Leita í fréttum mbl.is

Heitar umræður

Mér var sagt á mánudag að Hildur Helga Sigurðardóttir (HHS) hafi gert mér þann heiður að taka til umræðu frumvarp sem ég flutti á Alþingi sl. haust í viðtalsþætti Evu Maríu á sunnudagskvöld. Því miður gafst mér ekki færi á að horfa á þáttinn á netinu fyrr en í kvöld.

Í millitíðinni var ég búin að fá ábendingu um að ummæli HHS hefðu kallað fram heitar umræður á blogginu (sjá hér).

Eftir að hafa horft á viðtalið við HHS sé ég að hún virðist kjósa að misskilja frumvarp mitt í grundvallaratriðum og vil því segja þetta: 

  • HHS segist hafa "lúslesið" frumvarpið mitt. Öll hennar ummæli um frumvarpið og efni þess benda til að hafi hún lesið frumvarpið þá hefur hún misskilið það alvarlega. 
  • HHS segir að frumvarpið eigi að neyða foreldra í sameiginlega forsjá. Þetta er rangt. Sameiginleg forsjá er nú þegar meginregla í barnalögum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að dómstólar geti hafnað því að slíta sameiginlegri forsjá ef engin skynsamleg rök önnur en "af því bara" eru fyrir kröfu foreldrisins fyrir slitum á sameiginlegri forsjá.
  • HHS segir að frumvarpið geri ráð fyrir að börn eigi lögheimili á tveimur stöðum. Þetta er rangt. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að foreldrar geti samið um það að börnin eigi lögheimili hjá þeim báðum til að tryggja að báðir foreldrar njóti réttarstöðu einstæðra foreldra og þar með þess opinbera stuðnings sem einstæðir foreldrar njóta. Hér er ekki gert ráð fyrir að neinn geti neytt neinn til neins. Frjálsir samningar foreldra er það sem er meginmálið.
  • HHS segir að það frumvarpið geri ráð fyrir að vegna lögheimilis á tveimur stöðum eigi börn að vera í tveimur skólum. Þetta er rangt. Frumvarpið gerir þvert á móti ráð fyrir að ef barn eigi lögheimili á tveimur stöðum þá eigi foreldrarnir heima nálægt hvoru öðru. Í greinargerð með frumvarpinu er sérstaklega vikið að þessu.
  • HHS segir að í frumvarpinu felist að hneppa eigi konur í vistarbönd. Þetta er rangt. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir að foreldri með lögheimilið geti ekki einhliða flutt lögheimili barns innanlands án samþykkis hins foreldrisins sem einnig fer með forsjána. Sambærileg regla gildir nú þegar varðandi flutning barns til útlanda sem lýtur sameiginlegri forsjá . Lögheimilisforeldrið getur ekki flutt barn sitt til útlanda án samþykkis hins forsjárforeldrisins. Ekki hef ég heyrt annað en að öllum þyki það sjálfsögð regla. Mín tillaga gerir ráð fyrir að hið sama gildi um flutning barns innanlands. Af hverju legg ég þetta til? Jú af því að það getur verið meiri röskun fyrir foreldri og barn þess að lögheimilisforeldrið flytji með barnið innanlands en til útlanda. Hið síðarnefnda þarf forsjárforeldrið að samþykkja, ekki hið fyrrnefnda.

HHS segir að frumvarpið sé skelfilegt. Hún segist ekki skilja hver hugsunin er á bakvið það og hún segir að í því felist hættulegar tilhneigingar. HHS er að sjálfsögðu heimilt að hafa allar þessar skoðanir.

Til frekari útskýringa á frumvarpi mínu og þeim sjónarmiðum sem þar búa að baki læt ég fylgja hér með valda kafla úr framsöguræðu minni með frumvarpinu. Greinilegt er að HHS hefur ekki kynnt sér hana því hefði hún gert það þá hefði hún t.d. séð að frumvarpinu er alls ekki hugsað til að gefa ofbeldisfullum foreldrum, körlum sem konum, nýtt vopn til að berja hitt foreldrið með. Ég sagði í upphafi ræðu minnar, einmitt vegna fáránlegra fullyrðinga eins og þeirra sem HHS setur fram:

Áður en lengra er haldið í þessari framsögu vil ég undirstrika það að allt það sem ég segi hér um sem jafnasta foreldraábyrgð, sem jafnasta umgengni, tvöfalt lögheimili og sameiginlega forsjá samkvæmt dómi, á við um þau tilvik þar sem foreldrar eru bæði góðir og hæfir uppalendur og eiga ekki við nein sérstök vandamál að stríða. Sem betur fer eru það yfir 90% foreldra sem falla í þann hóp. Undantekningar eru vissulega til en við bregðumst við þeim með öðrum hætti en þeim sem hér er lagt til. (Leturbreyting DP.)

Sem sé, ég tók það sérstaklega fram að frumvarpið og ákvæði þess ætti eingöngu við þegar foreldrar eru í lagi. Það er hins vegar einkennandi fyrir alla sem eru á móti jafnari foreldraábyrgð að þeir fara alltaf að drepa slíkri umræðu á dreif með því að tala um þau tilvik þegar ofbeldi er í sambúð eða milli foreldra. Ekki ætla ég að draga úr alvarleika slíkra tilvika, en sem betur fer eru þau undantekningin og enn og aftur, öll úrræði sem lögð eru til í frumvarpinu mínu eiga aldrei við þegar ofbeldi er annars vegar.

Síðar í ræðunni sagði ég þetta:

Víkjum þá aftur að barnalögunum sem hér eru til umfjöllunar. Þau hafa sætt breytingum frá þeim tíma sem þau voru fyrst lögfest á Alþingi í byrjun 9. áratugar. Það er merkilegt til þess að hugsa að það var fyrst með þeim lögum sem umgengnisréttur föður við óskilgetið barn sitt var lögfestur, það eru ekki nema 25 ár síðan.

Það má með sanni segja að við höfum verið mjög varkár með allar nýjungar varðandi þann lagaramma sem við sníðum börnum og foreldrum. Það var t.d. ekki fyrr en 1992 sem við treystum okkur til að leyfa foreldrum að semja um sameiginlega forsjá. Þá hafði sú skipan viðgengist alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum um margra ára skeið, síðast verið tekin upp í Danmörku 1985. Í frumvarpi því sem varð að barnalögum 1992 er vikið að þessu atriði og nefnt að síðast hafi sem sé sameiginlega forsjáin verið lögfest í Danmörku sjö árum áður. Það er líka vikið að því að í sumum löndum sé meira að segja dómstólum heimilt að dæma sameiginlega forsjá. En það var ekki talin ástæða til að stíga svo stórstíg skref þannig að strax árið 1992, þegar við lögfestum sameiginlega forsjá sem heimildarákvæði, voru öll okkar nágrannalönd komin miklu lengra á þessu sviði. Það var ekki fyrr en á síðasta ári sem við treystum okkur til að gera sameiginlega forsjá að meginreglu. Enn höfum við ekki treyst okkur til þess að lögfesta heimild til dómstóla til að dæma megi sameiginlega forsjá. Danir hafa verið síðastir í þessari þróun og það er svo sem ekki langt síðan þeir lögfestu breytingar, það var gert núna frá og með 1. október sl. Svíar hafa hins vegar lengi haft í sinni löggjöf slíkar reglur.

Það má því með sanni segja að við höfum hér á landi stigið afar varlega til jarðar og ekki rasað um ráð fram þótt fyrir liggi að þessi atriði séu mikilvæg tæki í allri jafnréttisbaráttu. Það er nefnilega að mínu mati ekki fyrr en jöfn foreldraábyrgð næst fram sem fullt jafnrétti næst.

Það eru liðin fimm ár frá því að síðasta endurskoðun á barnalögunum var gerð. En þá var ekki stigið skref sambærilegt við það sem gert hafði verið á Norðurlöndum og eins og ég vék að áðan var það ekki fyrr en í fyrra sem sameiginlega forsjáin var lögfest. Þær breytingar á barnalögunum sem hér eru lagðar til með því frumvarpi sem ég mæli fyrir hníga flestar í þá átt að gera foreldrum betur kleift en nú er að axla sem jafnasta foreldraábyrgð við skilnað eða sambúðarslit.

Flestar þær breytingar sem ég legg til í frumvarpi mínu að verði gerðar á barnalögum eru til að tryggja foreldrum, konum og körlum sem jafnastan rétt til barna sinna, eins og Eva María reyndi að spyrja HHS að í sjónvarpsviðtalinu sem vikið var að hér í upphafi.

Ekki ætlast ég til að allir séu sammála mér varðandi frumvarp það sem ég lagði fram á Alþingi sl. haust. En ég frábið mér jafn miklar rangfærslur um efni frumvarpsins og HHS gerði sig bera að í sjónvarpsviðtalinu sl. sunnudag.

Ég fagna því hins vegar að rangfærslur HHS hafa vakið heitar og góðar umræður um málið - sem sýna mér að mjög margir telja að í frumvarpinu felist réttarbót fyrir alla foreldra. Orð eru til alls fyrst og opinská umræða um bætta stöðu foreldra og sem jafnasta foreldraábyrgð er af hinu góða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Takk fyrir þetta Dögg, ég tók þessu með varúð sem Hildur Helga sagði.

Alltaf gott að fá hlutina frá fyrstu hendi.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 24.4.2008 kl. 00:09

2 Smámynd: Kolgrima

Sæl vertu, mig langar til að spyrja þig ef ég má út í þetta með lögheimilið og sameiginlegu forsjána.

Nú er það þannig að foreldri A, sem hefur sameiginlegt forræði með foreldri B, getur ekki farið í nám til Bandaríkjanna með barn sitt nema foreldri B gefi forræðið eftir. Neiti foreldri B, kemst foreldri A ekki í nám. Foreldri B getur hins vegar farið hvenær sem því sýnist. 

Nú sýnist mér að hið sama eigi að gilda innanlands - að foreldri á Bolungarvík (Flatey, Trékyllisvík) geti hindrað hitt foreldrið í að fara til Reykjavíkur til náms eða í annað sveitarfélag til að sækja vinnu. En það foreldri sem ekki hefur barnið hjá sér, er algjörlega frjálst ferða sinna. Er það rétt skilið?

Hvað gerist ef bændur skilja? Getur það foreldri sem heldur búinu krafist þess að það foreldri sem flytur með barn, setjist að innan ákveðinnar fjarlægðar frá býlinu? 

Af hverju gilda ekki sömu reglur um báða forsjárforeldrana? Bera þeir ekki báðir ábyrgð? Eða í hverju er ábyrgð þess forsjárforeldris fólgin sem ekki býr með barninu? 

Með kærri þökk fyrir að leyfa athugasemdir vegna þessa frumvarps.

Ragnhildur Halldórsdóttir 

Kolgrima, 24.4.2008 kl. 00:48

3 Smámynd: Dögg Pálsdóttir

Sæl Ragnhildur. Þakka þér fyrir spurningarnar og eins og þú setur þetta fram er þetta rétt skilið - raunar er báðum foreldrum frjálst að fara til Bandaríkjanna í nám, barnlausum. Þú kemur jafnframt inn á mjög mikilvægt atriði sem ég tel að þurfi að taka á samhliða, þó ekki sé það gert í frumvarpi mínu, þ.e. að lögheimilisflutningur foreldrisins sem barnið býr ekki hjá eigi að vera háður samþykki hins foreldrisins. Hingað til hefur verið litið svo á að ekki "megi neyða" foreldri sem ekki vill / nennir sinna barni sínu að gera það. Þannig hefur foreldri getað komist upp með jafnvel alltaf að sinna ekki umgengni. Rökin fyrir þessu eru þau að það sé ekki gott fyrir barn að umgangast foreldri sem vill ekki umgangast það. Af sama meiði er þankagangurinn með að foreldri með sameiginlega forsjá, en ekki með lögheimili barnsins, vill flytjast í annan landshluta. Ég get algerlega fallist á að það foreldri eigi undir slíkum kringumstæðum að þurfa að fá samþykki hins foreldrisins fyrir slíkum flutningi því búseta í sitt hvorum landshlutanum, eða þess vegna sitt hvoru landinu gerbreytir því með hvaða hætti foreldrar sinna barni sínu sem þau hafa sameiginlega forsjá yfir. Vona að þetta svari spurningum þínum. Bkv. Dögg

Dögg Pálsdóttir, 24.4.2008 kl. 17:16

4 Smámynd: Gísli Gíslason

Báðir foreldrar geta farið hvert sem er, en það þarf samþykki hins foreldrisins til að taka barnið með sér, enda felur sameiginleg forsjá það í sér að báðir foreldrar slá skjaldborg um tilveru barnsins.   Tilvera og réttur  barnsins skiptir þannig meira máli en einhliða réttur foreldris.

Ég sá viðtalið við HHS og varð kjaftstopp.   Réttindabarátta feðra til að  verða jafngilt foreldri og mæður er ævinlega mætt með rökum um ofbeldi.  Þannig er jaðarmál (ofbeldi) notuð sem rök á móti því að almenn mannréttindi venjulegra foreldra séu jöfnuð.

Gísli Gíslason, 24.4.2008 kl. 17:50

5 Smámynd: Gunnar Axel Axelsson

Sæl Dögg,

Ég horfði á umræddan þátt og ég varð eiginlega orðlaus yfir því sem þar kom fram í máli Hildar Helgu. Mér leið eiginlega eins og ég væri að horfa á þátt sem hlyti að hafa verið tekin upp fyrir einhverjum áratugum síðan, slík finnst mér viðhorf hennar vera gamaldags og bera vott um ótrúlega karlfyrirlitningu.

Það er líka komið nóg af þessari umræðu um vondu pabbana sem gera mömmum þessa lands lífið leitt. Það er líka komin tími til að feður þessa lands þori að koma fram og segja sína sögu. Það þarf enginn að skammast sín fyrir það að vilja vera hluti af lífi barnanna sinna. Það virðist samt vera erfitt fyrir menn að koma fram og tala um þessi mál, og ég held ég viti hver meginástæða þess sé. Ég held að það sé einkum vegna þess að það er nær ómögulegt að rekja slík dæmi nema að veitast með einhverjum hætti að öðru fólki, þ.e. í slíkum tilfellum hinu foreldrinu. Hitt foreldrið er oftar en ekki móðirin sem í dag hefur nær algjört vald yfir málefnum barnanna og umgengni þeirra við feður sína. Fyrir feður er því afar mikilvægt að halda þeim "góðum", og reyna bara að dansa línudansinn og kóa með hvaða vitleysu sem fyrir þá er lögð. Þannig er bara veruleiki margra feðra og barnanna þeirra. Ég er því miður einn þeirra.

Fyrir Hildi Helgu og alla hina sem halda að frumvarp til breytinga á barnalögum snúist um það að gefa einhverjum brjálæðingum vald til að kúga fyrrverandi konur sínar, þá vil ég segja þetta:

Í dag kom sonur minn til mín og sagði mér að hann væri að flytja. Hann væri að flytja frá höfuðborgarsvæðinu og ætlaði að búa með mömmu sinni á suðurlandi, um það bil 150 km frá þeim stað þar sem pabbi hans býr og hann á sitt annað heimili. Hann var sem sagt að segja pabba sínum frá því að móðir hans væri búin að ákveða að flytja búferlum, lofa honum allskyns dóti og spennandi hlutum eftir flutninginn og litli strákurinn minn getur varla beðið eftir að fá barnafjórhjól og risatrampolín  -  þegar hann er fluttur langt í burtu frá okkur.

Strákurinn minn er nýbyrjaður í skóla. Hann er að klára sinn fyrsta vetur og gengur vel. Honum líður afskaplega vel í skólanum sínum og er með frábæran kennara. Í bekknum hans eru krakkarnir úr hverfinu, sem margir voru líka á leikskólanum hans. En nú ætlar mamma hans að flytja. Hún veit að það skerðir nær alveg möguleika föður hans til að vera í virku sambandi við skólann hans og kemur að miklu leyti í veg fyrir umgengni okkar feðgana nema þá í kringum svokallaðar pabbahelgar. En það er alveg sama, lögin eru skýr. Hún getur bara flutt þangað sem henni dettur í hug og þarf ekkert að hafa neitt samráð við mig, frekar en aðrar mæður í sömu stöðu og hún. Lögin gera ekki ráð fyrir því að feður hafi eitthvað með slík mál að segja. Þeir eiga bara að vera ánægðir með að fá að hitta börnin sín annað slagið. Þetta er veruleiki margra íslenskra barna og feðra í dag.

Ég vona að þú haldir áfram að berjast Dögg, þú hefur staðið þig eins og hetja hingað til. Ég vona líka að pabbar þessa lands fari að opna sig og ræða þessi mál. Það er eina leiðin til að fá málum hreyft.

Kær kveðja

Gunnar Axel

Gunnar Axel Axelsson, 24.4.2008 kl. 18:18

6 Smámynd: Bumba

Sæl Dögg mín og gleðilegt sumar. Þú stendur í ströngu kæra vinkona. Haltu samt ótrauð áfram, þú átt stuðning miklu fleira fólks en þú gerir þér grein fyrir. Með beztu kveðju.

Bumba, 24.4.2008 kl. 19:24

7 Smámynd: Halla Rut

Gunnar: Ég skil mjög þína afstöðu og þínar aðstæður. Ég á vini sem eru einmitt í þínum sporum. 

En eftir situr samt sem áður val konunnar að lifa sínu lífi frjálst.  Hún er með barnið að mestu og ber mesta ábyrgð á því. Ég held að flestar konur sem eiga börn utan hjónabands munu mótmæla því ef fyrrverandi eða einnar nætur bólfélagi ætti að hafa vald og ráð yfir því hvort hún flytji milli sveitarfélaga eða ekki. En á meðan karlinn getur hinsvegar flutt hvert sem hann vill, hvenær sem hann vill. Hann ber ekki ábyrgð gagnvart konunni né barninu.

Allt annað finnst mér gilda um konur og karl sem skiptast á að annars barna sitt eins og "vika og vika" kerfið bíður uppá því þar lúta báðir foreldrar sömu ábyrgð og sömu skildum.

Ég eins og margur á jafnt vini sem skyldmenni sem eru í slíkum aðstæðum þar sem barn fæddist utan hjónabands og af öllum þeim tilvikum hefur "vika og vika" samkomulagið gefist best. Þó ótrúlegt sé þá eru árekstrarnir þar fæstir og samkomulagið best.  Það eru svo margir áhrifaþættir sem hafa áhrif á líf mans og þarf barnið og hitt foreldið oft að líða fyrir áhrifavalda sem það hefur ekkert um að segja. Því gefst vel þessu fulla ábyrgð sem þetta umdeilda samkomulag gerir. 

Halla Rut , 24.4.2008 kl. 21:23

8 Smámynd: Gunnar Axel Axelsson

Ég held þú sért eitthvað að misskilja Halla. Það er enginn að tala um það að annað foreldrið eigi að hafa algjört frelsi og enga ábyrgð og hitt að lúta einhverju boðvaldi frá því foreldri, heldur þvert á móti að mæður jafnt sem feður sýni ábyrgð og taki ekki frá börnum sínum og foreldrum þeirra þann mikilvæga rétt að njóta samvista og rækta tengsl sín á milli. Slíkt er einfaldlega erfiðara þegar fólk býr í mikilli fjarlægð frá hvort öðru.

Mamma sonar míns hefur alla möguleika til að flytja hvert á land sem er og jafnvel erlendis ef það hentar henni enda á sonur minn heimili hjá mér líka og ekkert sem kemur í veg fyrir að hann búi þar á meðan mamma hans nýtur síns sjálfsagða rétt til þess að fara þangað sem hún vill.

Það að sonur minn sé fleiri daga hjá móður sinni segir heldur alls ekkert til um það hvort hún beri meiri ábyrgð á einu né neinu, því gæti allt eins verið þveröfugt farið. Ég er því bara alls ekkert tilbúinn að kvitta uppá það að annað foreldrið öðlist einhvern rétt til að brjóta á rétti barns síns á þeim forsendum.

Hvað fyrirkomulagið snertir annars, þ.e. hvort það sé endilega betra eða verra að hafa viku-viku, eða eitthvað annað form held ég að sé bara jafnt misjafnt og dæmin eru mörg. Það sem skiptir höfuðmáli er að foreldrar taki mið af hagsmunum barna sinna í slíku skipulagi en ekki bara því sem hentar þeim sjálfum hverju sinni.  

Gunnar Axel Axelsson, 24.4.2008 kl. 21:51

9 Smámynd: Halla Rut

Gunnar: Ég get vel verið sammála þér og ég held að við höfum sama markmið að leiðarljósi.  Um leið og við breytum rétti föðurins til að umgangast barn sitt ættum við að breyta um leið ábyrgð pabbans við barn sitt. Öðruvísi getur þetta ekki lagast. Margir feður fá ekki að hafa samband við börn sín með eðlilegum hætti og þurfa að tipla á tánum í kringum mömmurnar til að fá að halda sambandi. Ég veit um nokkur tilfelli þar sem þannig er ástætt og er það óþolandi. Um leið og lagaleg ábyrgð feðra væri sett þá mundi rétturinn koma með.

Halla Rut , 24.4.2008 kl. 22:54

10 identicon

Allar aðfarir foreldra að fyrrum maka bitna illa á börnum. Dögg segir í pistli sínum " Undantekningarnar eru vissulega til en við bregðumst við þeim með öðrum hætti en þeim sem hér er lagt til " Má ég spyrja með hvaða hætti? Er það ekki það sem Hildur Helga var að reyna að koma á framfæri að í þessum tilfellum vantar að setja lög og reglur.

Guðrún Anna Kjartransdóttir (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 23:49

11 Smámynd: Gunnar Axel Axelsson

Barnalög eru hugsuð til að vernda rétt barna og útá það eiga þau að ganga. Við vitum öll að slík lög eru ekki ætluð til að koma í veg fyrri ofbeldisverk og það þurfa allir að hafa í huga þegar rætt er um þessi mál. Við hönnum ekki lög um rétt þeirra sem eru hreyfihamlaðir með það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir að einhver beiti þá einstaklinga ofbeldi, þó svo að það séu dæmi um að fólk með fötlun lendi í ofbeldi eins og aðrir. Við tökum á því með almennum hætti í lögum, s.s. hegningarlögum.

Hvað ábyrgð foreldra, feðra jafnt sem mæðra snertir þá er hún alveg skýr í núgildandi lögum. Réttur foreldra til að rækja skyldur sínar er það hins vegar ekki og það er það sem þarf að breyta.

Hvað orð Guðrúnar Önnu varðar þá vil ég benda á að það er vissulega rétt hjá henni að samskipti foreldra, hvort sem þau er góð eða slæm, hafa yfirleitt áhrif á líðan barnsins með einhverjum hætti. Það er þó afskapleg einföldun á raunveruleikanum að halda að aðfarir séu bara á einn veg, þ.e. frá föður til móður. Hvað er það til dæmis annað en mjög alvarleg aðför bæði að rétti barns og ekki síður föðurs að hindra með einhverjum hætti að samskipti geti átt sér stað þeirra á milli?

Hættum nú að rugla saman óskildum hlutum, þ.e. þessum mikilvæga rétti barna til að njóta sambands við báða foreldra og hins vegar ofbeldismálum, sem eiga sér allt annan farveg í íslensku réttarfari hins vegar. Það er ekki síður mikilvægt mál að ræða en það að blanda því inní þessa umræðu er óþolandi fyrir þá sem eiga mikið undir því að þessi réttarbót nái fram að ganga.

Gunnar Axel Axelsson, 25.4.2008 kl. 08:30

12 identicon

Svar vegna skrifa Gunnars Axel

Gunnar Axel segir "Barnalögin eru hugsuð til að vernda rétt barna"Hvað með ofbeldi gagnvart börnum ættu barnalögin ekki að taka á því eins og öðru sem snýr að því að vernda rétt barna.

Gunnar Axel segir " Hvað ábyrgð feðra jafnt sem mæðra þá er hún skýr í núgildandi lögum" ég hef nú ekki séð annað en ábyrgð foreldra sé einstaklingsbundinn og sú ábyrgð sé oft of eða van. Svo kemur mergur málsins hjá Gunnari "Réttur foreldra til að rækja skyldur sínar er það hins vegar ekki og það er það sem þarf að breyta". Þetta finnst mér  varhugavert. Það er verið að tala um rétt foreldra en engar skyldur þess. Athugið rétt foreldra ekki barns.

Gunnar Axel segir" það er svo afskaplega mikið einföldun á raunveruleikanum að ofbeldi sé bara á einn veg þ.e. frá föður til móður" Það var fjarri að ummæli mín snérust um  einhliða ofbeldi feðra gegn mæðrum. Það sem ég sagði var: Allar aðfarir foreldra að fyrrverandi maka bitna illa á börnum. Það er ekki að mínu viti óþarfi að ræða þennan vinkil þegar velferð og lög til verndun barna er til umræðu. Það viðgengst ofbeldi í okkar þjóðfélagi er ekki betra að ræða það og taka á því en að sópa því undir teppið og láta eins og það eigi sér ekki stað. Auðvitað eru til ekki vel dannaðir feður sem atast og kúga fyrrverandi maka og líka mæður sem gera slíkt hið sama. Sem betur fer eru flestir foreldrar góðir og vel gert fólk. Umræðan snýst um börnin og það gæti verið að sum börn og þeirra réttur ætti að vera rétthærri en umgenginisréttur forsjárlaus foreldris sem skaðar þau. Ég myndi vilja að barnaverndir og sýslumannembættið upplýstu um hvaða rétt þessi börn hafa og hvaða brögðum sé beytt til að aðstoða þessi börn.

Allt sem viðkemur verndun barna ætti að vera þess vert að virða fyrir sé og skoða sem flesta fleti mála, en ekki hlaupa til og samþykkja frumvarp sem er svo gallað að kosta gæti verri hluti en "ný vistarbörnd".

Guðrún Anna Kjartransdóttir (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 11:05

13 Smámynd: Gunnar Axel Axelsson

jú Guðrún, þessi mál eru svo sannarlega mikilvæg og brýnt að halda gangandi opinni umræðu um þau. Ég hef svo sem ekki legið á liði mínu í þeim efnum og talað fyrir sjónarmiðum sem ég held að falli ágætlega að þínu hjartalagi. Mér finnst samt erfitt að þurfa að standa í þessari umræði í tengslum við þann sjálfsagða rétt sem samfélag okkar á að virða og snýst um að foreldrar fái notið samvista við börnin sín og öfugt.

Þessi umræða um "ný vistarbönd" er sorglegt dæmi um það hvernig fólk getur fests í ákveðnu hugarfari reiði og heiftar og hent um leið frá sér allri heilbrigrði skynsemi. það vill enginn að í samfélagi okkar líðist heimilsofbeldi eða kynbundin kúgun að einhverju tagi. Gegn slíku eigum við að berjast - saman.

Vona að við getum tekið höndum saman Guðrún og barist fyrir þessum mikilvægum málefnum, okkar rödd skiptir máli í því sambandi og við eigum að nýta okkur samtakamáttinn í stað þess að tala niður heilbrigða umræðu um mál sem snertir okkur öll.

Á hlutunum er yfirleitt fleiri en ein hlið - við þurfum bara stundum að reyna að koma auga á þær.

Gunnar Axel Axelsson, 25.4.2008 kl. 11:25

14 Smámynd: Riddarinn

Eg verð bara að segja að þetta blogg og barnalögin eru ljóslifandi dæmi um SKYNSEMI SKYNSEMI OG AFTUR SKYNSEMI og sanngirni í málefnum barnana okkar.

Þau lög sem fyrir hendi eru eins og tíðarandinn var fyrir áratugum síðan .

Mér þykir Dögg vera að færa þetta í nútímalegra og sanngjarnara form og er þarna að fara í spor þeirra Norðurlandaþjóða sem eru komin langt fram úr íslendingum í þróuninni og hafa lært af reynslunni og bætt sig og lagalegt umhverfi í takt við nútímann.

Aðrar Norðurlandaþjóðir hafa lært á þessi málefni á meðan Íslendingar hafa verið að sinna sjálfum sér meira en börnunum.

Nú leggur unga fólkið almennt mikklu meira uppúr þvi að sinna börnunum sínum heldur en þeir gerðu fyrir 30 eða 50 árum síðan en samt þurfum við að fara eftir þessum áratuga gömlu lögum þó flestum sé það ljóst að þau voru ekki samin með haga barnanna sérstaklega að leiðarljósi.

Og þá var auðvitað sjálfsagt að konan fengi öllu að ráða varðandi börnin og tæki þau hvernig sem aðstæður voru því það gerðist varla nokkur tíman að faðir tæki börnin eftir skilnað eða nokkrum dytti það í hug allment að barn væri hjá faðir.

Tímarnir breytast og mennirnir með.

Þetta ætti frekar að hljóma....

Tmarnir breytast,mennirnir og lagaumhverfið þróast svo með :)

Alþingismenn ættu að sjá sóma sinn í að kynna sér þessi málefni og þá óreiðu sem er á þessum málefnum allstaðar í kerfinu til að fá meiri hugmyndir um hvernig ástandið er og hverju má breyta til góðs.

Fæstir Alþingismenn virðast vita nægilega mikið um þessi málefni, enda er af mörgu að taka, þetta er þar að auki viðkvæmt tilfinningalegt málefni og brothætt og fólk hrætt við að beita sér í pólitíkinni í þessum málum .

ÞESSVEGNA GERIST ALDREI NEITT TIL BATNAÐAR !!!

En þegar svona frumvarp kemur í dagsljósið á að nota þessar frábæru hugmyndir börnunum okkar til framdráttar og til að færa okkur nær nútímanum.´

Takk Dögg Pálsdóttir fyrir þá vinnu sem þú hefur lagt í þetta frumvarp og allt sem í því er.

Svona skynsemi í málefnum barnanna okkar þarf þingið okkar að hafa í vinni en ekki sem varaþingmann.

Dögg og Jóhanna Sig virðast þekkja best til mála á þessum vettvangi og gera sér grein fyir ástandinu.

Riddarinn , 25.4.2008 kl. 14:09

15 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Ég tel þetta frumvarp vera til góðs. Hef ekki séð þáttinn með Hildi Helgu en mun setjast niður fljótlega til að sjá hann. Mér þykir einnig mjög mikilvægt að við temjum okkur að nota orðið forsjá en ekki forræði, því þessi orð eru gildishlaðin og segja svo mikið um það sem verið er að ræða.

Annars vegar að sjá fyrir og hins vegar að ráða yfir.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 25.4.2008 kl. 15:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband