Leita í fréttum mbl.is

Samfylkingin stikkfrí?

Það er fróðlegt að lesa að þingmenn Samfylkingar telja að Sjálfstæðisflokknum einum verði kennt um stöðu mála nú. Ég veit ekki betur en að frá því í maí 2007 hafi Sjálfstæðisflokkur og Samfylking staðið stjórnarvaktina saman. Hvor flokkur er með jafnmarga ráðherra. Bankamálaráðherrann er úr Samfylkingunni. Í stjórnum ýmissa stjórnvalda eiga Samfylkingarmenn sína fulltrúa, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn og jafnvel aðrir stjórnmálaflokkar líka. Frá því að ríkisstjórnin 2007 var mynduð héldu bankarnir áfram að vaxa. Icesave reikningarnir uxu líka, byrjað var á Icesave í Hollandi árið 2008. Allt gerðist þetta undir glöggu auga bankamálaráðherrans úr Samfylkingunni og FME.

Ef Samfylkingin hafði áhyggjur af fjármálalífinu þegar hún fór í ríkisstjórn í maí 2007, af hverju gerði bankamálaráðherrann og FME ekki neitt? Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar segir m.a. (stjórnarsáttmálann í heild má lesa hér):

Í umbreytingu íslensks atvinnulífs á undanförnum árum felst meðal annars aukið vægi ýmiss konar alþjóðlegrar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Áhersla verður lögð á að efla Fjármálaeftirlitið til þess að íslenski fjármálamarkaðurinn njóti fyllsta trausts.

Ekki er að greina í þessum hluta stjórnarsáttmálans miklar áhyggjur af stærð bankakerfisins. Þvert á móti sýnist að stefnt hafi verið að frekari vexti þess kerfis hér á landi. Efla átti Fjármálaeftirlitið til að íslenski fjármálamarkaðurinn nyti fyllsta trausts. Hver átti að sjá um það? Bankamálaráðherrann væntanlega. Við þekkjum árangurinn af þeirri vinnu. Bankakerfið hrundi og fjármálamarkaðurinn íslenski nýtur einskis trausts, hvorki innanlands né erlendis.

Fram hafa komið fréttir um að frá því síðla árs 2007 / snemma árs 2008 hafi stjórnvöldum og einstökum ráðherrum, jafnvel ríkisstjórninni allri verið gerð grein fyrir því af fjölmörgum aðilum, innlendum sem erlendum, að hér stefndi bankakerfið í þrot og gæti hrunið. Litið ef nokkuð var gert til að bregðast við af hálfu stjórnvalda. Engar skýringar hafa fengist á því. Er Samfylkingin, bankamálaráðherrann, FME, stikkfrí af því aðgerðarleysi? Er það aðgerðarleysi Sjálfstæðisflokknum einum að kenna?

Sem sjálfstæðismaður gerði ég mér glögga grein fyrir ábyrgð míns flokks á því sem gerst hefur. Ég hef ekki heyrt annað en að aðrir flokksmenn geri það líka, sem og forysta flokksins. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst eftir viku. Þar verður ugglaust fjallað um ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á núverandi ástandi og hvernig sú ábyrgð verður best öxluð.

En Samfylkingin verður að sjálfsögðu líka að axla sína ábyrgð. Ef þingmenn Samfylkingarinnar halda að þeir séu stikkfrí eftir tæplega tveggja ára stjórnarsetu þá eru þeir á miklum villigötum.


mbl.is Mikilla tíðinda að vænta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Andvaraleysið er sameign ríkistjórnarinnar. Eins og eignir og skuldir eru sameign hjóna. Eða gerði ríkisstjórnin kaupmála við stjórnarmyndunina? Þau tóku líka þátt í því saman að hafna þjóðstjórnarhugmyndinni.

En Björgvin á sér málsbætur. Þrátt fyrir allt. Davíð horfði í genum hann eins og hann væri ekki til. Í heilt ár! Með vitund forsætisráðherrans. Bankamálaráðherrann sat jú í Seðlabankanum.

Sigurbjörn Sveinsson, 22.1.2009 kl. 16:25

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Samfylkingin tekur við því hlutverki að vinna úr afleiðingum af græðgisvæðingu Sjálfstæðisflokks sem á upphaf sitt í kvótakerfi og bankasölu. Það er merkilegt að sjá að Seðlabanki hefur ekki fundað með bankamálaráðherra um langt skeið.

Hann var ekki hafður með í ráðum og svo virtist sem að seðlabankastjóri, forsætisráðherra og fjármálaráðherra mótuðu einir stefnuna við yfirtöku á Glitni. Svo virðist sem Einar K Guðfinnssson ákveði einn að láta sægreifana fá viðbótarkvóta í stað þess að setja hann á markað.

Það er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn fari frá völdum svo hreinsa megi upp spillingu og smákóngaveldi sem hefur hreiðrað um sig undir hans tíð við landstjórnina. Það er líka mikilvægt í viðleitni hér við að bjarga stórum hluta heimila og fyrirtækja frá gjaldþroti að fá stjórn með sterkar félagslegar og lýðræðislegar áherslur.

Gunnlaugur B Ólafsson, 22.1.2009 kl. 16:30

3 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

Ég tel að ef núverandi ríkisstjórn hefði þegið aðstoð frá hinum flokkunum í upphafi rísandi vandamála þá væri þjóðin ekki í þessari stöðu nú - allavegnana Steingrímur J bauð sitt fólk til aðstoðar en það var hunsað og ekki talið svara vert - skil ekki Ingibjörgu Sólrúnu né Geir Haarde að leifa sér að túlka þetta sem sitt einkamál - nú er ekki aftur snúið því miður

Jón Snæbjörnsson, 22.1.2009 kl. 16:47

4 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég held því fram, að allt stjórnkerfið sé sekt um andvaraleysi, sem byggðist á vanþekkingu. Hér er ég að ræða um vanþekkingu á peningamálum. Það er ekki sama hvaða stefna ríkir og þá ekki heldur sama hvernig á peningamálum er haldið.

Menn verða að vita, að "torgreind peningastefna" (discretionary monetary policy) veldur gengisflökti og af og til gengishruni. Ætla menn að sætta sig við gengisflökt, sem eys verðbólgu yfir hagkerfið ? Höfum í huga, að vandamálið er ekki bara Íslendskt, heldur alþjóðlegt. Smá og vanþróuð samfélögum er sérstaklega hætt.

Það eru aðilar í öllum samfélögum sem hafa hag af "torgreindri peningastefnu" og hinir verða að verja sig gegn þessu arðráni. Eina leiðin er að taka upp andstæða peningastefnu, sem nefnist reglu-bundin peningastefna (rule-bound monetary policy), sem meðal annars felur í sér að peningamagn og vextir ákveðast af þörfum markaðarins.

Leggja verður niður Seðlabankann og taka upp Myntráð. Efnahagslegt hrun eins og við búum við núna, má ekki henda aftur. Spurningin er hvaða stjórnmálaflokkur verður fyrstur til að átta sig á staðreyndum málsins og knýja fram aðgerðir.

Loftur Altice Þorsteinsson, 22.1.2009 kl. 18:19

5 identicon

Mér finnst Samfylkingin mjög ósamfylkt og eins og tveggja höfða þurs þar sem annað höfuðið vill fara til hægri en hitt til vinstri. Vinstra höfuðið vill fría sig allri ábyrgð á samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn. Mér er því spurn hvernig Sjálfstæðisflokkurinn á einn að sæta ábyrgð á bankamálum síðustu ára þegar Samfylkingin var með bankamálin á sinni könnu, þar áður Framsókn þar til bankarnir hrundu í fangið á Árna Matt 6.  október s.l. Nú vill Samfylkingin forða sér frá Sjálfstæðisflokknum og flýja í faðm Framsóknar. Kannski við ættum heldur að gera það og fá vinnufrið fram á haust? Að sjálfsögðu sváfum við á verðinum og vorum granda og andvaralaus. Sjálfstæðismenn fyrra sig ekki ábyrgð á því stjórnarsamstarfi sem þeir hafa verið í. En það mál verður vonandi leyst á Landsfundi. Núna þurfum við samstarfsflokk sem veit hvað hann vill, allavega hafi flokksmeðlimi sem eru allir að fara í sömu áttina. Við þurfum að taka mikilvægar ákvarðanir og reyna að losna við krónuna með einherskonar samningum strax að mínu mati. Þar er ég sammála þér Loftur. Almenningur og fyrirtæki finna mest fyrir gengisfallinu, vöxtunum, verðtryggingunni og verðhækkununum. Sameiginlegur stuðull þessa er krónan þar sem stýrivextirnir og verðtryggingin eru til verja hana. Um leið og þetta ver krónuna er þetta að drepa þjóðina. Aðgerðir strax! Hvort sem farið verður í aðildarviðræður eða ekki er það bara ekki mest aðkallandi málið á dagskrá.

Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 19:02

6 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Vanrækslusyndirnar eru verri en misgjörðirnar. Ergo: Vanrækslusyndir Samfylkingarinnar eru verri en misgjörðir Sjálfstæðisflokksins. En að öllu gamni slepptu (þetta er auðvitað allt þyngra en tárum taki) þá hafa þau tvímennt á sama hrossinu Ingibjörg og Geir undanfarin misseri og munu bæði búa við þann arf sem þessi ríkisstjórn skilur eftir.

Sigurbjörn Sveinsson, 22.1.2009 kl. 22:24

7 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Guði sé lof fyrir fólk eins og Loft A. Þorsteinsson! Maðurinn nennir að rökræða á tiltölulega þroskuðu plani.

Ég hef rennt í gegnum nokkrar færslur hér og þar á bloggsíðum mbl. og það er undantekning ef menn, margir hverjir vel menntaðir (læknar til dæmis), geta komið frá sér einni málsgrein án þess að henda á lofti stikkorð fylkingarinnar sinnar á íslenska stjórnmálarófinu og láta eins og "þeirra menn" séu dýrlingar og "hinir" séu óalandi hundingjar.

Eru menn almennt drukknir við þessa iðju, eins og grunur lék á um tiltekinn einstakling, eða skiptir þá engu máli að halda fram óbrjáluðum rökum? Kræst, ég meina það!

Flosi Kristjánsson, 22.1.2009 kl. 22:27

8 Smámynd: Júlíus Björnsson

ESB væntingar ollu græðginni. Árinni kennir illur ræðari. Sá sem ber ábyrgð, auðvitað er allt honum að kenna. Fylkingin er algjörlega saklaus í því sambandi. Hún veit ekki betur og mun aldrei vita betur. 

Utanþingstjórn reyndra, greindra öldunga er málið. Meðan flokkarnir taka sig til í andlitinu. Hætta þessu væli.

Júlíus Björnsson, 23.1.2009 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband