Leita í fréttum mbl.is

Ábyrgð foreldra

Seint mun ég mæla bót reglum um endurgreiðslu kostnaðar foreldra vegna tannlækninga barna. Lögum samkvæmt á hún að vera 75% en þar sem viðmiðunin er ævagömul og löngu úrelt gjaldskrá er hún orðin miklu mun minni, sennilega kringum 50% ef hún nær því. Þannig að það er dýrt að fara með börn til tannlæknis. Um það er ekki deilt.

En þær frásagnir sem við erum nú að fá af tannheilsu barna snúa ekki einvörðungu að þessari hlið málsins, þ.e. hversu vel eða illa hið opinbera tekur þátt í kostnaði vegna tannlækninga. Þær snúa einnig og raunar fyrst og fremst að foreldrum og hvað þeir gera til að hafa tannheilsu barna sinna sem besta. Tennur skemmast ekki af sjálfu sér. Þær skemmast vegna þess að ekki er um þær hirt. Þær skemmast vegna þess að börnum er leyft að borða of mikið af sætindum og drekka of mikið gos og alls kyns safa sem hafa slæm áhrif á tennurnar. Tannburstinn er ekki notaður. Á því ber enginn ábyrgð aðrir en foreldrar. 

Ábyrgðin á tannheilsu barna byrjar hjá foreldrum, líkt og öll önnur umönnun barna. Ef til eru foreldrar sem vanrækja svo tannheilsu barna sinna að þau láta tennur barna sinna skemmast fyrir hirðuleysi og gera síðan ekkert í því annað en að gefa börnunum verkjalyf við tannverkjum þá er það barnaverndarmál, eins og prófessorinn bendir réttilega á, og á að meðhöndlast sem slíkt.

Fyrst þurfum við að gera okkur grein fyrir þessum grunnstaðreyndum, svo skulum við ræða um greiðslu fyrir tannlækningar. Og horfast í augu við að það voru mistök að leggja af skólatannlækningar fyrir allmörgum árum síðan. Lækkun greiðslu ríkisins fyrir tannlækningar á sér lengri sögu, eins og ég bloggaði um í kosningabaráttunni 2007.


mbl.is Sofna ekki án verkjalyfja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Dögg

Nú verð ég aðeins að leggja orð í belg...  Ég á átta ára son, sem hefur eytt ótölulegum tíma hjá tannlækni, ekki vegna þess að umhirðan sé svo léleg, heldur vegna þess að hann var mikið veikur sem barn, þurfti pensilín í stórum skömmtum og mér var ekki sagt að það myndi orsaka það að sex ára jaxlarnir hans yrði að öllum líkindum ónýtir.  Þeir eru allir 4 með glerungsgalla, og má reikna með að hann muni eiga í vandræðum með þá þar til þeir fara, og miðað við það sem tannlæknirinn segir mér, þá verður það sem kemur í staðinn, ekkert betra. 

Þetta hefur kostað mig ótölulega þúsundkalla í viðgerðir sem ekki er hægt að koma í veg fyrir með venjulegri tannburstun.  Ég hef alveg sæmilegar tekjur, og get þar af leiðandi gert við tennurnar í barninu mínu, sem betur fer.  Sú deild sem sér um tannlækningar barna innan Tryggingastofnunar, er mér sagt að sé sú eina sem státar af því að hafa skilað verulegum afgangi af fjárlögum.  Það er ekki sannfærandi.  Þar að auki er verið að gera við sömu tennurnar í barninu, og það má sko ekki oftar en x sinnum á ári.  Mín reynsla af þessari endurgreiðslu, er oftast sú að það megi ekki borga þetta og það má bara borga þetta einu sinni á ári og hitt bara tvisvar og bara 5 mínútur af deyfingunni sem sonur minn þarf, þar sem hann er orðinn hvekktur á stöðugum tannlæknaheimsóknum og tannveseni.  Tryggingatannlæknir virðist halda að hann sé bara þarna til að koma í veg fyrir að fólk fái greitt, yfirhöfuð.  Ég til að mynda þurfti að greiða 70.000 krónur í tannlæknakostnað um daginn og fékk 22.000 rúmar endurgreiddar.  Það eru alveg örugglega 75 % er það ekki.. hmmm.´

Ég get bara vel skilið að fólk með 150.000 krónur á mánuði, leigukostnað, þó það sé ekki annað og þurfi svo að lifa hafi ekki efni á því að borga svona upphæðir Dögg.   Skilur þú það ??

Colgate bros, kv. Elísabet

Elísabet Hjálmarsdóttir (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 08:52

2 identicon

Sæl Dögg.

Að mörgu leiti get ég verið sammála þér, ábyrgðin á góðri umhirðu tanna liggur hjá foreldrum. Tennur barna geta hinsvegar verið mis viðkvæmar fyrir skemmdum.

En ég tel af eigin reynslu að það hafi verið á vissan hátt framfararskref að leggja niður skólatannlækningar, eftirlit með þeim var ekki nógu gott.

Ég bjó úti á landi þar sem ég var kölluð úr tíma í skólanum til að fara til tannlæknis. Það var bara hringt í skólastofuna og nöfn þeirra sem áttu að fara til tannlæknis voru kölluð upp og við send þangað. Foreldrar eða forráðamenn voru ekki látnir vita, þeir bara vissu að skólinn og tannlæknarnir sáu um þessi mál. Foreldrarnir völdu bara þann tannlækni sem þau kusu frekar. (2 tannlæknar í bæjarfélaginu)

Ég man bara aldrei eftir því að hafa farið til þessa tannlækna öðruvísi en að gert væri við amk eina tönn. Samt man hvorki ég eða móðir mín eftir því að ég hefði nokkurntíman verið með skemmda tönn. Ég var MJÖG samviskusöm með tannhirðu og foreldrar mínir einnig. Virðist mér svona eftirá að spólað hafi verið uppúr einni og einni tönn á ári bara til að ná í tekjurnar. Engar skemmdir = lægri tekjur fyrir tannlækninn. Undir þetta sjónarmið mitt tekur núverandi tannlæknir minn sem er búin að vera að gera við "skemmdirnar" frá því fyrir 25 árum, þar sem skipta hefur þurft um fyllingar. Ég hef haft þennan sama tannlækni í 15 ár og finnst henni með ólíkindum hvað búið var að eiga við margar tennur í mér áður en ég kom til hennar. Hafa viðgerðir síðustu 15 ára einungis snúist um það að laga viðgerðir frá fyrri tíð fyrir utan eina nýja smá skemmd. Þetta gerist þrátt fyrir að sykurneysla mín, gosdrykkja ofl. hafi aukist mjög mikið eftir að ég komst á fullorðinsár og miðað við hvað ég hafði ónýtar tennur sem barn þá ætti ég að vera komin með falskar núna.

Ég myndi því aldrei mæla því bót að farið yrði aftur til baka í skólatannlækningar þar sem lítið eftirlit var haft með tannlæknum og þeir gátu skammtað sér laun sjálfir með því að "gera við" heilar tennur. Ég tel það mikið betri leið að ábyrgðin á tannlækningum barna sé á höndum foreldranna sjálfra en endurgreiðsluhlutfallið verði leiðrétt og aukið í amk 80%, jafnvel 100% fyrir tekjulægstu foreldrana.

Elín (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 08:57

3 identicon

Eru þessar stífu reglur sem Elísabet fjallar um ekki tilkomnar einmitt vegna þessa "vanda" frá fyrri tíð að tannlæknar skömmtuðu sér tekjur með því að gera við heilar tennur og jafnvel sömu tönnina aftur og aftur? Afleiðingin er of stífar reglur í tilvikum eins og hjá syni Elísabetar.

Elín (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 09:04

4 identicon

Að sjálfsögðu liggur ábyrgð á tannheilsu hjá foreldrum. Þó er ég nokkuð viss um að foreldrar hirði ekki nógu vel um tannheilsu barna vísvitandi  t.a.m eru margir sem ekki gera sér grein fyrir því að appelsínusafi  fari jafn illa með tennurnar og t.d Coca Cola.

Eflaust gera margir hverjir foreldrar sér ekki grein fyrir því að þau hafi ekki hirt nógu vel um tannheilsu barnsins síns fyrr en skaðinn er skeður.

Svo má ekki gleyma að tennur manna eru misjafnar t.a.m þekkjast ekki tannskemmdir í móðurætt hjá mér og sjálf hef ég aldrei fengið skemmd þrátt fyrir að hafa drukkið mikið af söfum og borðað sætindi á yngri árum, en  þá þóttu safar ekki vera skaðsamir fyrir tannheilsu barna, a.m.k ekki eins og þeir þykja í dag.

Ég get ekki sagt að ég sé sammála um að það eigi að vísa svona málum til barnaverndar, ekki nema þó að foreldrar líti á það sem lausn að dæla í börnin sín panódíl. Staða heimilanna er hreinlega það slæm að e.f.t.v sjá foreldrar ekki aðra lausn en þetta á meðan að þeir leita lausna eins og t.d að komast að hjá hjálparvakt tannlækna eða reyna að fá aðstoð hjá Félagsþjónustunni.

Náinn vinkona mín er í slæmri stöðu, hún situr uppi með íbúðarlán sem að hefur vaxað og dafnað eins og íbúðarlán allra landsmanna, hún er einstæð móðir, atvinnulaus og hefur 94 þúsund í atvinnuleysisbætur  þar sem að hún var í 80% starfi áður en hún missti vinnuna, hún fær ekki aðstoð hjá Félagsþjónustunni þar sem að hún er "íbúðareigandi" en þessi vinkona mín er yndisleg móðir, og ég myndi ekki dæma hana fyrir að gefa barninu sínu panódíl í nokkra daga á meðan að hún væri að leita úrræða til að koma barninu til tannlæknis því að ég veit að staða hennar er það slæm að hún hreinlega gæti ekki hlupið beint til tannlæknis og reitt fram þá upphæð sem að það kostar að gera við tennurnar á einu bretti.

Ég held að við getum hreinlega ekki dæmt fólk fyrir þetta eins og staðan er í dag.  Það er ljóst að foreldrar þessa barns sem umræðir í greininni hafi leitað úrræða þ.e.a.s fara á hjálparvaktina eflaust var þetta eina lausn foreldranna þangað til að þeir komust þarna að, er viss um að foreldrarnir hafi ekki gefið barninu sínu panódíl fyrir svefn af því að þau "tímdu " ekki að fara með barnið til tannlæknis, á einhvern hátt þurftu þau að lina kvölum barnsins á meðan að þau leituðu leiða til að "redda þessu"

Solla Bolla (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 09:05

5 identicon

Sæl

Ég sé þína hlið á málinu en þetta er bara önnur hliðin. Hin hliðin er sú að við sem samfélag eigum að hlúa að börnunum okkar og þá meina eftir fremsta megni og í raun sama hvað það kostar. Hvað ábyrgð forelda varðar þá er hún óumdeilanleg en svo er það bara þannig að fólk lítur misjafnlega á málið en börnin mega aldrei líða fyrir það ef við sem samfélag setjum okkur ákveðin viðmið. Í raun ætti að vera tannlæknir á heilsugæslunni og tannvernd ætti að fara fram samhliða annari heilsuvernd. Gaman er að sjá að þó við séum nokkuð samstíga í pólitíkinni þá erum við ekki að róa saman hvað þetta snertir. Eða hvað erum við ekki öll sammála um það að heilbrigði þegnanna sé lykilatriði að heilbrigðu samfélagi?

aðalheiður (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 09:10

6 identicon

Sæl Elín

Það vill svo til að ég hafi sömu sögu að seigja með skólatannlækningar. Ég var í einkaskóla fram að 11 ára aldri og þar voru ekki skólatannlækningar og ég hafði því ávallt farið í eftirlit á tannlæknastofu. Aldrei nokkurn tímann þurfti sá tannlæknir að gera við tennurnar í mér og hafði ávallt orð á því hvað ég væri með fínar tennur. Þegar að ég byrjaði svo í hverfisskólanum hætti ég að fara á tannlæknastofuna til míns tannlæknis og skólatannlæknir tók við, það var hreinlega spólað upp úr ÖLLUM neðri jöxlum og einhverjum efri líka á MJÖG stuttum tíma þá er ég að tala um á innan við einu ári. Foreldra mínir voru mjög hissa á þessu þar sem að ég hafði aldrei kvartað undan verkjum og aldrei höfðu þau verið vör við skemmdir. Þeim fannst skrýtið að allt í einu skemmdust allar tennurnar í mér og þau fóru því með mig til gamla tannlæknisins aftur og hann var í sjokki yfir öllum fyllingunum. Hann bað því skólatannlæknirinn um að senda sér öll gögn um mig m.a myndir. Þegar að hann skoðaði þær kom í ljós að það var ENGINN skemmd í tönnunum á mér og að allt þetta bor og þessar fyllingar voru með öllu óþarfar.

Tannlæknirinn tók því sem svo að ég hafði ekki verið í eftirliti hjá tannlækni þar sem að það voru ekki skólatannlækningar í einkaskólanum og tók hún því sem svo að hún gæti gert það sem hún vildi án þess að nokkur tæki eftir. Er hreinlega hissa á því að mamma og pabbi hafi ekki gert mál úr þessu á sínum tíma þau borguðu bara og afþökkuðu skólatannlæknigar eftir þetta , sjálf er ég mjög ósátt við að það sé búið að eiga svo mikið við tennurnar í mér að óþörfu.

Enda eru mjög "sterkar" tennur í fjölskyldunni minni móðir mín hefur aldrei fengið skemmda tönn né neitt af systkinum mínum og sjálf hef ég víst aldrei fengið skemmd þó svo að mér hafi verið talin trú um það á sínum tíma.

Eina málið sem að var gert úr þessu var það tannlæknirinn minn hringdi í þennan skólatannlækni mjög reiður enda var hann stórhneykslaður, ég veit ekki hvort að hann hafi tilkynnt þetta eitthvað lengra, en tannlæknirinn hélt allavega áfram að bora í krakka að óþörfu.

Solla Bolla (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 09:29

7 identicon

Ég hélt ávallt að mín skólatannlækninga saga væri algjörlega einsdæmi en svo er greinilega ekki, ég man að þessi skólatannlæknir var nýútskrifuð ung kona, sem var greinilega að reyna að borga upp námslánin með þessum hætti

Solla Bolla (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 09:40

8 identicon

Þegar ég var unglingur og fór í tannréttingar á árunum 1980-1982 þá fengu foreldrar mínir 75% af reikningnum endurgreiddan. Það skipti ekki máli hvað var gert. Núna er ég með son minn í tannréttingum og ég fæ ekki krónu tilbaka. Ekk fyrr en að meðferð lokinni og þá aðeins ef þetta hefur verið fæðingargalli en ekki í fegrunarskyni, og þá fæ ég 150 þúsund max, og enn eitt skilyrðið er að hann hafi fengið spangir á x margar tennur. Þetta er fáránlegt. Ég er ein með 3 börn, og þau þurfa öll að fara tl tannlæknis. Af rúmlega 9þúsund króna reikiningi vegna 5 ára skoðunar, ásamt flúor, fékk ég 1.700 kr endurgreiddar. Að sjálfsögu þarf ríkið að koma hérna inn, og gera það sem því ber, að standa vörð um þetta svokallaða velferðarkerfi sem endalaust er flaggað, en fæstir verða varir við.

Lísa Margrét Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 10:02

9 identicon

góðan dag

ég hef verið að fara með unglinginn minn í tannlækni núna undanfarið. nú síðasta mánudag. og fyrir smávægis viðgerð þá borga ég rúmar 16.000kr og ég fekk til baka um 6000 endurgreitt.

málið liggur líka í misræmi tannlækna og tryggingastofnunar. það er alveg sitthvor gjalskráin.  og við fáum 75% endurgreitt af gjalskrá tryggingastofnunar. sem er mikið lægri en hjá tannsanum.

ég td bursta mig 3x yfir daginn og tygg extra þess á milli samt grottna tennurnar mínar niður vegna þess að ég er með of hátt sírustig í munninum. einhver galli tannsteinn myndast undir tannholdinu þannig að þærbyrja að  skemmast frá rót

ég er 75% öryrki ofaná það. ég hinsvegar læt krakkana ganga fyrir í tannþjónustu eins og öllu öðru. ég hef einfaldnlega ekki efni á að fara sjálf og á aðeins eftir nokkrar tennur allar skemmdar g er bara 36ára

Linda (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 10:09

10 Smámynd: Kommentarinn

Staðreyndin er bara sú að þetta svokallaða velferðarkerfi okkar er farið að jafnast á við ýmis 3. heims ríki....

Kommentarinn, 11.5.2009 kl. 10:27

11 identicon

Sæl Dögg

Þú meinar sem sagt: barn + skemmd(ar) tönn(tennur) = vanræksla foreldra + barnaverndaryfirvöld.

Tennur barna "góðu foreldrana" skemmast auðvitað ekki. En eins og Solla Bolla bendir á þá hafa einfaldlega ekki allir efni á þessari grunnþjónustu. Ég býst við að efnaminna fólk teljist ekki til "góðra foreldra" í augum ykkar sjálfstæðismanna.

Þú getur kennt Samfylkingu um lækkun endurgreiðslu fyrir tannlækningar í skemmtilegum útúrsnúningi en virðist gleyma því að þinn flokkur var í bílstjórasætinu í næstum 2 áratugi og gerði ekki neitt til að breyta þessu. En það var eflaust Framsókn að kenna?

Karma (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 10:38

12 Smámynd: Dögg Pálsdóttir

Vil bara undirstrika hvernig bloggfærslan byrjar. Hún byrjar á því að seint muni ég mæla bót þeim endurgreiðslureglum sem gilda. Árétta það. Og mér er ljóst að það getur ýmislegt valdið því að þrátt fyrir góða tannhirðu skemmist tennur barna. Það breytir ekki kjarna þess sem ég er að benda hér á. Hvar ábyrgðin liggur í upphafi. Greiðslureglur vegna tannlækninga eiga síðan að styðja við þannig að ef tennur skemmast þrátt fyrir góða tannhirðu þá verði kostnaðurinn ekki til þess að foreldrar fari ekki. Þó ég sé sjálfstæðismaður Karma þá vill svo til að ég styð heilshugar almannatryggingakerfið, þ.á m. stuðning þess vegna sjúkratrygginga.

Dögg Pálsdóttir, 11.5.2009 kl. 11:50

13 Smámynd: Sævar Einarsson

Dögg Pálsdóttir, með fullri virðingu fyrir sjálfstæðisflokknum eða einhverjum öðrum flokki þá má aldrei láta börnin okkar verða bitbein pólitískrar stefnu. Og kjarni málsins er ekkert sérstaklega flókinn, eftir að skólatannlækningar voru aflagðar fór tannhirða barna okkar rakleitt til helvítis. Börn eru mismunandi, sumir með lélegar tennur, önnur með hátt sýrustig og þannig mætti lengi telja, þess vegna er brýn nauðsyn að taka upp aftur skólatannlækningar/eftirlit og ekki seinna en frá því þær voru aflagðar.

Sævar Einarsson, 11.5.2009 kl. 13:15

14 identicon

Ég skrifaði þessa athugasemd á öðru bloggi en ég ætla að leyfa mér að copy/peista hana hérna.

Til ykkar sem segja ábyrgðina liggja hjá foreldrunum:

Við skulum gefa okkur að þetta sé að mestu leyti rétt hjá ykkur, þ.e. að tannskemmdir barna séu í öfugu hlutfalli við tannhirðu og í réttu hlutfalli við sykurát. Ég er alveg tilbúinn að kaupa það.

Og ég geri mér grein fyrir að til eru margir arfaslakir foreldrar sem brýna ekki fyrir börnum sínum að hirða vel um tennurnar og dæla í þau gosi og sætindum í tíma og ótíma.

En er eitthvað af þessu börnunum sjálfum að kenna? Nei. Hvers vegna er þá sanngjarnt að þau líði fyrir þessa vanþekkingu foreldra sinna?

Tökum dæmi: Barn á foreldra sem eru ekki þeir bestu, en sjá þó um að fæða það og klæða og koma því í skóla. Tannhirða er ekki ofarlega á dagskránni, og skyndibitamatur er reglulega á borðum. Eflaust á svona dæmi ótal hliðstoðir í raunveruleikanum.

Tennur barnsins skemmast illa, foreldrarnir hafa ekki efni á að fara með það til tannlæknis. Barnið þjáist og verður fyrir ýmsum kvillu, líkamlegum og andlegum, sem fylgja því að vera með langvarandi tannpínu.

Hver er lexían hér? Ekki eiga lélega foreldra, annars þarftu að lifa með lélegar tennur alla ævi? Er einhver ykkar tilbúinn að segja þessu barni að það sé sanngjarnt að það þjáist, því foreldrar þess geti sjálfum sér um kennt?

Jafnvel þótt þú trúir að langflestar tannskemmdir hefði verið hægt að koma í veg fyrir, þá virkar núverandi kerfi samt ekki því það er verið að refsa A fyrir það sem B gerði ekki.

Foreldrar eru misgóðir, og ef þeir klúðra uppeldinu á einhvern átt eigum við sem samfélag að reyna að bæta upp fyrir það en ekki refsa barninu fyrir það sem foreldrarnir gerðu ekki. Það er ómannúðlegt.

Jens (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 14:04

15 Smámynd: Sævar Einarsson

Og Jens, ekki má gleyma því enginn er eins við fæðingu, sumar tennur skemmast útaf sjúkdómum, slysum, fæðingargallar í tannholdi, glerungsgalla, bakflæði (gubbvandamál sem skemmir tennurnar) og svo mætti lengi telja og enginn 24/7 tannhirða kemur í veg fyrir slíkt, sama hvaða þöngulhaus segir. Og með því að taka upp skólatannlækningar/eftirlit aftur má koma í veg fyrir mörg meiriháttar stórslys.

Sævar Einarsson, 11.5.2009 kl. 14:41

16 identicon

Því miður er reynsla af skólatannlækningum sýnist mér ekki góð eins og þú getur kannski séð á kommenti mínu og Elínar hér ofar en það voru spólaðar upp tennurnar í okkur af óþörfu, held að þetta sé ekki eins dæmi þar sem að ég og Elín höfðum sömu sögu að segja um þetta.

Tannlæknaþjónusta fyrir börn á bara að vera á heilsugæslum og á að vera ókeypis eða borga eitt lágt komugjald sama hvað er gert (700 kr eða svo) . Full endurgreiðsla frá Tryggingarstofnun myndi  ekki virka í þessum málefnum því margir foreldrar hafa ekki efni á að leggja út fyrir kostnaðinum þó svo að hann fengjist endurgreiddur.

Kannski skólatannlækningar myndu virka ef þær væru ÓKEYPIS og tannlæknirinn væri með ein ákveðin föst mánaðarlaun. Þá væru þeir ekki að gera við það sem þarf ekki að gera við til að fá pening, rétt eins og ég og Elín lentum báðar í . 

Solla Bolla (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 15:23

17 Smámynd: Sævar Einarsson

Auðvitað eiga skólatannlækningar að vera ókeypis, en það er ekki eins og það sé að fara að gerast í dag, hefði skilið það í öllu "góðærinu" en í dag er ég ekki að sjá það fara að gerast í einum mesta niðurskurði ef ekki sá mesta í sögu íslands, en skólatannaeftirlit væri kannski ekki svo óvitlaust. Fá tannlækna til að koma í grunnskólana og taka almennilega stöðu á tannhirðuvandamáli grunnskólabarna, best held ég að væri að fá utanaðkomandi tannlæknateymi til að meta stöðuna til að matið sé ekki hlutdrægt.

Sævar Einarsson, 11.5.2009 kl. 15:43

18 identicon

Gaman kæra Dögg að þú c-ert Sjálfstæðismaður sem styður heilshugar almannatryggingakerfið, þ.á m. stuðning þess vegna sjúkratrygginga. Það er einmitt sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir, standa vörð um almannatryggingakerfið. Getur ekki verið að þú c-ert að dansa vitlausan polka í röngu dansfélagi.

Gunnar Sigurðsson (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 15:46

19 identicon

Sammála þessu með slæma foreldra og skemmdar tennur.  Vissulega eru dæmin um það að sjúkdómar og önnur veikindi valdi óvenju miklum skemmdum á tönnum en ég er viss um það að þegar búið er að draga þau tilfelli frá standa eftir mun fleiri dæmi þar sem vanrækslu foreldranna er um að kenna.

Það ætti ekki að vera erfitt að bera saman sjúkraskýrslur barnanna og tannskemmdi, ég er viss um að útkoman úr þeim samanburði gæti orðið afar fróðleg.

Maron Bergmann (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband