Leita í fréttum mbl.is

Annasamir dagar

Við lögmenn sem sinnum mikið fjölskyldumálum höfum tekið eftir því að eftir frí, sérstaklega sumarfrí, koma holskeflur nýrra mála inna á skrifstofurnar hjá okkur. Það er eins og langur frítími saman geri hjónum /sambýlisaðilum ljóst að sambandið eigi ekki framtíð fyrir sér. Ágúst hefur engin undantekning verið og ef eitthvað er hafa annir verið mun meiri en venjulega (og eru þó nógar fyrir).

Í gær kom svo niðurstaða (þó ekki dómur) í máli eins umbj. míns, sem búið er að bíða eftir lengi. Sannarlega gleðilegur dagur og ánægjulegur og léttir fyrir viðkomandi og fjölskyldu hans. Ítarleg viðtöl voru við dóttur umbj. míns bæði í Íslandi í dag og Kastljósi nú í kvöld.

Ég var beðin um að tjá mig um lögfræðilega hlið málsins í fréttum RÚV í kvöld. Ég var nokkuð tvístígandi því í fyrra lenti ég í því að gagnaðilar í þessu sama máli kröfðust þess að dómari sektaði mig með vísan til 2. mgr. 9. gr. laga um meðferð einkamála fyrir að tjá mig opinberlega um málið, án þess að hafa aflað mér heimildar dómara. Í umræddu lagaákvæði segir m.a.:

 Óheimilt er að skýra opinberlega frá því sem gerist í lokuðu þinghaldi án leyfis dómara.

Um er að ræða barnsfaðernismál sem lögum samkvæmt skulu fara fram fyrir luktum dyrum. Þess vegna kom þessi krafa til. Héraðsdómarinn í málinu úrskurðaði að ég skyldi greiða einhverja tíuþúsundkalla í sekt og tók þar með ekki til greina þá málsvörn mína að ég hefði ekki tjáð mig fyrr en báðir aðilar, bæði umbj. minn og annar gagnaðila, höfðu tjáð sig opinberlega um málið og með því að mínu mati samþykkt að um málið yrði fjallað opinberlega. Þá benti ég á að á heimasíðu Hæstaréttar hefðu birst nokkrir dómar sem málinu tengdust og þótt þeir væru birtir undir nafnleynd þá vissu allir sem eitthvað fylgdust með opinberri umræðu um hvaða mál var að tefla. Ég kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Hæstiréttur felldi úrskurðinn úr gildi með vísan til þess að mál af þessu tagi yrðu að sæta rannsókn að hætti opinberra mála. Dómaranum var því óheimilt að úrskurða mig til að greiða réttarfarssekt (http://www.haestirettur.is/domar?nr=4249).

Eftir umhugsun ákvað ég þó að tjá mig um hin lögfræðilegu atriði sem fréttamaðurinn hafði áhuga á að spyrja um, enda málið athyglisvert og ég tel að ekkert af því sem ég sagði í viðtalinu hafi komið fram í lokuðu þinghaldi í málinu. En eins og tilvitnunin hér að framan ber með sér nær bannið við tjáningu eingöngu til þess. Hvort gagnaðilar eru sammála því á eftir að koma í ljós. Kannski kemur á mig ný kæra og þá nú til lögreglu. En mér fannst skondið að í fréttinni skyldi þessi úrskurður héraðsdóms um réttarfarssektina, sem Hæstiréttur felldi síðan úr gildi, rifjaður upp.

Það er óhætt að segja að það er alltaf eitthvað áhugavert að gerast í lögmennskunni. Engin lognmolla þar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Sigurðsson

Þetta mál og þessi ,,vinkill" sem þú talar um hér er ansi athyglisvert.

Ég gekk í gegnum 3ja ára feril vegna skiptingar á dánarbúi föður míns. Ég hefði ALDREI trúað hvað yrði hægt að flækja það mál, engin lognmolla, það er á hreinu.

Haltu endilega áfram að blogga um athyglisverð mál í lögfræðinni, mjög áhugavert. Ef það kostar þig einhverja tíuþúsun kalla í sekt þá skal ég stofna styrktarsjóð :)

Sigurjón Sigurðsson, 30.8.2007 kl. 08:43

2 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Ég hjó einmitt eftir því að þessi kæra á hendur þér var dregin fram í fréttinni. Ég gat nú bara engan veginn séð að það atriði kæmi niðurstöðunni núna nokkuð við!

Skemmtilegar pælingar, takk fyrir það.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 31.8.2007 kl. 11:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 392214

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband