Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Framsóknargen?

Þetta þykja mér tíðindi. En það er stundum sagt að það að vera framsóknarmaður sé í genunum. Vistaskipti varaþingsmannsins sýnast staðfesta það. Og vistaskiptin hljóta að vera Samfylkingunni allnokkuð áfall því varaþingmaðurinn er með öflugri ungum mönnum innan hennar. Að sama skapi hlýtur Framsóknarflokkurinn að fagna liðsaukanum.


mbl.is Guðmundur í Framsóknarflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósmekklegt af ungum VG

Auðvitað þarf að skera niður víða vegna stöðunnar í efnahagsmálum. Þjóðkirkjan er þar ekki undan skilin, enda þarf hún að hagræða um 400 m.kr. eins og fram hefur komið. En það er ósmekklegt af ungum VG að fagna þessum niðurskurði sérstaklega og að telja hann vísbendingu um að aðskilnaður ríkis og kirkju sé í aðsigi. Aðskilnaður ríkis og kirkju er sérstakt mál - og hlýtur að ræðast og þurfa að ræðast án tillits til stöðu í efnahagsmálum. 
mbl.is Ung vinstri græn fagna niðurskurði við þjóðkirkjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það kannski eftir allt saman ekki skynsamlegt núna?

Útlendingur, sem ég þekki vel og tek mikið mark á, sagði við mig nýlega að Íslendingar ættu ekki að láta sér detta í hug að sækja við núverandi kringumstæður um aðild að EB. Við værum í alltof veikri stöðu til að eiga í raun nokkra samningsstöðu gagnvart EB. Við myndum engu ná fram. Við yrðum að bíða færis, t.d. eftir því að i ljós kæmi olía væri á Drekasvæðinu. Þá myndi staða okkar gerbreytast og úr slíkri stöðu ættum við að íhuga umsókn um aðild, ef það þá hentaði okkur.

Á laugardag birtist athyglisverð grein í Morgunblaðinu eftir evrópuþingmanninn Daniel Hannan. Hann varar okkur einnig eindregið við og segir það glapræði að sækja um aðild nú. Út úr því geti ekkert gott komið fyrir Ísland. 

Ég hef ekki leynt þeirri skoðun minni að ég tel að í EB eigum við að stefna. En þegar svo eindregnar viðvaranir berast frá einstaklingum sem vel þekkja til, þá renna á mig tvær grímur. Er það alger fásinna að sækja um aðild að EB nú? Er hið ískalda hagsmunamat kannski það að við eigum ekki einu sinni að sjá hvað okkur býðst af því að fyrirfram getum við gefið okkur að ekkert muni bjóðast?


mbl.is ESB aðeins átylla fyrir stjórnarslitum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öðrum vinnubrögðum

en við þekkjum hér er greinilega beitt í Bandaríkjunum. Kannski væri ráð að sækja einhverja þekkingu í smiðju þeirra vestra þegar kemur að þessum hlutum og taka upp breytt og bætt vinnubrögð hér?
mbl.is Afþakkar embætti viðskiptaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúi því ekki

að við missum af þessu tækifæri. Það hlýtur að skýrast á morgun eða hinn að menn hafi unnið heimavinnuna sína og allt sé á fullum dampi. Trúi því a.m.k. þangað til annað kemur í ljós.
mbl.is Fresturinn að renna út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langar í ráðherrastól?

Formaður VG þreytist ekki á því að tala um nauðsyn kosninga, kosninganna vegna að því er virðist. Enda sér hann í hyllingum dúnmjúka ráðherrastólanna og treystir því að uppúr kjörkössunum komi fylgið sem VG er að fá í skoðanakönnunum. Enda á hann Íslandsmet í samfelldri stjórnarandstöðu skv. fróðlegri samantekt á heimasíðu flokksins sem hann vill fara í ríkisstjórn með (hér). Hann treystir því líka að allir séu búnir að gleyma viðskilnaði hans og þeirrar ríkisstjórnar sem hann sat í 1988-1991, þá fyrir Alþýðubandalagið. Fjárlagahallinn var a.m.k. talsverður og hafði sú stjórn ekki efnahagshamfarir og heimskreppu honum til skýringar og afsökunar, heldur eingöngu óstjórn og óráðsíu að ógleymdu sjóðasukki. Stjórnin sem formaður VG var í á þessum tíma, þá sem Alþýðubandalagsmaður, var margra flokka stjórn og það þurfti ýmislegt að gera til að halda völdum. Og þjóðin borgaði, eins og alltaf.

Það getur verið að mörgum þyki ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ekki góð. Ríkisstjórn Samfylkingar og VG er fyrirkvíðanleg. Þarf kannski að láta það eftir þjóðinni að fá slíka stjórn yfir sig? Unga fólkið, sem virðist vera kjarninn í stuðningsliði VG, man auðvitað ekki eftir neinum vinstri stjórnum og hversu hræðilegar þær voru. Kannski þess vegna sér m.a. þetta unga fólk ríkisstjórn með VG innanborðs í hyllingum, líkt og formaður VG sér dúnmjúkan ráðherrastólinn.


mbl.is Kosningar óumflýjanlegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þolmörk könnuð?

Það er ólíðandi að þátttakandi í mótmælum verði fyrir skemmdarverkum og eignaspjöllum. Það er óþolandi og ólíðandi að fáeinir óróaseggir blandi sér í hóp friðsamra mótmælenda og breyti mótmælum þeirra í ólæti og eignaspjöll. Það er greinilegt að í hóp friðsamra mótmælenda eru að blanda sér einstaklingar sem vilja læti, vilja skemma, eru að kanna hversu langt þeir komast. Eftir þessu hefur lögreglan tekið, sbr. þessa  frétt á visir.is. Þessi fámenni hópur er greinilega að kanna þolmörk lögreglunnar. Spurningin er: Hversu lengi ætlar lögreglan að líða eignaspjöll og skemmdarverk af hálfu þessa fámenna hóps án þess að grípa til aðgerða. Og af hverju sjá forsvarsmenn hinna friðsömu mótmæla ekki að verið er að misnota þá? Af hverju láta þeir líðast að þeirra mótmæli séu yfirtekin af þessum fámenna hópi? Hver eru þolmörk friðsömu mótmælendanna gagnvart óróaseggjunum? Það eru mannréttindi að mótmæla. En það hefur ekkert með mannréttindi að gera að skemma og eyðileggja eigur annarra. Og það skiptir engu máli hvort eignirnar sem skemmdar eru eru í einkaeigu eða opinberri eigu.

Skemmdarverk og eignaspjöll á ekki að líða - sá eða þá sem stóð(u) að eignaspjöllunum sem um er talað er um í þessari frétt á að draga til ábyrgðar. Með sama hætti á að draga til ábyrgðar þann eða þá sem stóðu að skemmdunum á búnaði stöðvar 2 á gamlársdag og öðru skemmdarverkum upp á síðkastið.


mbl.is Ráðist gegn Nornabúðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kom ekki á óvart

Það var eiginlega algerlega fyrirsjáanlegt að fyrirliði silfurliðsins yrði íþróttamaður ársins 2008. Hver annar gat það orðið? Skemmtilegt að íþróttafréttamennirnir skuli vera svona sammála að þessu sinni og að Ólafur hlyti titilinn með fullt hús stiga. Það var kannski ekki alveg jafn fyrirsjáanlegt. Og það er ekki alveg gæfulaus þjóð, sem á svo glæsilegan hóp íþróttamanna til að vera fyrirmyndir þeim sem yngri eru.
mbl.is Ólafur Stefánsson íþróttamaður ársins 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreinlegra

Ef formaður Samfylkingarinnar er nú kominn á þá skoðun að flýta eigi Alþingiskosningum þá finnst mér hreinlegra að segja það beint út í staðinn fyrir að tengja þá vangaveltu alls óskyldri umræðu um það hvort efna eigi til kosninga um hvort fara eigi í aðildarviðræður við EB. Ef efnt verður til Alþingiskosninga fljótlega liggur í augum uppi að þær munu snúast um afstöðu flokkanna til aðildarviðræðna við EB og aðildar að EB. Flokkarnir munu þurfa í slíkum kosningum að hafa skýra og skorinorða stefnu í EB málum. Flokkur sem er á móti aðild að EB sér tæpast tilgang í því að fara í aðildarviðræður við EB, eða hvað? Kjósendur sem vilja aðildarviðræður  við EB kjósa tæpast þann eða þá stjórnmálaflokk(a) sem hafa það á stefnuskrá sinni að vera á móti EB aðild, eða hvað?

Úr því sem komið er tel ég eðlilegast að Alþingi ákveði sem fyrst á þessu ári hvort gengið verið til aðildarviðræðna við EB. Styðji meirihluti þingmanna slíka tillögu þá verði gengið til viðræðna við EB eftir að samningsmarkmið hafa verið sett. Viðræðum verði síðan hraðað svo sem kostur er og í kjölfarið efnt til Alþingiskosninga sem jafnframt verða kosningar um samningsdrögin sem þá myndu liggja fyrir. Miðað við það sem sagt hefur verið um hraða samningsviðræðna ættu slíkar Alþingiskosningar að verða haustið 2009 eða í síðasta lagi vorið 2010.


mbl.is Alþingiskosningar samhliða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað boðar nýárs blessuð sól?

Það var drungalegt veðrið í morgun þegar ég fór í nýársmessuna í Dómkirkjunni. Biskupi mæltist vel að venju. Predikun hans var innihaldsrík, eins og fréttin ber með sér. Það var komin hellirigning þegar messunni lauk. Hvergi sást til nýárs blessaðrar sólar. Veðrið var í takt við þá tíma sem við höfum gengið í gegnum frá 29. september 2008 - en ég leyfi mér að miða upphaf efnahagshamfaranna við þann dag, daginn þegar tilkynnt var um þjóðnýtingu Glitnis. Ég man hvað mér brá við tíðindin. Þau fylltu mig einhverjum óhug. Ég var á leið til Kanada og íhugaði að hætta við ferðina. En endaði með að fara - þóttist vita að það myndi engu breyta um gang mála hvort ég væri eða færi.

Eftirleikinn þekkjum við. Helgina á eftir, 4. og 5. október, horfðum við með aðstoð sjónvarpsstöðvanna á einstaklinga hlaupa inn og út af fundum í Ráðherrabústaðnum. Sagt var að aðgerðapakki væri í undirbúningi. Rétt fyrir miðnætti sunnudaginn 5. október tilkynnti forsætisráðherra að fundarhöld helgarinnar hefðu leitt í ljós að aðgerðarpakki væri óþarfur (hér). Hálfum sólarhring síðar voru sett neyðarlög (hér). Þjóðinni var sagt  að staðan hefði gerbreyst á örfáum klukkutímum. Næstu þrjá sólarhringa féllu íslensku viðskiptabankarnir hver af öðrum, Landsbankinn, Glitnir, Kaupþing. FME, eftirlitsstofnunin sem margir telja að hafi brugðist og beri drjúga ábyrgð á því hvernig fór, fékk víðtæk völd. Í efnahagslegu tilliti höfum við færst mörg ár aftur. Allir hafa tapað og væntingar brustu.

Það er því ekki að furða þó áramótaræður þjóðarleiðtoganna hafi virst fylltar meiri auðmýkt en við eigum að venjast. Og í þeim var sjálfskoðun sem ég minnist ekki að hafa heyrt fyrr. Forseti Íslands sagðist hafa gengið of langt í málflutningi og liðsinni við starfsemi íslenskra banka og fjármálafyrirtækja. Hann nefndi ekki framgöngu sína í þágu annarra útrásarvíkinga en telur hana sjálfsagt falla undir liðsinni við banka og fjármálafyrirtæki. Forsætisráðherra sagði m.a.: ,,Á miklum uppgangstímum geta örar framfarir og breytingar byrgt mönnum sýn.  Hafi mér orðið á hvað þetta varðar þá þykir mér það leitt."

Forseti Íslands sagði einnig í ávarpi sínu í dag: ,,Þjóðin biður um upplýsingar og uppgjör, opnar og hispurslausar umræður. Ef sá vilji er ekki virtur mun reynast torsótt að skapa nýjum tímum traustan grundvöll."

Áramót eru tími uppgjörs. Þó margt hafi skýrst varðandi orsakir og tildrög efnahagshamfaranna sl. haust þá vantar enn mörg púsl í atburðarásina til að myndin sé greinileg. Innlendi annállinn á stöð 1 í gær vakti margar spurningar. Eigum við að trúa því að menn hafi ekki gert sér grein fyrir hvert stefndi? Eða voru allir að treysta því, með hinum dæmigerða íslenska hugarfari, að þetta hlyti að reddast og gerðu þess vegna ekkert? Og svo bara reddaðist það ekki og þjóðin situr í súpunni? 

Þjóðin mun ekki hafa þolinmæði til að bíða afraksturs vinnu rannsóknarnefndar Alþingis varðandi margar spurningar sem brenna á vörum og enn hefur ekki verið svarað. Þessu þurfa stjórnvöld að gera sér grein fyrir og breyta samkvæmt því. Nýju ári verða því að fylgja breytt vinnubrögð að þessu leyti af hálfu stjórnvalda.


mbl.is Þurfum þjóðarsátt um endurreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 392215

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband