Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Fátæktin og vinstri grænir

Vinstri grænir ætla að útrýma fátækt, ekki seinna en strax, treysti kjósendur þeim fyrir lyklum að Stjórnarráðinu.

Fyrir nokkrum misserum breytti félagsmálaráð Reykjavíkur reglum sínum um fjárstuðning til þeirra sem minnst máttu sín. Þessi breyting kom illa við þann hóp og jók á fjárhagsvanda hans. 

Þegar vinstri grænir voru við völd í Reykjavík og gátu bætt hag fátækra, hvað gerðu þeir þá? Þeir juku á fátækt þeirra.  

 


Samfylkingin og tannheilsa barna

Samfylkingin treystir greinilega á það að pólitískt minni kjósenda er stutt.

Nú lofar Samfylkingin því að tannlækningar barna verði ókeypis. Lengi vel voru endurgreiðslureglur vegna tannlækninga barna þannig að öll forvarnaþjónusta barna í tannheilbrigðismálum, þ.e. penslun, skoðun, skorufylling og fræðsla var ókeypis en a.ö.l. var greiðsluþátttaka foreldra 15% vegna tannlæknishjálpar barna. Því var breytt 1992. Þá var ákveðið að framvegis skyldu foreldrar greiða 25% af öllum tannlæknakostnaði barna sinna, jafnt forvarnaþjónustu og viðgerðum.

Hver skyldi nú hafa verið heilbrigðisráðherra þegar þessi aukning á tannlæknakostnaði barna var ákveðin? Enginn annar en Samfylkingarmaðurinn (Alþýðuflokksmaðurinn) Sighvatur Björgvinsson. 


Keflavíkurflugvöllur

Kefló 1Hátt í 400 sjálfstæðismenn fóru í gær í skoðunarferð á Keflavíkurflugvöll, þ.e. gamla varnarsvæðið. Við fengum kynningu á starfi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, skoðuðum flugskýli, íþróttahús og íbúðarhúsnæði. Það er greinilegt að Bandaríkjamenn bjuggu vel að þeim sem voru í varnarliðinu.Kefló 2

Það var fróðlegt að heyra hvaða áform eru um starfsemi á þessu svæði. Það er einnig til fyrirmyndar hvernig Suðurnesjamenn, undirforystu Árna Sigfússonar bæjarstjóra, hafa brugðist við þeim breytingum sem urðu á högum þeirra þegar herinn fór. Á sex mánaða tímabili misstu 700 manns vinnuna sem hefur auðvitað verið mikið högg fyrir atvinnulífið á svæðinu. En í stað þess að vola og væla var vörn snúið í sókn og litið á þetta sem áskorun og tækifæriKefló 4.Kefló 3

Það verður spennandi að fylgjast með þróun mála á Keflavíkurflugvelli. 


Ósmekklegt

Árni Páll Árnason er lögfræðingur og í framboði fyrir Samfylkinguna í Kraganum. Hann skrifar í Morgunblaðinu á fimmtudaginn undir heitinu "Að verðlauna síbrotamenn". Af heiti greinarinnar mætti ráða að hann sé að skrifa um fyrirkomulag refsivörslu og einhverjar ívilnanir sem síbrotamönnum eru veittar enda er öllum ljóst, ekki síst lögfræðingum, hvað hugtakið síbrotamaður þýðir. Það vísar til einstaklings sem aftur og aftur brýtur hegningarlög og fær refsidóm fyrir.

Við lestur greinar Árna Páls kemur í ljós að þegar hann vísar til síbrotamanna er hann að vísa til verka ríkisstjórnarinnar. Í greininni sjálfri bætir hann um betur og líkir stjórnarflokkunum við "samviskulausa síbrotamenn".

Frambjóðendur sem ætlast til að vera teknir alvarlega geta ekki leyft sér að skrifa með þessum hætti og væna pólitíska andstæðinga um að vera síbrotamenn. Þetta er ósmekklegt, ógeðfellt og dæmir mest þann sem þannig skrifar.


Kringlan

Það var einstaklega skemmtileg upplifun að vera í Kringlunni í gær að hitta kjósendur. Við dreifðum vatni á flöskum, blávatni. Smáfólkinu buðum við blöðrur.

Flestir sem við ræddum við eru algerlega klárir á því hvað þeir ætla að kjósa: Sjálfstæðisflokkinn. Einn og einn vildi ekki af okkur vita þegar þeir tóku eftir X-D merkinu á flöskunum, en þeir voru í miklum minnihluta. Frambjóðendur frá öðrum stjórnmálaflokkum voru á ferðinni líka með sinn áróður.

Vegfarendur í Kringlunni í gær urðu því svo sannarlega varir við það að kosningar eru í nánd.


Lýðheilsuverðlaunin

Það gladdi mig að sjá að Saman hópurinn fékk fyrstu lýðheilsuverðlaunin. Við sem komum að forvarnamálum fyrir ríkisstjórnina upp úr 1996, m.a. í verkefninu Ísland án eiturlyfja, stóðum fyrir því að koma þessum hóp á laggirnar. Við trúðum því að samvinna í forvarnarmálum væri lykilatriði. Það væri betra að fá sem flesta sem að forvörnum starfa til að vinna saman heldur en að hver og einn væri í sínu horni. Samvinna myndi leiða af sér markvissara og árangursríkara forvarnarstarf. Ég tel að starf Saman hópsins hafi sýnt og sannað réttmæti þessa.

Saman hópurinn er öflugur sem aldrei fyrr og fær nú verðuga viðurkenningu fyrir störf sín á undanförnum árum. Til hamingju með það.


Hagsmunahópar

Ýmis hagsmunasamtök aldraðra og öryrkja héldu opin stjórnmálafund í kvöld á Grand Hóteli. Fyrir svörum sátu formenn flokkana (með nokkrum undantekningum þó). Það var fróðlegt að heyra loforðaflauminn frá forystumönnum stjórnarandstöðunnar. Mér þótti athyglisverðast hvað þeir voru allir sammála um það að afnema ætti allar skerðingar á grunnlífeyri og um leið stórhækka þennan bótaflokk. Á sama tíma segjast þeir vilja gera mest fyrir þá sem lakast eru settir. En þetta loforð þeirra um afnám skerðinga grunnlífeyris og stórhækkun hans er ekkert sérstaklega til hagsbóta fyrir þann hóp. Slík aðgerð kemur öllum öldruðum til góða, bæði þeim sem lakast eru settir og eins þeim sem hafa umtalsverðar tekjur úr lífeyrissjóði. Er það forgangsmálið? Er ekki nær að beina kröfunum að því að bæta stöðu þeirra aldraðra sem lakast eru settir. Því hefur Sjálfstæðisflokkurinn lofað, m.a. með því að tryggja þessum hópi 25 þús. kr. greiðslu á mánuði úr lífeyrissjóði. Afnám skerðinga grunnlífeyris vegna tekna er þegar komið á dagskrá. En stórhækkun grunnlífeyrisins getur ekki verið forgangsmál. Það skiptir líka máli í þessari umræðu að muna að aldraðir eru mjög sundurleitur hópur. Það má ekki alhæfa um þennan hóp. Ýmsir aldraðir eru mjög vel settir, bæði tekju- og eignalega. Aðrir hafa enga framfærslu aðra en bætur almannatrygginga. Enn aðrir eru þarna á milli.

Í umræðunni virtist stjórnarandstaðan gleyma því að milli almannatryggingakerfis og lífeyrissjóðakerfis er samspil sem verður ætíð að virða við allar breytingar. Almannatryggingakerfið er grunnurinn, lífeyristryggingakerfið er viðbótin. Tekjutryggingin var sett á sínum tíma til að brúa bilið meðan lífeyrissjóðaeign aldraðra væri takmörkuð.

Um eitt voru þó allir forystumennirnir sammála: Að einfalda þyrfti þetta kerfi svon það væri notendavænna og skiljanlegra fyrir þá sem við það þurfa að skipta. Undir það er hægt að taka.


Droplaugarstaðir

Ég fór ásamt fleiri frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í heimsókn á hjúkrunarheimilið Droplaugarstaði í dag. Þar eru 82 rými, allt í einbýlum með sérsnyrtingum. Greinilegt er að íbúarnir eru ánægðir og láta vel af aðstæðum sínum og aðbúnaði. Enda er aðbúnaður á heimilinu til stakrar fyrirmyndar.

Nokkra íbúa reyndist ég þekkja frá gamalli tíð, m.a. karl sem bjó í sama stigagangi og ég í Eskihlíðinni á sjötta og sjöunda áratugnum. Hann mundi vel eftir mér og systkinum mínum úr blokkinni þegar ég sagði honum hverra manna ég er. 

Þetta var skemmtilegur klukkutími. Ég átti gott spjall við marga íbúa, sem allir tóku mér vel þótt ég væri að ónáða þá í kaffitímanum. Fram kom hjá mjög mörgum að þeir hefðu aldrei kosið annað en Sjálfstæðisflokkinn og ætluðu svo sannarlega að halda því áfram í komandi kosningum. Það var ég auðvitað ánægð að heyra.

Eftir drjúgt spjall við nokkrar konur um ágæti Sjálfstæðisflokksins, forystu hans og stefnumál kom í ljós að ein kvennanna er móðir eins af formönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Náði ekki einu atkvæði þar en hinar voru mjög jákvæðar. Smile

 


Forstjóri stærsta og virtasta háskólasjúkrahúss Evrópu

Það er fróðlegt að lesa í Morgunblaðinu í dag viðtal við nýráðinn forstjóra eins stærsta og virtasta háskólasjúkrahúss í Evrópu, Karolinska í Stokkhólmi. Forstjóri, Birgir Jakobsson er, eins og nafnið bendir til, fæddur og uppalinn á Íslandi en hefur ekki snúið heim aftur að framhaldsnámi loknu. Samt hefur íslensku heilbrigðiskerfi í tvígang boðist að þiggja starfskrafta hans, síðast þegar stóru spítalarnir í Reykjavík voru sameinaðir og auglýst var staða lækningaforstjóra. Í bæði skiptin var annar umsækjandi valinn.

Viðtalið ber það með sér að Birgir hefur náð eftirtektarverðum árangri í störfum sínum, síðast sem forstjóri einkasjúkrahúss St. Göran í Stokkhólmi. Sjálfur segist hann hafa náð þeim árangri með því að hafa skýra sýn á því sem hann var að gera og "bretta upp ermarnar og byrja að grafa þar sem maður stendur". Sýn Birgis hefur það að meginmarkmiði að bæta þjónustu við sjúklinga og virkja starfsmenn til að ná því markmiði. Sá árangur sem Birgir náði á St. Göran varð til þess að honum var boðið núverandi starf. Eftir lestur viðtalsins er ansi áleitin spurningin hvort staðan hjá Landspítala, háskólasjúkrahúsi væri hugsanlega önnur og betri nú ef Birgir hefði verið ráðinn til starfa á sínum tíma. Spyr sú sem ekki veit og svör fást ekki. En árangur Birgis á erlendum vettvangi gefur skýrar vísbendingar.

 


Óþörf pæling?

Samkvæmt Fréttablaðinu í dag er eitt helsta vandamál útvarpsstjóra þessa dagana að ákveða hvernig eigi að hafa það kl. 22 12. maí nk. ef upp kemur sú staða að Eiríkur vinnur Júróvisjón. Hvort á þá að sýna Eirík syngja sigurlagið eða fá fyrstu tölur úr Kraganum eða hvaða kjördæmi það verður nú sem verður fyrst tilbúið með tölurnar þegar kjörstaðir loka?

Mér finnst alveg merkilegt að það þurfi yfirleitt að eyða tíma í þessa pælingu. Er ekki sjálfgefið að ef Eiríkur vinnur þá viljum við fyrst sjá hann syngja sigurlagið og svo fá fyrstu tölur? Sigurlagið er bara sungið einu sinni í lok Júróvisjon en það er klárt að tölur úr kjördæmum koma aftur og aftur alla kosninganóttina þangað til talningu lýkur. Það ætti því varla að þurfa marga daga í þessar pælingar, eða hvað? Fyrst fáum við Eirík og svo tölurnar.


Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 392370

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband