Leita í fréttum mbl.is

Hvað boðar nýárs blessuð sól?

Það var drungalegt veðrið í morgun þegar ég fór í nýársmessuna í Dómkirkjunni. Biskupi mæltist vel að venju. Predikun hans var innihaldsrík, eins og fréttin ber með sér. Það var komin hellirigning þegar messunni lauk. Hvergi sást til nýárs blessaðrar sólar. Veðrið var í takt við þá tíma sem við höfum gengið í gegnum frá 29. september 2008 - en ég leyfi mér að miða upphaf efnahagshamfaranna við þann dag, daginn þegar tilkynnt var um þjóðnýtingu Glitnis. Ég man hvað mér brá við tíðindin. Þau fylltu mig einhverjum óhug. Ég var á leið til Kanada og íhugaði að hætta við ferðina. En endaði með að fara - þóttist vita að það myndi engu breyta um gang mála hvort ég væri eða færi.

Eftirleikinn þekkjum við. Helgina á eftir, 4. og 5. október, horfðum við með aðstoð sjónvarpsstöðvanna á einstaklinga hlaupa inn og út af fundum í Ráðherrabústaðnum. Sagt var að aðgerðapakki væri í undirbúningi. Rétt fyrir miðnætti sunnudaginn 5. október tilkynnti forsætisráðherra að fundarhöld helgarinnar hefðu leitt í ljós að aðgerðarpakki væri óþarfur (hér). Hálfum sólarhring síðar voru sett neyðarlög (hér). Þjóðinni var sagt  að staðan hefði gerbreyst á örfáum klukkutímum. Næstu þrjá sólarhringa féllu íslensku viðskiptabankarnir hver af öðrum, Landsbankinn, Glitnir, Kaupþing. FME, eftirlitsstofnunin sem margir telja að hafi brugðist og beri drjúga ábyrgð á því hvernig fór, fékk víðtæk völd. Í efnahagslegu tilliti höfum við færst mörg ár aftur. Allir hafa tapað og væntingar brustu.

Það er því ekki að furða þó áramótaræður þjóðarleiðtoganna hafi virst fylltar meiri auðmýkt en við eigum að venjast. Og í þeim var sjálfskoðun sem ég minnist ekki að hafa heyrt fyrr. Forseti Íslands sagðist hafa gengið of langt í málflutningi og liðsinni við starfsemi íslenskra banka og fjármálafyrirtækja. Hann nefndi ekki framgöngu sína í þágu annarra útrásarvíkinga en telur hana sjálfsagt falla undir liðsinni við banka og fjármálafyrirtæki. Forsætisráðherra sagði m.a.: ,,Á miklum uppgangstímum geta örar framfarir og breytingar byrgt mönnum sýn.  Hafi mér orðið á hvað þetta varðar þá þykir mér það leitt."

Forseti Íslands sagði einnig í ávarpi sínu í dag: ,,Þjóðin biður um upplýsingar og uppgjör, opnar og hispurslausar umræður. Ef sá vilji er ekki virtur mun reynast torsótt að skapa nýjum tímum traustan grundvöll."

Áramót eru tími uppgjörs. Þó margt hafi skýrst varðandi orsakir og tildrög efnahagshamfaranna sl. haust þá vantar enn mörg púsl í atburðarásina til að myndin sé greinileg. Innlendi annállinn á stöð 1 í gær vakti margar spurningar. Eigum við að trúa því að menn hafi ekki gert sér grein fyrir hvert stefndi? Eða voru allir að treysta því, með hinum dæmigerða íslenska hugarfari, að þetta hlyti að reddast og gerðu þess vegna ekkert? Og svo bara reddaðist það ekki og þjóðin situr í súpunni? 

Þjóðin mun ekki hafa þolinmæði til að bíða afraksturs vinnu rannsóknarnefndar Alþingis varðandi margar spurningar sem brenna á vörum og enn hefur ekki verið svarað. Þessu þurfa stjórnvöld að gera sér grein fyrir og breyta samkvæmt því. Nýju ári verða því að fylgja breytt vinnubrögð að þessu leyti af hálfu stjórnvalda.


mbl.is Þurfum þjóðarsátt um endurreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Dögg Pálsdóttir
Dögg Pálsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband