Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
Þriðjudagur, 29. apríl 2008
Gott mál
Sannarlega tímabært að endurskoða íslenska meðlagskerfið. Og ekki kemur á óvart að úttekt dómsmálaráðuneytisins hafi leitt í ljós að íslenska kerfið hafi undanfarna áratugi þróast og breyst mun hægar en í öðrum löndum.
Sama má segja um margvísleg önnur lagaákvæði á sviði barnaréttar, s.s. varðandi heimildir dómstóla til að viðhalda sameiginlegri forsjá. Við höfum stigið ofurvarlega til jarðar og ekki treyst okkur til að fylgja nágrannalöndum okkar í þessum efnum. Þær breytingar sem ég hef lagt til á barnalögum eiga sér flestar hliðstæðu í nágrannalöndum okkar. Og þær eru hvað harðast gagnrýndar af andstæðingum frumvarpsins.
Á tyllidögum hrósum við okkur af því að vera framsýn og vera í fararbroddi. Þegar kemur að málefnum barna erum við hins vegar sorglega langt á eftir. Tillaga dómsmálaráðherra vekur vonir um að nú fari hlutirnir að ganga hraðar fyrir sig.
Meðlagskerfið endurskoðað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Þriðjudagur, 29. apríl 2008
Gerast góðir hlutir hægt?
Ég var að blaða í Mogganum í dag. Á bls. 20 er umfjöllun um daglegt líf undir fyrirsögninni góðir hlutir gerast hægt. Þar er verið að leiðbeina okkur með hvernig við eigum að skipuleggja okkur betur, láta ekki allt vaðast út í drasli hjá okkur, bæði heima og á skrifborðinu í vinnunni. Ýmsar gagnlegar ábendingar eru í greininni. Eitt af því sem ráðlagt er í greininni er að geyma ekki tímarit í meira en tvo mánuði. Hrædd er ég um að slíkum ráðum eigi ég erfitt með að fylgja.
Fyrr í vikunni var ég einmitt með í höndunum tvö tölublöð af tímaritinu Allt frá árinu 1997. Þau komu upp úr einhverjum kassanum sem ég var að henda úr. Auðvitað var ég löngu búin að gleyma því að ég ætti þessi blöð og því síður hafði ég saknað þeirra (sem auðvitað staðfestir að það er sennilega í lagi að geyma tímarit ekki lengur en í 2 mánuði).
Ekki man ég hvað þetta tímarit varð langlíft en ég er með 1. og 4. tölublaðið þannig að alla vega urðu þau fjögur. Það sem ég hins vegar hnaut um var umfjöllun í 4. tölublaði þessa tímarits undir fyrirsögninni Brotið á íslenskum börnum í forræðisdeilum. Í inngangi greinarinnar segir: Úttektin sýnir, svo ekki verður um villst, að víða er pottur brotinn í því kerfi sem börn hér á landi búa við. Óöryggi, mannréttinda- og lögbrot verða því stundum hlutskipti barna á Íslandi þegar til skilnaðar/sambúðarslita kemur. Þau réttindi sem börnum á að vera tryggður með barnalögum frá 1992, Mannréttindasáttmála Evrópu og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eru aðeins virt í orði en ekki á borði. Upphafsorð greinarinnar eru: Allir viðmælendur Alls gagnrýna félagsmálayfirvöld í Reykjavík, barnaverndarnefnd og sifjadeild Sýslumannsins í Rvk. fyrir mikinn seinagang og biðtíma, sem er ekki í nokkru samræmi við mikilvægi þess sem um er fjallað; börnin og líðan þeirra.
Umfjöllunin er ellefu ára gömul en hefði því miður getað verið skrifuð í gær. Ástandið sem hún lýsir er ástandið nú. Það er viðtal við karlmann sem átti í stuttu ástarsambandi við konu, sem nýbúin var að slíta sambúð við fyrri sambýlismann. Hún varð barnshafandi, fór aftur til fyrri sambýlismannsins og þegar barnið fæddist var barnið skv. pater-est reglunni skráð barn þess manns þótt allir vissu að hann er ekki faðir barnsins. Rétti faðirinn átti hvorki þá né nú nokkur úrræði. Hann er faðir en á engin lagaleg úrræði til að fá þá staðreynd skráða. Í frumvarpinu sem ég lagði fram á Alþingi sl. haust legg ég m.a. til að karlmanni í þessari stöðu verði gert kleift að feðra barn sitt. Viðtöl eru við geðlækni, sjúkrahúsprest, félagsráðgjafa og jógakennara. Öllum ber saman um að bæta þurfi stöðu forsjárlausra foreldra og foreldra sem börn búa ekki hjá.
Það getur vel verið að góðir hlutir gerist hægt - en ég tel að aukið jafnræði foreldra gagnvart börnum sínum sé að gerast of hægt. Þessi ellefu ára gamla umfjöllun sýndi mér að á þessum ellefu árum hefur sáralítið breyst í þessum málaflokki. Við stöndum nánast í sömu sporum nú og árið 1997, a.m.k. í lagalegu tilliti.
Þeir sem gagnrýna mest frumvarp mitt til breytinga á barnalögum segja það vopn í baráttu feðra sem beita mæður barnanna sinna ofbeldi. Ég hef margsinnis bent á að þetta er alvarlegur útúrsnúningur á þeim tillögum sem frumvarpið hefur að geyma. En hvernig stendur á því að þessi hópur telur við hæfi að dæma alla feður eftir þeim litla hópi sem beitir mæður barnanna sinna ofbeldi? Það eru vissulega til feður sem beita mæður barnanna sinna ofbeldi. Sá hópur er lítill, þótt hann sé auðvitað samt alltaf of stór. Eigum við að dæma alla feður eftir þessum litla hópi ofbeldisfeðra? Eigum við að dæma allar mæður eftir þeim litla hópi mæðra sem ekkert sinnir börnunum sínum?
Ég vil að góðir hlutir gerist hraðar og allir hlutir sem stuðla að auknu jafnrétti kynjanna, á hvaða sviði sem það er, þurfa að gerast miklu hraðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 26. apríl 2008
Meira um börn og foreldra
Það er langt síðan að mér lærðist að heimurinn er hvorki hvítur né svartur. Hann er mismunandi afbrigði af gráum lit. Alhæfingar eru því hættulegar. Samt ælta ég að hætta mér í þá færslu sem hér fer á eftir til að freista þess að fjalla almennt um börn og foreldra og af hverju foreldrar deila um börn.
Eftir að ég byrjaði í lögmennsku og fór m.a. að sinna málefnum foreldra og barna lærðist mér að það eru a.m.k. þrjár hliðar á hverju máli: hlið móðurinnar, hlið föðurins og sannleikurinn. Og það er allur gangur á því hvort sannleikurinn er nær hlið föðurins eða móðurinnar. Oftast er hann þó einhvers staðar mitt á milli.
Tilvikin og kringumstæðurnar eru nánast eins mörg og foreldrarnir eru margir. Það eru til feður sem aldrei hafa viljað vita af börnum sínum. Oftast eiga þessi börn mæður sem þá sinna þeim með prýði, þótt föðurinn vanti. Það eru til mæður sem aldrei hafa viljað vita af börnunum sínum. Oftast eiga þessi börn feður sem þá sinna þeim með prýði, þótt móðurina vanti.
Það eru til feður sem eiga enga ósk heitari en að sinna börnum sínum meira. En einhverra hluta vegna vilja mæðurnar sem börnin búa hjá ekki leyfa þeim það. Þessi tilvik eru hræðileg og börnin verða alltaf fórnarlömbin. Það eru til mæður sem eiga enga ósk heitari en að sinna börnum sínum meira. En einhverra hluta vegna vilja feðurnir sem börnin búa hjá ekki leyfa þeim það. Þessi tilvik eru hræðileg og börnin verða alltaf fórnarlömbin.
Mín reynsla er sú að bæði karlar og konur beita börnunum, beittasta vopininu, ef til deilu kemur milli foreldranna. Tilvikin þar sem mæðurnar beita börnunum eru þó fleiri, einfaldlega af því að það er algengara, enn sem komið er, að börn búi hjá mæðrum, ef foreldrar búa ekki saman.
Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju það koma upp deilur milli foreldra um börn. Ekki síst þegar um er að ræða tvo nokkurn veginn jafnhæfa einstaklinga, sem báðir bera fyrir sig að þeir hafi velferð barnanna sinna að leiðarljósi.
Ég hef í raun engin svör fundið en mér sýnist þó að oft þegar foreldrar deila um börn sín þá er það af því að foreldrarnir sjálfir hafa ekki náð að vinna úr þeim ágreiningi sem varð til þess að þau hættu að vera saman. Í staðinn fyrir að leysa þann ágreining er hann færður yfir á annað svið, ágreining um börnin.
En oftast sýnist mér að ágreiningurinn verði af því að foreldrarnir hafa einfaldlega mismunandi skoðanir á því hvað barninu er fyrir bestu.
- Móðir vill flytja með barnið sem býr hjá henni frá Reykjavík til Akureyrar vegna nýs sambands, nýrrar vinnu, skólagöngu. Faðirinn sem býr í Reykjavík vill að barnið haldi áfram í skóla í Reykjavík, telur það minnsta röskun fyrir barnið og er tilbúið til að barnið búi framvegis hjá sér. Það getur móðirin ekki hugsað sér og finnst það hræðilega ósanngjarnt af föðurnum að ætla að ná sínu fram með því að fara í forsjármál til að slíta sameiginlegu forsjánni og fá einn forsjána.
- Faðir sem er með barnið sitt aðra hvora viku, á móti móðurinni, er nýbúinn að kynnast nýrri konu og eftir örstutt kynni stendur til að nýja konan flytji inn til hans, með börnin sín þrjú. Móðir barnsins hans vill að barnið fái lengri tíma til að kynnast nýju konunni og börnunum hennar þremur og leggur til að samvistir færist niður í aðra hvora helgi frá föstudegi til sunnudags. Þetta getur faðirinn ekki hugsað sér og finnst það hræðilega ósanngjarnt af móðurinni að ætla að ná sínu fram með því að fara í forsjármál, slíta sameiginlegu forsjánni og fá ein forsjána.
Það er ekkert sjálfgefið að foreldri sem vill flytja til Akureyrar rífi barnið sitt með sér þangað. Kannski er skynsamlegra að foreldrið fari eitt til að byrja með, t.d. til að sjá hvort því sjálfu líki fyrir norðan. Það er heldur ekki sjálfgefið að foreldri sem er með barnið sitt aðra hvora viku kynni það skyndilega fyrir nýjum félaga og áður en við er snúið er sá nýi félagi fluttur inn með sín börn. Kannski er skynsamlegra að minnka umgengnina meðan sambandið er að þróast - eða jafnvel að leyfa sambandinu að þróast áður en farið er að rjúka í að búa saman.
Það er fullkomlega eðlilegt að foreldri hafi aðra skoðun á áformum hins foreldrisins og telji að barnið hafi gleymst í ákvarðanatökunni. Og þetta eru dæmi um tilvik sem gera það að verkum að venjulegir foreldrar byrja að deila um börnin sín.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Miðvikudagur, 23. apríl 2008
Heitar umræður
Mér var sagt á mánudag að Hildur Helga Sigurðardóttir (HHS) hafi gert mér þann heiður að taka til umræðu frumvarp sem ég flutti á Alþingi sl. haust í viðtalsþætti Evu Maríu á sunnudagskvöld. Því miður gafst mér ekki færi á að horfa á þáttinn á netinu fyrr en í kvöld.
Í millitíðinni var ég búin að fá ábendingu um að ummæli HHS hefðu kallað fram heitar umræður á blogginu (sjá hér).
Eftir að hafa horft á viðtalið við HHS sé ég að hún virðist kjósa að misskilja frumvarp mitt í grundvallaratriðum og vil því segja þetta:
- HHS segist hafa "lúslesið" frumvarpið mitt. Öll hennar ummæli um frumvarpið og efni þess benda til að hafi hún lesið frumvarpið þá hefur hún misskilið það alvarlega.
- HHS segir að frumvarpið eigi að neyða foreldra í sameiginlega forsjá. Þetta er rangt. Sameiginleg forsjá er nú þegar meginregla í barnalögum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að dómstólar geti hafnað því að slíta sameiginlegri forsjá ef engin skynsamleg rök önnur en "af því bara" eru fyrir kröfu foreldrisins fyrir slitum á sameiginlegri forsjá.
- HHS segir að frumvarpið geri ráð fyrir að börn eigi lögheimili á tveimur stöðum. Þetta er rangt. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að foreldrar geti samið um það að börnin eigi lögheimili hjá þeim báðum til að tryggja að báðir foreldrar njóti réttarstöðu einstæðra foreldra og þar með þess opinbera stuðnings sem einstæðir foreldrar njóta. Hér er ekki gert ráð fyrir að neinn geti neytt neinn til neins. Frjálsir samningar foreldra er það sem er meginmálið.
- HHS segir að það frumvarpið geri ráð fyrir að vegna lögheimilis á tveimur stöðum eigi börn að vera í tveimur skólum. Þetta er rangt. Frumvarpið gerir þvert á móti ráð fyrir að ef barn eigi lögheimili á tveimur stöðum þá eigi foreldrarnir heima nálægt hvoru öðru. Í greinargerð með frumvarpinu er sérstaklega vikið að þessu.
- HHS segir að í frumvarpinu felist að hneppa eigi konur í vistarbönd. Þetta er rangt. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir að foreldri með lögheimilið geti ekki einhliða flutt lögheimili barns innanlands án samþykkis hins foreldrisins sem einnig fer með forsjána. Sambærileg regla gildir nú þegar varðandi flutning barns til útlanda sem lýtur sameiginlegri forsjá . Lögheimilisforeldrið getur ekki flutt barn sitt til útlanda án samþykkis hins forsjárforeldrisins. Ekki hef ég heyrt annað en að öllum þyki það sjálfsögð regla. Mín tillaga gerir ráð fyrir að hið sama gildi um flutning barns innanlands. Af hverju legg ég þetta til? Jú af því að það getur verið meiri röskun fyrir foreldri og barn þess að lögheimilisforeldrið flytji með barnið innanlands en til útlanda. Hið síðarnefnda þarf forsjárforeldrið að samþykkja, ekki hið fyrrnefnda.
HHS segir að frumvarpið sé skelfilegt. Hún segist ekki skilja hver hugsunin er á bakvið það og hún segir að í því felist hættulegar tilhneigingar. HHS er að sjálfsögðu heimilt að hafa allar þessar skoðanir.
Til frekari útskýringa á frumvarpi mínu og þeim sjónarmiðum sem þar búa að baki læt ég fylgja hér með valda kafla úr framsöguræðu minni með frumvarpinu. Greinilegt er að HHS hefur ekki kynnt sér hana því hefði hún gert það þá hefði hún t.d. séð að frumvarpinu er alls ekki hugsað til að gefa ofbeldisfullum foreldrum, körlum sem konum, nýtt vopn til að berja hitt foreldrið með. Ég sagði í upphafi ræðu minnar, einmitt vegna fáránlegra fullyrðinga eins og þeirra sem HHS setur fram:
Áður en lengra er haldið í þessari framsögu vil ég undirstrika það að allt það sem ég segi hér um sem jafnasta foreldraábyrgð, sem jafnasta umgengni, tvöfalt lögheimili og sameiginlega forsjá samkvæmt dómi, á við um þau tilvik þar sem foreldrar eru bæði góðir og hæfir uppalendur og eiga ekki við nein sérstök vandamál að stríða. Sem betur fer eru það yfir 90% foreldra sem falla í þann hóp. Undantekningar eru vissulega til en við bregðumst við þeim með öðrum hætti en þeim sem hér er lagt til. (Leturbreyting DP.)
Sem sé, ég tók það sérstaklega fram að frumvarpið og ákvæði þess ætti eingöngu við þegar foreldrar eru í lagi. Það er hins vegar einkennandi fyrir alla sem eru á móti jafnari foreldraábyrgð að þeir fara alltaf að drepa slíkri umræðu á dreif með því að tala um þau tilvik þegar ofbeldi er í sambúð eða milli foreldra. Ekki ætla ég að draga úr alvarleika slíkra tilvika, en sem betur fer eru þau undantekningin og enn og aftur, öll úrræði sem lögð eru til í frumvarpinu mínu eiga aldrei við þegar ofbeldi er annars vegar.
Síðar í ræðunni sagði ég þetta:
Víkjum þá aftur að barnalögunum sem hér eru til umfjöllunar. Þau hafa sætt breytingum frá þeim tíma sem þau voru fyrst lögfest á Alþingi í byrjun 9. áratugar. Það er merkilegt til þess að hugsa að það var fyrst með þeim lögum sem umgengnisréttur föður við óskilgetið barn sitt var lögfestur, það eru ekki nema 25 ár síðan.
Það má með sanni segja að við höfum verið mjög varkár með allar nýjungar varðandi þann lagaramma sem við sníðum börnum og foreldrum. Það var t.d. ekki fyrr en 1992 sem við treystum okkur til að leyfa foreldrum að semja um sameiginlega forsjá. Þá hafði sú skipan viðgengist alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum um margra ára skeið, síðast verið tekin upp í Danmörku 1985. Í frumvarpi því sem varð að barnalögum 1992 er vikið að þessu atriði og nefnt að síðast hafi sem sé sameiginlega forsjáin verið lögfest í Danmörku sjö árum áður. Það er líka vikið að því að í sumum löndum sé meira að segja dómstólum heimilt að dæma sameiginlega forsjá. En það var ekki talin ástæða til að stíga svo stórstíg skref þannig að strax árið 1992, þegar við lögfestum sameiginlega forsjá sem heimildarákvæði, voru öll okkar nágrannalönd komin miklu lengra á þessu sviði. Það var ekki fyrr en á síðasta ári sem við treystum okkur til að gera sameiginlega forsjá að meginreglu. Enn höfum við ekki treyst okkur til þess að lögfesta heimild til dómstóla til að dæma megi sameiginlega forsjá. Danir hafa verið síðastir í þessari þróun og það er svo sem ekki langt síðan þeir lögfestu breytingar, það var gert núna frá og með 1. október sl. Svíar hafa hins vegar lengi haft í sinni löggjöf slíkar reglur.
Það má því með sanni segja að við höfum hér á landi stigið afar varlega til jarðar og ekki rasað um ráð fram þótt fyrir liggi að þessi atriði séu mikilvæg tæki í allri jafnréttisbaráttu. Það er nefnilega að mínu mati ekki fyrr en jöfn foreldraábyrgð næst fram sem fullt jafnrétti næst.
Það eru liðin fimm ár frá því að síðasta endurskoðun á barnalögunum var gerð. En þá var ekki stigið skref sambærilegt við það sem gert hafði verið á Norðurlöndum og eins og ég vék að áðan var það ekki fyrr en í fyrra sem sameiginlega forsjáin var lögfest. Þær breytingar á barnalögunum sem hér eru lagðar til með því frumvarpi sem ég mæli fyrir hníga flestar í þá átt að gera foreldrum betur kleift en nú er að axla sem jafnasta foreldraábyrgð við skilnað eða sambúðarslit.
Flestar þær breytingar sem ég legg til í frumvarpi mínu að verði gerðar á barnalögum eru til að tryggja foreldrum, konum og körlum sem jafnastan rétt til barna sinna, eins og Eva María reyndi að spyrja HHS að í sjónvarpsviðtalinu sem vikið var að hér í upphafi.
Ekki ætlast ég til að allir séu sammála mér varðandi frumvarp það sem ég lagði fram á Alþingi sl. haust. En ég frábið mér jafn miklar rangfærslur um efni frumvarpsins og HHS gerði sig bera að í sjónvarpsviðtalinu sl. sunnudag.
Ég fagna því hins vegar að rangfærslur HHS hafa vakið heitar og góðar umræður um málið - sem sýna mér að mjög margir telja að í frumvarpinu felist réttarbót fyrir alla foreldra. Orð eru til alls fyrst og opinská umræða um bætta stöðu foreldra og sem jafnasta foreldraábyrgð er af hinu góða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Miðvikudagur, 23. apríl 2008
Flott
Clinton sigraði í Pennsylvaníu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 20. apríl 2008
Athyglisvert
Niðurstaða könnunar Fréttablaðsins er athyglisverð. Hún sýnir að enginn munur er á afstöðu svarenda könnunarinnar eftir kyni og munur eftir búsetu er svo lítill að hann er ekki marktækur.
Greinilegt er að ískalt mat kjósenda allra flokka, annarra en Frjálslynda flokksins, er það að undirbúningur að aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu sé orðinn tímabær. Sjálfsagt eiga sviptingar í efnahagslífinu síðustu vikurnar þátt í breytingu á afstöðu kjósenda, í þá veru að fleiri styðja nú aðildarumsókn en í febrúar sl. Ég sé ekki annað en að taka verði þessar niðurstöður alvarlega.
67,8 vilja hefja undirbúning aðildarumsóknar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 18. apríl 2008
Vorið er komið
Ég er í Skálholti þessa dagana. Í gærmorgun fór ég í langan göngutúr í yndislegu veðri. Sólin skein og himininn var heiður og blár. Héðan er víðsýnt - og vorboðarnir létu heyra í sér, mér til ómældrar ánægju. Lóan söng dirrindí og hrossagaukurinn hneggjaði. Tugir gæsa hópuðu sig á túnunum og gargið í þeim var hávært. Þótt snjór sé í fjöllum og raunar enn víða á láglendi líka, er vetrarhamur landsins greinilega á undanhaldi. Það er svo sannarlega vor í lofti.
Ástæðan fyrir dvölinni í Skálholti er sú að ég skráði mig fyrr á árinu á námskeið í sáttamiðlun. Þessa dagana stendur yfir önnur lota námskeiðsins. Sáttamiðlun er sérstök aðferð sem gengur út á það að hlutlaus sáttamaður hjálpar deiluaðilum til að ná sjálfir samkomulagi í hverri þeirru deilu sem þeir standa í.
Þar sem við lögfræðingar eru þjálfaðir í að vera lausnamiðaðir er nokkuð erfitt að setja sig í þá stellingu að láta aðilana sjálfa um að finna lausnina. Maður er svo vanur því að koma með tillögur að lausnum sjálfur og síðan sannfæra málsaðila um það að hugmyndin / hugmyndirnar séu góðar. Það má hins vegar alls ekki í sáttamiðlun. Tillögurnar þurfa að koma frá aðilum sjálfum og þeir eiga sjálfir að komast að niðurstöðu, allt undir öruggri handleiðslu sáttamannsins.
Sáttamiðlun er mjög skynsamleg aðferð til að leysa deilur og sátt sem þannig hefur náðst hefur sýnt sig að vera líklegri til að halda en sátt sem aðrir eiga hugmyndina að. Á endanum eru það deiluaðilarnir sem þurfa að lifa með niðurstöðu málsins. Það gefur því auga leið að það er vænlegast að þeir hafi sjálfir komist að niðurstöðu. Til viðbótar kemur að báðir aðilar hafa þannig væntanlega náð einhverju af sínu fram, þótt þeir hafi ekki náð öllu sem þeir hefðu kosið. Báðir geta gengið frá borði með höfuðið hátt, þeir hvorki unnu né töpuðu, heldur sömdu. Betri er mögur sátt en feitur dómur segir einhvers staðar.
Þessari aðferð hefur verið beitt um langt skeið í Bandaríkjunum og Englandi og er í vaxandi mæli að ryðja sér til rúms á Norðurlöndunum, þ.á m. hér á landi. Ég er sannfærð um ágæti aðferðarinnar og sé fyrir mér að henni megi beita í ríkum mæli t.d. í deilum í fjölskyldumálum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 17. apríl 2008
Þingstörf
Í gær lauk tveggja vikna setu minni á Alþingi, en ég kom inn sem varamaður Geirs H. Haarde 2. apríl sl. Þetta er í annað skiptið í vetur sem ég kem inn sem varamaður. Í bæði skiptin sat ég inni í tvær vikur, en í haust voru þingfundardagar eingöngu þrír vegna kjördæmaviku. Nú voru þingfundardagarnir talsvert fleiri þannig að betri tilfinning fékkst fyrir því að sitja á Alþingi. Ég get ekki annað sagt en að þetta var ánægjulegt, skemmtilegt og fróðlegt - og alveg sérstakt hvað allir taka vel okkur varaþingmönnum sem dettum svona inn í nokkra daga.
Ég tók þátt í utandagskrárumræðu um stöðuna í málefnum barna og ungmenna, sem eiga við geðræn vandamál að stríða. Það var góð og málefnaleg umræða. Þótt greinilega hafi ýmislegt gott gerst á BUGL á síðustu mánuðum þá sýnist mér að þar sé ákveðinn grunnvandi á ferð sem þurfi að taka á. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri tekst að reka barna- og unglingageðdeild með engum biðlista - og sinnir sú deild þó svæðinu frá Hrútafirði austur á Djúpavog. Yfir 30% aukning nýrra tilfella var á árinu 2007 - og menn bara leystu það, einnig án þess að biðlistar mynduðust. Biðlistavandinn á BUGL er löngu þekktur og er tilefni fjölmiðlaumræðu með reglulegu millibili.
Í umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða benti ég á að mikilvægar heimildir laganna um að hjón, sambýlisfólk og einstaklingar í staðfestri samvist geti gert samkomulag um skiptingu áunninna ellilífeyrisréttinda séu alls ekki nægilega vel kynntar. Því tel ég að þurfi að breyta.
Raunar sýnist mér að endurskoða þurfi frá grunni með hvaða hætti lífeyrissjóðsréttindi eru meðhöndluð þegar kemur að hjónaskilnaði eða slitum á staðfestri samvist - nú er þeim haldið utan skipta nema í sérstökum tilvikum. Ég tel að skoða eigi alvarlega að draga þessi réttindi undir skiptin. Meira um þetta seinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Eldri færslur
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 27
- Frá upphafi: 392370
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 25
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Útvarp
Bloggvinir
- addabogga
- alla
- malacai
- almaogfreyja
- andriheidar
- gumson
- audbergur
- abg
- axelaxelsson
- armannkr
- arniarna
- asabjorg
- arh
- aslaugfridriks
- astamoller
- astar
- kaffi
- birgir
- launafolk
- bjarnimax
- borgar
- braskarinn
- gattin
- bryndisharalds
- brandarar
- carlgranz
- rustikus
- deiglan
- draumur
- einarbb
- ekg
- jaxlinn
- elinora
- ellasprella
- ellyarmanns
- erla
- erlaosk
- erna-h
- fsfi
- fhg
- gerdurpalma112
- gisliivars
- gisligislason
- neytendatalsmadur
- grazyna
- gudni-is
- gelin
- gudbjorng
- fasteignir
- gudfinna
- lucas
- gudmundurmagnusson
- gudrunshil
- gudruntora
- gunnaraxel
- gunnargunn
- laugardalur
- gylfithor
- hallarut
- heidistrand
- heidathord
- jarnskvisan
- heimirhilmars
- hehau
- helgi-sigmunds
- herdis
- himmalingur
- hjaltisig
- disdis
- holmfridurge
- tulinius
- idno
- ingabesta
- ingisund
- golli
- ibb
- astromix
- johannalfred
- stjornun
- jonmagnusson
- jonsnae
- juliusvalsson
- kolbrunb
- kristinhrefna
- lara
- lotta
- nytjagardar
- altice
- matarbitinn
- maggaelin
- martagudjonsdottir
- mal214
- morgunbladid
- olavia
- olinathorv
- olofnordal
- omarbjarki
- huldumenn
- otti
- publicservant
- iceland
- pjeturstefans
- ragnar73
- ragnheidurrikhardsdottir
- ragnhildur
- rannveigmst
- runirokk
- rynir
- trumal
- salvor
- sirrycoach
- sigurbjorns
- sv11
- sighauk
- sij
- sigurdurir
- ohyes
- sigurdurkari
- siggisig
- siggith
- sigurjonsigurdsson
- zunzilla
- sms
- 1301493169
- stefaniasig
- stebbifr
- brv
- sveinni
- saethorhelgi
- thelmaasdisar
- grasteinn
- ubk
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- va
- villidenni
- thorbjorghelga
- steinibriem
- thorsteinnhelgi
- thoragud
- thorasig
- tbs
- thorhallurheimisson
- iceberg
- toddi