Leita í fréttum mbl.is

Að skjóta sendiboðann ...

Hefði umrædd kona leitað til mín, þegar hún stóð frammi fyrir því að grípa til varna í brottnámsmáli, hefði ég útskýrt vandlega fyrir henni að líkur hennar á að vinna málið væru mjög litlar. Ég hygg að flestir, ef ekki allir lögmenn, sem taka að sér brottnámsmál hefðu gert það sama. Dómaframkvæmd í brottnámsmálum, þar sem málavextir eru sambærilegir þessu máli er orðin mjög skýr. Foreldri sem farið hefur með barn úr landi þar sem fjölskyldan bjó, án þess að ljúka forsjárágreiningi milli foreldranna, er nokkurn veginn undantekningarlaust dæmt til að fara með börnin úr landi til að forsjárágreiningi sé hægt að ljúka með þeim hætti sem lög viðkomandi lands gera ráð fyrir.

Konan segir að gögn, málstað hennar til framdráttar, hafi ekki verið lögð fram. Um það veit ég auðvitað ekki. En hitt veit ég að fyrir Hæstarétt voru t.d. lögð fram ný gögn, m.a. sálfræðiskýrsla frá skólasálfræðingi. Sú skýrsla gerði lítið til að styðja fullyrðingu konunnar um að börnin hefðu aðlagast hér með þeim hætti að ekki mætti ákveða að hún skyldi fara með þá aftur til Bandaríkjanna til að þar yrði leyst úr forsjárdeilu foreldranna.

Ég hef áður í bloggi um þetta mál bent á að um mál af þessu tagi gilda tveir alþjóðasamningar, svokallaður Haagsamningur, sem átti við í þessu mál, og svokallaður Evrópusamningur. Báða samningana höfum við lögfest með lögum nr. 160/1995.

Það eru 11. og 12. gr. laganna sem fjalla um afhendingu barns skv. Haagsamningnum. Í 11. gr. er fjallað um það hvenær afhenda skal barn. Í 12. gr. er fjallað um hvenær heimilt er að synja um afhendingu barns. Ákvæðið er svohljóðandi:

Heimilt er að synja um afhendingu barns ef:
1. meira en eitt ár er liðið frá því að barnið var flutt á brott eða hald hófst þar til beiðni um afhendingu er móttekin hjá héraðsdómi, enda hafi barnið aðlagast nýjum aðstæðum,
2. alvarleg hætta er á að afhending muni skaða barnið andlega eða líkamlega eða koma því á annan hátt í óbærilega stöðu,
3. barnið er andvígt afhendingu og hefur náð þeim aldri og þroska að rétt sé að taka tillit til skoðana þess, eða
4. afhending er ekki í samræmi við grundvallarreglur hér á landi um verndun mannréttinda. 

Af greininni má sjá að það eru fjögur tilvik sem heimila dómara að synja um afhendingu barns. Nauðsynlegt er að undirstrika að þessi ákvæði eru heimildarákvæði. Það þýðir að dómara er aldrei skylt að synja um afhendingu. Meginreglan er sú að ef barn hefur verið numið á brott með þeim hætti sem 11. gr. laganna tilgreinir þá skal dæma um að afhending fari fram.

Ef heimildarákvæðin eru skoðuð nánar þá er þar í fyrsta lagi þessi eins árs regla. Hún er víðtækari en að einungis skuli líta á lengd tímans sem barnið hefur verið brottnumið. Til að henni megi beita verður að sýna fram á, og sú sönnunarbyrði hvílir á foreldrinu sem nam barn á brott, að barnið hafi aðlagast nýjum aðstæðum. Í þessu máli voru engin þau gögn lögð fram, hvorki í héraðsdómi né Hæstarétti, sem sýndu að börnin hefðu aðlagast nýjum aðstæðum. Sú staðreynd að ákvæðið var ekki notað í kröfugerð konunnar skiptir því að mínu mati ekki máli.

Í öðru lagi er heimilt að synja um afhendingu ef  alvarleg hætta er á því að afhending muni skaða barnið andlega eða líkamlega eða koma því á annan hátt í óbærilega aðstöðu. Ekkert slíkt var fyrir hendi í þessu máli. Í greinargerð með ákvæðinu segir að meta skuli hlutlægt hvort hætta sé á að afhending muni skaða barnið andlega eða líkamlega. Þar kemur einnig fram að mikið þurfi til að koma svo unnt sé að beita þessu ákvæði, sbr. orðalagið "alvarleg hætta". Konan byggði kröfu sína m.a. á þessu ákvæði.

Í þriðja lagi er heimilt að synja um afhendingu ef barnið er andvígt afhendingu og hefur náð þeim aldri og þroska að rétt sé að taka tillit til aldurs þess. Þessu undantekningarákvæði var beitt í dómi Hæstaréttar sem lesa má hér. Til að unnt sé að byggja á viljaafstöðu barna verða þau að hafa náð ákveðnum aldri og þroska sem börnin í þessu máli hafa ekki náð. Konan byggði kröfu sína m.a. á þessu ákvæði.

Í fjórða lagi er heimilt að synja um afhendingu ef afhending er ekki í samræmi við grundvallarreglur hér á landi um verndun mannréttinda.  Þetta ákvæði á augljóslega ekki við og var ekki vísað til þess í málinu.

Af framangreindu má væntanlega sjá að líkurnar á því að konan ynni þetta brottnámsmál voru litlar ef nokkrar. Það er staðreynd málsins.

Ég lauk mínu síðasta bloggi um þetta mál með orðunum: Flóknara er þetta mál ekki. Var ég þá að vísa til þess að lögfræðilega væri þetta mál ekki flóknara en þetta. Einn bloggari taldi þetta orðalag óviðeigandi því mál af þessum toga væru alltaf flókin, fyrir foreldrana og börnin sem hlut eiga að máli. Það er svo sannarlega rétt og með þessu orðalagi var ég hreint ekki að vísa til þess. Málsaðilar í þessu máli eru í flókinni stöðu. Faðirinn var vegna brottfarar móðurinnar með börnin, sviptur börnum sínum í 18 mánuði. Móðirin, vegna brottfarar sinnar sem var ólögmæt, stendur nú frammi fyrir því að þurfa að fara aftur til Bandaríkjanna með börnin. Bæði standa þau frammi fyrir því að eiga fyrir höndum erfitt forsjármál þar sem þau munu takast á um forsjá tveggja barna.

Það er flókin og erfið staða.


mbl.is Fékk sms: Hæstiréttur staðfesti dóminn, sorry
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðborg Eyjólfsdóttir

Einhver hlýtur ástæðan að vera fyrst konan flýr frá Bandaríkjunum heim með börnin sín, hvernig voru aðstæður hjá henni áður en kom heim ?? Sagði hún ekki í einhverju viðtali að hann væra tæpur á geði eftir Íraksstríð sem hann fór í ?? Er þá eitthvað vit í að fara með börnin til geðbilaðs manns ??

Guðborg Eyjólfsdóttir, 12.8.2009 kl. 10:12

2 identicon

O, ætli það sé ekki bara önnur hliðin á peningnum Guðborg. Hún hefði þá heldur átt að leggja fram gögn því til stuðnings, og þá heldur fyrir dómstólum vestanhafs myndi ég halda.

Víðir Orri (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 10:26

3 Smámynd: Einhver Ágúst

Warren Feeney er glæpamaður en Borghildur okkar er dýrlingur?

Erum við Íslendingar ekki dæmalaust sjálfhverf og skrítin þjóð?

Við vildum öll læsa barnaræningjana inni hérna en viljum ekki að okkar eigin þegnar fylgji lögum og reglum, vissulega eru þetta viðkvæm mál með börn og fjölskyldur.

Því miður þarf maður að fara réttar leiðir gagnvart dómstólum ef maður á börn og þá eru það dómstólar viðkomandi lands sem gilda, ég vil ekki að barnsmóðir mín yfirgefi landið með barnið mitt án samráðs við mig, eru það miklar kröfur?

Einhver Ágúst, 12.8.2009 kl. 11:13

4 Smámynd: Einhver Ágúst

Takk Dögg og vel unnið verk, ég reyndar öfunda Borghildi ekkert að vera með Svein Andra, hann hefur mikilvægari kúnnum að hneppa samanber þetta mjög svo fína sms ef rétt reynist.

Einhver Ágúst, 12.8.2009 kl. 11:14

5 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ef móðurinni var ekki annað mögulegt en að taka börnin með sér, vegna aðstæðna í landi, þar sem hún var ekki borgari með sömu réttindi og maður maður hennar, þá er vafamál hvort Haagsáttmálinn gildi í þessu tilfelli. Ef maðurinn hefur verið tæpur eða veikur á geði, sýna morð hermanna á fjölskyldum sínum í Bandaríkjunum, að ærin ástæða var fyrir móðurina að koma sér í burtu.

Ljóst er að Dögg Pálsdóttir var ekki að vinna eftir 12. grein í ofangreindum lögum.

12. gr. Heimilt er að synja um afhendingu barns ef:
   1. meira en eitt ár er liðið frá því að barnið var flutt á brott eða hald hófst þar til beiðni um afhendingu er móttekin hjá héraðsdómi, enda hafi barnið aðlagast nýjum aðstæðum,
   2. alvarleg hætta er á að afhending muni skaða barnið andlega eða líkamlega eða koma því á annan hátt í óbærilega stöðu,
   3. barnið er andvígt afhendingu og hefur náð þeim aldri og þroska að rétt sé að taka tillit til skoðana þess, eða
   4. afhending er ekki í samræmi við grundvallarreglur hér á landi um verndun mannréttinda.

Dögg Pálsdóttir, hvort er mikilvægara erindi þitt fyrir skjólstæðing þinn með tilvitnun í 11. grein, óháð vitneskju eða vitundar um hagi hans, eða þrif og þroski tveggja barna, sem eiga rétt samkvæmt 12. grein?

Þetta mál á ekki að fjalla um hégóma tveggja lögmanna, heldur um framtíð tveggja barna.

Annar handleggur er, að BNA virða heldur ekki þennan Haag-sáttmála.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 12.8.2009 kl. 11:27

6 identicon

það sem manni finnst alltaf sorglegt þegar maður les um svona mál er að börnin hafa ekkert um málið að segja, foreldrar sem haga sér svona eru talin hæfari til ákvarðanatöku um hvað sé börnunum fyrir bestu.....

zappa (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 11:30

7 identicon

Góður pistill, takk fyrir !

Fransman (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 11:31

8 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ágúst Már. Karlmenn eru ekki, frá náttúrunnar hendi, eins færir um að sinna BESTU ÞÖRFUM barna sinna, þó þeir vilji það. Sumir eru líka dómadags drullusokkar, sem sést best á því að fleiri karlar sitja í fangelsum en konur. Samlíking þín á milli Borghildar og máls glæpalimsins Feeney er út í hött.

Ef barnsmóður þín getur ekki lifað eðlilegu lífi í landinu þínu (og segjum að það sé ekki hennar land), þá er greinilega eitthvað að þér og landinu þínu. Það er mikið að í BNA og ég skil ekki mann sem vill reka samlanda sinn á vit bandaríska dómskerfisins.

Ágúst Már, er þér illa við konur?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 12.8.2009 kl. 11:36

9 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Í og með að konan var atvinnulaus hefur hún takmarkaðan rétt í "réttarkerfi" Bandaríkjanna, hr. Skorrdal. Grænt kort er ekki réttur til neins annars en búsetu. Réttur í BNA er getan til framfærslu. Án peninga ertu ekkert. Sérrétt haf þeir sem ekki vita aura sinna ráð. Dæmi eru til þess að menn hafi verið sýknaðir af morðum, ef þeir áttu nógu mikla peninga, og gátu fengið nógu góða lögmenn.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 12.8.2009 kl. 11:43

10 identicon

Fyrirgefðu Skorrdal, en fólk fær ekki sjálfkrafa "græna kortið" þó það giftist Bandaríkjamanni/konu... jafnvel þó að þeir séu í Bandaríska hernum.

Ég veit þetta af eigin reynslu.

Innflytjenda prósessið kostar um 200þúsund íslenskar krónur og getur tekið alveg upp í heilt ár að klárast.

Aggatho (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 11:52

11 identicon

Það er dagsatt, Vilhjálmur, við erum ekki eins, konur og karlar.  Við  mannkynið erum jú, hluti af náttúrunni, spendýr, hefurðu séð hrút annast afkvæmi sín ?  Það var slys að breyta lögunum frá 1929, þar sem móðurréttur var loksins viðurkenndur, og gerður sterkari en föðurréttur.  Áður gátu feður hótað að taka börnin af mæðrum, ef þær vildu skilnað.  En 50 árum seinna er lögum breytt, og síðan hafa forsjáldeilur aukist til milkilla muna, slæmt fyrir alla nema þá helst lögmenn.   

Vigdís Ágústdóttir (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 12:07

12 Smámynd: Sigurður F. Sigurðarson

Dögg, þú ert nú í fyrsta lagi ekki sú sem ættir að fara að verja málstað Sveins Andra, þú sem barðist gegn því að hún fengi að hafa börnin hjá sér.  Auðvitað ert þú ánægð með klúðrið sem hann gerði því það styrkti þinn málstað.  Lögmenn gera allt fyrir peninga og Sveinn hefur eflaust séð sínum hag borgið betur með því að sinna einhverjum sem betur er stæður en Borghildur.  Ef maður lendir í vandamálum þá eru stjörnulögfræðingar ekki réttu lögfræðingarnir fyrir hinn almenna borgara.  Þú stóðst ekki vel að vígi gegn Saga Capital, þar var einhverju klúðrað og þú varst ekki ánægð með það.  Ef Borghildur telur að sínum málum hafi verið klúðrað þá ættir þú að finna til samkenndar með henni.

Sigurður F. Sigurðarson, 12.8.2009 kl. 12:36

13 Smámynd: Ruth

Leitt að þú takir málstað Sveins Andra ....

Nú fæ ég á tilfinninguna að þið lögfræðingar standið saman og að það nái yfir ykkar siðferðiskennd....Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér....

Það er í fyrsta lagi klúður hjá Sveini  að byggja ekki lá 1.mgr.12gr.

með tilheyrandi rökstuðning og sönnunargögnum !

En þar sem hann gerði það ekki í byrjun eru hendur dómarans bundnar (ef ég hef skilið einkamálalögin rétt)

Ég hef ekki góða reynslu af honum sem réttargæslumanni og fékk eimmitt dóminn í sms....

Sé eftir að hafa treyst honum fyrir málinu mínu

Þegar Hæstiréttur hefur dæmt er lítið hægt að gera og því skiptir svo miklu máli að geta treyst að lögmaðurinn vinni af heilum hug og geri sitt besta 

Ruth, 12.8.2009 kl. 12:59

14 Smámynd: Ruth

Svo finnst mér það mjög alvarlegt  að skilja svona ung börn frá móður sinni

Ruth, 12.8.2009 kl. 13:16

15 Smámynd: Dögg Pálsdóttir

Vegna nokkurra athugasemda hér að framan. Ég er ekki að verja málstað lögmanns konunnar. Um það er hann fullfær sjálfur. Enda hef ég sagt í viðtalinu í Morgunblaðinu í dag að vissulega hefði verið betra fyrir konuna ef hún hefði notað sem málsástæðu 1. tölul. 12. gr. laga nr. 160/1995. Það sem ég er að segja í þessum pistli er að ég tel að jafnvel þó að því ákvæði hefði verið beitt sem málsástæðu þá hefði það engu breytt. Skilyrði þess heimildarákvæðis voru ekki fyrir hendi í þessu máli. Það verður að muna og hafa í huga að heimildirnar eru undantekningar sem alltaf eru túlkaðar mjög þröngt. Meginreglan er að foreldri sem gerir það sem móðirin gerði í þessu máli er dæmt til að fara tilbaka með börnin til að reka forsjármálið.

Dögg Pálsdóttir, 12.8.2009 kl. 13:24

16 Smámynd: Dögg Pálsdóttir

Gleymdi líka. Með pistli mínum er ég heldur ekki að bera blak af lögmanninum fyrir það að tilkynna konunni um niðurstöðuna með þeim hætti sem hann gerði.

Kjarni málsins er þessi: Konan fékk þennan dóm af því að hún fór úr landi með börnin með ólögmætum hætti. Þeirri staðreynd breytir enginn og það er staðreyndin sem byggt er á. Konan tók þá ákvörðun og dómurinn er afleiðing þeirrar ákvörðunar hennar. Enginn lögfræðingur, hversu klár sem hann er, hefði getað breytt þeirri grundvallarstaðreynd í málinu.

Þeir sem halda að lögmenn geti ráðið niðurstöðu mála hafa horft á of marga bandaríska lögfræðisjónvarpsþætti. Það eru málavextirnir og lögin sem ráða niðurstöðu mála fyrir dómi, svona að meginstefnu til.

Dögg Pálsdóttir, 12.8.2009 kl. 13:29

17 identicon

Það getur komið til þess að foreldri þarf að verja hagsmuni barna sinna í trássi við lög. Staðreynd er að fólk notar lög um umgengni og forsjá sem vopn, stundum gegn ímyndaða óvininum, forsjárforeldri, án þess að bera raunverulega umhyggju fyrir börnum sínum eða hafa í hyggju að sinna þeim skyldum sem foreldrahlutverkið krefst. Þessar lagagreinar sem um ræðir eru í besta falli rammi sem á að nota börnunum í hag en þetta munu alltaf vera matsatriðið og næmi á tengsl og væntumþykju til barnanna. Lögmennirnir Dögg Pálsdóttir og Sveinn Andri eru e.t.v. ekki besta fólkið í svona mikilvægum málum.

Jóhanna (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 13:50

18 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Dögg, aldrei hef ég séð LA Law eða Perry Mason brjóta á Haag-sáttmálanum, en hann er samt þverbrotin vikulega í County Courts, Supreme Courts, District Courts og Federal Courts um öll Bandaríkin. Bandaríkin treysta ekki foreldrum annars staðar, þaðan sem bandarískur foreldri (móðir) hefur flúið með börn sín. AF HVERJU ÆTTU ÍSLENDINGAR og ÍSLENSKIR DÓMSSTÓLAR AÐ TREYSTA BANDARÍSKUM FORELDRI eða DÓMSSTÓLUM?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 12.8.2009 kl. 14:00

19 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Ég ætla ekki að gera mér upp samúð í garð kynbróður míns, sem átti sig á því eftir meira en árs aðskilnað að hann ætti börn einhversstaðar.

Einhvernveginn tókst mönnum hér að koma Fisher karlinum undan refsivendi bandarískra yfirvalda og veita honum hæli hér á landi, hvað sem alþjóðalög og samningar sögðu. Ætti það að vera lágmarkskrafa að við gerðum slíkt hið sama fyrir okkar eigin landsmenn (karla og konur).

Emil Örn Kristjánsson, 12.8.2009 kl. 14:04

20 identicon

Auðvitað skiptir máli hvernig málið er borið upp fyrir dómstólnum, og ekki síður hvaða gögn eru lögð fram, hvaða ákvæði eru notuð og á hvaða hátt. Þetta sér lögfræðingurinn um og hefur þannig helling með það að gera hvernig málið fer.

"Þeir sem halda að lögmenn geti ráðið niðurstöðu mála hafa horft á of marga bandaríska lögfræðisjónvarpsþætti. Það eru málavextirnir og lögin sem ráða niðurstöðu mála fyrir dómi, svona að meginstefnu til." - Dögg Pálsdóttir

Ótrúlegt að lögfræðingur skuli láta hafa þetta eftir sér!

Halli (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 14:38

21 identicon

Dögg, var eitthvað í commenti mínu sem almenningur mátti ekki sjá?

Inda (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 15:51

22 identicon

Geta ungar konur dregið einhvern lærdóm af hennar sögu?

Hver er hennar lærdómur af þessu öllu?

Að milliríkja-sambönd geti verið varasöm?

Eða hvað?

Mr. Jón Scout Commander (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 16:31

23 identicon

Að skjóta sendiboðann?

Hefur sendiboðinn fengið tækifæri til að segja sína hlið á sínum málum?

Mr. Jón Scout Commander (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 16:50

24 identicon

Vilhjálmur,

"Karlmenn eru ekki, frá náttúrunnar hendi, eins færir um að sinna..."

Svo veitum við það. En er það ekki jafn vitlaus alhæfing og t.d. "Gyðingar eru ekki, frá náttúrunnar hendi, eins færir um að sinna..."

Mér finnst það.

Og svo mælir þú greinileg með að við eigum að brota á Hagg sáttmálanum af því að Bandaríkin gera það. Hvað með mannréttindum? Er það lika í lagi að brota á þeim af því að Iran gerir það? Ég bara spyr'

Jakob Andersen (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 16:55

25 Smámynd: Haukur Ingimarsson

allveg er þetta snilldar svar hjá þér dögg pálsdóttir

Þeir sem halda að lögmenn geti ráðið niðurstöðu mála hafa horft á of marga bandaríska lögfræðisjónvarpsþætti. Það eru málavextirnir og lögin sem ráða niðurstöðu mála fyrir dómi, svona að meginstefnu til. ef þetta lísir ekki akkúrat þér og hinum drullusokknum sem var í þessu máli þá veit ég ekki hvað við þig og svein andra er ekkert annað að segja en guð hjálpi ykkur það er sá eini sem mögulega gæti það

Haukur Ingimarsson, 12.8.2009 kl. 17:37

26 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Kjarni málsins er þessi: Konan fékk þennan dóm af því að hún fór úr landi með börnin með ólögmætum hætti. Þeirri staðreynd breytir enginn og það er staðreyndin sem byggt er á.

Annar kjarni málsins, sem þú horfir framhjá með ískulda, er sá að konan á ekki peninga til að fara til Ameríku og aðstæður eru þannig að hún mun næstum því örugglega lenda í þrenginum. Þessa hlið ''réttlætisins'' leiðir þú hjá þér. Sveinn Andri kvartar yfir því í Mbl í dag að hann sé gerður að blóraböggli. Það er ótrúlega löðurmannlegt. Því  eina manneskja sem mun lenda í vandræðum í þessu máli er konan sem vísað verður úr landi af miskunnarleysi eins og í skáldsögu eftir Dickens og vandræði hennar eru af því tagi sem eru eins og kaflaskil, eitthvað sem leggur tilveru manneskju í rústir. Það verður að segja það alveg eins og er að framkoma ykkar beggja opinberlega í þessu máli, þín og Sveins Andra er ykkur báðum til skammar. Og þið eigið nóg af peningum og njótið virðingar og skjóls í samfélaginu. Það er hreinlega andstyggilegt hvernig þið komið fram við konu sem stendur ein gegn tveimur þjóðríkjum og á yfir höfði sér ákæru frá FBI og verða hundelt af Interpol. Nýlega hefur komið fram gagnrýni á hugsunarhátt lögmanna, þeir hugsi ekkert um raunverulegt réttlæti heldur lagakæki en auðvitað fyrst og fremst eigin hag. Þetta mál, kæruleysi og virðingarleysi Sveins Andra og ískuldi þinn sem lætur sem málið sé ekki flóknara en það að dómurinn skipar konunni til útlanda en skeytir ekkert um það hvort konan sé fær um að fara eftir fyrirmælum hans. Þetta er hreinlega svívirðilegt. þetta er ekki réttlæti. Þetta er grimmd og mannvonska. En auðvitað lögleg og fín. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.8.2009 kl. 17:43

27 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta mál rennir sem sagt stoðum undir þessa gagnryni á lögmenn sem komið hefur fram, vantaði þarna í stninguna hjá mér.

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.8.2009 kl. 17:46

28 Smámynd: Einhver Ágúst

Þessi umræða er orðinn tóm þvæla og enn einu sinni sé ég eftir að stíga fæti niður á röngum stað í forarfeninu sem bloggið getur verið.

 En að ég hati konur eða vilji "reka samlanda minn" til USA, er bara of heimskuleg og innantóm ásökun til að ég geti tekið það nærri mér, ég er enginn Ómar Valdimarsson, þú mátt halda það sem þú vilt Vilhjálmur.

Staðreyndirnar eru bara að við vitum ekkert um þetta mál nema hlið örvæntingarfullrar móður, við höfum ekki heyrt hlið föðurins né barnanna í raun og veru, ég vil trúa því að íslenska réttarkerfið sé frekar sanngjarnt og að faðir barnanna eigi líka sinn rétt,  þrátt fyrir að vera svo óheppinn að vera frá USA.

Ég persónulega finn mest til með börnunum......

Vilhjálmur mælir svo illmennsku karlmann eftur fangelsisvist og hlutfalli þeirra í glæpum, og gerir á sinn afar grunnhyggna hátt ráð fyrir að það sé beintenging á milli illsku og afbrota, það er langt mál að ræða og mjg skrítið að blanda við þetta mál.

Varðandi hæfileika okkar strákanna með börnin þá er það alltaf að lagast Villi minn, hér er einmitt í heimsókn hjá mér familía frá Hong Kong þarsem karlinn er heimavinnandi með lítið barn þeirra hjóna. Svo þetta er nú allt að koma hjá okkur körlunum.  Ég tel nú að þeir allra verstu séu nú barasta ekkert að hafa fyrir því ða reyn aað fá börnin sín aftur, það er svosem nóg um það, en þessi maður er þó að reyna af einhverri ástæðu að fá umgengni við börnin sín. Ég tek þa fram aftur að við vitum ekki báðar hliðar í málinu enn, og ég bara von aþað allra besta fyrir Borghildar hönd , föðurins og barnanna sérstaklega.

Einhver Ágúst, 12.8.2009 kl. 17:56

29 Smámynd: Haukur Ingimarsson

konan hafði General Power of Attorney sem er fullt og ótakmarkað umboð til að fara með börnin hvert sem er. þessu er ekki breitt fyr en konan er komin til landsins. og þá í special power of attorney. en dómaranum datt það snjallræði í hug að kalla þetta misritun .

Haukur Ingimarsson, 12.8.2009 kl. 18:45

30 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Mér finnst mjög slæmt að Dögg Pálsdóttir sæti aðkasti fyrir vörn sína fyrir "hina" hliðina á þessu fjölskyldumáli.  Enn verra að hún þurfi að útskýra lögin og málstað síns umbjóðanda hér á blogginu. 

Mogginn ber nokkra sök, að gera dæmigert barnaforræðismál við skilnað foreldranna að Lúkasarmáli.  Ef blaðið færi að eins í öllum forræðisdeilum hér á landi  gæti það breytt um nafn og kallað sig Barnablað Moggans - slíkur er fjöldinn slíkra mála hér á landi. 

Kolbrún Hilmars, 12.8.2009 kl. 18:53

31 Smámynd: Sjóveikur

Endilega komið þessu til skila til sem flestra gott fólk Devil við á dekkinu erum búin að fá nóg Sick´

http://www.youtube.com/watch?v=vvs5kOZ-VKw

Besta kveðja frá www.icelandicfury.com munum nota þann stuðning sem kemur inn fyrir niðurhal á tónlist til að skila af okkur "rannsóknum og reynslu" á ævintýrinu "Útgerð á Íslandi" í samanburði við aðrar þjóðir og meðferð hráefnis frá fiskveiðum Íslenskra sjómanna/kvenna Crying

Byltingin étur börnin sín ! Lifi Byltingin !!!

sjoveikur

Sjóveikur, 12.8.2009 kl. 21:14

32 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Kolbrún: Hvað er að vera með aðkast? Það sem ég segi hér er sannleikur og hvorki aðkast né þvæla. Grundvallarpunkutuirnn er þessi: Það er ekki hægt að líta undan eins og ekkert sé þegar dómur dæmir manneskju til einhvers sem hún er ekki fær um að uppfylla. Að fara til útlanda án þess að geta það fjárhagslega. Það leiðir af þessu að réttlætið er fyrst og fremst fyrir þá sem eiga peninga. Það er ekki aðkast og engin þvæla að halda þessu fram.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.8.2009 kl. 17:02

33 Smámynd: brahim

Vil endurtaka það sem ég commentaði í fyrri færslu Daggar...

Ég myndi gjarnan vilja fá svar frá Dögg sem móður en ekki lögfræðings...

HVAÐ HEFÐIR ÞÚ GERT EF ÞÚ HEFÐIR VERIÐ Í SÖMU SPORUM OG ÞESSI UNGA MÓÐIR ?...

MEÐ ENGAN STUÐNING FRÁ BARNSFÖÐUR OG VITANDI AÐ ÞÉR YRÐI VÍSAÐ ÚR LANDI EFTIR AÐ BÖRNIN HEFÐU VERIÐ TEKIN FRÁ ÞÉR.

Svo er það tvennt annað: 1) Las það einhversstaðar að börnin væru ekki fædd í BNA...heldur í Þýskalandi (eldra barnið) og á Íslandi ?

2) Skilst einnig að það hafi ekki verið amman sem sótti um forræðið fyrir hönd föðurins nú eða sjálfa sig (hvað segir það þá um föðurinn ef hann hefur ekki haft rænu eða áhuga á að gera það sjálfur)

Endilega leiðréttið mig ef ég fer rangt með.

brahim, 13.8.2009 kl. 17:14

34 Smámynd: brahim

Skilst að það hafi veri amman....átti þetta að vera

brahim, 13.8.2009 kl. 17:24

35 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sigurður Þór, ekki er ég ósammála þér um neitt af því sem þú segir nema hvað varðar aðkomu Daggar að málinu.  Hún var EKKI verjandi konunnar.

Kolbrún Hilmars, 14.8.2009 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 391642

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband