Leita í fréttum mbl.is

2. - 4. sætið

Eins og fram kemur í fréttinni er ég í hópi þeirra sem gefið hafa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem haldið verður 13. - 14. mars nk.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 2.-4. sætið á listanum.

Ég hef einlægan áhuga á því að leggja mitt af mörkum til að bæta hag fjölskyldna og fyrirtækja í landinu. Það er og verður brýnasta verkefnið í bráð og lengd. Staða heimila og fyrirtækja er alvarleg eftir bankahrunið. Atvinnuleysi stefnir í óþekktar hæðir. Skuldastaða heimila er víða með þeim hætti að fjölskyldur munu ekki ráða fram úr henni án sértækra aðgerða. Fyrirtæki stefna í þrot. Við öllu þessu verður að bregðast, með nýjum lausnum.    

Ég hef áður bloggað um að ég ætla ekki að ráðast í kostnaðarsama prófkjörsbaráttu. Þó Sjálfstæðisflokkurinn telji að kostnaður undir 2,5 m.kr. sé innan hæfilegra marka þá tel ég að aðstæður í þjóðfélaginu leyfi ekki að slíkum fjármunum sé varið í prófkjörsbaráttu. Það er nánast móðgun við þær þúsundir einstaklinga sem búnir eru að missa atvinnuna og þær fjölskyldur og fyrirtæki sem eru að komast í þrot, að eyða slíkum fjárhæðum í keppni milli samherja í stjórnmálum.

Prófkjörsbarátta mín verður því rekin með lágmarkstilkostnaði. Á næstu dögum opna ég aftur heimasíðu mína www.dogg.is. Ég held auðvitað áfram að blogga um málefni líðandi stundar. Auk þess mun ég skrifa lengri pistla á blogginu og heimasíðunni um þau áherslumál sem ég verð með í prófkjörsbaráttunni. Mér til mikillar ánægju hefur blogg mitt notið sívaxandi lesturs á liðnum mánuðum. Þá er ég með síðu á Facebook og þann miðil mun ég einnig nota í baráttunni. Stuðningsmenn mínir munu tala fyrir framboði mínu í sínum hópum. Þá tek ég að sjálfsögðu þátt í allri kynningu á vegum flokksins vegna prófkjörsins . 

Enginn verður ónáðaður af mér eða stuðningsmönnum mínum með ósk um fjárframlög vegna prófkjörs míns. Ef einhver hefur áhuga á að leggja framboði mínu lið með fjárframlögum þá bendi ég viðkomandi á að láta aðila á borð við Mæðrastyrksnefnd njóta þeirra fjármuna.

Mér er fullkomin alvara með því að þetta framboð verður rekið á lágmarkskostnaði. Aðstæður í þjóðfélaginu eru slíkar. Mín prófkjörsbarátta verður því einnig ákveðinn prófsteinn á það hvort samhengi sé milli árangurs í prófkjöri og þeirra fjármuna sem til baráttunnar er varið.

Nú mun ég, með stuðningsmönnum mínum, bretta upp ermar og vinna framboði mínu brautargengis. Ég bið þá, sem vilja styðja mig í þessu prófkjöri að merkja við mig á kjörseðlinum í 2. - 4. sætið.


mbl.is Geir gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Bárðarson

Get nú ekki kosið þig Dögg þar sem ég lifi á annarri plánetu. En við þurfum gott fólk á þing hvar í flokki sem við stöndum. Svo ég styð þig, að vísu bara með hjartanu.

Kveðja

Finnur Bárðarson, 21.2.2009 kl. 18:37

2 identicon

Sæl Dögg

Til hamingju með framboðið.

Hver eru þín stefnumál varðandi hag barna í landinu og þá sérstaklega í þeim málum sem snúa að grundvallar rétti barna að fá að umgangast báða foreldra sína án takmörkunar og tálmunar annars foreldris, iðulega með aðstoð lögmanna eða annarra í kerfinu?

Stefanía Katrín Karlsdóttir

Stefanía Katrín Karlsdóttir (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 20:13

3 Smámynd: Ólafur Th Skúlason

hver er þín skoðun á verðtryggðum lánum

Ólafur Th Skúlason, 21.2.2009 kl. 21:07

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæl Dögg!

Ég óska þér góðs gengis í prófkjörinu.

Sjálfur hef ég ákveðið að bjóða mig fram í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 22.2.2009 kl. 09:44

5 identicon

Ég kýs ekki Sjálfstæðisflokkinn en er klár á að með þig innanborðs verður hann betri. Miklu betri.

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 09:45

6 Smámynd: Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir

Kæra Dögg, gangi þér vel   sendi þér styrk kæra bloggvinkona. Það er spurning hvort þú hefðir ekki átt að koma norður til okkar í NA fyrst Ólöf okkar fór suður. 

Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir, 22.2.2009 kl. 14:36

7 Smámynd: Dögg Pálsdóttir

Ég þakka góðar kveðjur og óskir.

Ólafur spyr um skoðun mína á verðtryggðum lánum. Því er fljótsvarað. Ég tel að stjórnvöld verði að grípa til róttækra ráðstafana vegna verðtryggðra og gengistryggðra íbúðalána. Það þarf að hugsa hlutina upp á nýtt. Meðal þess sem ég tel koma til greina er að afskrifa hluta höfuðstólshækkunarinnar sem er bein afleiðing þeirrar óðaverðbólgu sem hér hefur geisað og þess gengishruns sem varð. T.d. mætti miða höfuðstól þessara íbúðalána við 1. júlí 2007. Auðvitað kostar það peninga en það er að mínu mati ódýrari lausn en að kröfuhafarnir sitji uppi með eignirnar og íbúarnir á götunni með öllum þeim hörmungum sem því fylgir fyrir fjölskyldur í landinu.

Stefanía spyr um afstöðu mína til barna í landinu. Ég tel mig ötula baráttukona fyrir réttindum barna og foreldra, ekki síst foreldra sem börn búa ekki hjá. Haustið 2007, þegar ég tók sæti á Alþingi sem varamaður, flutti ég frumvarp til laga um breytingar á barnalögum. Í því fólust tillögur um umfangsmiklar breytingar í þágu barna og foreldra sem börn búa ekki hjá. M.a. lagði ég til að unnt væri að úrskurða sem jafnasta umgengni, allt að viku/viku í senn.

Varðandi umgengni þá hef ég ítrekað tekið fram að það er munur á stöðvun umgengni vegna þess að barni/börnum getur stafað hætta á umgengni og tilefnislausum umgengnistálmunum. Þegar um tilefnislausar tálmanir er að ræða tel ég að setja þurfi upp miklu skilvirkara kerfi og herða á ákvæðum um að í slíkum tilvikum eigi jafnvel að era hægt að svipta það foreldri forsjá, sem tálmar umgengni að tilefnislausu. Frakkar hafa farið þá leið að heimila refsidóm yfir foreldrum sem beita tilefnislausum tálmunum. Ég tel full ástæða til að kanna þá leið. Tilefnislausar umgengnistálmanir eru að mínu mati alvarlegt brot gegn mannréttindum barna. Við slíkum brotum þarf að bregðast af festu og krafti. Því miður er langt frá því að svo sé gert nú.

Hagur barna, fjölskyldna og fyrirtækja er mér hugleikinn. Ég sé margar leiðir til að bæta stöðu þessara aðila, fái ég tækifæri til þess með því að setjast á Alþingi.

Þið sem segist ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn - þið þekkið örugglega einstaklinga sem kýs flokkinn. Þið kannski talið fyrir mínu framboði við máli við þá? Mér þætti vænt um það.

Aftur - takk fyrir góðar óskir og kveðjur.

Dögg

Dögg Pálsdóttir, 22.2.2009 kl. 15:17

8 identicon

Þakka þér fyrir þetta Dögg. Ég sé á þessu að þú ert ötull talsmaður þess stóra hóps barna og feðra sem búa við það gríðarlega ranglæti sem við sjáum í okkar samfélagi og snýr að umgengnistálmunum. Rannsóknir sýna að í afar mörgum tilfellum eiga sér stað tilefnislausar umgengnistálmanir vegna reiði, heiftar og hefndar annars foreldrisins og er það yfirleitt það foreldri sem barnið býr hjá. Fjölmargar rannsóknir sýna að alvarlegar afleiðingar geta falist í því fyrir börn ef þeim er beitt umgengnistálmunum eða jafnvel stýringu eða takmörkunum á umgengni við hitt foreldri sitt. Einnig hef ég lesið,  úr rannsóknum og þeim ýmsu dómum sem til eru um þessi mál, að aðilar í kerfinu virðast hafa ríkari tilhneigingu til að taka málstað þess foreldris sem börnin eru hjá, þó að gögnin um málin sýna oft annað og að lögmenn í „bransanum“ hegði bara skoðunum sínum eftir vindi, þ.e. eftir því hvoru megin þeir eru við borðið. Mér finnst með ólíkindum að laga- og vinnurammi í þessum málaflokki taki ekki á því ranglæti sem börnum er beitt á Íslandi.  Komist þú í öruggt sæti eða baráttu sæti í prófkjörinu, skora ég á þig að beita þér af þungri hörku við að bæta samfélagið sem snýr að öllum þeim hundruðum eða þúsundum barna á Íslandi sem búa við þessar aðstæður. Gangi þér vel í prófkjörinu.

Stefanía Katrín Karlsdóttir

Stefanía Katrín Karlsdóttir (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 20:58

9 Smámynd: Dögg Pálsdóttir

Sæl aftur Stefanía.

Ég þekki þær rannsóknir sem þú vísar til og hef lesið fróðlega og afar athyglisverða skýrslu þína um þessi mál. Er raunar með á prjónunum bloggfærslu um skýrsluna. Sem lögmaður tel ég mig ekki haga seglum eftir því hvorum megin borðs ég er í umgengnismálum, en aðrir verða að dæma um það. Þú getur treyst því að nái ég brautargengi í komandi prófkjöri mun ég á Alþingi gera allt sem í mínu valdi stendur til að breyta lagaumhverfinu hér, eins fljótt og hægt er því núverandi ástand er algerlega óviðunandi. Því þarf að breyta sem allra, allra fyrst.

Bkv. Dögg

Dögg Pálsdóttir, 22.2.2009 kl. 23:09

10 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Gangi þér vel í prófkjörinu Dögg.

Eftir prófkjörið skulum við bera saman bækur okkar og svara spurningunni, hvort prófkjör eru nothæf til að endurnýja framboðslista.

Loftur Altice Þorsteinsson, 23.2.2009 kl. 00:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 391666

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband