Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Samfylkingin stikkfrí?

Það er fróðlegt að lesa að þingmenn Samfylkingar telja að Sjálfstæðisflokknum einum verði kennt um stöðu mála nú. Ég veit ekki betur en að frá því í maí 2007 hafi Sjálfstæðisflokkur og Samfylking staðið stjórnarvaktina saman. Hvor flokkur er með jafnmarga ráðherra. Bankamálaráðherrann er úr Samfylkingunni. Í stjórnum ýmissa stjórnvalda eiga Samfylkingarmenn sína fulltrúa, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn og jafnvel aðrir stjórnmálaflokkar líka. Frá því að ríkisstjórnin 2007 var mynduð héldu bankarnir áfram að vaxa. Icesave reikningarnir uxu líka, byrjað var á Icesave í Hollandi árið 2008. Allt gerðist þetta undir glöggu auga bankamálaráðherrans úr Samfylkingunni og FME.

Ef Samfylkingin hafði áhyggjur af fjármálalífinu þegar hún fór í ríkisstjórn í maí 2007, af hverju gerði bankamálaráðherrann og FME ekki neitt? Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar segir m.a. (stjórnarsáttmálann í heild má lesa hér):

Í umbreytingu íslensks atvinnulífs á undanförnum árum felst meðal annars aukið vægi ýmiss konar alþjóðlegrar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Áhersla verður lögð á að efla Fjármálaeftirlitið til þess að íslenski fjármálamarkaðurinn njóti fyllsta trausts.

Ekki er að greina í þessum hluta stjórnarsáttmálans miklar áhyggjur af stærð bankakerfisins. Þvert á móti sýnist að stefnt hafi verið að frekari vexti þess kerfis hér á landi. Efla átti Fjármálaeftirlitið til að íslenski fjármálamarkaðurinn nyti fyllsta trausts. Hver átti að sjá um það? Bankamálaráðherrann væntanlega. Við þekkjum árangurinn af þeirri vinnu. Bankakerfið hrundi og fjármálamarkaðurinn íslenski nýtur einskis trausts, hvorki innanlands né erlendis.

Fram hafa komið fréttir um að frá því síðla árs 2007 / snemma árs 2008 hafi stjórnvöldum og einstökum ráðherrum, jafnvel ríkisstjórninni allri verið gerð grein fyrir því af fjölmörgum aðilum, innlendum sem erlendum, að hér stefndi bankakerfið í þrot og gæti hrunið. Litið ef nokkuð var gert til að bregðast við af hálfu stjórnvalda. Engar skýringar hafa fengist á því. Er Samfylkingin, bankamálaráðherrann, FME, stikkfrí af því aðgerðarleysi? Er það aðgerðarleysi Sjálfstæðisflokknum einum að kenna?

Sem sjálfstæðismaður gerði ég mér glögga grein fyrir ábyrgð míns flokks á því sem gerst hefur. Ég hef ekki heyrt annað en að aðrir flokksmenn geri það líka, sem og forysta flokksins. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst eftir viku. Þar verður ugglaust fjallað um ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á núverandi ástandi og hvernig sú ábyrgð verður best öxluð.

En Samfylkingin verður að sjálfsögðu líka að axla sína ábyrgð. Ef þingmenn Samfylkingarinnar halda að þeir séu stikkfrí eftir tæplega tveggja ára stjórnarsetu þá eru þeir á miklum villigötum.


mbl.is Mikilla tíðinda að vænta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En þjóðin virðist vilja ...

Þetta er örugglega rétt hjá forsætisráðherra. Það er ábyrgðarleysi að kjósa við núverandi aðstæður. En þjóðin virðist vilja kosningar samt. Og verður þjóðin ekki bara að fá það sem hún vill? Þjóðin er að undirgangast þungar byrðar vegna þess sem gerst hefur. Ótímabærar kosningar munu hugsanlega auka það sem axla þarf ábyrgð á af hálfu þjóðarinnar. Ég held að þjóðin sé nægilega skynsöm að átta sig á þessu. Kannski finnst þjóðinni einfaldlega að það sé lítil viðbót að bera?

Það eru takmörk fyrir því hvað stjórnmálamenn geta gengið langt í því að hafa vit fyrir þjóðinni. Að þeim mörkum er nú komið að minni hyggju. Nú verða stjórnmálamenn að svara kallinu og leyfa þjóðinni að kjósa. Jafnvel þótt sumum okkar finnist í því engin skynsemi. Hefur þjóðin ekki leyfi til að taka óskynsamlegar ákvarðanir? Nóg af þeim hafa aðrir tekið á síðustu mánuðum og misserum.


mbl.is Ábyrgðarleysi að leysa upp stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég skil mótmælendur en ...

af hverju láta mótmælendur skiljanlega og jafnvel réttláta reiði sína gagnvart stjórnvöldum bitna á lögreglumönnum? Ég hef skilið mótmælendur svo að þeirra mótmæli beinist gegn því að engin hafi axlað ábyrgð á hruninu. Bankastjórn Seðlabankans sitji enn, stjórnendur FME sitji enn, ríkisstjórnin sitji enn. Af hverju láta mótmælendur reiði sína útaf þessu bitna á lögreglumönnum?  

Lögreglumenn eru almennir borgarar eins og mótmælendurnir sjálfir. Þeir eru að sinna störfum sínum og eru ekki öfundsverðir af sínu hlutskipti. Þeir teljast ekki til hálaunastéttar hvað þá stéttar sem þegið hefur ofurlaun. Lögreglan hefur í öllum sínum störfum í mótmælunum fetað af mikilli skynsemi þetta einstigi sem þarf að feta. Sjálfsagt eru til einhver dæmi um annað, en meginregluna tel ég skýrt vera þá að lögreglan hefur veitt mótmælendum mikið svigrúm til að mótmæla, þó lína hafi verið dregin við eignaspjöll. Ég leyfi mér að lýsa því sem minni skoðun að lögreglan er búin að standa sig frábærlega vel.

Ég hvet mótmælendur til að hætta að láta reiði sína bitna á lögreglunni. Hún er bara að sinna vinnunni sinni. Hún ber ekki ábyrgð á því sem mótmælendur telja sig vera að mótmæla.

Viðbót:

Vegna frétta um harðræði lögreglu gegn mótmælendum þá hvet ég þá sem telja sig hafa orðið fyrir slíku harðræði að kæra atvikin til lögreglu. Það er óþolandi ef þessar fréttir eru réttar og það er jafn óþolandi fyrir lögregluna að sitja undir þessum ásökunum.


mbl.is Mótmælt við þinghúsið á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Held

að þetta sé hárrétt mat hjá varaformanni Samfylkingarinnar. Hvort sem það er skynsamlegt eða ekki þá vill þjóðin kosningar. Ég held að undan þeirri kröfu verði ekki lengur vikist. 
mbl.is Óhjákvæmilegt að kjósa í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólík stemning í höfuðborgum

Í Washington DC ríkir gleði og bjartsýni. Mikill mannfjöldi hefur safnast saman miðborg Washington DC til að fagna embættistöku Obama. Miklar vonir eru bundnar við Obama. Í honum sjá Bandaríkjamenn nýja tíma, breytta tíma. Obama nýtur víðtæks stuðnings og margir áratugir eru síðan að nýr forseti Bandaríkjanna tekur við með slíkan stuðning. Í Washington DC eru allir glaðir í dag.

Í Reykjavík virðast mótmælin vera að taka nýja stefnu. Hálfgert umsátursástand er á Austurvelli og hefur verið frá hádegi. Síðustu fréttir herma að fólki í mótmælunum fjölgi eftir því sem líður á kvöldið. Óánægjan fer vaxandi að því er virðist. Mér sýnist að mótmælendurnir á Austurvelli séu hvorki glaðir né bjartsýnir.

Það er því gerólík stemning í þessum tveimur höfuðborgum nú í kvöld.


mbl.is Gleðin er við völd í Washington
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama hversu oft ...

Það er sama hversu oft fv. stjórnendur Kaupþings halda því fram að hvorki lög né reglur hafi verið brotin, því verður einhliða ekki trúað. Enda eru þeir ekki dómarar í eigin sök. Það er annarra að dæma um það hvort eitthvað ólöglegt hafi falist í því sem gert var. Því fyrr sem slík skoðun fer í gang þeim mun betra, fyrir alla. Legg til að fjölmiðlar fylgist vel með hvar rannsókn þessara mála er stödd hjá a) efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, b) FME.
mbl.is Sigurður segir engin lög hafa verið brotin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankaræningjar?

Svo kvarta þessir menn í sjónvarpsviðtölum yfir því að þeim sé úthúðað af almenningi sem fjárglæframönnum. Fyrr í vetur bloggaði ég um að í Bandaríkjunum væri sagt: The best way to rob a bank is to own one.Mér sýnist að það sé nákvæmlega þetta sem a.m.k. sumir eigendur Kaupþings hafi verið búnir að átta sig á og notfært sér til hins ýtrasta. Og öll háttsemin sýnir glögglega að þeir vissu hvert stefndi, sbr. síðbúinn fundur í lánanefnd til að staðfesta ótilgreindan fjölda lána, sem þegar var búið að veita. Og ekki er að heyra að efnahagsbrotadeildin sé að gera neitt og Fjármálaeftirlitið dundar sér við að rannsaka málin svo mánuðum skiptir.
mbl.is Milljarðalán án áhættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gestsaugað.

Ekki verður annað ráðið en skilaboð Willems H. Buiter prófessors séu skýr varðandi kosti okkar í gjaldmiðilsmálum:

  1. Einhliða upptaka evru eða annarra gjaldmiðla sé ekki fýsilegur kostur. Við bætist að íslenskt bankakerfi hafi þá engan lánveitanda til þrautavara. Af orðum prófessorsins má ráða að bankakerfið hafði svosem engan Seðlabanka haft sem þrautavaralánveitanda fyrir hrun.  Þannig að að því leyti er breytingin ekki mikil. Aðvörunarorðin að öðru leyti hlýtur að þurfa að hlusta á.

  2. Gera myntbandalag við annað ríki og bendir prófessorinn á Noreg og Danmörku. Sýnist vera kostur sem megi skoða nánar. Fróðlegt væri að heyra hvort stjórnvöld hafi kannað þennan möguleika.

  3. Halda íslensku krónunni. Þá þarf að viðhalda gildandi gjaldeyrishöftum í um það bil tíu ár hið minnsta. Íslenskt hagkerfi yrði án tengingar við opna erlenda markaði og myndi að miklu leyti fara að snúast um landbúnað og fiskveiðar á ný. Einhvern veginn finnst manni það ekki alveg framtíðarsýnin sem við viljum.

Af þessu sýnist mér að til skamms tíma sé eini kosturinn myntbandalag við annað ríki og síðan aðild að myntbandalagi Evrópusambandsins til lengri tíma, takist samningar um aðild að EB.


mbl.is Voru í raun án Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þolmörk almennings?

Nánast daglega greina fjölmiðlar frá sérkennilegum viðskiptum og peningamillifærslum hjá bönkunum í aðdraganda hrunsins. Viðtöl eru við erlenda sérfræðinga sem benda til að bankarnir sjálfir, og líklega stjórnvöld, hafi gert sér grein fyrir hvert stefndi. Lítið, ef nokkuð, virðist þó hafa verið gert, af hálfu stjórnvalda. Þau virðast hafa treyst því að þetta myndi reddast. En greinilega hafa ýmsir í bönkunum, sem vissu hvert stefndi, notað tímann vel til að bjarga sjálfum sér og völdum vinum sínum.

Hvernig er hægt að ætlast til þess að almenningur trúi því að þessar miklu peningamillifærslur séu tilviljun og fullkomlega eðlilegar? Við hverja frétt af þessu tagi eykst óþol almennings eftir að heyra að látið verði reyna á t.d. refsiábyrgð þeirra sem að baki þessu hafa staðið. Því er haldið fram að ef margt af því sem hér hefur gerst hefði gerst t.d. í Bandaríkjunum væri búið að leiða mjög marga einstaklinga út í handjárnum og jafnvel gefa út á þá ákærur. Við vitum varla hvort efnahagsbrotadeildin sé að rannsaka þessi mál. Og rannsóknir FME, ef einhverjar eru, eru á hraða snigilsins. Enda hvernig er hægt að ætlast til að stjórnvald sem brást svo herfilega, hafi burði til að rannsaka afleiðingar eigin afglapa?


mbl.is Hundruð milljarða millifærðir á reikninga erlendra félaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynslóðaskipti

Það eru afgerandi kynslóðaskipti í forystu Framsóknar eftir niðurstöðu í formanns- og varaformannskjöri flokksins. Nú er að sjá hvort það dugi til að tosa upp fylgið hjá flokknum, a.m.k. í skoðanakönnunum.
mbl.is Birkir Jón Jónsson nýr varaformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband