Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Spældir

Ég fór í Þjóðleikhúsið í kvöld til að sjá uppsetningu ensks leikhóps á lítt þekktu stykki eftir Shakespeare. Shakespeare hefur nú aldrei verið mjög ofarlega á lista yfir mína uppáhaldshöfunda svo ég fór á sýninguna með hálfum huga. En sýningin kom skemmtilega á óvart. Hún var raunar hreint frábær. Mæli með henni.

En vegna leikhúsferðar sá ég ekki fréttir kvöldsins og Kastljós fyrr en núna áðan. Mikið var dapurlegt að sjá þá Steingrím J og Guðna í Kastljósinu. Framsókn í öngum sínum að vera að missa ráðherrastólana og Vinstri grænir í öngum sínum yfir að sjá ráðherrastólana renna úr greipum sér. Þetta voru tveir alveg sérstaklega spældir menn sem þjóðin sá. Ég veit ekki hvor var aumkunarverðari. Sennilega þó Guðni með fráleitar skýringar á því að eitthvað DV blað á miðvikudegi fyrir kosningar hefði stöðvað fljúgandi ferð sem Framsókn hefði þá verið komin á í fylgisaukningu.

Fullyrðingar Steingríms J um að þeir hafi allan tímann viljað Framsókn með í vinstri stjórn standast enga skoðun. Þjóðin er ekki svona fljót að gleyma. Frá því að fyrir lá að stjórnin hélt velli hafa Vinstri grænir verið óþreytandi í að halda því fram að Framsókn væri ekki á vetur setjandi, svo aumir væru þeir eftir afhroð í kosningum. Stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks væri lekt fley, hengi á einni hjör, fengi ekki haffærisskírteini. Fleiri myndrænar lýsingar hefur Steingrímur J notað um ríkisstjórn með Framsókn innanborðs. Nú er komið í ljós að Framsókn er bara allt í lagi ef hún verður þriðja hjól undir stjórn Vinstri grænna og Samfylkingar. Ætlast menn til að tekið sé mark á svona málflutingi?  


Línur skýrast

Mér létti að heyra að formenn stjórnarflokkana hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri grundvöllur fyrir áframhaldandi stjórnarsamstarf. Mitt mat er það að með þau úrslit sem Framsókn fékk í kosningunum hefði verið fráleitt að halda stjórnarsamstarfinu áfram. Mér leist ekkert á allar þær tilfæringar sem þurfti til að gera Framsókn samstarfshæfa, s.s. að breyta lögum svo ráðherrar gætu kallað inn varamenn til að tryggja að Framsókn gæti mannað t.d. nefndir á Alþingi.

Formaður Sjálfstæðisflokksins mun á morgun fara á fund forseta Íslands og biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Af fréttum má ráða að hann muni einnig tilkynna forseta Íslands að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin vilji mynda ríkisstjórn. Ekki er við öðru að búast en að forseti Íslands feli formanni Sjálfstæðisflokksins beint í framhaldinu umboð til stjórnarmyndunar.

Ýmsir hafa haft áhyggjur af því að pólitíkusinn og vinstri maðurinn muni koma upp í forseta Íslands í þeirri stöðu sem nú er að koma upp. Ég hef ekki trú á því. Fyrir liggur að formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnir forseta Íslands að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ætli að mynda ríkisstjórn. Í þeirri stöðu tel ég að forseti Íslands geti ekki með neinum hætti gripið þar inn í. Því síður tel ég að honum sé heimilt, eins og formaður Vinstri grænna virðist vera að kalla eftir, að fela formanni Samfylkingarinnar stjórnarmyndunarumboðið.

Sjálfur hefur enda forseti Íslands sagt að hann telji að stjórnmálaflokkarnir eigi að sjá um stjórnarmyndun og að forseti Íslands eigi ekki að hafa afskipti af málum nema þörf krefji. Engin slík þörf er fyrir hendi eins og mál blasa við nú. Stærstu stjórnmálaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafa ákveðið að láta reyna á það hvort þeim takist að mynda ríkisstjórn. Forseti Íslands hlýtur að virða þá ákvörðun stærstu stjórnmálaflokkanna og gera þeim kleift að láta á þetta reyna. Forseti Íslands á að mínu mati ekki aðra kosti í þessari stöðu en að fela formanni Sjálfstæðisflokksins stjórnarmyndunarumboðið. Það er fráleitt að forseti Íslands eigi eitthvað að byrja á því að ræða við formenn stjórnmálaflokkanna til að kanna hver staðan sé.

Af kvöldfréttum má ráða að Vinstri grænir eru meira að segja tilbúnir til að púkka upp á Framsókn til að mynda meirihlutastjórn til vinstri. Skrítið, því fyrir örfáum dögum sagði formaður Vinstri grænna að það væri fráleitt af Sjálfstæðisflokknum að fara í áframhaldandi samstarf við Framsókn eftir það afhroð sem flokkurinn hefði beðið í kosningunum. Nú er hins vegar Framsókn allt í einu orðin í lagi í augum Vinstri grænna ef það gæti hjálpað þeim til að komast til valda. Ráðherrastólarnir kitla greinilega svo mjög að Vinstri grænir eru tilbúnir til að kyngja Framsókn til að tryggja sér þá. En fyrir liggur að Samfylkingin vill byrja á því að ræða við Sjálfstæðisflokkinn. Allar vangaveltur um vinstri stjórn eru því andvana fæddar.

Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu. 


Útstrikanir

Fjölmiðlar hafa frá því að niðurstaða kosninganna lá fyrir mikið fjallað um útstrikanir á tveimur frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandi og Reykjavík suður og hugsanlegum afleiðingum þeirra. Öll umfjöllunin sýnist byggð á getgátum því yfirkjörstjórnir þeirra kjördæma sem umræddir frambjóðendur eru í hafa ekkert getað sagt til um umfangið. Upplýsingar virðast m.a. byggðar á sjónmati starfsmanns við talningu á yfirstrikunarbúnka, ef marka má fréttir sem ég hef heyrt um málið. 

Allt fer þetta síðan til landskjörstjórnar. Landskjörstjórn er kosin af Alþingi eftir hverjar alþingiskosningar. Nefndin kýs sér sjálf formann.

Formaður landskjörstjórnar nú er lögmaður sem ítrekað hefur fjallað um dómsmálaráðherra vegna svokallaðs Baugsmáls, en lögmaðurinn er verjandi eins eigenda Baugs í því máli. Lögmaðurinn hefur m.a. haldið því fram að dómsmálaráðherra hafi verið "bullandi hlutdrægur" gagnvart sakborningum í Baugsmálinu og því m.a. verið vanhæfur til að skipa settan ríkissaksóknara í málinu. Fréttaskýringu frá 17. nóvember 2005 um þennan þátt málsins er að finna á: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1050190 Þar eru rakin ýmis ummæli lögmannsins við meðferð kröfu verjenda að dómurinn tæki afstöðu til þess hvort dómsmálaráðherra hefði verið hæfur eða vanhæfur til að skipa settan ríkissaksóknara.

Útstrikanir á dómsmálaráðherra má hugsanlega, a.m.k. að einhverju leyti, rekja til auglýsingar sem einn eigandi Baugs birti í öllum dagblöðum daginn fyrir kosningar. Vegna starfa lögmannsins fyrir eigendur Baugs hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hvort hugsanlegt sé að formaður landskjörstjórnar kunni að vera orðinn vanhæfur til að fjalla í landskjörstjórn um útstrikanirnar og afleiðingar þeirra, a.m.k. að því er dómsmálaráðherra varðar.

Vanhæfisreglur landskjörstjórnarmanna virðast eingöngu byggjast á tengslum, ekki á hinni svokölluðu matskenndu hæfisreglu stjórnsýslulaganna, en samkvæmt henni er einstaklingur vanhæfur til a fara með mál ef hægt væri með réttu að draga óhlutdrægni hans í efa. Lögmenn eiga líka, samkvæmt siðareglum lögmanna, kröfu á því að þeim sé ekki samsamað við skjólstæðinga sína. Engu að síður er þetta áleitin spurning.

Það rifjast upp að 29. maí 1996, í aðdraganda forsetakosninganna þá, sagði Jón Steinar Gunnlaugsson, þá lögmaður en nú hæstaréttardómari, af sér formennsku í yfirkjörstjórn í Reykjavík. Í greinargerð sem JSG sendi fjölmiðlum vegna þessa sagði hann m.a.:

... Á undanförnum árum hefur nokkrum sinnum komið fyrir að ég hafi í starfi mínu sem málflutningsmaður annast rekstur mála, þar sem ofangreindur forsetaframbjóðandi hefur komið við sögu sem alþingismaður eða ráðherra með þeim hætti að ég hef talið bæði siðlaust og á köflum löglaust og orðið um að fjalla á þeim grundvelli.  ... Tel ég engan vafa leika á, að almennar vanhæfisreglur komi til athugunar við forsetakosningar. Er t.d. ljóst að úr kjörstjórn yrði að víkja náinn venslamaður forsetaframbjóðanda sbr. 2. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki er síður ástæða til að raunveruleg vildarafstaða kjörstjórnarmanna gagnvart forsetaframbjóðendum með eða móti geti valdið vanhæfi. Eru slíkar ástæður raunar oft þyngri á metunum heldur en formleg tengsl sem auðveldara er að festa hendur á. Er þetta í samræmi við kenningar fræðimanna á þessu sviði. Skal og minnt á túlkun Hæstaréttar í dómi 19. mars 1993 (H. 1993.603) að það sé nóg til vanhæfis að þeir sem hagsmuna eiga að gæta af opinberri stjórnsýslu hafi ekki réttmæta ástæðu til að efast um hlutleysi stjórnsýsluhafa. Byggist þetta á því viðhorfi að trúnaðartraust þurfi að ríkja til stjórnsýsluhafans. Niðurstaða mín er sú að ég hafi á undanförnum árum svo oft fjallað opinberlega og fyrir dómi um ávirðingar Ólafs Ragnars Grímssonar forsetaframbjóðanda í opinberum störfum hans að honum væri óréttur gerður ef hann þyrfti að una því að ég starfaði í yfirkjörstjórn Reykjavíkur í forsetakosningum þeim sem í hönd fara. Vík ég því úr sæti mínu í kjörstjórninni.

Almennt skoðað tel ég langsótt að formaður landskjörstjórnar eigi að víkja sæti í máli þessu vegna vanhæfis. Það er hins vegar ekki almenn skoðun sem skiptir hér máli. Útgangspunkturinn við þessa skoðun hlýtur að vera sá hvort dómsmálaráðherra geti, vegna ummæla sem fallið hafa í Baugsmálinu, haft ástæðu til að efast um hlutleysi lögmannsins þegar það kemur til kasta landskjörstjórnar að fjalla um afleiðingar útstrikana í Reykjavík suður. 

 


Bjartur dagur

Ég var á brettinu í Laugum þegar síðustu tölur komu upp úr kössunum og úrslit kosninganna urðu ljós. Þetta er glæsileg niðurstaða fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem bætir við sig þremur þingmönnum.

Stjórnarandstöðunni mistókst það ætlunarverk sitt að fella ríkisstjórnina, því stjórnin heldur þingmeirihluta, þótt naumur sé, 32 þingmenn. Samfylkingin missti tvo þingmenn og Vinstri grænir vinna einn, einum fleiri en Sjálfstæðisflokkurinn. Frjálslyndir eru á sama róli og áður, með fjóra menn.

Framsókn er auðvitað sá flokkur sem tapar þessum kosningum, missir fimm þingmenn. Það getur hann ekki kennt stjórnarsamstarfinu um, heldur verður að líta sér nær. Flokkurinn hefur ekki séð til sólar síðan Halldór Ásgrímsson heimtaði að verða forsætisráðherra á sínum tíma. Það sem á eftir kom þekkja allir.

Niðurstaða kosninganna hlýtur að vera áfall fyrir stjórnarandstöðuna miðað við þá þungu áherslu sem hún lagði á það að það væri lífsspursmál fyrir þjóðina að fella ríkisstjórnina. En skoðanakannanirnar bentu til þess að áhuginn á vinstri stjórn væri mjög takmarkaður, eins og áður hefur verið fjallað um í þessum pistlum. Svo er bara að bíða og sjá hvernig úr þessu spilast. En meginniðurstaðan sýnist mér vera sú að Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að verða leiðandi flokkur í hverri þeirri ríkisstjórn sem verður mynduð. Það er það sem kjósendur vilja. Ég sé ekki betur en að raunverulegur sigurvegari þessara kosninga sé Sjálfstæðisflokkurinn.

Mér sýnist hins vegar að konum fjölgi lítið á Alþingi eftir þessar kosningar. Mér telst til að þær verði 20 af 63 eða tæplega 32% þingmanna. Þetta ætlar að ganga hægt að jafna hlut kynjanna á löggjafarsamkundunni.

 


Spennandi kosninganótt

Hún er óvenjulega spennandi þessi kosninganótt. Stjórnin ýmist fallin eða ekki. Það er greinilegt að niðurstaðan ræðst ekki fyrr en í síðustu tölum. Reglurnar gera það að verkum að frambjóðendur þeysast inn og út, eru ýmist verðandi þingmenn eða ekki. Það er nánast fyndið að fylgjast með viðtölunum í kosningasjónvarpinu. Menn ýmist daprir eða glaðir og lenda svo í því að meðan á viðtali stendur breytist staða þeirra. Inni eina stundina, úti þá næstu.

Held að staðan sé þannig að best sé að segja sem minnst þangað til endanlegar tölur liggja fyrir.


Fyrstu tölur

Samkvæmt fyrstu tölum er ríkisstjórnin fallin. Sjálfstæðisflokkurinn er þó að bæta við sig, a.m.k. einum þingmanni. Það hlýtur að teljast góður árangur eftir 16 ár í ríkisstjórn.

Ingibjörg Sólrún lofar því að stjórnarandstaðan byrji á því að tala saman. Ef stjórnarandstaðan nær saman, sem að vísu yrði mjög veik ríkisstjórn, með eingöngu 33 þingmenn. 

Samfylking og Vinstri grænir hafa saman miðað við tölur nú 29 þingmenn. Framsókn er með 7 þingmenn. Ég benti á fyrir nokkru að sagan frá 1978 gæti endurtekið sig. Þá kom trausti rúinn Framsóknarflokkur og gerði vinstri flokkum kleift að mynda ríkisstjórn. Kaffibandalag eða vinsri stjórn með Framsóknarflokknum er hins vegar klárt ekki stjórnarmynstur sem mikill meirihluti landsmanna vill ekki fá yfir sig. 65% kjósenda vill að Sjálfstæðisflokkurinn verði í næstu ríkisstjórn og 54% vilja að formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde verði forsætisráðherra.

Nóttin er ung - og allt stefnir í mjög spennandi kosninganótt.


Sérstök stemmning

Það er alltaf sérstök stemmning sem fylgir kjördegi. Ég fór um miðjan dag að kjósa. Þangað streymdi fólkið, sumir, sérstaklega þeir eldri mjög prúðbúnir. Á kjördag hafa kjósendur völdin og framhaldið ræðst af því hvað kjósendur segja.

Að öðru leyti var deginum að mestu eytt á kosningaskrifstofunni á Langholtsveginum.  Við hringdum í okkar fólk. Greinilegt af viðtökum að það skilaði sér vel á kjörstað. Margir hafa miklar áhyggjur af því að vinstri stjórn verði það sem við vöknum við á morgun. Það skýrist í nótt. Fyrstu tölur benda til þess að sú gæti orðið raunin, að kaffibandalagið sem mjög lítill hluti kjósenda vill fá yfir sig sem ríkisstjórn, verði veruleikinn.

 


Síðasti dagur fyrir kosningar

Á föstudögum er ég vön að vera komin í Laugar svona rétt fyrir 6:30 til að reyna á undir hörðum aga einkaþjálfarans. Í morgun ákvað ég að sleppa einkaþjálfuninni en fór samt út í Laugar og gaf morgunhönunum sem þar þjálfa svona snemma blávatnið okkar sem við höfum verið að dreifa út um allt.

Eftir hefðbundinn morgunfund í Valhöll kl. 8 hófust vinnustaðafundir. Listasafn Íslands var heimsótt og margt gagnlegt þar sem við Sigurður Kári heyrðum. Í hádeginu var vinnustaðafundur á ferðaskrifstofu. Þar spunnust fjörlegar og gagnlegar umræður um ýmis mál. Næst liggur leiðin í Norræna húsið og svo munum við halda áfram að dreifa vatni í Kringlunni.


Júróvisjón-vonbrigði

Kosningabaráttan tók smá hlé í kvöld til að leyfa þjóðinni að njóta Júróvisjóns í friði.  Ég rétt náði að sjá Eirík taka sitt númer á sviðinu og svo tókst mér akkúrat að ná úrslitunum. Sá ekki meir af forkeppninni enda þurfti maður ekki að sjá meir. Úrslitin voru sannarlega vonbrigði því Eiríkur var ótrúlega flottur og lagið gott. Það er eitthvað skrítið með öll þessi fyrrum austantjaldsríki sem alltaf vinna forkeppnina.

Það eina jákvæða við þessi úrslit að úttvarpsstjóri þarf ekki lengur að þjást af valkvíða. Fyrstu tölur mega alveg koma á slaginu tíu á laugardagskvöld, hvað sem líður stöðunni í Evróvisjón. Sigurlagið verður ekki frá Íslandi að þessu sinni.


Viltu vakna við vinstri stjórn 13. maí?

Skoðanakönnun dagsins (http://mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1268788) sýnir að þriggja flokka vinstri stjórn Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknar gæti orðið sú stjórn sem landsmenn vakna upp við 13. maí. Sumir myndu kalla það martröð að vakna upp við slíka stjórn.

Þeir sem vilja ekki vinstri stjórn kjósa Sjálfstæðisflokkinn á kjördag. Flóknara er þetta ekki.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband