Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Aðgát skal höfð ...

Í kvöldfréttum beggja sjónvarpsstöðvanna var fjallað um voðaatburði gærdagsins og sérstök umfjöllun var í þættinum Íslandi í dag. Á fréttavef RÚV er frétt frá því fyrr í kvöld um það lögreglan telji ekki enn að fullu ljóst hver tildrög árásarinnar voru. Rannsókn sé þó að mestu lokið. Fram kemur í fréttinni að lögreglan muni ekki láta í té frekari upplýsingar fyrr en rannsókn málsins verði að fullu lokið og það taki nokkra daga til viðbótar.

Öll umfjöllun fjölmiðla um málið hlýtur að vera óbærilega sársaukafull fyrir alla aðstandendur. Allt sem máli skiptir varðandi þennan atburð er upplýst. Það þarf ekki að fjalla meira um þennan harmleik í fjölmiðlum.


Frábært

Sannarlega skemmtileg frétt og frábær árangur hjá Margréti Helgu. Vonandi stefnir Margrét Helga á Ólympíuleikana. Margrét Helga er greinilega í slíkum afreksflokki að þangað á hún fullt erindi.
mbl.is Íslendingur valinn í úrvalslið Oxfordháskóla í róðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæm helgi

Fyrir stuttu ók ég Hellisheiðina. Á skiltinu á Hellisheiðinni stóð að tveir hefðu látist í umferðarslysum á árinu. Vissulega tveimur of margir en talsverð fækkun frá síðasta ári. Á örstuttum tíma hafa þrír bæst við, síðast í gærkvöldi Á Biskupstungnabraut í árekstri milli jeppa og bifhjóls. 

Um eittleytið í dag ók ég Sæbrautina og skildi ekkert hvað hafði gerst. Búið var að loka af tvær akreinar, eina í hvora átt. Lögreglan og fjölmiðlar voru á staðnum en engin verksummerki um árekstur. Ég hélt áfram ferð minni og velti þessu ekki frekar fyrir mér. Þegar ég heyrði svo fréttir um kaffileytið áttaði ég mig á því hvaða harmleikur hafði þarna orðið.  

Það eiga margir um sárt að binda eftir þessa atburði helgarinnar. Ég bið góðan Guð að styrkja alla aðstandendur.

Viðbót 30. júlí:

Sæmundur Bjarnason hefur réttilega bent á að þetta skilti er í Svínahrauninu. Blush


mbl.is Banaslys á Biskupstungnabraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örugglega hárrétt

Það þarf ekki annað en að skoða heimasíður Lyfju (www.lyfja.is) og Lyfja og heilsu (www.lyfogheilsa.is) til að sjá að það virðist vera að a.m.k. úti á landi halda þessi tvö fyrirtæki sig frá hvort öðru og sýnast hafa skipt landinu bróðurlega á milli sín. Það virðist ekki mjög víða sem bæði fyrirtækin eru með lyfjabúðir á sama stað úti á landi (undantekning: Akureyri, Selfoss, Keflavík).

Er þetta ekki dæmigert fyrir fákeppnisástand, markaðnum er skipt á milli sín og öllum ráðum beitt til að tryggja að fákeppnisástandið viðhaldist?


mbl.is Segir Lyf og heilsu sauma að einyrkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sæla í sveit

Vinkona mín bauð mér með sér í sumarbústað. Nú sit ég við borðstofuborðið hjá henni, horfi út á Þingvallavatnið spegilslétt. Gufustrókarnir á Nesjavöllum standa nánast beint upp í loftið. Fuglasöngur ómar, ég heyri í lóu, spóa, kríu og gott ef hrossagaukur vellur ekki í fjarska. Ég er nettengd og skrifa þetta innihaldsríka blogg. Þetta er frábært frí. Cool

Ekkert nýtt

Ábendingin í þessari grein er hárrétt en þetta er ekkert nýtt. Ríkið er með sín stuðningskerfi og sveitarfélögin sín. Oftar en ekki kemur síðar í ljós að ef þú nýtur stuðnings í öðru þá útilokast stuðningur í hinu. Það er augljóst að þeir sem standa að stuðningi við hvaða hópa sem er, aldraða, einstæða foreldra, o.s.frv., þurfa að tala betur saman. Það þarf fyrirfram að skoða hvaða afleiðingar ný stuðningsúrræði hafa á stuðningsúrræðum sem fyrir eru.
mbl.is Bótakerfi vinna hvert gegn öðru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karlar betri í sparnaði en konur?

Í Mogganum í gær (23. júlí) er stutt frétt undir fyrirsögninni: Karlar betri í sparnaði en konur. Þar segir frá nýrri norskri könnun sem leiddi í ljós að karlar væru duglegri að spara en konur. Þeir leggðu meira fyrir og ávöxtuðu peningana betur (væru áhættusæknari í fjárfestingum og fengju þannig hærri ávöxtun).

Í könnuninni er reynt að finna skýringar á þessu. Ein sú augljósasta er sögð sú að karlar í Noregi, líkt og víða annars staðar, þéni meira en konur og hafi því meiri peninga til að leggja til hliðar í sparnað.

Athyglisverðasta skýringin er þó sú að laun kvenna færu í að borga reikningana á meðan laun karlanna færu í sparnaðinn.

Ef aðilar eru í hjúskap eða staðfestri samvist þá skiptir svo sem ekki máli úr hvorri buddunni reikningarnir eru borgaðir og úr hvorri sparnaðurinn, að því gefnu að nettóstaða parsins sé jákvæð, þ.e. eignir séu umfram skuldir. Helmingaskiptareglan, sem er meginregla við slit á hjúskap eða staðfestri samvist, tryggir að nettóeignin skiptist í tvennt.

En hjá fólki í óvígri sambúð skiptir miklu máli hver borgar hvað. Enn sem komið er höfum við hér á landi ekki lögfest reglur um fjárskipti við slit á óvígðri sambúð. Þar gilda því sú meginregla að hvor tekur sitt, eignir og skuldir. Í óvígðri sambúð getur því skipt miklu máli ef staðan er sú að konan hefur borgað reikningana en karlinn hefur eytt í sparnað, eða öfugt. 

Mér finnst að ágreiningsmálum vegna fjárskipta við slit á óvígðri sambúð hafi fjölgað síðustu tvö ár eða svo. Ég tel skýringuna vera þá miklu verðhækkun sem varð á fasteignamarkaði eftir að bankarnir komu inn með fasteignalánin síðla árs 2004. Fjölmargir sem keyptu sér fasteign fyrir þá hækkun hafa hagnast vel, jafnvel um milljónir króna. Við slit á óvígðri sambúð hjá pari í slíkri stöðu þá hefur iðulega komið upp ágreiningur um það hvernig skipta eigi þessum margra milljóna hagnaði. Einkum hefur slíkur ágreiningur komið upp í þeim tilvikum þar sem framlög aðila til fasteignakaupanna í upphafi voru ójöfn, þrátt fyrir að eignin væri skráð þannig að hvort ætti helming. Ýmsir dómar Hæstaréttar á liðnum misserum hafa skerpt reglur í þessu sambandi, en álitamálin varðandi fjárskipti geta samt verið fjölmörg við slit á óvígðri sambúð. 

Ég tel að það sé löngu tímabært að lögfesta að við slit á óvígðri sambúð skuli meginreglur um fjárskipti við slit á hjúskap og staðfestri samvist gilda. 

Síðan þurfa pör, hvort sem þau stofna til óvígðrar sambúðar eða að ganga í hjúskap eða staðfesta samvist, að sýna meiri fyrirhyggju varðandi fjármál sín. Ef það er munur á eignarstöðunni þá þarf að hugsa það til enda hvernig aðilar vilja hafa fjárskiptin ef sambúðin, hjúskapurinn eða staðfesta samvistin lukkast ekki með þeim hætti sem lagt er upp með í upphafi. Til að hafa allt sitt á þurru er öruggast að gera samninga ef um óvígða sambúð er að ræða. Kaupmála þarf að gera ef um hjúskap eða staðfesta samvist er að ræða og menn vilja ekki una helmingaskiptareglunni. Það kostar einhverja tíuþúsund kalla af gera slíka samninga hjá lögmanni, en það getur sparað hundruð þúsunda í lögmannskostnað síðar. Þetta hefur ekkert með ást að gera eða svartsýni á sambandið, heldur er þetta fyrirhyggja og forsjálni. Fyrirhyggja og forsjálni, í þessum efnum sem öðrum, borgar sig alltaf.


Góð mótvægisaðgerð?

Allar tölur sem ég hef séð sýna að skortur á hjúkrunarrými fyrir aldraða er mestur á höfuðborgarsvæðinu. Efling hjúkrunarheimila á landsbyggðinni  minnkar ekkert þörfina á hjúkrunarrýmum á Reykjavíkursvæðinu.

Nema bæjarstjórinn sé að leggja til að aldraðir einstaklingar á höfuðborgarsvæðinu sem þurfa á hjúkrunarrými að halda verði fluttir hreppaflutningum út á land í hin efldu hjúkrunarheimili?

Ég trúi því ekki að bæjarstjórinn sé að leggja það til, enda er slík tillaga þvert á þá stefnu að aldraðir eigi kost á hjúkrunarvistun á sínum heimaslóðum. Fyrir aldraða á höfuðborgarsvæðinu er höfuðborgarsvæðið heimaslóðir en ekki hjúkrunarheimili á landsbyggðinni. Það er því fráleit mótvægisaðgerð að efla hjúkrunarheimili á landsbyggðinni umfram það sem þarf til að anna vistrýmisþörf aldraðra á hverjum stað. 


mbl.is „Góð mótvægisaðgerð að efla hjúkrunarheimili á landsbyggðinni"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábærar sögur

Í sumarfríinu á spa-inu í Englandi um daginn las ég einmitt þessa bók, Aldingarðinn, sem nýverið kom út í kilju. Mér fannst flestar sögurnar (þær eru tólf og bera heiti almanaksmánuðanna) hreint frábærar og endirinn á þeim sumum kemur algerlega á óvart.

Ég las á sínum tíma Níu lykla og fannst hún ágæt. Enda alltaf verið hrifin af vel skrifuðum smásögum. Ýmsar síðari bækur Ólafs Jóhanns reyndi ég að lesa og verð bara að segja eins og er að ég var ekkert sérstaklega hrifin og einhverja nennti ég ekki einu sinni að klára. Margar síðustu bækur hans hef ég því látið algerlega framhjá mér fara. Aldingarðurinn varð til þess að ég ákvað að gefa bókum Ólafs Jóhanns sjans aftur. Ætla að lesa við fyrstu hentugleika bæði Slóð fiðrildanna og Höll minninganna. Svo er að sjá hvort honum takist að vinna þessi smásagnaverðlaun, en Aldingarðurinn fékk íslensku bókmenntaverðlaunin 2006 ef ég man rétt af bókarkápunni.


mbl.is Ólafur Jóhann tilnefndur til írskra smásagnaverðlauna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur ekki á óvart

Það kemur ekki á óvart að íslenskt bakarí í Bandaríkjunum nái svo langt. Brauðmenning Bandaríkjamanna er ótrúleg og minnir helst á ástandið sem var hér á landi fyrir áratugum, þegar ég var enn yngri en ég er nú. Þá fékkst ekkert brauðmeti í bakaríum nema fransbrauð, heilhveitibrauð, rúgbrauð og normalbrauð. Sem betur fer hefur margt breyst síðan og við höfum gengið í gegnum ,,brauðmetisbyltingu" svo frábært er úrvalið nú. Ég fullyrði að óvíða er jafnflott bakarí og hér á landi. Frábært viðskiptatækifæri fyrir bakara að leita til Bandaríkjanna og greinilegt af þessu að vel getur gengið.


mbl.is Íslenskt bakarí komið í úrslit í keppni í Flórída
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 392370

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband