Leita í fréttum mbl.is

Gerast góðir hlutir hægt?

Ég var að blaða í Mogganum í dag. Á bls. 20 er umfjöllun um daglegt líf undir fyrirsögninni góðir hlutir gerast hægt. Þar er verið að leiðbeina okkur með hvernig við eigum að skipuleggja okkur betur, láta ekki allt vaðast út í drasli hjá okkur, bæði heima og á skrifborðinu í vinnunni. Ýmsar gagnlegar ábendingar eru í greininni. Eitt af því sem ráðlagt er í greininni er að geyma ekki tímarit í meira en tvo mánuði. Hrædd er ég um að slíkum ráðum eigi ég erfitt með að fylgja. 

Fyrr í vikunni var ég einmitt með í höndunum tvö tölublöð af tímaritinu Allt frá árinu 1997. Þau komu upp úr einhverjum kassanum sem ég var að henda úr. Auðvitað var ég löngu búin að gleyma því að ég ætti þessi blöð og því síður hafði ég saknað þeirra (sem auðvitað staðfestir að það er sennilega í lagi að geyma tímarit ekki lengur en í 2 mánuði).

Ekki man ég hvað þetta tímarit varð langlíft en ég er með 1. og 4. tölublaðið þannig að alla vega urðu þau fjögur. Það sem ég hins vegar hnaut um var umfjöllun í 4. tölublaði þessa tímarits undir fyrirsögninni Brotið á íslenskum börnum í forræðisdeilum. Í inngangi greinarinnar segir: Úttektin sýnir, svo ekki verður um villst, að víða er pottur brotinn í því kerfi sem börn hér á landi búa við. Óöryggi, mannréttinda- og lögbrot verða því stundum hlutskipti barna á Íslandi þegar til skilnaðar/sambúðarslita kemur. Þau réttindi sem börnum á að vera tryggður með barnalögum frá 1992, Mannréttindasáttmála Evrópu og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eru aðeins virt í orði en ekki á borði. Upphafsorð greinarinnar eru: Allir viðmælendur Alls gagnrýna félagsmálayfirvöld í Reykjavík, barnaverndarnefnd og sifjadeild Sýslumannsins í Rvk. fyrir mikinn seinagang og biðtíma, sem er ekki í nokkru samræmi við mikilvægi þess sem um er fjallað; börnin og líðan þeirra.

Umfjöllunin er ellefu ára gömul en hefði því miður getað verið skrifuð í gær. Ástandið sem hún lýsir er ástandið nú. Það er viðtal við karlmann sem átti í stuttu ástarsambandi við konu, sem nýbúin var að slíta sambúð við fyrri sambýlismann. Hún varð barnshafandi, fór aftur til fyrri sambýlismannsins og þegar barnið fæddist var barnið skv. pater-est reglunni skráð barn þess manns þótt allir vissu að hann er ekki faðir barnsins. Rétti faðirinn átti hvorki þá né nú nokkur úrræði. Hann er faðir en á engin lagaleg úrræði til að fá þá staðreynd skráða. Í frumvarpinu sem ég lagði fram á Alþingi sl. haust legg ég m.a. til að karlmanni í þessari stöðu verði gert kleift að feðra barn sitt. Viðtöl eru við geðlækni, sjúkrahúsprest, félagsráðgjafa og jógakennara. Öllum ber saman um að bæta þurfi stöðu forsjárlausra foreldra og foreldra sem börn búa ekki hjá.

Það getur vel verið að góðir hlutir gerist hægt - en ég tel að aukið jafnræði foreldra gagnvart börnum sínum sé að gerast of hægt. Þessi ellefu ára gamla umfjöllun sýndi mér að á þessum ellefu árum hefur sáralítið breyst í þessum málaflokki. Við stöndum nánast í sömu sporum nú og árið 1997, a.m.k. í lagalegu tilliti.

Þeir sem gagnrýna mest frumvarp mitt til breytinga á barnalögum segja það vopn í baráttu feðra sem beita mæður barnanna sinna ofbeldi. Ég hef margsinnis bent á að þetta er alvarlegur útúrsnúningur á þeim tillögum sem frumvarpið hefur að geyma. En hvernig stendur á því að þessi hópur telur við hæfi að dæma alla feður eftir þeim litla hópi sem beitir mæður barnanna sinna ofbeldi? Það eru vissulega til feður sem beita mæður barnanna sinna ofbeldi. Sá hópur er lítill, þótt hann sé auðvitað samt alltaf of stór. Eigum við að dæma alla feður eftir þessum litla hópi ofbeldisfeðra? Eigum við að dæma allar mæður eftir þeim litla hópi mæðra sem ekkert sinnir börnunum sínum?  

Ég vil að góðir hlutir gerist hraðar og allir hlutir sem stuðla að auknu jafnrétti kynjanna, á hvaða sviði sem það er, þurfa að gerast miklu hraðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 389902

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband