Leita í fréttum mbl.is

Líffæragjafir

Það er athyglisverð frétt á bls. 2 í Fréttablaðinu í dag. Þar er fjallað um vaxandi þörf fyrir líffæri og áhugaleysi landans á því að gefa líffæri. 

Fyrir liðlega 15 árum voru sett lög um brottnám líffæra (nr. 16/1991). Samhliða voru sett lög um ákvörðun dauða (nr. 15/1991). Þau síðarnefndu rýmkuðu dauðaskilgreininguna til að liðka fyrir líffæragjöf. Þar var í fyrsta sinn lögfest hér á landi að telja megi á einstakling látinn þegar öll heilastarfsemi hans er hætt. Áður miðaðist dauðaskilgreiningin við stöðvun hjartsláttar og öndunar.

Ég kom að undirbúningi þessara tveggja laga. Ég man það vel að við höfðum áhyggjur af því að efnisreglur þessara tveggja lagafrumvarpa myndu valda miklum deilum, líkt og gerst hafði í flestum nágrannalöndum okkar, sem á sama tíma voru að gera sambærilegar breytingar. 

Skemmst er frá því að segja að um þessi viðkvæmu mál, dauðaskilgreininguna og brottnám líffæra, varð nánast engin umræða, hvorki á Alþingi né úti í samfélaginu. 

Ég hef haldið því fram að skýring þessa væri sú að skömmu áður hafði ungur Íslendingur gengist undir hjarta- og lungnaígræðslu. Í fjölmiðlum var mjög mikið fjallað um þennan líffæraþega, sem ella hefði átt stutt eftir, hefði hann ekki gengist undir líffæraígræðsluna. Almenningur skildi þannig algerlega samhengið á milli rýmkunar á dauðaskilgreiningunni og líffæraígræðslu og var greinilega fylgjandi því að gefa með þessum hætti þeim einstaklingum sem þurfa á líffæragjöf að halda tækifæri til að geta átt kost á líffærum og þar með lengra lífi.

Það kemur mér því á óvart, það sem fram kemur í áðurnefndri frétt í Fréttablaðinu, að fáir Íslendingar skrái sig sem mögulega líffæragjafa.

Ég fullyrði að meginástæða þess sé sú að hér vanti meiri almenna umræðu og kynningu á líffæragjöf. Það væri verðugt verkefni fyrir fjölmiðla að beita sér fyrir henni. 

Síðan er athyglisverð ábendingin um að breyta þurfi lögunum um brottnám líffæra þannig að ganga megi út frá ætluðu samþykki þegar líffæragjöf er annars vegar, þ.e. að einstaklingur vilji gefa líffæri, séu þau á annað borð tæk til líffæraígræðslu. Hafi einstaklingur sterka skoðun gegn líffæraígræðslu verði hann að láta þann vilja skýrt í ljós. Eins og löggjöfin er úr garði gerð núna er gengið út frá ætlaðri neitun, þ.e. að einstaklingur sé á móti því að líffæri úr honum sé notuð til líffæragjafar. Þessu þarf greinilega að breyta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mummi Guð

Þetta mál er mér mjög kært þar sem sonur minn gekkst undir lifrarígræðslu í maí 2005 þá 6 mánaðar gamall. Svo löng bið var eftir gjafalifur að kona mín þurfti að gefa honum hlut af sinni lifur. Mér finnst sorglegt að hugsa til þess hversu fáir eru tilbúnir að gefa líffæri úr sér eða sínum nánustu við andlát.

Ég hef aldrei legið á minni skoðun um líffæragjafir. Ég hef verið að hvetja fólk til að taka afstöðu með eða á móti líffæragjöf. Takið ákvörðun sem fyrst og ef sá dagur kemur að þið þurfið að standa frammi fyrir því hvort þið viljið gefa líffæri eða ekki, þá er alltaf hægt að breyta ákvörðuninni. En það verður auðveldara að taka ákvörðun.

Ég hef oft lent í að rökræða við foreldra barna og þau segjast oftast nær að þau myndu ekki vilja gefa líffæri úr sínu barni og svarið sem ég kem með og fær fólkið oftast til að hugsa aftur er, en ef barnið þitt þarf að fá nýtt líffæri, munt þú þiggja líffæri? Til dæmis þá getur 10 ára barn sem þarf að fá nýtt hjarta, eingöngu fengið hjarta úr jafnaldra sínum.

Ég er ekkert sérlega hrifinn af Lífsskránni sem Landlæknisembættið sér um, ég held að það væri lang viturlegast að hafa upplýsingar um hvort fólk sé tilbúið að gefa líffæri í ökuskírteinum. Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Ég nefni sérstaklega þegar slys verður þá er yfirleitt eitt fyrsta verk að athuga hver sá slasaði er og það er gert með því að athuga skílríki og vel flestir bera ökuskírteini á sér og þá fá sjúkraflutningamenn strax upplýsingar hvort hinn látni sé hugsanlegur líffæragjafi.

Mummi Guð, 3.7.2007 kl. 23:07

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Ég bloggaði einmitt um þetta mál um daginn og treysti því að þú sem varaþingmaður leggir til breytingar í þessa veru.

Herdís Sigurjónsdóttir, 4.7.2007 kl. 20:10

3 identicon

Ég held að aðalástæðan fyrir hversu fáir líffæragjafar eru skráðir sé sú að það vantar einfaldlega að fólk sé spurt þessarar spurningar. Sjálf er ég ekki skráður sem líffæragjafi og það er einfaldlega vegna framtaksleysis þar sem ég þyrfti að byrja á því að afla mér upplýsinga um hvernig ég ætti að fara að því. Þegar svo margt annað glepur þá gleymist þetta í dagsins önn.

Í Bandaríkjunum, a.m.k. í þeim fylkjum sem ég bjó í þegar ég var í námi, var það "standard" spurning þegar fólk sótti um ökuskírteini að tékka hvort það vildi vera líffæragjafar. Ég endurnýjaði ökuskírteinið mitt fyrir ári síðan hér á Íslandi. Þá var ég lítið með hugann við þetta efni, en ef hefði verið hnippt í mig og ég spurð þessarar spurningar, hefði ég umsvifalaust svarað játandi. 

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 20:41

4 identicon

Mér sýnist að fólk hérna sé almennt mjög jákvætt á að gefa úr sér líffærin.  Er þá ekki lausnin bara að ganga í hús og biðja fólk að undirrita líffæragjafapappíra ?

Það ætti ekki að taka nema viku að hundraðfalda líffæragjafalista Íslendinga.  

Fransman (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 10:32

5 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Það er til skammar að við séum aðeins þiggjendur á líffærum erlendis frá en getum ekki greitt í sömu mynt. Ég hef haldið því fram að breyting á lögunum þannig að allir séu gjafar sem ekki hafi beinlínis neitað sé nauðsynleg ef við ætlum að stunda slíkar lækningar. Ef ég væri með líffæri sem hægt væri að nota í varahluti að mér gengnum myndi ég fagna slíku. Fólk tengt mér á líf sitt að launa að kostur hefur verið á slíkum líffærum.

Jón Sigurgeirsson , 7.7.2007 kl. 01:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband