Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Eftirlitið

Hvernig skyldi eftirliti með meðferðarstofnunum háttað nú? Eða er sama eftirlitsleysið enn látið viðgangast?

Merkilegt hvað við erum endalaust að láta eftirlit með starfsemi bregðast. Er ekki ein orsök hrunsins sú að eftirlitskerfin þar brugðust? Í skjóli eftirlitsleysis gerðu bankarnir ýmislegt sem þeir auðvitað vissu að þeir máttu ekki.


mbl.is Árni Páll: Opinbert eftirlit brást
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmar fréttir

Eftir Breiðavíkurskýrsluna kemur ekki á óvart að frekari vinna við könnun á meðferð barna á öðrum heimilum leiði svipað í ljós. Það breytir því þó ekki að þetta eru slæmar fréttir og vekja upp spurningar um það hvers konar eftirlitsleysi með þessum heimilum var látið viðgangast. Það blasir við að í mörgum tilvikum hefði sennilega verið betra fyrir þessi blessuð börn að vera áfram við þær bágu uppeldisaðstæður sem foreldrarnir buðu upp á frekar en að fara á þessi vistheimili þar sem ólíðandi hlutir voru látnir viðgangast. Þessi saga er orðinn mikill smánarblettur.
mbl.is Jóhanna biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hugsa upp á nýtt

Um helgina var í fjölmiðlum talað við tvo ríkisforstjóra um þann niðurskurð sem framundan er í ríkiskerfinu og augljóst er að þarf að ráðast í. Við blasir fjárlagagat af nánast óþekktri stærðargráðu  hjá okkur. Nýkomin er skýrsla frá OECD sem fullyrðir að í bæði t.d. heilbrigðiskerfi og menntakerfi sé umtalsvert svigrúm til hagræðingar án þess að það bitni á þjónustu.

Við göngum í gegnum áður óþekkta tíma hér á landi. Það hefði verið mikil tilbreyting ef ríkisforstjórarnir hefðu svarað fjölmiðlum með þeim hætti að þeir væru að leita nýrra leiða, nýrra lausna. Verið væri að hugsa útfyrir hinn gamla hefðbundna ramma því núverandi aðstæður kölluðu á það. Allir starfsmenn kæmu að þessari vinnu. Markmiðið væri að finna þær lausnir sem fælu í sér hagræðingu án þjónustuskerðingar eða a.m.k. lágmarksþjónustuskerðingu. En nei, báðir svöruðu þeir með gamla laginu: Niðurskurður hjá þeirra stofnun yrði erfiður og óframkvæmanlegur nema með verulegri skerðingu á þjónustu.


mbl.is Mikill halli á opinberum rekstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ráðherraplan

Af hverju er verið að bíða eftir því hvað einhverjir embættismenn í þessum löndum segja? Væri ekki nær að forsætisráðherra og fjármálaráðherra færu hið fyrsta til Bretlands og Hollands, ræddu þar við kollega sína og tryggðu með fundum á ráðherraplani að þessar þjóðir sætti sig við fyrirvarana?


mbl.is Upplausn hér verði Icesavelögum hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn sem sefur

Auðvitað eru það ekki gott úrræði að hætta að borga af íbúðalánum. Það gerir enginn nema sá sem kominn er í mikla greiðsluerfiðleika, sá sem sér ekki framúr greiðslubyrðinni, sá sem sér ekkert ljós framundan í þeim fjárhagsvanda sem hann hefur ratað í af ástæðum sem hann hafði enga stjórn á, ástæður sem margir hafa jafnað við náttúruhamfarir. 

Aðgerðir sem Hagsmunasamtök heimilanna boða eru tilraun til að vekja ríkisstjórnina af þeim Þyrnirósarsvefni sem hún virðist slegin. Ríkisstjórnin virðist ekki skilja að sértækar ráðstafanir til aðstoðar vegna greiðsluvandans duga ekki. Vandinn er miklu víðtækari. Það þarf almennar aðgerðir líka.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við sífellt háværari kröfu um almennar aðgerðir eru þau sömu. Við höfum ekki efni á þessu klingir í eyru landsmanna frá ríkisstjórnin. En ríkisstjórnin, þó ekki væri það þessi sem tók þá ákvörðun, hafði efni á að bjarga öllum bankabókarinnistæðum landsmanna í hruninu. Þá fundust fjármunir. Það verður með sama hætti að finna fjármuni fyrir þeim almennu aðgerðum sem nauðsynlegar eru. Við höfum ekki efni á því sem gerist ef til engra almennra aðgerða verður gripið.

Það sem þá gerist er fyrirsjáanlegt. Mjög stór hópur fólks, sem hefur menntun og möguleika, mun einfaldlega standa upp, pakka sér og sínum saman og fara af landi brott. Útum allt þjóðfélag eru fjölskyldur þegar farnar að ræða þennan möguleika af meiri alvöru en nokkru sinni fyrr. Það sem einnig mun gerast er að þeir sem ekki geta, eða sem þrátt fyrir allt ekki vilja, fara af landi brott,  munu einfaldlega afhenda bankastofnunum og Íbúðalánasjóði lyklana af fasteignum sínum og lýsa sig gjaldþrota.

Í þeirri stöðu sem mjög stór hópur fjölskyldna er í dag þá leiðir ískalt stöðumat til þess að gjaldþrot er ekki versti kosturinn. Gjaldþrot gefur fólki möguleika á því að byrja upp á nýtt. Sú leið sem enn er verið að bjóða býður upp á að síðasta greiðslan af húsnæðisláninu verði kannski innt af hendi  kringum níræðisafmælið, sé skuldarinn kringum þrítugt.

Hvenær ætlar ríkisstjórn að skilja að þetta eru kostirnir sem almenningur í landinu, þ.e. sá almenningur sem skuldar verðbólgin og gengishrunin íbúðalán, telur sig standa frammi fyrir?


mbl.is Saka ráðherra um hótanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að viðurkenna vandann

Það virðist sem ríkisstjórninni sé fyrirmunað að viðurkenna þann almenna greiðsluvanda sem er hjá venjulegu fólki. Fólki sem tók húsnæðislán í samræmi við greiðslumat bankanna. Þar var ekki um neinar glæfralegar lántökur að ræða. Gengishrun og óðaverðbólga hafa gerbreytt forsendum. Viðskiptaráðherra virðist ekki jarðtengdur og hafa nákvæmlega engan skilning á vandanum. Fjármálaráðherra sýnir í fréttinni að það er smávon til að hann sé að vakna til meðvitundar um það hver staða mála sé. Á pressan.is eru í dag tvær fréttir sem eru að mínu mati dæmigerðar um það sem er í gangi og sem ríkisstjórnin vill ekki vita af. Annars vegar er umfjöllun vegna greinar sem Sólveig Sigríður Jónasdóttir skrifaði í Morgunblaðið í dag. Hins vegar er samtal við Bubba. Því fyrr sem ríkisstjórnin horfist í augu við að það þarf almennar aðgerðir því betra. Síðan þarf að taka á vanda þeirra sem verst eru staddir. Í almennum aðgerðum felst að leiðrétta höfuðstól vísitölubundinna lána sem og gengislána þannig að sú algerlega ófyrirséða þróun lendi ekki af þessum mikla þunga á lántakendum.
mbl.is Háskalegt að borga ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannarlega ekki sæmandi

Það er gott að erlendir fjölmiðlar virðast í vaxandi mæli farnir að átta sig á þeim þvingunum sem Bretar og Hollendingar hafa beitt okkur gegnum styrkleika þeirra í alþjóðasamfélaginu. Það gefur auga leið að báðar þjóðirnar hafa beitt fullum þunga AGS gegn okkur sem og EB. Þess vegna hafa íslensk stjórnvöld talað með þeim hætti að við ættum ekki annarra kosta völ en að axla ábyrgðina á Icesave.

Vonandi skipta skrif af þessu tagi máli. Best af öllu yrði auðvitað ef bæði Bretar og Hollendingar myndu fallast á að setjast að samningaborðinu að nýju. Það má þó aldrei hafa þær afleiðingar að AGS og Norðurlöndin og aðrir sem ætla að lána okkur fjármuni, haldi áfram að halda þeim lánum í gíslingu, eins og greinilega hefur verið gert fram að þessu.


mbl.is Hegðun Breta og Hollendinga ekki sæmandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þær stóðu sig frábærlega

Það er nákvæmlega málið. Íslensku stelpurnar hafa barist af krafti. Að tapa einungis með einu marki gegn heims- og Evrópumeisturunum þýsku er árangur í sjálfu sér.  Það var líka frábær árangur hjá þeim að komast í úrslitakeppni Evrópumótsins. Gleymum því ekki.  
mbl.is EM: Reynslunni ríkari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þýðir hjásetan?

Ég var ánægð með að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd tóku höndum saman við aðra fulltrúa í nefndinni sem vildu setja fyrirvara við ríkisábyrgðina á Icesave og unnu kappsamlega að ná þeim fyrirvörum brautargengi. Af fréttum má ráða að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, ásamt öðrum, hafi sett mikilvægt mark sitt á breytingartillögur fjárlaganefndar varðandi fyrirvaranna. Enda sé ég ekki betur en að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi samþykkt breytingartillögur fjárlaganefndar.

Hvað þýðir hjáseta þingmanna Sjálfstæðisflokksins? Ég skil ummæli formanns Sjálfstæðisflokksins við atkvæðagreiðsluna á Alþingi í gær svo að ábyrgðin á málinu í heild sé hjá ríkisstjórninni og þess vegna sitji þingmenn flokksins hjá. Við vinnu málsins hafi þingmenn flokksins hins vegar talið sér skylt að gera ómögulegt mál þannig að a.m.k. væri hægt að lifa við það. Þetta eru ekki frambærileg rök. Það er ankannalegt að vinna ötullega að því að breyta frumvarpi en sitja svo hjá við lokaafgreiðslu þess.


mbl.is Víki verði fyrirvörum hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverð hugmynd

Hugmynd Guðmundar Andra er áhugaverð. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvað útúr þessu kemur. Staðan er nákvæmlega sú sem hann lýsir í bloggi sínu. Ef greiðsluvilji skuldara þverr þá fer svo að kröfuhafarnir sitja uppi með stórt safn fasteigna sem fáir ef nokkrir vilja kaupa, nema þá á verulega lækkuðu verði. Þessi kjarni alls þessa máls virðist fara framhjá ráðamönnum. Viðtalið við félagsmálaráðherra í Kastljósi í gær var ekki til að auka fjölskyldum bjartsýni um að til raunhæfra aðgerða yrði gripið í þágu heimila.
mbl.is Vilja taka yfir Frjálsa fjárfestingabankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband