Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Jafnréttismál.

Á þriðjudag kynnti félagsmálaráðherra í ríkisstjórn ákvarðanir sínar og fjármálaráðherra um að skipa þrjá starfshópa til að fylgja eftir markmiðum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á sviði jafnréttismála. Þar er megináhersla lögð á markvissa vinnu gegn kynbundnum launamun og endurmat á kjörum kvenna hjá hinu opinbera.

Vegna þessa mun félagsmálaráðherra skipa fimm manna starfshóp sem á m.a. að leita leiða til að eyða óútskýrðum launamun kynjanna á almennum vinnumarkaði og að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og stjórnum stofnana og fyrirtækja. Félagsmálaráðherra mun einnig skipa sjö manna ráðgjafarhóp sem verður ráðherra til ráðgjafar um framvindu verkefnisins og mun vinna eða láta vinna mat á raunverulegum árangri aðgerða. Þá mun fjármálaráðherra skipa sjö manna starfshóp sem hefur það meginverkefni að setja fram áætlun um að minnka óútskýrðan launamun kynjanna á opinberum vinnumarkaði með það að markmiði að hann minnki um helming á kjörtímabilinu og að endurmeta kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta. 

Allt held ég að þetta sé spor í rétta átt og vonandi verður einhver árangur af þessu starfi. Ég hefði þó gjarnan kosið að sjá markmið um að eyða algerlega á kjörtímabilinu óútskýrðum launamun kynjanna á opinberum vinnumarkaði í stað þess að láta helming duga.

Ég held þó, eins og ég hef áður sagt á þessari bloggsíðu, að það þurfi ekki heilan starfshóp til að tryggja jafna stöðu kvenna og karla í opinberum nefndum og ráðum. Það eru ráðherrarnir sem skipa slíkar nefndir og þeir hafa sjálfir mest um það að segja að kynjahlutföllin séu sem jöfnust. Í þeim tilvikum sem nefnd eða ráð er skipuð eftir tilnefningum tel ég þeim í lófa lagið að kalla eftir tveimur tilnefningum, karls og konu, fyrir hvert sæti sem tilnefningaraðili á að tilnefna í. Með slíku fyrirkomulagi getur ráðherra við skipunina tryggt að kynjahlutföllin séu sem jöfnust. Flóknara þarf þetta ekki að vera.

Vonandi boðar það gott um ásetning og árangur á þessu sviði að fyrstu tvær nefndirnar sem skipaðar var í eftir þessa ákvörðun eru með eins jafnri kynjaskipan og unnt er.

Menntamálaráðherra skipaði í gær nýtt Þjóðleikhúsráð til næstu fjögurra ára. Aðalmenn skiptast þannig að karlar eru þrír og konur tvær. Varamenn skiptast þannig að konur eru þrjár og karlar tveir. Jafnari verður samsetningin varla ( http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/4216). Umverfisráðherra og iðnaðarráðherra tilkynntu einnig í gær um skipun verkefnisstjórnar vegna rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúrusvæða. Í nefndinni eru ellefu einstaklingar, sex konur og fimm karlar. Einnig eins hnífjöfn skipti og hægt er (http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/1102).

Ég held að það sé engin tilviljun að tveir þeirra þriggja ráðherra sem stóðu að skipun þessara nefnda eru konur.


Grímseyjarferjan

Ítarlega er fjallað um Grímseyjarferjumálið í Morgunblaðinu í dag. Helstu staðreyndir virðast þessar:

  • Upphafleg kostnaðaráætlun var 150 m.kr. (kaup á ferjunni og endurbætur). Það þótti fýsilegt að kaupa skipið og endurbæta, því hinn kosturinn var nýsmíði sem hefði kostað a.m.k. 6-700 m.kr.
  • Fv. samgönguráðherra ákvað að hafa heimamenn í Grímsey með í ráðum þótt þeirra kröfur um viðbótarendurbætur myndu auka kostnaðinn. Af umfjöllun Morgunblaðsins verður ekki annað ráðið en að fv. samgönguráðherra hafi gert sér grein fyrir að samráð við heimamenn myndi kosta a.m.k. 100 m.kr. og hækka heildarkostnað þar með upp í a.m.k. 250 m.kr. 
  • Ekki var talin ástæða til að upplýsa ríkisstjórnina um breytta stöðu mála, þótt heimild ríkisstjórnarinnar fyrir kaupum skipsins væri miðuð við kostnaðaráætlun upp á 150 m.kr.
  • Samið var við íslenskan verktaka sem fyrirfram mátti vita að myndi hvorki ráða við verkið faglega né kostnaðarlega. 
  • Verktakinn hafi gert það sem alkunna sé í málum af þessu tagi, fann aukaverk í hverju horni og réðst í þau án þess að fylgja fyrirmælum samningsins um gerð þeirra. Verktakinn komst upp með þessi vinnubrögð varðandi aukaverk og fékk greitt fyrir þau. Af þessu hefur skapast slíkur viðbótarkostnaður að heildarkostnaður vegna ferjunnar stefnir í 500 m.kr. og óvíst er hvar hann endar. 
  • Ein ástæða þess að verktakinn hefur getað hagað sér svona er sú að útboðslýsingin var ekki nægilega nákvæm. Fyrir liggur að verkfræðistofan sem gerði útboðslýsinguna taldi sig þurfa meiri tíma til að gera hana betur úr garði. Þann tíma fékk verkfræðistofan ekki þótt enginn sérstök ástæða væri til flýtis þar sem leyfi núverandi ferju rennur ekki út fyrr en 2009.
  • Hagkvæmnin af því að kaupa gamalt skip og endurgera miðað við nýsmíði er orðinn óverulegur miðað við upphaflegan samanburð. Hagkvæmnin var 450-550 m.kr. en miðað við stöðu mála nú verður kannski 100-200 m.kr. Hugsanlega verður hagkvæmnin engin.

Í umfjöllun Morgunblaðsins spyr forsvarsmaður Ríkiskaupa hvort þetta séu svo slæm innkaup og virðist með spurningunni vilja undirstrika að þrátt fyrir allt sé hagkvæmnin af kaupum og endurbótum ennþá 100-200 m.kr. miðað við nýsmíði. Augljóst ætti að vera að það eru slæm innkaup að enda með að borga a.m.k. 500 m.kr. fyrir hlut sem átti að kosta 150 m.kr. Það hefði maður haldið að Ríkiskaup ættu að skilja betur en nokkur annar.

PS
Hvað þýðir að taka ,,pólitískt upplýsta ákvörðun"? ,,Upplýst ákvörðun" þýðir venjulega að taka ákvörðun með öll spil á borðinu. Þýðir þetta að fv. samgönguráðherra tók ákvörðun um að hafa heimamenn í Grímsey með í ráðum vitandi að það myndi kollvarpa kostnaðaráætlunum sem ákvörðun ríkisstjórnarinnar byggðist á? Það að ákvörðunin var pólitískt upplýst - þýðir það að hann vissi hverjar pólitískar afleiðingar ákvörðunarinnar gætu orðið? 


mbl.is Sturla mælti fyrir um samráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framkvæmdastjóri - framkvæmdastýra

Ef ég man rétt voru það Kvennalistakonur sem byrjuðu á því að kyngreina heiti starfa og þingmenn þeirra kölluðu sig alltaf þingkonur. Síðan hafa orð eins og framkvæmdastýra farið að sjást. Hvað er það sem kallar á þessa aðgreiningu? Ætti ég að kalla mig lögkonu en ekki lögmann? Síðast þegar ég vissi þýðir orðið ,,maður" bæði karlmaður og kvenmaður. Hvað í orðinu framkvæmdastjóri bendir til þess að eingöngu karlmenn gegni því? Af hverju þarf að breyta því í framkvæmdastýra þótt einstaklingurinn sem í því situr sé kvenmaður? Því fyrr sem þessu er hætt, því betra.


mbl.is Guðfríður Lilja framkvæmdarstýra þingflokks VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 391609

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband