Leita í fréttum mbl.is

Þarft átak

GoRed verkefnið er þarft átak. Í því felst að vekja athygli kvenna á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma og hvernig draga megi úr líkum á sjúkdómunum. Fyrir liðlega áratug stýrði ég vinnuhópi á vegum heilbrigðisráðuneytisins um heilsufar kvenna. Vinnuhópurinn skilaði ítarlegu nefndaráliti. Þar kemur m.a. fram að konur hafa annað einkennamynstur en karlar þegar kemur að kransæðasjúkdómum. Einkenni kvenna eru oft vægari og óljósari. Konur sem fá kransæðastíflu skila sér verr út á vinnumarkaðinn aftur en karlar og þátttaka kvenna og árangur af endurhæfingu er lakari en hjá körlunum.

Í þessari vinnu okkar kom líka fram að vísbendingar væru um að konur byggju að nokkru leyti við lakara heilsufar en karlar. Þó nota konur heilbrigðisþjónustu meira en karlar, þær eru sendar í fleiri rannsóknir, þær eru oftar sjúkdómsgreindar og oftar settar í meðferð auk þess sem konur fá meira af lyfjum en karlar. Þrátt fyrir þetta var það niðurstaða nefndarinnar að úrlausnir sem konur fengju hjá heilbrigðiskerfinu væru ekki sambærilegar við þær úrlausnir sem karlar fengju

Nú eru þessar niðurstöður frá því fyrir u.þ.b. áratug síðan og vonandi hefur á því árabili horfið þessi munur sem var á þjónustu við karla og konur þegar að heilbrigðisþjónustu kemur.

En GoRed átakið bendir til að enn megi gera betur. 


mbl.is Landspítalinn lýstur upp í rauðum lit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátt sem ...

kemur á óvart í þessu. Forsætisráðherra hefur lengi verið meðal vinsælustu stjórnmálamanna og meðal þeirra stjórnmálamanna sem kjósendur bera til mest traust. Það leiðir því nánast af sjálfu sér að hún hlýtur að halda því sæti á hveitibrauðsdögum ríkisstjórnar þeirrar sem hún leiðir. Það kemur heldur ekki á óvart að hinir ópólitísku fagráðherrar njóti trausts. Þau eru fagfólk og koma inn í ríkisstjórnina sem slík. Skárra væri það ef til þeirra væri ekki borið traust.

Það er kannski einna helst afstaðan til forseta Íslands sem vekur athygli. Það er greinilegt að ekki eru allir jafn sáttir við hann nú og oft áður.


mbl.is Flestir bera traust til Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitthvað nýtt?

Bágt er að sjá hvað er nýtt í þessum breytingum heilbrigðisráðherra. Ég veit ekki betur en að fyrir margt löngu hafi verið ákveðið að læknar skyldu ætíð ávísa ódýrasta lyfinu. Ég held að þau tilmæli hafi litlu skilað. Það er um árabil búið að reyna að efla kostnaðarvitund heilbrigðisstétta, eins og heilbrigðisráðherra vill gera, með þeim árangri sem raun ber vitni.

Ef ég skil nýju reglur heilbrigðisráðherra rétt þá á eingöngu að taka þátt í lyfjakostnaði ef ódýrasta lyfinu er ávísað. Ef læknir telur nauðsynlegt að ávísa dýrara lyfi þá þarf sjúklingurinn sérstaka undanþágu til greiðsluþátttöku. Ég sé ekki betur en að þetta þýði tóm vandræði og leiðindi fyrir sjúklinga, í þeim tilvikum sem læknar telja ódýrasta lyfið ekki henta meðferð þeirra.

Í fljótu bragði er því ekki annað séð en að reglugerðin tryggi minnkaðan lyfjakostnað fyrir ýmsa hópa og þar með aukinn lyfjakostnað fyrir sjúkratryggingar. Sparnaðurinn upp á milljarð virðist hins vegar einhver brella sem óvíst er að skili nokkrum sparnaði þegar upp er staðið.

En þetta kemur í ljós þegar reglugerðin sjálf verður birt, en hún er ekki birt með fréttatilkynningunni. Hafi ég rangt fyrir mér um það það hvað heilbrigðisráðherra virðist vera að gera mun ég að sjálfsögðu leiðrétta þessa færslu.


mbl.is Lyfjaútgjöld lækka um milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með ólíkindum

Ef satt er að jafnvel átta drengir komi til greina sem faðir barnsins þá vekur furðu að því hafi verið slegið upp að þessi 13 ára drengur eigi barnið. Ef marka má fréttina hefur ekki verið gengið úr skugga um það að svo sé í raun. Málið hefur fengið mikla umfjöllun og gott ef ekki hefur komið fram að foreldrunum hafi verið greitt fyrir fjölmiðlaviðtöl. Það hvarflar því að manni að móðirin hafi tilgreint sem föður þann drengjanna sem yngstur er til að ná sem mestri fjölmiðlaathygli. Og það hefur svo sannarlega tekist. Ungur aldur þessa meinta föður hefur vakið heimsathygli. Og nú er kannski aðalfréttin að hann sé ekki faðirinn eftir allt saman.
mbl.is Hver er pabbinn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örugglega hárrétt ...

hjá Vilhjálmi Bjarnasyni að það áfall sem íslenska þjóðin varð fyrir í byrjun október 2008 hratt af stað ferli sem líkja má við sorgarferli. Margir hafa tapað miklum fjármunum, ævisparnaði í sumum tilvikum. Væntingar hafa brostið. Erfitt hefur verið að sjá og upplifa hversu illa orðspor Íslands hefur farið í útlöndum. Við sem höfum alltaf verið svo stolt af því að vera Íslendingar. Dag eftir dag lesum við í alþjóðapressunni greinar þar sem gert er grín að okkur og því sem hér er að gerast á pólitískum vettvangi.

Auðvitað munum við hrista þetta af okkur. Þjóðin mun rísa upp á ný, breytt og örugglega betri. Af öllu því sem gerst hefur þarf að læra svo tryggt sé að ekkert þessu líkt geti nokkurn tímann gerst aftur.


mbl.is Aldrei of blönk til að hugsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningur bíður ...

Mér fannst þörf ádrepan sem Ragnheiður Ólafsdóttir varaþingmaður Frjálslynda flokksins gaf þingmönnum í vikunni. Margar uppákomur upp á síðkastið í þinginu eru því síst til sóma. Það er greinilegt að þingmenn eru mikið að hugsa um prófkjörin sem framundan eru og nota ræðustól Alþingis til að vekja athygli á sér.

Skrítið...

að kalla það "að flýja til fjalla" að ákveða að hafa flokksþing í Stykkishólmi.
mbl.is Gagnrýna flokksforystuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirlitsstofnanir brugðust

Það er greinilega víðar en hér sem fjármálaeftirlitið brást.  Eftirlitsstofnunum er ætlað að tryggja að starfsemi þeirra sem þær eiga að hafa eftirlit með sé í samræmi við lög og reglur. Eftirlitsstofnanir eiga að tryggja trúverðugleika þeirrar starfsemi sem þær eiga að hafa eftirlit með. Eftirlitsstofnunum á fjármálamarkaði er ætlað að gefa leikendum á þeim markaði, ekki síst fjárfestum, öryggi fyrir því að óhætt sé að fjárfesta í markaðnum.

Það er því afleitt þegar eftirlitsstofnanir bregðast og í ljós kemur að verra var að hafa þær vegna þess falska öryggis sem þær gáfu. Eitt af því sem þarf að meta í eftirleik hrunsins er af hverju fjármálaeftirlitið hér brást. Var regluverkið sem fjármálaeftirlitið starfaði eftir ónógt eða var það framkvæmdin á því sem mistókst svona gersamlega?

Við skulum ekki gleyma því að 14. ágúst 2008 birti FME á heimasíðu sinni frétt um það að íslensku bankarnir stæðust álagspróf stofnunarinnar. Þáverandi forstjóri FME sagði um niðurstöðuna: J"Niðurstöður álagsprófsins sýna að eiginfjárstaða bankanna er sterk og getur þolað töluverð áföll. ..." 

Tæpum 8 vikum seinna voru þrír af fjórum íslensku viðskiptabankanna komnir í þrot.


mbl.is Segir breska fjármálaeftirlitið hafa brugðist gersamlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýst málið ekki fyrst um ?

Áður en farið er að ræða hvenær kjósa eigi til stjórnlagaþings hlýtur að þurfa að ákveða hvort við viljum stjórnlagaþing. Ég hef áður á þessari bloggsíðu lýst efasemdum um að kjósa til stjórnlagaþings. Samkvæmt því sem fram hefur komið mun kostnaður við stjórnlagaþing hlaupa á hundruðum milljóna króna. Ég held að á þessum tímum sé þeim fjármunum mun betur varið í ýmislegt annað, gagnlegra fyrir land og þjóð.

Ekki ætla ég að gera lítið á nauðsyn þess að endurskoða stjórnarskrána. Það er löngu tímabært og hefur raunar verið eilífðarverkefni frá lýðveldisstofnun. En það hlýtur að mega gera með öðrum og hagkvæmari hætti en með stjórnlagaþingi. Ný ríkisstjórn hefur þegar sett á laggirnar vinnuhóp til þessa starfs. Má ekki láta þennan hóp vinna hratt og síðan efna til opinna funda um allt land um þær tillögur sem vinnuhópurinn kemur fram með? Með því fæst aðkoma almennings að breytingum á stjórnarskránni.


mbl.is Kjósa á til stjórnlagaþings samhliða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvað með það?

Vonandi, seljendanna vegna, er fasteignamarkaðurinn í New York ekki eins botnfrosinn og fasteignamarkaðurinn hér á Íslandi.


Hann langar ...

E.t.v. á að formaður Samfylkingarinnar að axla ábyrgð á bankahruninu og hætta sem formaður. Ég hefði þó haldið að heilsufar gæti ekki síður spilað inn í ákvörðun formannsins um áframhaldandi formennsku.

En eigi formaðurinn að axla ábyrgð vegna bankahrunsins, hvað þá um aðra þá sem gegndu fyrir Samfylkinguna ráðherraembætti í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar? Eiga þeir ekki, og þar á meðal núverandi forsætisráðherra, að axla líka ábyrgð.

Þess vegna vekur sérstaka athygli að fv. formaður Alþýðuflokksins leggur til að hans fyrrum fjandvinur, núverandi forsætisráðherra, verði formaður Samfylkingarinnar. Bátt er að trúa að nokkur alvara liggi að baki þeirri tillögu hans.

Það sýnist augljóst hvað liggur að baki tillögu fv. formanns Alþýðuflokksins enda býður hann sjálfan sig fram sem varakost í formennskuna. Hann vill verða formaður og hann vill komast í pólitík á nýjan leik. 

Í Alþýðuflokknum var illa komið fram við sitjandi formenn hverju sinni og oftast vaðið í þá þegar til formannskjörs kom. Ekki verður betur séð en að fv. formaður Alþýðuflokksins sé með tillögu sinni að innleiða sömu vinnubrögð gagnvart sitjandi formanni í Samfylkingunni.


mbl.is Jón vill að Ingibjörg víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhugsunarefni

Þessi dómur Hæstaréttar er umhugsunarefni m.a. fyrir þá sök að málið er dæmt af þremur dómurum og með þeim næst ekki samstaða um niðurstöðuna. 

Einn dómari, sem er settur hæstaréttardómari um þessar mundir, en er að öðru jöfnu prófessor í skaðabótarétti við lagadeild Háskóla Íslands, vildi sýkna, þ.e. staðfesta héraðsdóm. Héraðsdómur var fjölskipaður, þrír lögfræðingar, þar af einn sem er landsþekktur kylfingur.

Niðurstaðan er því sú að í héraði töldu þrír dómarar að sýkna ætti vegna kröfu um viðurkenningar á bótaábyrgð. Í Hæstarétti er dómnum snúið við, tveir dómarar telja að bótaskyldu eigi að viðurkenna en einn vill staðfesta héraðsdóminn. Samtals eru því fjórir dómarar á því að enga bótaskyldu eigi að viðurkenna en tveir vilja viðurkenna bótaskylduna. Sú niðurstaða stendur.

Ég velti fyrir mér af hverju ekki var ákveðið að málið færi í fimm manna dóm í Hæstarétti til að tryggja að staða af þessu tagi kæmi ekki upp.


mbl.is Kylfingur bótaskyldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband