Leita í fréttum mbl.is

Að snúa hlutunum á haus

Það er fyrir neðan virðingu trúverðugs miðils, eins og mbl.is segist vera, að fjalla með jafn einhliða hætti um þetta mál og hér er gert.  Það er ekki nóg að setja tengil á dóminn en leyfa síðan öðrum aðilanum að segja frá málinu á haus og fara með jafn miklar rangfærslur og raun ber vitni.

Um málið og málavexti má lesa í dómi Hæstaréttar. Við lestur málavaxtalýsingar dómsins blasir væntanlega við öllum að málið er langt frá því að vera með þeim hætti sem konan heldur fram. Rétt er að taka fram, áður en lengra er haldið, að ég er lögmaður föðurins í þessu máli, eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar.

Snúum dæminu nú við. Gefum okkur að sama kona hefði búið á Íslandi með bandarískum eiginmanni sínum. Vegna yfirvofandi hjónaskilnaðar þeirra fór hann án samþykkis hennar með börnin til Bandaríkjanna áður en ráðið var til lykta hér á landi forsjárágreiningi þeirra vegna barnanna. Hefði þessi sama kona þá ekki ætlast til að bandarískur dómstóll hefði dæmt hann til að koma tilbaka með börnin eða að hún gæti sótt börnin til Bandaríkjanna svo hægt væri hér á landi að ljúka forsjárdeilunni? Hafa verður í huga að forsjárdeilu yfir börnum ber að reka í því landi sem fjölskyldan bjó síðast saman í. Þessi fjölskylda bjó síðast saman í Bandaríkjunum. Það þýðir að forsjárdeilu foreldranna vegna þessara barna ber að reka þar, ekki á Íslandi. 

Eins og fram kemur í dóminum fór konan frá Bandaríkjunum, með börn sín tvö, án samþykkis föður barnanna, og áður en deilu þeirra um forsjá barnanna, vegna hjónaskilnaðar þeirra lauk. Þess vegna hafa íslenskir dómstólar, bæði héraðsdómur og Hæstiréttur, dæmt hana til að fara tilbaka til Bandaríkjanna, sem var síðasta sameiginlega heimili foreldra barnanna og barnanna sjálfra var, svo þar megi leysa úr forsjárágreiningi foreldranna. Hafi hún ekki farið innan sex vikna frá því að héraðsdómur var kveðinn upp þá getur faðir barnanna komið hingað til lands og sótt börnin.

Til eru alþjóðlegir samningar, Haagsamningurinn annars vegar og Evrópusamningurinn hins vegar sem fjalla um brottnám barna. Samningarnir hafa verið lögfestir hér á landi með lögum nr. 160/1995. Þessum samningum er ætlað að tryggja að foreldrar hagi sér ekki með þeim hætti sem umrædd kona gerði. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 160/1995 segir m.a. í greinargerð:

Velferð barna er ávallt stefnt í hættu þegar foreldrar bera ekki gæfu til að taka í sátt og samlyndi ákvarðanir um börn sín, enda þótt þau sjálf séu skilin að skiptum. Í þessum tilvikum er staða barna sem eiga foreldra af mismunandi þjóðernum sérstaklega erfið. Um leið og millilandasamskipti aukast, fjölgar hjónaböndum og samböndum fólks af ólíkum þjóðernum og í kjölfar þeirra hjónaskilnuðum og sundruðum fjölskyldum. Sífellt fleiri börn lenda í þeirri stöðu að verða bitbein foreldra sem búa ekki í sama landi og tilheyra oft ólíkum menningarheimum. Þetta hefur vakið viðbrögð á alþjóðlegum vettvangi og samstaða hefur náðst um að nauðsynlegt sé að grípa til ráðstafana til verndar þessum börnum. Afrakstur þessarar alþjóðlegu samvinnu eru tveir samningar, Evrópusamningur, frá 20. maí 1980, um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna sem gerður var á vettvangi Evrópuráðsins og samningur, frá 25. október 1980, sem gerður var á vegum Haagráðstefnunnar um alþjóðlegan einkamálarétt um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa. ... Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði ákvæði sem eru nauðsynleg til að Ísland geti fullgilt þessa tvo samninga.

 

Íslenskum dómstólum ber að dæma skv. þessum samningnum. Það hafa íslenskir dómstólar gert í þessu máli og fjölmörgum öðrum sambærilegum málum. Vissulega eru heimildir í þessum samningum og þar með í lögum nr. 160/1995 um að synja megi afhendingu í tilvikum sem þessum. Þessar heimildir eru hins vegar túlkaðar mjög þröngt og voru ekki taldar eiga við í þessu máli. Með dómnum í þessu máli hafa íslenskir dómstólar dæmt í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undirgengist í málum af þessu tagi.

Flóknara er þetta mál ekki.


mbl.is Íslenskri fjölskyldu vísað úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Takk fyrir að upplýsa þetta mál!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 11.8.2009 kl. 00:45

2 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Tilfinningalaus er nú lögfræðin..... og líklega best að kommentera ekki á dómarana.....

Ómar Bjarki Smárason, 11.8.2009 kl. 01:31

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Mér sýnist að niðurstaða málsins byggi því miður um of á klúðri kollega þíns sem starfaði fyrir móðurina, Sveins Andra Sveinssonar.

"Eins og fram kemur í málsgögnum fór (móðirin) með börnin til Íslands þann 10. janúar 2008. Beiðni um afhendingu barnanna, dagsett 10. febrúar 2009, var móttekin af Héraðsdómi Reykjaness þann 11. febrúar 2009. Þá var því liðið meira en eitt ár frá því að börnin voru flutt á brott og hald (móður) hófst. Hefði því getað komið til skoðunar hvort undanþáguákvæði 1. mgr. 12. gr. laganna kæmi til álita, en samkvæmt því er heimilt að synja um afhendingu barns  ef meira en eitt ár er liðið frá því að barnið var flutt á brott eða hald hófst þar til beiðni um afhendingu er móttekin hjá héraðsdómi, enda hafi barnið aðlagast nýjum aðstæðum. Af hálfu (móður) hefur ekki verið byggt á þeirri málsástæðu, hvorki í greinargerð né í munnlegum málflutningi. Af hálfu (móður) var ekki reynt að koma þessari málsástæðu að í málinu. Með hliðsjón af því að dómari getur ekki farið út fyrir kröfur aðila og málsástæður og þess að sönnunarfærsla hefur ekki farið fram með tilliti til ákvæðisins varðandi það hvort börnin hafi aðlagast nýjum aðstæðum getur dómurinn ekki beitt þessari synjunarheimild".

Í umræðum á öðru bloggi fór ég í flýtitöktum línuvillt og sagði þig hafa verið lögfræðing móðurinnar, en ekki öfugt, og biðst ég forláts á því.

Friðrik Þór Guðmundsson, 11.8.2009 kl. 02:01

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

... þ.e. ef Sveinn Andri hefur þá líka haft undirréttarmálið, sem smuga er á, en þetta kemur ekki fram...

Friðrik Þór Guðmundsson, 11.8.2009 kl. 02:05

5 Smámynd: Sigmar Þormar

Móðirin í fangelsi?

Takk Dögg fyrir að skýra málið og takk einnig Friðrik fyrir þitt svar.

Ég vil einnig benda íslenskum lögmönnum á að það er ábyrgðarhluti að dæma Íslending til að fara til Bandaríkjanna. Réttarfar þar er víða í molum. Móðirin gæti lent í fangelsi fyrir litlar eða engar sakir. Sbr. New York Times:

http://www.nytimes.com/2009/08/09/opinion/09ehrenreich.html?scp=9&sq=poor%20in%20prison&st=cse

,,Utanstefnur viljum við engar" var mælt til forna.

Sigmar Þormar, 11.8.2009 kl. 09:35

6 Smámynd: Lilja Skaftadóttir

Er ekki Íslendingur í fangelsi í Bretlandi (til þess að fyrirbyggja að hann flýi land) vegna þess að Íslendingar eru ekki framseldir (heitir kannski annað) ?

Það er rétt að móðirin er ekki framseld "eftir úrskurð" í Bandaríkjunum, en er ekki svo að hún á á hættu að verða dæmd fyrir að fara með börnin til Íslands ?

Ef svo er að íslenska ríkið framselji ekki ríkisborgara sína til annarra landa til þess að afplána dóma, má spyrja hvort það sé í lagi að senda þá til mögulegs fangelsisvistar.

Lilja Skaftadóttir, 11.8.2009 kl. 10:34

7 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Segi eins og er að mér finnst einkennileg lyktin af þessu öllu saman.

Ólafur Þórðarson, 11.8.2009 kl. 13:56

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég held að málin séu alltaf flóknari en af er látið. Ég legg ekki dóm á málavexti i þessu máli en mér finnst þa ðstórmál þetta með peningaleysið hjá konunni. Ef hún á ekki peninga ti að fara, hvað á hún þá að gera?  Vinsamlega svaraðu þessari spurningu Dögg. Er allt sem kemru vi réttlæti bara fyrir þá sem eiga peninga eða réttara sagt:  ekkert réttlæti er til fyrir þá sem ekki eiga peninga.

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.8.2009 kl. 17:17

9 identicon

Maður þarf ekki að vera lögmaður til að sjá hvað móðirin er að gera rangt! Þvílíka tilfinninga ruglið hér! Hvað með okkur pabbana hér heima sem fáum ekki að sjá okkar börn?? Hvað finst fólki um það?? Hún flúði land og er búin að drulla upp á bak í þessu máli og getur engum um kennt nema sjálfri sér hvernig fyrir henni er komið. Dögg er flottur lögmaður sem hefur unnið gott starf.

óli (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 17:20

10 identicon

Já um að gera að láta bandarísk lög dæma um þetta forræðismál.......sérstaklega þar sem réttarfar í  bandaríkjunum er svo innilega brenglað og sjúkt! Já um að gera að senda konuna og börnin þangað!! * hneyksl *hneyksl*

Börnin eiga að vera númer eitt tvö og þrjú, ekki einhver texti í lagabókum!!

Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 17:51

11 identicon

Jæja Ragnheiður. Og þú ert hver? Sérfræðingur í alríkis og fylkislögum í USA? Er allt fullkomið hér sem lítur að dómsmálum? Auðvitað er konan í ömurlegri stöðu enn í þá stöðu kom hún sér sjálf við skulum muna það. Það eru Islendingar í fangelsum í Braseliu. Þetta eru ein verstu fangelsi á jörðini og þeir eiga alveg mína samúð, ENN þeir eru þarna vegna sinnar eigin heimsku.

óli (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 23:05

12 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Kom hún ekki til landsins með börnin vegna þess að faðirinn neitaði að borga með þeim og hún hafði enga leið að framfleyta sér sem -í raun- einstæð móðir? Þetta skildist mér á henni.

Hafið þið prófað að ala upp börn án náinnar fjölskyldu til stuðnings? Það er nú hreint ekki létt og ekki endilega aðgengileg barnaheimili eins og á Íslandi. Í BNA eru menn fljótir að fara út á götu ef þeir kunna ekki á kerfið.

Ef þetta er rétt hjá henni með að hún hafi ekki fengið stuðning frá föðurnum, þá er málið aðeins flóknara en virðist.

Ólafur Þórðarson, 12.8.2009 kl. 00:44

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

æja Dögg. Þú svarar ekki spurningu sem ég beindi til þín. Þú baðst um að verða bloggvinur minni. Þú hefur samt aldrei gert athugasemdir á mínu bloggi og aldrei virt athugasemdir mínar viðlits á þínu bloggi. Nú ertu búinn að blogga nokkrum sinnum síðan ég beindi spurningu til þín svo þú hefur skoðað bloggið þitt. Samt virðir þú mig eki viðlits með spurninguna. Ég sé þá enga ástæðu til að vera lengur í bloggsambandi við manneskju sem lítur á mann sem ósýnilegan. Það er ekki hugmynd mín um samskipti milli bloggvina. Ég mun því taka þig af bloggvinalistanum og það má heita einsdæmi þegar ég á í hlut. En b.t.w. svarið við spurningu minni, ''ef hún á ekki peninga til að fara, hvað á hún þá að gera'',  sem þér finnst greinilega ekki svaraverð liggur auðvitað í augum uppi: Þú hleypur undir bagga!

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.8.2009 kl. 07:46

14 Smámynd: brahim

Ég myndi gjarnan vilja fá svar frá Dögg sem móður en ekki lögfræðings...

HVAÐ HEFÐIR ÞÚ GERT EF ÞÚ HEFÐIR VERIÐ Í SÖMU SPORUM OG ÞESSI UNGA MÓÐIR ?...

MEÐ ENGAN STUÐNING FRÁ BARNSFÖÐUR OG VITANDI AÐ ÞÉR YRÐI VÍSAÐ ÚR LANDI EFTIR AÐ BÖRNIN HEFÐU VERIÐ TEKIN FRÁ ÞÉR.

brahim, 12.8.2009 kl. 15:50

15 identicon

Ert þú ekki bara að hugsa um að vinna þitt mál? Tókst þú málið af áhuga fyrir rétti föðurs??? Finns þér virkilega að þú sért að hugsa um börnin??

Sigga Vala (IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 16:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband