Leita í fréttum mbl.is

Ólík stemning í höfuðborgum

Í Washington DC ríkir gleði og bjartsýni. Mikill mannfjöldi hefur safnast saman miðborg Washington DC til að fagna embættistöku Obama. Miklar vonir eru bundnar við Obama. Í honum sjá Bandaríkjamenn nýja tíma, breytta tíma. Obama nýtur víðtæks stuðnings og margir áratugir eru síðan að nýr forseti Bandaríkjanna tekur við með slíkan stuðning. Í Washington DC eru allir glaðir í dag.

Í Reykjavík virðast mótmælin vera að taka nýja stefnu. Hálfgert umsátursástand er á Austurvelli og hefur verið frá hádegi. Síðustu fréttir herma að fólki í mótmælunum fjölgi eftir því sem líður á kvöldið. Óánægjan fer vaxandi að því er virðist. Mér sýnist að mótmælendurnir á Austurvelli séu hvorki glaðir né bjartsýnir.

Það er því gerólík stemning í þessum tveimur höfuðborgum nú í kvöld.


mbl.is Gleðin er við völd í Washington
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama hversu oft ...

Það er sama hversu oft fv. stjórnendur Kaupþings halda því fram að hvorki lög né reglur hafi verið brotin, því verður einhliða ekki trúað. Enda eru þeir ekki dómarar í eigin sök. Það er annarra að dæma um það hvort eitthvað ólöglegt hafi falist í því sem gert var. Því fyrr sem slík skoðun fer í gang þeim mun betra, fyrir alla. Legg til að fjölmiðlar fylgist vel með hvar rannsókn þessara mála er stödd hjá a) efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, b) FME.
mbl.is Sigurður segir engin lög hafa verið brotin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankaræningjar?

Svo kvarta þessir menn í sjónvarpsviðtölum yfir því að þeim sé úthúðað af almenningi sem fjárglæframönnum. Fyrr í vetur bloggaði ég um að í Bandaríkjunum væri sagt: The best way to rob a bank is to own one.Mér sýnist að það sé nákvæmlega þetta sem a.m.k. sumir eigendur Kaupþings hafi verið búnir að átta sig á og notfært sér til hins ýtrasta. Og öll háttsemin sýnir glögglega að þeir vissu hvert stefndi, sbr. síðbúinn fundur í lánanefnd til að staðfesta ótilgreindan fjölda lána, sem þegar var búið að veita. Og ekki er að heyra að efnahagsbrotadeildin sé að gera neitt og Fjármálaeftirlitið dundar sér við að rannsaka málin svo mánuðum skiptir.
mbl.is Milljarðalán án áhættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gestsaugað.

Ekki verður annað ráðið en skilaboð Willems H. Buiter prófessors séu skýr varðandi kosti okkar í gjaldmiðilsmálum:

  1. Einhliða upptaka evru eða annarra gjaldmiðla sé ekki fýsilegur kostur. Við bætist að íslenskt bankakerfi hafi þá engan lánveitanda til þrautavara. Af orðum prófessorsins má ráða að bankakerfið hafði svosem engan Seðlabanka haft sem þrautavaralánveitanda fyrir hrun.  Þannig að að því leyti er breytingin ekki mikil. Aðvörunarorðin að öðru leyti hlýtur að þurfa að hlusta á.

  2. Gera myntbandalag við annað ríki og bendir prófessorinn á Noreg og Danmörku. Sýnist vera kostur sem megi skoða nánar. Fróðlegt væri að heyra hvort stjórnvöld hafi kannað þennan möguleika.

  3. Halda íslensku krónunni. Þá þarf að viðhalda gildandi gjaldeyrishöftum í um það bil tíu ár hið minnsta. Íslenskt hagkerfi yrði án tengingar við opna erlenda markaði og myndi að miklu leyti fara að snúast um landbúnað og fiskveiðar á ný. Einhvern veginn finnst manni það ekki alveg framtíðarsýnin sem við viljum.

Af þessu sýnist mér að til skamms tíma sé eini kosturinn myntbandalag við annað ríki og síðan aðild að myntbandalagi Evrópusambandsins til lengri tíma, takist samningar um aðild að EB.


mbl.is Voru í raun án Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þolmörk almennings?

Nánast daglega greina fjölmiðlar frá sérkennilegum viðskiptum og peningamillifærslum hjá bönkunum í aðdraganda hrunsins. Viðtöl eru við erlenda sérfræðinga sem benda til að bankarnir sjálfir, og líklega stjórnvöld, hafi gert sér grein fyrir hvert stefndi. Lítið, ef nokkuð, virðist þó hafa verið gert, af hálfu stjórnvalda. Þau virðast hafa treyst því að þetta myndi reddast. En greinilega hafa ýmsir í bönkunum, sem vissu hvert stefndi, notað tímann vel til að bjarga sjálfum sér og völdum vinum sínum.

Hvernig er hægt að ætlast til þess að almenningur trúi því að þessar miklu peningamillifærslur séu tilviljun og fullkomlega eðlilegar? Við hverja frétt af þessu tagi eykst óþol almennings eftir að heyra að látið verði reyna á t.d. refsiábyrgð þeirra sem að baki þessu hafa staðið. Því er haldið fram að ef margt af því sem hér hefur gerst hefði gerst t.d. í Bandaríkjunum væri búið að leiða mjög marga einstaklinga út í handjárnum og jafnvel gefa út á þá ákærur. Við vitum varla hvort efnahagsbrotadeildin sé að rannsaka þessi mál. Og rannsóknir FME, ef einhverjar eru, eru á hraða snigilsins. Enda hvernig er hægt að ætlast til að stjórnvald sem brást svo herfilega, hafi burði til að rannsaka afleiðingar eigin afglapa?


mbl.is Hundruð milljarða millifærðir á reikninga erlendra félaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynslóðaskipti

Það eru afgerandi kynslóðaskipti í forystu Framsóknar eftir niðurstöðu í formanns- og varaformannskjöri flokksins. Nú er að sjá hvort það dugi til að tosa upp fylgið hjá flokknum, a.m.k. í skoðanakönnunum.
mbl.is Birkir Jón Jónsson nýr varaformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kom, sá og sigraði ...

Það er greinilegt að Framsóknarflokkurinn ætlar að skapa sér nýja ásýnd. Sigmundur Davíð gekk ekki í Framsóknarflokkinn fyrr en í lok síðasta árs. Engu að síður er hann með nokkuð afgerandi hætti kosinn til æðsta embættis í flokknum. Þetta segir talsvert um álit framsóknarmanna á Sigmundi Davíð. Sigmundur Davíð getur ekki annað en verið ánægður með það og stoltur af því. En kannski segir niðurstaðan ennþá meira um álit framsóknarmanna á öðrum sem í framboði voru til formanns?

Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fylgja góðar óskir í því vandasama starfi sem hann nú tekur að sér. Það verður áhugavert að fylgjast með hvernig honum gengur á þessum nýja vettvangi og hvort honum takist að endurvekja traust á þeim flokki.


mbl.is Sigmundur kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklar væntingar

Bandaríkjamenn hafa miklar væntingar til Obama og greinilega treysta því að honum auðnist að snúa mörgum málum á heimavelli til betri vegar. Það verður spennandi að fylgjast með fyrstu 100 dögunum í forsetatíð Obama. Þeir munu örugglega að einhverju leyti svara því hvort honum takist að standa undir væntingum. Og framhjá því verður ekki litið að alt umhverfið er Obama sérlega andsnúið og er þá vísað fyrst og fremst til efnahagsástandsins í heiminum. Hann er ekki öfundsverður af þeim verkefnum sem hann er nú að taka að sér.
mbl.is Obama í stjörnufans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fortíðarvandi?

Það sýnist óvænt að Páll Magnússon skuli ekki ná í aðra umferð. Hafa náin tengsl hans við eldri forystu og það sem ýmsum finnst að hún beri ábyrgð á, orðið honum fjötur um fót? Einhvern veginn sýnist það nærtækasta skýringin.


mbl.is Höskuldur og Sigmundur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var og ...

Kannski ekki alveg óvænt niðurstaða eftir það sem á undan var gengið hjá Kjararáði. Forseti Íslands hlýtur næst að skrifa fjármálaráðherra bréf og afsala sér hluta launa sinna, tímabundið eða varanlega. Það er eðlilegt næsta skref hjá honum.
mbl.is Kjararáð getur ekki lækkað laun forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glerþak?

Maður verður hálf þunglyndur að lesa þessar tölur. Þær breytast nánast ekkert. Og árin líða. ...

Ég hef nokkrum sinnum bloggað um þessi mál, sérstaklega hlutfall kvenna í nefndum hjá hinu opinbera. Ráðherrum, sem skipa nefndir, er í lófa lagið að gæta þess að hlutföll kynjanna í nefndunum sé jafnt. Vilji er allt sem þarf. Athafnir í stað orða. Ég held að margir séu farnir að bíða eftir því á þessu sviði. A.m.k. konur. Og ég leyfi mér að efast um að eitthvað jafnréttisþing skili nokkru.


mbl.is Mikill meirihluti forstöðumanna ríkisstofnana karlar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru lífeyrissjóðirnir ekki búnir að tapa nóg?

Eru þetta skynsamlegar hugmyndir? Flestir héldu að bankarnir væru örugg fjárfesting, enda áttu lífeyrissjóðirnir flestir mikið í þeim. Allt er það nú glatað og eigendur fjár í lífeyrissjóðum umtalsverðum fjárhæðum fátækari. Í fréttinni segir:

Ætlunin er að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru fjárhagslega illa sett en með álitlega rekstrarstöðu og skila þeim áfram þannig að þau geti orðið sterkur hlekkur í íslensku atvinnulífi. Fjárfestingar sjóðsins ráðast af væntanlegri arðsemi fjárfestinganna. Ekki verður gerður greinarmunur á fyrirtækjum eftir atvinnugreinum.

Hljómar vel. En hvað gerist ef mistök verða við mat á væntanlegri arðsemi? Þá eru það hvorki SA né ASÍ sem sitja uppi með það tap heldur lífeyriseigendur. Flestir eru þeir skattgreiðendur líka og á leiðinni til þeirra eru sennilega háir reikningar vegna óhugnanlegrar skuldastöðu ríkissjóðs, sem gerir ekkert nema að versna næstu misseri.

Eigum við ekki bara að leyfa lífeyrissjóðunum að vera í friði, setja þá fjármuni sem þar eru og safnast í þá næstu árin, í örugga ávöxtun og taka ekki frekari áhættu með þá?


mbl.is 75 milljarða fjárfestingargeta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband