Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Jákvætt skref

Það er gott að heyra að setja eigi á laggirnar hóp til að skoða staðgöngumæðrun. Þegar lögin um tæknifrjóvgun voru lögfest fyrir liðlega áratug var staðgöngumæðrun bönnuð. Síðan hefur margt breyst. Lönd, sem áður bönnuðu staðgöngumæðrun, leyfa hana undir ströngum skilmálum. Það er sjálfsagt, eðlilegt og nauðsynlegt að löggjöf okkar fylgi þróun á þessu sviði. Með staðgöngumæðrun opnast enn fleiri pörum möguleiki á því að eignast börn, gagnkynhneigðum sem samkynhneigðum. Við höfum gert breytingar á löggjöf okkar um tæknifrjóvgun í þá veru að segja það mannréttindi að eignast barn. Upphaflega var litið svo á að tæknifrjóvgun væri meðferð við ófrjósemi. Eftir að það skref var stigið, að opna tæknifrjóvgunarmeðferð fyrir samkynhneigðum konum hlaut það einungis að vera tímaspursmál hvenær við tækjum það næsta, þ.e. að leyfa staðgöngumæðrunina. Umræðan á Alþingi og ummæli heilbrigðisráðherra benda til undirbúnings að því. Því ber að fagna.

Um staðgöngumæðrun bloggaði ég í apríl 2007 og má lesa þá færslu hér.


mbl.is Rætt verði um leg að láni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óklókt?

Einhvern veginn finnst mér það ekki sýna mikinn samningsvilja að höfða mál gegn viðsemjandanum. Í Morgunblaðinu í dag er skýrt frá nýrri könnun á þróun í launamun kynjanna. Niðurstaðan sýnir bakslag í þeirri þróun, þ.e. að munurinn hafi aukist og meira hjá ríkinu en VR félögum milli áranna 2007 og 2008. Í stjórnarsáttmálanum eru skýr fyrirheit um aðgerðir varðandi kynbundinn launamun og hvað gera skuli. Einhvers staðar verður að byrja. Er ekki tilvalið að sýna í verki að alvara fylgdi fyrirheitum stjórnarsáttmálans og gefa samninganefnd ríkisins breytt fyrirmæli svo ljósmæðradeiluna megi leysa? Nú er lag að sýna viljann í verki.


mbl.is Ljósmæður: Uppsagnir löglegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverður fundur

Það voru fróðleg framsöguerindi oddvita meirihlutaflokkanna í Reykjavík í Valhöll í hádeginu. Sérstaklega fannst mér áhugavert að heyra lýsingar oddvita Framsóknarflokksins á Tjarnarkvartettssamstarfinu - 100 daga samstarfinu. Þar birtist aðeins önnur mynd en hingað til hefur verið reynt að mála af því samstarfi. En oddviti Framsóknarflokksins sagði líka að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefði í raun verið eina starfhæfa meirihlutasamstarfið í þeirri stöðu sem mál eru nú í borginni. Sjálfsagt er það rétt mat. Það er greinilega góð pólitísk kemistría milli oddvitanna og ekki annað að heyra en að bæði ætli að láta þetta samstarf standa út kjörtímabilið. Fyrirspurnir báru með sér að skipulagsmál eru ofarlega í hugum borgarbúa. Þar er verk að vinna fyrir nýjan meirihluta. Fyrir nýjan meirihluta er mikilvægast að endurvinna með verkum sínum traust borgarbúa. En ég saknaði þess að sjá ekki aðra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á fundinum.


mbl.is Fjármálin í forgang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennan eykst

Ég bloggaði um daginn hvort það hafi verið klók hjá McCain að velja Palin sem varaforsetaefni. Nýjustu skoðanakannanir benda til að a.m.k. ennþá sé framboð McCain að hagnast meira á því vali. Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum verða 4. nóvember. Þangað til eru nákvæmlega 8 vikur. Vika er langur tími í pólitík, hvað þá 8 vikur. En eins og staðan er núna bendir ýmislegt til þess að Obama hefði kannski átt að skoða betur að velja Hillary sem sitt varaforsetaefni.
mbl.is Hvítar konur styðja McCain í auknum mæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mismyndarlegir

Gott að fá skýringu á öllum þessum mismyndarlegu, pilsklæddu karlmönnum sem hafa verið á sveimi í miðbænum í gær og í dag.
mbl.is Innrásin frá Skotlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölur og tölfræði

Ekki ætla ég með neinum hætti að draga úr alvarleika þessarar fréttar. Hvert dauðsfall við vinnu er einu of mikið. En í fréttinni virðist þó vera villa - því skv. dreifibréfinu sem vitnað er til þá eru það 13 einstaklingar sem hafa látist í vinnuslysum á síðustu tveimur og hálfu ári en ekki 23 samanborið við 10 næstu fimm árin á undan.

Það sem mér finnst þó vanta í dreifibréfið frá Vinnueftirlitinu er að setja þessar upplýsingar um fjölda dánarslysa við vinnu í betra samhengi við fjölda starfsmanna sem unnu við bygginga- og mannvirkjagerð á þessum sömu tímabilum. Er fjölgun slysanna líka hlutfallsleg - eða einvörðungu töluleg? Sömuleiðis hefði verið gagnlegt og til skýringarauka að sjá hvort breyting hafi orðið á fjölda útlendinga í vinnu við bygginga- og mannvirkjagerð á þessu tímabili. En það er örugglega rétt sem fram kemur í dreifibréfinu að forvarnar- og öryggisstarf á vinnustöðum má vera betra. Og allir, bæði atvinnurekendur og starfsmenn þurfa sífellt að vera vakandi gagnvart forvarnar- og öryggismálum á vinnustað.

Fyrir þá sem vilja skoða nánar fréttatilkynningu Vinnueftirlitsins og dreifibréfið til til er vísað í fréttinni, þá er hægt að nálgast hvorutveggja hér.


mbl.is Dauðaslysum á vinnustöðum fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greinilega

tókst McCain að gera meira úr flokksþinginu og vali á varaforsetaefni en Obama miðað við þessa nýjustu könnun. Eiginlega vill maður ekki trúa því að McCain eigi möguleika á því að vinna. Ekki heldur með Pralin sér við hlið. Það verður spennandi að fylgjast með baráttunni næstu vikurnar. Þetta er greinilega hnífjafnt.
mbl.is McCain nær forskoti á Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fló á skinni

Ég sá Fló á skinni í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi, í troðfullu húsi. Óborganleg skemmtun. Ég hef ekki hlegið svona mikið, lengi. Þýðing og staðfæring Gísla Rúnars er tær snilld og einstaklega vel heppnuð.

Leikararnir eru hverjum öðrum betri, valinn maður í hverri rullu. En mér fannst sérstaklega gaman að sjá nú á fjölum Borgarleikhússins tvo unga leikara, þau Guðjón Davíð Karlsson, sem fer með aðalhlutverkið í stykkinu og Kristínu Þóru Haraldsdóttur. Bæði hafa þau verið upp á síðkastið hjá Leikfélagi Akureyrar. Þau þekki ég  frá því að þau, ung að árum, stofnuðu ásamt fleiri börnum, barnakór Hallgrímskirkju.  Þau fetuðu leiklistarbrautina og eru greinilega bæði afbragðs leikarar. Kristín Þóra leikur sitt hlutverk með stakri prýði og Gói er eiginlega bara ólýsanlega góður í þeim tveimur hlutverkum sem hann fer með og sem ruglið m.a. snýst um. Það verður spennandi að fylgjast með þeim í fleiri verkum á næstunni.

Leikhúsveturinn hjá Borgarleikhúsinu fer vel af stað með þessum sprenghlægilega farsa og lofar góðu um framhaldið. Mér skilst að uppselt sé á tuttugu fyrstu sýningarnar af Flónni. Ég efast um að nokkuð stykki hafi fengið slíkt fljúgandi start - en Flóin var auðvitað frumsýnd fyrir norðan í byrjun árs og naut þar geysilegra vinsælda. Ég hvet alla eindregið til að láta þessa góðu kvöldskemmtun ekki framhjá sér fara.


Dómar í bráðabirgðaforsjármálum

Fyrir réttu ári var kveðinn upp í Hæstarétti dómur í bráðabirgðaforsjármáli sem gaf manni von um það að ákveðin tímamót hefðu náðst í slíkum dómum. Dómurinn er hér. Þar voru málavextir þeir að annað foreldra ætlaði að flytja út á land með börnin. Hæstiréttur taldi að meðan forsjármál aðila væri rekið væri óeðliegt að raska börnunum úr því umhverfi sem þau væru vön. Niðurstaðan var því sú að börnin skyldu vera áfram í sínu gamla umhverfi meðan könnuð væru tengsl foreldra og barna.

Með þessum dómi gaf Hæstiréttur vísbendingu um að í bráðabirgðaforsjármálum ætti ekki að taka ákvarðanir sem í raun ákvörðuðu niðurstöðu í heildarmálinu.

Það eru mér því vonbrigði að í gær var kveðinn upp í Hæstarétti dómur sem gengur þvert á dóminn frá því í fyrra. Málavextir eru algerlega sambærilegir. Foreldri vill flytja út á land með barn. Hitt foreldrið verður áfram þar sem barnið er hagvant. Héraðsdómur féllst á að það væri röskun fyrir barnið að fara út á landi og hefur án efa haft til hliðsjónar dómafordæmið sem skapaðist með dómi Hæstaréttar í ágúst í fyrra. En nú bregður svo við að með dómi Hæstaréttar í gær er þessu snúið við. Í dómnum, sem er hér er ekki fallist á að það sé röskun á högum barnsins að flytjast af höfuðborgarsvæðinu.

Athygli vekur að það eru ekki sömu þrír dómararnir sem dæmdu í málinu í fyrra og í málinu nú. Skyldi það að einhverju leyti skýra þessa þversagnakenndu dóma? Spyr sá sem ekki veit. En tímamótin sem ég hélt að væru komin í þessum málum reyndust tálsýn. Því miður.


Gott hjá Obama

að svara svona afdráttarlaust að fjölskyldum frambjóðenda skuli haldið utan við kosningabaráttuna. Og það er slæmt að sjá að það skuli vera konur sem stíga fram og segjast ekki sjá hvernig 5 barna móðir, með ungabarn með Downs-heilkenni og vanfæra táningsdóttur, geti axlað svo krefjandi og viðamikið starf sem varaforsetaembættið er. Það hefur komið fram að Palin er gift - þannig að börnin hennar eiga föður. Er ekki Obama faðir tveggja ungra barna? Ekki minnist ég þess að hafa séð að einhver dragi hæfni hans til að gegna forsetaembættinu í efa af þeirri ástæðu. Það er slæm hlið af Bandaríkjunum sem dregin er fram í þessari frétt.
mbl.is Uppljóstranir um Söruh Palin valda óróa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 392324

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband