Leita í fréttum mbl.is

Vantar jarðtengingu?

Bónusgreiðslur tilstarfsmanna fyrirtækja hafa verið réttlættar með því að þær væru hvati til að standa sig vel. Ætíð hefur verið látið að því liggja að samhengi eigi að vera milli bónusgreiðslna og afkomu fyrirtækis. Eftir að efnahagslægðin skall á berast frá útlöndum aftur og aftur fréttir af því að bankar haldi áfram að greiða starfsmönnum sínum bónusa, jafnvel þótt búið sé að þjóðnýta þá. Mér er algerlega óskiljanlegt hvernig hægt er að bjóða skattgreiðendum, sem eiga jú í raun þessa banka, eftir þjóðnýtingu, upp á þetta. Skortir yfirmenn þessara banka og stjórnir þeirra jarðsamband?
mbl.is Bónusgreiðslur þrátt fyrir tap
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gloppa í lögum?

Þessi umræddi bandaríkjamaður hefur verið í starfi hér á landi. Atvinnurekandi sá sem greitt hefur honum laun hefur jafnframt þurft að standa skil á tryggingagjaldi af launum hans. Ákveðinn hluti tryggingagjaldsins rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs og á að tryggja atvinnuleysisbætur.

Mér er því óskiljanlegt hvernig hægt er að greiða í Atvinnuleysistryggingasjóð af launum mannsins og segja honum síðan, þegar hann verður atvinnulaus og ætlar að njóta réttinda sem búið er að greiða fyrir hann að hann eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Þetta hlýtur að vera gloppa í lögum sem stoppa þarf upp í og það hið snarasta.


mbl.is Farðu heim, góði minn!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjár vikur

eru frá fyrsta starfsdegi ríkisstjórnarinnar og allt er komið upp í háaloft - í boði Framsóknarflokksins. Það er sami flokkurinn og hratt af stað þeirri atburðarás sem varð til þess að Samfylkingin fór á brott úr fyrri ríkisstjórn í fangið á VG. Með loforðum sínum um að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og VG vantrausti gerði Framsóknarflokkurinn Samfylkingunni kleift að hlaupa frá hálfnuðu verki, þegar kjarkinn brast eftir að skoðanakannanir fóru að sýna verri útkomu en áður.

Ábyrgð Framsóknarflokksins er mikil. Ekki er ég viss um að kjósendur kunni að meta uppákomur af þessu tagi. Kjósendur kalla eftir breytingum á yfirstjórn Seðlabanka Íslands. Kjósendur kalla eftir kosningum. Þetta þóttist Framsóknarflokkurinn styðja. Nú sýnir Framsóknarflokkurinn hvernig framsóknarmenn efna sín loforð.


mbl.is Framsókn skekur ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuggahliðar prófkjöranna

Það er erfitt að finna hentuga leið til að velja á framboðslista stjórnmálaflokkanna. Prófkjör eða forval er sú leið sem mest hefur verið notuð síðustu árin. Gallinn við þá leið er sá að þar berjast samherjar, stundum af slíkri hörku að menn verða sárir í slagnum og þau sár gróa seint og stundum aldrei. Enda er ýmsum meðölum beitt í prófkjörsbaráttunni, misjafnlega vönduðum. Það þekkja allir af eigin raun, sem tekið hafa þátt í prófkjöri. Og það er langt frá því að vera sjálfgefið að val á lista gegnum prófkjör skili stjórnmálaflokkum lista sem er sigurstranglegastur þegar til kosningabaráttunar sjálfrar kemur.

Þegar tveir samherjar berjast um sama sætið ofarlega á lista í prófkjöri þá getur viðureignin ekki endað nema á einn veg. Annar fer með sigur af hólmi og hinn bíður lægri hlut. Það verður að treysta því að sú niðurstaða sé rétt þar sem það er niðurstaða í lýðræðislega prófkjöri. Fréttin hér sýnir glöggt verstu skuggahliðar prófkjöranna.

Samherjar eiga ekki að þurfa að berjast með þeim hætti sem prófkjörin bjóða upp á. Það þarf að finna betri leið til að velja frambjóðendur á lista. Kannski er einhvers konar persónukjör þvert á pólitíska flokkar, í kosningunum sjálfum, leið sem skoða þarf af meiri alvöru. 


mbl.is „Ekki erfiðasta prófkjörið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2. - 4. sætið

Eins og fram kemur í fréttinni er ég í hópi þeirra sem gefið hafa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem haldið verður 13. - 14. mars nk.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 2.-4. sætið á listanum.

Ég hef einlægan áhuga á því að leggja mitt af mörkum til að bæta hag fjölskyldna og fyrirtækja í landinu. Það er og verður brýnasta verkefnið í bráð og lengd. Staða heimila og fyrirtækja er alvarleg eftir bankahrunið. Atvinnuleysi stefnir í óþekktar hæðir. Skuldastaða heimila er víða með þeim hætti að fjölskyldur munu ekki ráða fram úr henni án sértækra aðgerða. Fyrirtæki stefna í þrot. Við öllu þessu verður að bregðast, með nýjum lausnum.    

Ég hef áður bloggað um að ég ætla ekki að ráðast í kostnaðarsama prófkjörsbaráttu. Þó Sjálfstæðisflokkurinn telji að kostnaður undir 2,5 m.kr. sé innan hæfilegra marka þá tel ég að aðstæður í þjóðfélaginu leyfi ekki að slíkum fjármunum sé varið í prófkjörsbaráttu. Það er nánast móðgun við þær þúsundir einstaklinga sem búnir eru að missa atvinnuna og þær fjölskyldur og fyrirtæki sem eru að komast í þrot, að eyða slíkum fjárhæðum í keppni milli samherja í stjórnmálum.

Prófkjörsbarátta mín verður því rekin með lágmarkstilkostnaði. Á næstu dögum opna ég aftur heimasíðu mína www.dogg.is. Ég held auðvitað áfram að blogga um málefni líðandi stundar. Auk þess mun ég skrifa lengri pistla á blogginu og heimasíðunni um þau áherslumál sem ég verð með í prófkjörsbaráttunni. Mér til mikillar ánægju hefur blogg mitt notið sívaxandi lesturs á liðnum mánuðum. Þá er ég með síðu á Facebook og þann miðil mun ég einnig nota í baráttunni. Stuðningsmenn mínir munu tala fyrir framboði mínu í sínum hópum. Þá tek ég að sjálfsögðu þátt í allri kynningu á vegum flokksins vegna prófkjörsins . 

Enginn verður ónáðaður af mér eða stuðningsmönnum mínum með ósk um fjárframlög vegna prófkjörs míns. Ef einhver hefur áhuga á að leggja framboði mínu lið með fjárframlögum þá bendi ég viðkomandi á að láta aðila á borð við Mæðrastyrksnefnd njóta þeirra fjármuna.

Mér er fullkomin alvara með því að þetta framboð verður rekið á lágmarkskostnaði. Aðstæður í þjóðfélaginu eru slíkar. Mín prófkjörsbarátta verður því einnig ákveðinn prófsteinn á það hvort samhengi sé milli árangurs í prófkjöri og þeirra fjármuna sem til baráttunnar er varið.

Nú mun ég, með stuðningsmönnum mínum, bretta upp ermar og vinna framboði mínu brautargengis. Ég bið þá, sem vilja styðja mig í þessu prófkjöri að merkja við mig á kjörseðlinum í 2. - 4. sætið.


mbl.is Geir gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanakannanir

Þessi skoðanakönnun vekur ýmsar vangaveltur. Fram kemur að liðlega 1000 kjósendur í Reykjavík voru spurðir. Væntanlega eru það almennir kjósendur í Reykjavík en ekki yfirlýstir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins. Spurningin verður því: Er stuðningur við einstaka frambjóðendur í því prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem framundan er sá sami meðal almennra kjósenda í Reykjavík og meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins?


mbl.is Illugi nýtur mests stuðnings í 1. sæti í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýringar

Það vekur athygli hvað gamli Landsbankinn telur sig þurfa að afskrifa verulega hærri fjárhæðir en gamla Kaupþing. Var þó gamla Kaupþing talsvert stærri banki en Landsbankinn, eins og fram kemur í fréttinni. Það hlýtur að kalla á sérstakar skýringar af hverju þessi mikli munur er milli þessara tveggja gömlu banka.
mbl.is Afskrifa 1.500 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju?

Eitt af því sem mikið hefur verið talað um eftir hrunið er mikilægi gegnsæis. Af hverju er það eitthvað leyndarmál hver er samsetning innlána Icesave-reikninga Landsbankans? Ég tala nú ekki um ef vísbendingar eru um að í samningaviðræðum hafi ábyrgð verið tekin á meiru en tilskipanir sem við erum bundin af, kröfðust. Eigum við skattgreiðendur ekki fortakslausa kröfu á þessum upplýsingum?  Það erum við sem eigum að borga á endanum. Ég trúi ekki öðru en að kærunefnd upplýsingamála snúi þessari ákvörðun við. En æskilegast hefði auðvitað verið að viðskiptaráðherra sjálfur hefði séð mikilvægi þess að upplýsa málið.
mbl.is Viðskiptaráðherra lúrir á upplýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að gera grín að neytendum

Verðmunur af því tagi sem fram kemur í könnuninni á sér enga skynsamlega skýringu. Vissulega er  rekstrarkostnaður væntanlega eitthvað hærri hjá verslunum eins og 10-11, einkum vegna lengri opnunartíma. En það er ómögulegt að sú staðreynd ein útskýri svo gríðarlegan verðmun. Ekki verður annað séð en að verslanir sem bjóða upp á verð af þessu tagi séu í raun að gera grín að neytendum og treysta því að þeir hafi nákvæmlega ekkert verðskyn. Þetta er auðvitað ólíðandi og verður svarað best með einum hætti af hálfu neytenda: Að sniðganga þær verslanir sem bjóða upp á svona verðlagningu.


mbl.is 348% verðmunur á matvöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel heppnað framtak

Vetrarhátíðin, líkt og menningarnóttin, eru dæmi um sérlega vel heppnað framtak af hálfu borgaryfirvalda með virkri þátttöku utanaðkomandi aðila. Sjálf fór ég í Esjuljósagöngu sem var einn dagskrárliðurinn á hátíðinni. Lagt var á Esjuna í ljósaskiptunum á laugardagskvöld og gengið upp í myrkri. Í göngunni tóku þátt yfir 80 manns, á öllum aldri og þó nokkrir útlendingar. Það var fallegt að horfa af Esjunni á ljósadýrðina í Reykjavík, þegar upp var komið (stöð 4). Og svo var maður auðvitað svo alsæll að hafa drifið sig að göngu lokinni. Það er sennilega fátt betra þegar kemur að þjálfun en að ganga reglulega á Esjuna.

Fjallgönguklúbburinn Toppfarar (www.toppfarar.is) sá um gönguna af hálfu Vetrarhátíðar. Þetta er klúbbur sem stofnaður var 2007 og fer vikulega í gönguferðir á fjöll í nágrenni Reykjavíkur og svo mánaðarlega í lengri fjallgöngur. Vissi auðvitað ekkert af þessum klúbbi fyrir þetta en fór með þeim í Búrfell og Búfellsgjá sl. þriðjudag. Góð tveggja tíma ganga - þægileg og hressandi. 


mbl.is Metaðsókn á Vetrarhátíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðvörunarorð

Ég hygg að hér séu aðvörunarorð og ábendingar sem hlusta þurfi á og bregðast við. Þvi fyrr þvi betra.
mbl.is Gylfi Zoëga: Svartar horfur á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhugsunarefni

Ábendingar fráfarandi formanns FÍS um það hversu langt Samkeppniseftirlitið gekk í að samþykkja samruna í verslunarrekstri hér á árum áður eru umhugsunarefni. Eftir bankahrunið er öllum ljóst að Fjármálaeftirlitið stóð ekki undir verkefnum sínum og veitti falskt öryggi. Spurning er hvort ýmsar gerðir Samkeppniseftirlitsins hafi hugsanlega ýtt undir þróun mála með þeirri samþjöppun peningavalds sem sameiningum fylgdi, eins og formaðurinn bendir á. Kannski er þetta eitthvað sem þarf að skoða í tengslum við það uppgjör sem í gangi er vegna hrunsins?
mbl.is Formaður FÍS: Fjölmargir brugðust trausti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband