Leita í fréttum mbl.is

Stjórnarsáttmálinn ...

"Ríkisstjórn fólksins í landinu" kallar nýskipaður forsætisráðherra þá ríkisstjórn sem tekin er við völdum. Það á eftir að koma í ljós.

Ýmislegt athyglisvert er í nýjum stjórnarsáttmála, sem stjórnarflokkarnir kalla verkefnaskrá (af hverju þarf alltaf að vera að smíða nýyrði í staðinn fyrir að nota gömul og góð hugtök?). Þar er líka ýmislegt sem þarfnast frekari skýringa. Þess er að vænta að þær muni koma:

  • Fylgja á til hins ítrasta samkomulaginu við AGS. Það er fagnaðarefni, en VG talaði talsvert gegn þessu samkomulagi í aðdraganda stjórnarmyndunarinnar.
  • Setja á siðareglur í stjórnarráðinu. Gott mál.
  • Afnema á eftirlaunalögin. Held að öllum þyki það ágætismál líka.
  • Setja á nýjar reglur um skipan dómara. Ekki geri ég athugasemdir við það. Hef lengi talið að breyta megi og bæta núverandi fyrirkomulag. 
  • Stjórnlagaþing finnst mér fásinna - kostnaðarsamt og ekki líklegt til árangurs. Í endurskoðun stjórnarskrárinnar á að setja röska einstaklinga og síðan er hægt að halda opna fundi um þau drög sem þannig verða til.
  • Vel líst mér á að breyta kosningalögum þannig að möguleikar á persónukjöri verði auknir.
  • Endurskipulagningin á stjórnsýslunni - ýmislegt athyglisvert þar. Spurning er hvað þýðir að gera eigi breytingar á yfirstjórn einstakra ráðuneyta? Á að gera starfslokasamninga við ráðuneytisstjóra?
  • Kyrrsetning eigna - það virðist vera búið að útvatna það nægilega til að óskiljanlegt er orðið.
  • Markvissar aðgerðir til að bregðast við fjárhagslegum vanda heimilanna í landinu í virku samráði við hagsmunaaðila. Nefnd er lagasetning sem grípa á til. En annars virðist lítið hönd á festandi varðandi hvað gera á í þágu heimilanna. Segist stjórnin þó ætla að slá skjaldborg um heimilin. Æskilegt hefði verið að hér hefðu menn verið nákvæmari í framsetningu.
  • Aðgerðir í þágu atvinnulífs - lítið hönd á festandi þar líka.

Það er hvergi minnst á heilbrigðismál. Það er athyglisvert út af fyrir sig. 

En af "verkefnaskránni" má ráða að mikið á að gera á þeim skamma tíma sem til stefnu er. Forsætisráðherra ætlar greinilega að halda ráðherrum sínum og starfsmönnum ráðuneytanna í vinnunni meira og minna allan sólarhringinn fram að kosningum.


mbl.is Slá skjaldborg um heimilin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurlegt ...

Það er dapurlegt að lesa um þá útreið sem Alþingishúsið fékk af hálfu mótmælenda. Kostnaðurinn er mikill við að bæta úr, sem ekki lendir á neinum öðrum en skattgreiðendum. Friðsamleg mótmæli eru sjálfsögð mannréttindi. Eignaspjöll er annað og óásættanleg. Auðvitað hefði átt að láta þá sæta ábyrgð sem harðast gengu fram í þessum skemmdarverkum á Alþingishúsinu.
mbl.is Alþingishúsið enn laskað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátt sem kemur á óvart ... og þó

Það óvænta í ráðherraliði nýrrar ríkisstjórnar er dómsmálaráðherrann. Það er nánast óskiljanlegt að skipaður skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneyti skuli gerður að dómsmálaráðherra. Í því felst enginn dómur um einstaklinginn sem um ræðir. Hann þekki ég af góðu einu og hann hefur verið hinn mætasti embættismaður.

Skipunin í embætti dómsmálaráðherra segir kannski mest um það hvílíkt vantraust bæði Samfylkingin og VG bera til þeirra lögfræðinga sem eru í þingmannaliði beggja flokkanna. Og svo auðvitað bætist við kenningin um að í stólinn þurfti utanþingsmann til að verma hann fyrir Framsóknarmanninn sem við honum á að taka eftir kosningar.

Það ánægjulega við ríkisstjórnina er auðvitað að í fyrsta sinn í sögunni er kynjahlutfall í ríkisstjórn jafnt. Því fagna allir jafnréttissinnar. Og svo er það auðvitað sérstaklega ánægjulegt að forsætisráðherraembættið skuli í fyrsta sinn í sögunni falla konu í skaut. Hvorutveggja eru tímamót í íslenskri jafnréttisbaráttu.


mbl.is Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta heilbrigðiskerfi í heimi?

Viðtalið við Atla í Morgunblaðinu í dag er í senn áhrifamikið og ógnvekjandi. Hann lýsir þrautagöngu milli lækna sem aldrei fundu skýringar á verkjum hans. Hann lýsir því að þegar betur var að gáð sást krabbameinsæxlið á mynd, en mönnum yfirsást það, á þeim tíma sem myndin var skoðuð. 

Á hátíðarstundum státum við okkur af því að vera með besa heilbrigðiskerfi í heimi. Við eigum gott heilbrigðiskerfi og vel menntaða heilbrigðisstarfsmenn. En kerfið er langt frá því að vera fullkomið, enda eru engin kerfi fullkomin. í kerfinu er ákveðin tilhneiging til að hlusta ekki nægilega vel á sjúklinga.

Sem lögmaður fæ ég oft til mín sjúklinga sem lent hafa í hremmingum í samskiptum sínum við heilbrigðiskerfið. Þeir velta fyrir sér hvort þeir eigi einhvern bótarétt. Það er ótrúlegur samhljómur í meginkvörtunum þeirra sjúklinga sem til mín leita: Þeir upplifðu samskipti sín og heilbrigðiskerfisins þannig að á þá væri ekki nægilega hlustað og það sem ennþá verra var. Þeir upplifðu það svo að við þá væri ekki talað, sérstaklega eftir að ljóst var að eitthvað hafði farið úrskeiðis í meðferðinni.

Oftar en ekki kemur í ljós að sjúklingunum var ekki einu sinni gerð grein fyrir því hvaða leiðir þeir ættu gagnvart bótum. Settum við þó lög árið 2000 um sjúklingatryggingu gagngert til að auðvelda sjúklingum að sækja bætur, ef meðferð fer úrskeiðis umfram það sem vænta mátti og umfram það sem sanngjarnt er að sjúklingur beri bótalaust. Það er gott að heyra að reynsla Atla hefur leitt af sér breytt samskipti meðal heilbrigðisstarfsmanna. Vonandi leiðir hún líka af sér breytt samskipti heilbrigðisstarfsmanna og sjúklinga.

Atli á miklar þakkir skildar fyrir að skýra opinberlega frá reynslu sinni með þeim hætti sem hann gerir í þessu viðtali. Hann er sönn hetja.
mbl.is Martröð varð að veruleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slegið á væntingar?

VG hafa talað með þeim hætti frá bankahruninu að auðvitað heldur þjóðin, eða a.m.k. sá hluti hennar sem vildi stjórnarskipti, að þeir komi öllu í lag á örskotstíma. Líkurnar á því eru nánast engar enda liðlega 80 dagar mjög stuttur tími og skiptir þá ekki máli hvaða stjórnmálaflokkar fara með stjórnartaumana. Ég skil því vel að formaður VG og verðandi fjármálaráðherra hafi áhyggjur af því að ómögulegt verði að standa undir öllum væntingunum og tali þess vegna með þeim hætti sem hann gerir í þessari frétt. 

Formaður VG lofar engum kraftaverkum en skammaði fráfarandi ríkisstjórn látlaust fyrir að gera ekki fleiri kraftaverk. Ég hygg að sagan muni dæma það svo að það hafi verið kraftaverk hjá fráfarandi ríkisstjórn að bankarnir skyldu ekki loka svo mikið sem einn dag í hruninu. En það er líka algerlega ljóst að margt, mjög margt, hefði fráfarandi stjórn getað gert betur og hefði átt að gera betur. Skortur á upplýsingum til almennings, um það sem þó var verið að gera, stendur þar uppúr. Vonandi tekst nýrri ríkisstjórn betur á því sviði. Upplýsingar slá á óöryggi fólks og eru grundvallaratriði við núverandi kringumstæður.

Þjóðarinnar vegna vona ég að nýrri ríkisstjórn vegni vel. Ég hef þó takmarkaða trú á að stjórnin reynist sú kraftaverkastjórn sem margir eru að vona. Allt kemur þetta í ljós.


mbl.is Lofum engum kraftaverkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vængstýfing ...

Af fréttinni verður ekki annað ráðið en að Framsóknarflokkurinn ætli að ráða algerlega hvað ný ríkisstjórn má gera og hvað hún má ekki gera. Einhvern veginn virkar það svo að með því sé Framsóknarflokkurinn að setja meiri hömlur á minnihlutastjórn VG og Samfylkingarinnar en unað verði við af þeirra hálfu. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig úr þessu spilast hjá þeim um helgina.
mbl.is Stjórn mynduð í dag eða á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta byrjar gæfulega ...

Ráðgjafar Framsóknarflokksins gefa efnahagsaðgerðum Samfylkingar og VG einkunnina: Óraunhæfar. Og kosningadag geta þeir ekki einu sinni ákveðið. Hvað verður það næst?


mbl.is Ósætti um aðgerðirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Augljóst hver ræður ...

Framsóknarflokkurinn, eins og svo oft áður er kominn í lykilaðstöðu. Nýr formaður flokksins gerir sér góða grein fyrir því. Aðgerðaráætlun sem Samfylkingin og VG eru búnir að sitja yfir í fjóra heila daga finnst Framsóknarflokknum ekki nægilega trúverðug fyrirfram. Getur þetta orðið vandræðalegra?
mbl.is Telur forsendur fyrir stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður punktur

Tek undir með stjórnmálafræðingnum að það vekur undrun að ríkisstjórn sem ætlar að sitja í örfáa mánuði skuli þurfa allan þennan tíma til að semja aðgerðaráætlun, sem virðist nýyrðið yfir stjórnarsáttmála. Þetta vekur grunsemdir um að í raun sé verið að semja til lengri tíma, þ.e. um framhaldslíf þessarar ríkisstjórnar eftir kosningar, ásamt þá Framsóknarflokknum með formlegum hætti. Það sem styður þá tilgátu er að utankomandi einstaklingar eru valdir í tvö ráðherraembætti. Þar virðist vera um að ræða ráðherraembætti sem Framsóknarflokkurinn eigi að fá eftir kosningar, ef allt gengur eftir. Það er nefnilega svo að það er miklu auðveldara ð láta utanaðkomandi einstaklinga víkja úr ráðherraembættum en þingmenn. Við sjáum til hvort þetta sé ekki í raun það sem hangir á spýtunni.
mbl.is Áhersla á velferðarmálin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forstjórum ...

sem standa sig afleitlega og slá Íslandsmet í taprekstri er greinilega líka borguð ágæt laun. En sjálfsagt er þetta ekki þeim að kenna heldur viðskiptaumhverfinu.


mbl.is Forstjóralaun Eimskips 191 milljón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðfesting á dómaframkvæmd

Ekki verður séð að nein tímamót felist í þessum dómi. Þvert á móti sýnist hann fyrst og fremst staðfesta þá dómaframkvæmd sem Hæstiréttur hefur mótað í fyrri dómum varðandi skiptingu lífeyrisréttinda. Meginreglan er sú að lífeyrissjóðsréttindi skiptast ekki. Hjúskaparlög geyma þó ákvæði sem leyfa eingreiðslu til þess maka sem minni eða engan lífeyrissjóðsrétt á ef það telst bersýnilega ósanngjarnt að makinn með lífeyrissjóðsréttinn haldi honum óbættum. Að vísu virðist í þessum dómi tekið tillit til söfnunar maka í séreignalífeyrissjóði en það er skýrt með því að maðurinn hafi ekki mótmælt þeim útreikningum sem til grundvallar lágu og að þar var séreignin tekin með. Þannig að varasamt sýnist að draga of víðtækar ályktanir af því.

Æskilegast væri auðvitað að á skiptingu lífeyrissjóðsmálum milli maka yrði tekið í löggjöf. Það hefur oft verið reynt en aldrei tekist þó búið sé að gera það mögulegt að skipta lífeyrissjóðsréttindum með samkomulagi. 


mbl.is Lífeyrisréttindi ekki utan skipta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta gengur hægt ...

Það er eiginlega með ólíkindum hvað það tekur langan tíma að ganga frá samkomulagi sem standa á í örfáa mánuði hjá ríkisstjórn sem einungis er bráðabirgðaríkisstjórn. Svo hefur heyrst að Alþingi "fái frí" í eina eða tvær vikur eftir að stjórnin verður mynduð svo tóm gefist til að semja nauðsynleg lagafrumvörp. Misskildi ég - var ekki verið að tala um að efla Alþingi og minnka ráðherraræðið?

Svo er athyglisvert að sjá, eins og annar bloggari hefur bent á, að ríkisstjórnin virðist komin með sérstakan blaðafulltrúa. Það vekur sérstaka athygli að þarna segir "blaðafulltrúinn" að kosningarnar verði í apríl, maí eða júní. Ekki hef ég heyrt júní nefndan hjá forsvarsmönnum Samfylkingar eða VG. En "blaðafulltrúinn" veit greinilega eitthvað meira en aðrir.


mbl.is Næstu skref í stjórnarmyndun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband