að nýta hverja stund til að tryggja sem bestar tölur fyrir Sjálfstæðisflokkinn uppúr kjörkössunum. Það eru þær sem skipta máli en ekki skoðanakannanirnar.

 


Sagan góða

Það er ótrúlegt að sjá það uppnám sem lítil saga sem ég skrifaði hér á blogginu í gær hefur valdið andstæðingum Sjálfstæðisflokksins. Athugasemdirnar tala þar sínu máli. Þær sýna einnig fádæma fyrirlitningu á fullorðnu fólki, sbr. ósmekkleg ummæli um elliært fólk sem ekki eigi að fá að kjósa. Þessar athugasemdir sýna kannski betur en nokkuð annað raunverulegan hug vinstri manna til aldraðra.

En það er auðvitað skiljanlegt að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins eru að fara á taugum. Skoðanakönnun fyrir helgi sýndi að 65% vilja að Sjálfstæðisflokkurinn verði í ríkisstjórn næsta kjörtímabil. Það sem meira er, önnur skoðanakönnun sýndi að 54% treysta formanni Sjálfstæðisflokksin best til að leiða næstu ríkisstjórn. Næst á eftir honum kemur Ingibjörg Sólrún með 17% stuðning í forsætisráðherrastólinn og Steingrímur J er með eitthvað minni stuðning. Miðað við fylgi þessara flokka í skoðanakönnunum þá vilja kjósendur þeirra frekar Geir H. Haarde en eigin flokksformann í stól forsætisráðherra. Þarf frekari vitnana við?


Vinnustaðafundur

Fór í hádeginu ásamt Pétri Blöndal á vinnustaðafund hjá Flytjanda. Fínn fundur. Mér finnst ótrúlegt hvað kjósendur eru tilbúnir til að spjalla við frambjóðendur svona í matmálstímanum.

Við fengum góðar viðtökur og margar góðar ábendingar um hluti sem starfsmönnum á þessum vinnustað liggur á hjarta. Ábendingarnar munum við skoða vandlega.

Ég átti líka langt samtal við öryrkja sem vildi fá frekari skýringar á stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum öryrkja. Honum, eins og svo mörgum öðrum sem ég hef spjallað við, bæði í símtölum og á kosningaskrifstofum, lá þungt orð til Tryggingastofnunar ríkisins. Það er greinilegt að þar þarf að taka til hendi, þótt ég efist ekki um að starfsmenn þar séu allir af vilja gerðir að leysa vel úr málum þeirra sem þangað leita. Það virðist þó ekki duga til.


Auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn

Ég hringdi um helgina í konu sem ég hef þekkt lengi. Ég veit að hún er öruggt atkvæði eins og það er kallað en ég vildi samt aðeins heyra í henni. Við spjölluðum góða stund og hún sagði mér þessa sönnu sögu af móður sinni. Mér finnst sagan eiga svo vel við á lokaspretti kosningabaráttunnar að ég segi frá henni hér. 

Móðirin er 99 ára gömul,  ern eftir aldri og býr heima, með góðum stuðningi dóttur sinnar. Vegna aldurs þarf hún þó aðstoð við kosninguna svo eftir því var óskað að hún gæti kosið heima. Þegar fulltrúi sýslumanns var kominn á staðinn var móðirin spurð að því hvað hún vildi kjósa. Móðirin svaraði: Nú það sama og ég hef alltaf kosið. Ekki dugir það svar því kjósandinn þarf að nefna flokkinn sem hann vill kjósa þegar svona háttar til. Hún var þá spurð að því hvaða flokk hún hefði alltaf kosið. Þann besta, svaraði móðirin. Enn dugði svarið ekki, svo móðirin var næst spurð að því hvaða flokk hún hefði alltaf kosið og hvaða flokkur það væri sem væri sá besti. Þá svaraði móðirin, án nokkurs hiks: Auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn.


Skoðanakannanir

Skoðanakannanirnar halda áfram að vera hvetjandi fyrir okkur sem erum í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það verður hins vegar aldrei of oft undirstrikað að málið snýst um að vinna kosningarnar en ekki skoðanakannanirnar. Það eru tölurnar sem koma upp úr kjörkössunum sem skipta öllu máli. Skoðanakannanirnar eru einvörðungu vísbendingar um það á hvaða ferð fylgið er.

Nú er lokaspretturinn framundan og nauðsynlegt að nýta hann vel. Með þeim eina hætti tryggjum við Sjálfstæðismenn að niðurstöður kosninganna verði jafngóðar og skoðanakannanirnar benda til.


Jöfn foreldraábyrgð

Það er bjargföst skoðun mín að eitt mikilvægasta jafnréttismálið sé að jafna foreldraábyrgð, án tillits til þess hvort foreldrar búa saman eða ekki. Ég tel að umgengni barns og þess foreldris sem barnið býr ekki hjá eigi að vera sem jöfnust enda leyfi búseta foreldranna það. Vart ætti að þurfa að taka fram að hér er ég að tala um þann þorra tilvika þar sem báðir foreldrar eru ósköp venjulegt fólk sem allt er í lagi hjá. Ég er ekki að tala um tilvikin þar sem einhver vandamál eru í gangi hjá foreldrunum, öðru eða báðum.

Í þeim tilvikum þar sem foreldrar hafa ákveðið að barn búi jafnt hjá báðum, t.d. viku í senn á hvorum stað, tel ég mikilvægt að foreldrar geti einnig ákveðið að barnið eigi lögheimili hjá báðum foreldrum þannig að báðir foreldrar fái stöðu einstæðs foreldris og skipti milli sín þeirri opinberu aðstoð sem einstæðum foreldrum er veitt. Jafnframt tel ég að í slíkum tilvikum eigi að endurskoða það fyrirkomulag meðlagsgreiðslna sem nú gildir enda verði tryggt að foreldrar í raun leggi jafnt af  mörkum til framfærslukostnaðar barnsins (fatakaupa, skólagjalda, kostnaðar vegna tómstunda o.s.frv.).

Félag ábyrgra feðra birti í blöðunum í gær og í dag auglýsingar þar sem spurningum er varpað til frambjóðenda. Ég vil svara þessum spurningunum með eftirfarandi hætti:   

Ég styð það eindregið að dómarar geti dæmt sameiginlega forsjá.  Forsjárnefndin sem ég veitti forystu, lagði þetta til í lokaskýrslu sinni í mars 2005 og rökstuddi þá afstöðu sína með eftirfarandi hætti (sjá skýrslu í heild: http://www.domsmalaraduneyti.is/media/Skyrslur/Forsjarnefnd-lokaskyrsla.pdf):

"Með því væru foreldrum send skýr skilaboð af hálfu löggjafans um það að forsjá barna sé sameiginlegt verkefni beggja foreldra sem þeir eigi að axla sameiginlega þótt sambúð eða hjúskap þeirra sé lokið. Telja má að slík löggjöf væri í samræmi við breytt viðhorf til jafnréttis, sem m.a. hefur endurspeglast í löggjöf um jafnan rétt foreldra til fæðingar- og foreldraorlofs."  

Ég tel að það þurfi að endurskoða margt varðandi umgengni foreldra og barna sem ekki búa saman. Það þarf m.a. að setja skýrari viðmiðunarreglur um lágmarksumgengni sem úrskurðuð er. Varðandi viðbrögð við því þegar umgengni fellur niður þá geri ég skýran greinarmun á tilefnislausum umgengnistálmunum annars vegar og stöðvun á umgengni þegar umgengnin virðist vera barni beinlínis skaðleg. Vegna tilefnislausra tálmana á umgengni þá þarf að finna betri og árangursríkari úrræði til að knýja fram umgengni. Dagsektaúrræðið virðist ekki vera að virka sem skyldi. Forsjárnefndin lagði m.a. til frystingu á meðlagi í slíkum tilvikum. Ég tel enn að það úrræði eigi að taka til nánari skoðunar. Tilefnislaus tálmun á umgengn er alltaf óafsakanleg. Séu skýrar vísbendingar að mati hlutlauss fagaðila um að umgengni sé barni skaðleg tel ég að barnið eigi í slíkum tilvikum ætíð að njóta vafans og að ekki eigi að knýja fram umgengni í slíkum tilvikum, hvorki með dagsektum né öðrum leiðum. 

Ég tel að sú meginregla eigi að gilda að við fráfall annars foreldris eigi forsjá barns að fara til hins foreldrisins án tillits til hvort forsjá hefur verið sameiginleg eða ekki.


Á ferð og flugi

Síðustu daga hafa annir vegna kosninganna 12. maí aukist. Gærdagurinn byrjaði eins og venjulega í Valhöll. Seinni partinn var ég framsögumaður á fundi á kosningaskrifstofunni í JL-húsinu. Umræðuefnið var málefni aldraðra. Fundurinn var vel sóttur og góð umræða varð. Þaðan þaut ég beint á kvennakvöldið í Iðu. Þar var frábær stemmning hjá þeim liðlega 200 sjálfstæðiskonum sem mættar voru.  Menntamálaráðherra hvatti okkur til dáða. Vika til kosninga og góður byr með flokknum. Það var fróðlegt að heyra mismunandi svör kvennanna í panelnum við því hvað þær vildu gera ef þær væru við völd í fjögur ár. Svo voru þeir ekkert nema frábærir Valgeir og Geirfunkel, nýja dúóið sem kom fram og söng nokkur lög.

Ég hefði svo gjarnan viljað fara á minningartónleikana í Nasa en frekari kosningaannir gerðu það ómögulegt. Næsta stopp var Mjódd í Breiðholti. Þar var tekið upp stutt innlegg frá mér sem hægt er að skoða á vefsjónvarpi kosningaskrifstofunnar, www.breidholtid.is. Þetta var taka tvö. Fyrri upptakan misheppnaðist eitthvað af tæknilegum ástæðum.

Dagurinn í dag byrjaði snemma, kl. 6:30 í Laugum. Það var rétt svo að ég kæmi mér framúr en það tókst og ég sá ekki eftir því. Það er ótrúlega hressandi að taka góðan hring í salnum svona snemma morguns. Síðan lá leiðin beint á morgunfundinn í Valhöll. Mogginn birti nýja skoðanakönnun sem er ekkert nema hvetjandi fyrir okkur frambjóðendur.

Fyrir kl. 9 var ég mætt ásamt Sigurði Kára á vinnustaðafund í Þjóðleikhúsinu. Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri byrjaði á að fara yfir rekstrarstöðu Þjóðleikshússins og ýmsan vanda henni tengda. Gunnar Torfason verkefnissstjóri gerði síðan grein fyrir því viðhaldi sem nú er í gangi og nýrri skýrslu frá þýskum sérfræðingum um framtíðaruppbyggingu leikhússins. Hvorutveggja var mjög fróðlegt. Mikil og góð umræða spannst í kjölfar ávarpsorða okkar frambjóðendanna. Starfsmönnum Þjóðleikhússins liggur margt á hjarta og auðvitað vilja þeir veg síns vinnustaðar sem mestan. Aðstöðuleysi tálmar starfsemi Þjóðleikshússins. Knýjandi virðist orðið að huga að viðbyggingu við húsið og út á það ganga tillögur þýsku sérfræðinganna. Mér fannst gagnlegt að heyra beint frá þeim sem þarna starfa um það sem á þeim brennur vegna Þjóðleikshússins.

Seinnipartinn var ég svo á kosningaskrifstofunni i Langholti. Alltaf jafn gaman að hringja í kjósendur. Þeir taka manni undantekingalaust vel. Enda sýndi ný könnun sem skýrt var frá seinni partinn að yfir 60% kjósenda vilja að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórn á næsta kjörtímabili.

Á morgun er fjölskylduhátíð í Húsdýragarðinum sem byrjar kl. 13. Ég hvet alla til að leggja leið sína þangað.


Allt annað líf

Vinstri grænir auglýsa þessa dagana, m.a. undir slagorðinu: Allt annað líf.

Það er svo sannarlega rétt að hér verður allt annað líf ef Vinstri grænir komast til valda. Það verður vinstri stjórn, sennilega undir forystu Jóns Sigurðssonar formanns Framsóknarflokksins því Steingrímur J. og Ingibjörg Sólrún munu ekki ná saman um að gera hitt að forsætisráðherra. Það mun hefjast tímabil stöðnunar og óstjórnar, skattar munu hækka, bankarnir verða reknir úr landi, atvinnuleysi mun aukast, allt mun færast til verri vegar. Lífskjör munu versna því Vinstri grænir eru meira og minna á móti öllu sem til framfara horfir.

Sennilega mun sagan frá 1978 endurtaka sig. Þá komst til valda þriggja flokka vinstri stjórn, undir forystu Framsóknar, sem þó beið afhroð í kosningunum, sem í áttu einnig sæti Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag, forverar Samfylkingar og Vinstri grænna. Stjórnin var skammlíf, lafði í rúmt ár en skildi eftir sig rjúkandi rúst, hvert sem litið var.

Kostirnir eru óvenjulega skýrir í þessum kosningum. Áframhaldandi farsæla landstjórn þar sem Geir H. Haarde verður forsætisráðherra eða a.m.k. þriggja flokka vinstri stjórn sem enginn veit hvert leiðir okkur, nema beint í óvissuna.


Kvennakvöld hjá sjálfstæðiskonum á Reykjavíkursvæðinu

Sjálfstæðiskonur bjóða til kvennakvölds í Iðusölum, Lækjargötu 2a, 4. hæð, á morgun, fimmtudaginn 3. maí kl. 18.00-20.00.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður aðalræðumaður og Geir H. Haarde mun sjá um skemmtiatriði. 

Kvenframbjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og SV-kjördæmi verða á staðnum.  Boðið verður upp á léttan pinnamat.

Eftirtaldar konur verða þátttakendur í pallborðsumræðum:
Auður Eir Vilhjámsdóttir - prestur
Berglind Ásgeirsdóttir - sendiherra
Erla Ósk Ásgeirsdóttir - formaður Heimdallar
Hildur Dungal - forstjóri Útlendingastofnunar
Inga B. Árnadóttir - forseti tannlæknadeildar Háskóla Íslands
Kristín Pétursdóttir - fjárfestir
Svafa Grönfeldt - rektor Háskólans í Reykjavík

Hlakka til að sjá ykkur á morgun í Iðusölum.



« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband