Leita í fréttum mbl.is

Að hugsa upp á nýtt

Um helgina var í fjölmiðlum talað við tvo ríkisforstjóra um þann niðurskurð sem framundan er í ríkiskerfinu og augljóst er að þarf að ráðast í. Við blasir fjárlagagat af nánast óþekktri stærðargráðu  hjá okkur. Nýkomin er skýrsla frá OECD sem fullyrðir að í bæði t.d. heilbrigðiskerfi og menntakerfi sé umtalsvert svigrúm til hagræðingar án þess að það bitni á þjónustu.

Við göngum í gegnum áður óþekkta tíma hér á landi. Það hefði verið mikil tilbreyting ef ríkisforstjórarnir hefðu svarað fjölmiðlum með þeim hætti að þeir væru að leita nýrra leiða, nýrra lausna. Verið væri að hugsa útfyrir hinn gamla hefðbundna ramma því núverandi aðstæður kölluðu á það. Allir starfsmenn kæmu að þessari vinnu. Markmiðið væri að finna þær lausnir sem fælu í sér hagræðingu án þjónustuskerðingar eða a.m.k. lágmarksþjónustuskerðingu. En nei, báðir svöruðu þeir með gamla laginu: Niðurskurður hjá þeirra stofnun yrði erfiður og óframkvæmanlegur nema með verulegri skerðingu á þjónustu.


mbl.is Mikill halli á opinberum rekstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ráðherraplan

Af hverju er verið að bíða eftir því hvað einhverjir embættismenn í þessum löndum segja? Væri ekki nær að forsætisráðherra og fjármálaráðherra færu hið fyrsta til Bretlands og Hollands, ræddu þar við kollega sína og tryggðu með fundum á ráðherraplani að þessar þjóðir sætti sig við fyrirvarana?


mbl.is Upplausn hér verði Icesavelögum hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn sem sefur

Auðvitað eru það ekki gott úrræði að hætta að borga af íbúðalánum. Það gerir enginn nema sá sem kominn er í mikla greiðsluerfiðleika, sá sem sér ekki framúr greiðslubyrðinni, sá sem sér ekkert ljós framundan í þeim fjárhagsvanda sem hann hefur ratað í af ástæðum sem hann hafði enga stjórn á, ástæður sem margir hafa jafnað við náttúruhamfarir. 

Aðgerðir sem Hagsmunasamtök heimilanna boða eru tilraun til að vekja ríkisstjórnina af þeim Þyrnirósarsvefni sem hún virðist slegin. Ríkisstjórnin virðist ekki skilja að sértækar ráðstafanir til aðstoðar vegna greiðsluvandans duga ekki. Vandinn er miklu víðtækari. Það þarf almennar aðgerðir líka.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við sífellt háværari kröfu um almennar aðgerðir eru þau sömu. Við höfum ekki efni á þessu klingir í eyru landsmanna frá ríkisstjórnin. En ríkisstjórnin, þó ekki væri það þessi sem tók þá ákvörðun, hafði efni á að bjarga öllum bankabókarinnistæðum landsmanna í hruninu. Þá fundust fjármunir. Það verður með sama hætti að finna fjármuni fyrir þeim almennu aðgerðum sem nauðsynlegar eru. Við höfum ekki efni á því sem gerist ef til engra almennra aðgerða verður gripið.

Það sem þá gerist er fyrirsjáanlegt. Mjög stór hópur fólks, sem hefur menntun og möguleika, mun einfaldlega standa upp, pakka sér og sínum saman og fara af landi brott. Útum allt þjóðfélag eru fjölskyldur þegar farnar að ræða þennan möguleika af meiri alvöru en nokkru sinni fyrr. Það sem einnig mun gerast er að þeir sem ekki geta, eða sem þrátt fyrir allt ekki vilja, fara af landi brott,  munu einfaldlega afhenda bankastofnunum og Íbúðalánasjóði lyklana af fasteignum sínum og lýsa sig gjaldþrota.

Í þeirri stöðu sem mjög stór hópur fjölskyldna er í dag þá leiðir ískalt stöðumat til þess að gjaldþrot er ekki versti kosturinn. Gjaldþrot gefur fólki möguleika á því að byrja upp á nýtt. Sú leið sem enn er verið að bjóða býður upp á að síðasta greiðslan af húsnæðisláninu verði kannski innt af hendi  kringum níræðisafmælið, sé skuldarinn kringum þrítugt.

Hvenær ætlar ríkisstjórn að skilja að þetta eru kostirnir sem almenningur í landinu, þ.e. sá almenningur sem skuldar verðbólgin og gengishrunin íbúðalán, telur sig standa frammi fyrir?


mbl.is Saka ráðherra um hótanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að viðurkenna vandann

Það virðist sem ríkisstjórninni sé fyrirmunað að viðurkenna þann almenna greiðsluvanda sem er hjá venjulegu fólki. Fólki sem tók húsnæðislán í samræmi við greiðslumat bankanna. Þar var ekki um neinar glæfralegar lántökur að ræða. Gengishrun og óðaverðbólga hafa gerbreytt forsendum. Viðskiptaráðherra virðist ekki jarðtengdur og hafa nákvæmlega engan skilning á vandanum. Fjármálaráðherra sýnir í fréttinni að það er smávon til að hann sé að vakna til meðvitundar um það hver staða mála sé. Á pressan.is eru í dag tvær fréttir sem eru að mínu mati dæmigerðar um það sem er í gangi og sem ríkisstjórnin vill ekki vita af. Annars vegar er umfjöllun vegna greinar sem Sólveig Sigríður Jónasdóttir skrifaði í Morgunblaðið í dag. Hins vegar er samtal við Bubba. Því fyrr sem ríkisstjórnin horfist í augu við að það þarf almennar aðgerðir því betra. Síðan þarf að taka á vanda þeirra sem verst eru staddir. Í almennum aðgerðum felst að leiðrétta höfuðstól vísitölubundinna lána sem og gengislána þannig að sú algerlega ófyrirséða þróun lendi ekki af þessum mikla þunga á lántakendum.
mbl.is Háskalegt að borga ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannarlega ekki sæmandi

Það er gott að erlendir fjölmiðlar virðast í vaxandi mæli farnir að átta sig á þeim þvingunum sem Bretar og Hollendingar hafa beitt okkur gegnum styrkleika þeirra í alþjóðasamfélaginu. Það gefur auga leið að báðar þjóðirnar hafa beitt fullum þunga AGS gegn okkur sem og EB. Þess vegna hafa íslensk stjórnvöld talað með þeim hætti að við ættum ekki annarra kosta völ en að axla ábyrgðina á Icesave.

Vonandi skipta skrif af þessu tagi máli. Best af öllu yrði auðvitað ef bæði Bretar og Hollendingar myndu fallast á að setjast að samningaborðinu að nýju. Það má þó aldrei hafa þær afleiðingar að AGS og Norðurlöndin og aðrir sem ætla að lána okkur fjármuni, haldi áfram að halda þeim lánum í gíslingu, eins og greinilega hefur verið gert fram að þessu.


mbl.is Hegðun Breta og Hollendinga ekki sæmandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þær stóðu sig frábærlega

Það er nákvæmlega málið. Íslensku stelpurnar hafa barist af krafti. Að tapa einungis með einu marki gegn heims- og Evrópumeisturunum þýsku er árangur í sjálfu sér.  Það var líka frábær árangur hjá þeim að komast í úrslitakeppni Evrópumótsins. Gleymum því ekki.  
mbl.is EM: Reynslunni ríkari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þýðir hjásetan?

Ég var ánægð með að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd tóku höndum saman við aðra fulltrúa í nefndinni sem vildu setja fyrirvara við ríkisábyrgðina á Icesave og unnu kappsamlega að ná þeim fyrirvörum brautargengi. Af fréttum má ráða að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, ásamt öðrum, hafi sett mikilvægt mark sitt á breytingartillögur fjárlaganefndar varðandi fyrirvaranna. Enda sé ég ekki betur en að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi samþykkt breytingartillögur fjárlaganefndar.

Hvað þýðir hjáseta þingmanna Sjálfstæðisflokksins? Ég skil ummæli formanns Sjálfstæðisflokksins við atkvæðagreiðsluna á Alþingi í gær svo að ábyrgðin á málinu í heild sé hjá ríkisstjórninni og þess vegna sitji þingmenn flokksins hjá. Við vinnu málsins hafi þingmenn flokksins hins vegar talið sér skylt að gera ómögulegt mál þannig að a.m.k. væri hægt að lifa við það. Þetta eru ekki frambærileg rök. Það er ankannalegt að vinna ötullega að því að breyta frumvarpi en sitja svo hjá við lokaafgreiðslu þess.


mbl.is Víki verði fyrirvörum hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverð hugmynd

Hugmynd Guðmundar Andra er áhugaverð. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvað útúr þessu kemur. Staðan er nákvæmlega sú sem hann lýsir í bloggi sínu. Ef greiðsluvilji skuldara þverr þá fer svo að kröfuhafarnir sitja uppi með stórt safn fasteigna sem fáir ef nokkrir vilja kaupa, nema þá á verulega lækkuðu verði. Þessi kjarni alls þessa máls virðist fara framhjá ráðamönnum. Viðtalið við félagsmálaráðherra í Kastljósi í gær var ekki til að auka fjölskyldum bjartsýni um að til raunhæfra aðgerða yrði gripið í þágu heimila.
mbl.is Vilja taka yfir Frjálsa fjárfestingabankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andsvör o.fl.

Ég horfði á þessi myndskeið sem mikið er rætt um. Þingmaðurinn sem um ræðir hefur beðið afsökunar á ákveðnu vanmati sínu. Það er virðingarvert. Ég velti fyrir mér framgöngu þingmannanna sem töldu sig knúna til að fara í andsvör við þennan þingmann. Gerðu þessir þingmenn sér ekki grein fyrir ástandinu eða voru þeir að velta þingmanninum upp úr því? Hafi þingmennirnir gert sér grein fyrir ástandi samstarfsmanns síns og í raun notfært sér það með því að draga hann í andsvör þá finnst mér sú framganga fjarri því að hafa verið drengileg. 
mbl.is Ræddu hegðun þingmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættuleg töf

Það er orðið mjög brýnt að stjórnvöld leggi línuna um það hvernig á að grípa á alvarlegum greiðsluvanda fjölskyldna vegna gengishruns og óðaverðbólgu og afleiðinga þessa tvenns á íbúðalán sem tekin voru. Því lengur sem það dregst af hálfu stjórnvalda að grípa til aðgerða sem duga því meiri líkur eru á því að greiðsluvilji þeirra, sem enn eru í skilum þverri.

Það er sama hvernig þessum málum er snúið. Vandinn verður ekki leystur nema með því að viðurkenna staðreyndir. Stór hluti þeirra fjölskyldna, sem nú eru í vanda, lagði beinharða peninga í fasteignakaup og fjármagnaði mismuninn með lántöku, stundum gengisláni, sem bankar voru iðnir við að halda að fjölskyldum. Staðan er sú að fjármunirnir sem fjölskyldur lögðu í íbúðakaupin eru oftar en ekki horfnir, brunnir upp. Eftir stendur lán með eftirstöðvum sem eru i sumum tilvikum langt umfram verðmæti eignarinnar. Allar þessar fjölskyldur stóðust öflugt greiðslumat lánastofnana áður en til lántöku kom. Greiðslumatið var gert á forsendum lánveitandans. Hann setti þar öll skilyrði. Forsendur greiðslumatsins hafa brostið. Þróun verðlags og gengis varð allt önnur en forsendur greiðslumatsins miðuðust við.

Bera lánastofnanir ekki alla ábyrgð á því að forsendur greiðslumats brustu? Voru forsendurnar sem lánastofnanir gáfu sér ekki að einhverju leyti mistök? Er þá sanngjarnt að lántakendur, sem treystu forsendum lánastofnananna, beri alla ábyrgð á forsendubrestinum? 

Það þarf að afskrifa þann hluta húsnæðisskulda sem er afleiðing forsendubrestsins. Það þarf að færa viðmiðun gengistryggðra íbúðalána sem og verðtryggðra til þess tíma áður en gengishrunið varð og áður en óðaverðbólgan fór af stað. Þá er búið að færa viðmið húsnæðislánanna við þær forsendur sem lánastofnanir sjálfar miðuðu við og lántakendurnir samþykktu.

Af hverju þarf að vera svona flókið fyrir stjórnvöld að horfast í augu við þetta? Sumir ráðamenn segja að þetta sé of dýrt. Hver er kostnaðurinn við það að þúsundir fjölskyldna missa heimili sín og lánastofnanir verða helstu eigendur húsnæðis? Það kostaði ríkissjóð mikla fjármuni að tryggja bankainnistæður þeirra sem spöruðu í því formi? Má það ekkert kosta að koma þúsundum fjölskyldna í landinu til bjargar? 


mbl.is Greiðsluviljinn að hverfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverður hæstaréttardómur

Dómur Hæstaréttar frá því í gær um aðgang að upplýsingum um viðskipti með stofnfjárbréf er athyglisverður. Hann er fordæmisgefandi fyrir alla sem keyptu stofnfjárbréf frá 18. júlí til 7. ágúst 2007 og gerir þeim kleift að komast að því hver var seljandi bréfanna. Í þessum dómi segir:

 Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 er mælt svo fyrir að stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir, sem taka að sér verk í þágu þess, séu bundnir þagnarskyldu um allt það, sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa sinna varðandi viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna fyrirtækisins, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Um þá þagnarskyldu, sem ákvæði þetta leggur á varnaraðila sem formann skilanefndar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, verður að líta til þess að sóknaraðili krefur hann ekki um upplýsingar, sem hann hefur aðgang að vegna starfsemi sparisjóðsins við miðlun verðbréfa í eigu annars manns, heldur um upplýsingar úr gögnum, sem lögð voru fyrir stjórnarfund í sparisjóðnum. Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laga nr. 161/2002 bar Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis á þeim tíma, sem sóknaraðili keypti stofnfjárbréf í honum, að færa skrá um stofnfjáreigendur og skyldu þeir allir eiga aðgang að henni. Augljóst er að samanburður á slíkri skrá frá einum tíma til annars getur í einstaka tilvikum sýnt hverjir hafi átt viðskipti sín á milli um stofnfjárbréf í sparisjóði. Með því að stofnfjáreigendum er að lögum tryggður aðgangur að skrá, sem leitt getur þetta í ljós, geta upplýsingar til kaupanda stofnfjárbréfa um það eitt, hver seljandi þeirra hafi verið, ekki varðað viðskipta- eða einkamálefni seljandans þannig að stjórnarmönnum eða starfsmönnum sparisjóðs sé óheimilt að veita þær vegna ákvæðis 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002. Þegar af þessum sökum verður varakrafa sóknaraðila tekin til greina á þann hátt, sem í dómsorði segir.

Hafa verður í huga að í þeim tilvikum þegar kaupendur keyptu af stjórnarmönnum verður að telja að ójafnræði hafi verið í viðskiptunum í ljósi þess að stjórnarmenn bjuggu yfir mikilvægum upplýsingum um verðmæti félagsins sem ekki höfðu verið gerðar opinberar á þessum tíma.

Af dómnum leiðir væntanlega að þeir sem keyptu stofnfjárbréf á þessu tímabili og sem vilja komast að því hver var seljandi bréfanna geta beint fyrirspurn um þetta til skilanefndar SPRON.


mbl.is Upplýsi um seljanda stofnfjárbréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grein sem segir allt sem segja þarf

Grein Ragnhildar Sverrisdóttur blaðamanns í opnu Morgunblaðsins segir allt sem segja þarf um þessa dómaraumræðu á EM. Ég er sammála hverju orði sem hún segir.
mbl.is EM: Ég vil dómara með typpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband