Leita í fréttum mbl.is

Með Ísland í hjarta

Sérlega áhugaverð skoðunarferð um Winnipeg er að baki. Við nutum frábærrar leiðsagnar Davíðs Gíslasonar bónda og Neil Bardal útfararstjóra. Milli þess sem þeir sögðu okkur frá merkum stöðum hér í Winnipeg kvað Davíð rímur og Neil spilaði íslensk ættjarðarlög.

Við byrjuðum í þinghúsi Manitoba, sem er sérlega glæsileg bygging. Við vorum greinilega taldir hættulausir gestir því við þurftum enga öryggisgæslu að fara í gegnum.

Í garðinum fyrir utan, milli þingsins og áfrýjunardómstólsins, sem við munum heimsækja á þriðjudag, er stytta af Jóni Sigurðssyni forseta. Það er sú hin sama og stendur á Austurvelli og var hún afhjúpuð hér 1921. Það var merkilegt að heyra Neil Bardal lýsa því hve stóran sess Jón Sigurðsson á í hugum Vestur-Íslendinga. Árlega er athöfn í garðinum við styttu Jóns til að minnast tengslanna við Ísland. Ávörp eru haldin, m.a. í minningu Jóns. Neil sagði Vestur-Íslendinga vera einlæga Kanadamenn en þeir bæru ætíð Ísland í hjarta.

Það var einnig skemmtilegt að heyra lýsingu Neil á því hvað ömmur væru mikilvægar í hugum Vestur-Íslendinga. Þær hafa lengi gert kröfur til barnabarna sinna, ekki síst drengjanna, um að þau stæðu sig og þær helstar að eitthvað yrði úr þeim. Að verða lögfræðingur var litið sérstökum velvildaraugum hjá ömmum, svo ekki væri talað um að verða síðan dómari. Sjálfur fetaði Neil í fótspor föður og afa og tók við fjölskyldurekstrinum sem er útfararstofa. Hann fullyrti að það hefði ekki glatt ömmu hans. Hann taldi að amma hans hafi ekki orðið ánægð með hann fyrr en hann varð kjörræðismaður Íslands hér um slóðir. Og það lifði hún ekki.

Við ókum um hverfi þar sem Íslendingar voru með starfsemi. Við heimsóttum kirkjugarð þar sem margir Íslendingar hvíla. Í lokin fórum við í húsakynni Lögbergs-Heimskringlu sem nú er gefið út tvisvar í mánuði. Nýr ritstjóri, Caelum Vatnsdal, hefur nýlega tekið við blaðinu og er bjartsýnn á framtíð þess. Útgáfa blaðsins nýtur öflugs stuðnings að heiman og tekist hefur að tvöfalda áskrifendafjöldann á nokkrum árum. Þar áskotnaðist mér ritið Harðfiskur og skyr sem er útgáfa á leiðurum Lillian Vilborg sem var í nokkur ár ritstjóri Lögbergs-Heimskringlu. Ég hlakka til að lesa það.

Það kom greinilega fram í þessari skoðunarferð að hátíðarhöldin árið 2000 hleyptu nýju lífi í allt starf Vestur-Íslendinga og efldi og styrkti mjög tengslin við Ísland. Og það er greinilegt að þessi tengsl eru Vestur-Íslendingum mjög mikilvæg.

Framundan er heimsókn til íslenska ræðismannsins hér, Atla Ásmundssonar, og í kvöld verður hátíðarkvöldverður. Sumar kvennanna í hópnum munu skrýðast íslenskum búning. Meira um það seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband